Amma Don

Erindi flutt á hádegisfundi Zontaklúbbsins Þórunn Hyrna, Zontaklúbbs Akureyrar og Soroptomistaklúbbs Akureyrar á baráttudegi kvenna þ.8.mars 2025.

Amma Don. Hver eða hvað er nú það?

Jú í aðdraganda þessa fyrirlestrar gerði ég það sem stundum getur verið góður grunnur fyrir hugmyndastorm og það er að nota mér google. Ég var með eldri konur í huga svo að ég sló inn orðið amma. Upp rúlluðu allskyns handavinnu og uppskriftasíður sem ég ýtti hratt og örugglega út af borðinu en líka eitt sem greip athygli mína: Eitthvað sem kallaðist Amma Don. Það hljómaði mun meira spennandi. Samkvæmt orðabókum er Don einhver sem er í forsvari,aðalsmaður, virðingarverður einstaklingur, guðfaðir, Var amma Don kannski guðamma? Herra amma?  Og við nánari skoðun fann ég meira um þetta fyrirbæri.

Amma Don er nefnilega svokallaður speakeasy kokteilbar og hugarfóstur eigenda sinna og hönnuða. 

Staðurinn er staðsettur í dularfullum kjallara einhversstaðar í miðbæ Reykjavíkur og er hannaður sem heimili vel stæðrar sjómannsfrúar utan af landi, -frúar sem veitir vel af göróttum drykkjum og hristir margan kokkteilinn. 

Skemmtilegt og áhugavert svo langt sem það nær en nafnið samt skemmtilegast. Það býður allavega upp á nýja nálgun á orðinu amma.

Mitt líflega hugmyndaflug bætti svo við upplýsingarnar og gerði sjómannsfrúna að dulargerfi fyrir annarskonar ömmu. Mín kona á að vera dularfull, spennandi og hættuleg. Amma Don sem vinnur kokkteilakeppnir og yfirheyrir glæpona í bakherbergjum. Með blátt hár og svarta bandið í karate. 

Ég ber sjálf heiðursheitið amma bráðum 8 barna, er 61 árs og villi víst aldeilis ekki á mér heimildir. Hristi hvorki kokkteila eða dusta til bófa þótt ég gæti alveg hugsað mér það stundum. Mér er bara yfirleitt of illt í bakinu fyrir svoleiðis. 

Ég þarf samt að minna mig á það reglulega að ég telst til eldri kvenna því mér líður innra með mér eins og ég gæti alveg verið mafíósi, sjóræningi eða njósnari. Sjálfið í mér er langt á eftir líkamanum í aldri og á jafnvel til að bregða sér á barnsaldur eða gerast unglingur í uppreisn. En líkaminn er kominn á sjötugsaldur sem er reyndar hluti af afar leiðinlegri málvenju sem leiðir til þess að íslendingar eldast miklu hraðar en flestar þjóðir  Á ensku væri ég “in my sixties” eða sextíu plús og mér finnst eiginlega löngu tímabært að breyta þessu þunglyndisrausi um að kenna okkur við næsta tug ofan við okkur. Vera sanngjörn við okkur sjálf?

En mér dylst mér það auðvitað ekki þegar ég lít í spegil hversu mörg árin mín eru og alls ekki þegar ég átta mig á öllu sem mér finnst vera nýskeð og rétt hinum megin við hornið. Ericson skífusímar, bílar með vélina aftur í, svarthvítt sjónvarp kalt stríð og lambahryggur í hádeginu á sunnudögum. Þetta var sko ekkert í gær heldur eru liðnir nokkuð margir áratugir síðan. Já og svo á ég son sem samkvæmt íslenskri málvenju kemst fljótlega á fimmtugsaldur. 

Aldur er vissulega afstæður og mömmu finnst ég hálfgert barn svona stundum allavega en sex ára sonarsyni finnst ég “næstum því rosalega gömul”. 

Í hinum vestræna heimi ríkir æskudýrkun og sérstaklega hvað varðar konur og kvár. Það fer konum þannig ekki jafn vel að eldast og körlum, það er nú hið tvöfalda siðgæði í túlkun samfélagsins á ellinni. Karlmenn verða myndarlegir silfurrefir án fyrirhafnar en konur oft voða tuskulegar ef þær gera ekki eitthvað í málunum. 

Þessi tvöfeldni leggur sumsé meiri kröfur um æskuljóma og unglegt útlit á konur en karla. Bótox, lýtalækningar, hormón, við leggjum ýmislegt a okkur enda kannski ekkert skrítið. Tvöfalt viðhorf samfélags leiðir líka til mismunandi erkitýpa eða stereótýpa. Eldri menn eru vitrir, þroskaðir, reyndir, kraftmiklir,  og valdamiklir leiðtogar. Eldri konur eru viðkvæmar, þrjóskar, veikbyggðar, kjánalegar,illa að sér, ósjálfbjarga og bara einfaldlega gamlar. Feðraveldið passar upp á ímyndina.  En ímynd sem er mikilvægt að leiðrétta því hún endurspeglar ekki raunveruleikann.

Við erum að glíma við innrætingu sem leggur útlit og æsku, það að vera sæt, að jöfnu við virði okkar í samfélaginu. Allt frá bernsku.

Þessi ofuráhersla á fegurð og unglegt útlit er okkur óholl og tekur toll af andlegri heilsu og tilfinningum. Konur fá að heyra opinskátt og óbeint að gildi þeirra liggi mikið til í útlitinu. Og þegar við eldumst og útlitið fjarlægist staðalímyndina er það stöðug áminning að við séum ekki mikils virði sem konur í hinu þjóðfélagslega auga.

Sjálf Oprah Winfrey sem er 71 árs gömul segir: „Við lifum í menningu sem er heltekin af æskudýrkun og reynir sífellt að telja okkur trú um að ef við séum ekki ung, ljómandi og kynþokkafull, þá skiptum við ekki máli. Ég neita að láta kerfi eða menningu eða afbakaða sýn á raunveruleikann segja mér að ég skipti ekki máli. Ég veit að aðeins með því að gangast við því hver og hvað ég er get ég lifað til fulls .Sérhvert ár ætti að kenna okkur eitthvað dýrmætt en hvort við lærum eitthvað er undir okkur sjálfum komið”.  Nú er Oprah blessunin reyndar kona sem fer í einkaflugvél á milli borga til að láta græja á sér augabrúnirnar,-sem ef það er satt, dregur aðeins úr þessu með að gangast við sér, en það er samt óendanlega mikilvægt að konur með svo sterka rödd eins og hún fjalli um það hvernig það er að vera kona sem eldist.

Við erum ekki allar Vera Vang sem betur fer og höfum líklega ekki allar áhuga  á því að kaupa unglegra útlit. En vissulega eru eðlileg einkenni þess að eldast fleiri en bara útlitsleg.

Ég tala fyrir mig þegar ég segi að allskyns hlutir breytast með aldrinum.Liðnar eru tjaldútilegur æsku minnar, fötin mega ekki þrengja að mér og spangir í brjóstahöldum eða támjóir skór eru úti, stólar þurfa að styðja við bakið og tónleikar þurfa helst að vera síðdegis en ekki að kvöldi. Já og letrið í símanum og á matseðlunum má ekki vera smátt. Og hausinn á mér þarf að venjast  öllum þessum nýju kröfum sem fylgja 62ja ára líkama með gigtarsjúkdóm og aukna kvíðatilhneigingu. Og í þeim haus, býr í ofanálag hugur sem hefur hingað til ferðast með athyglisbrest og töluverða ofvirkni í farteskinu. Hugur sem hefur alltaf verið á hörkuflugi og er alls ekki tilbúinn til að hægja á. Þetta vill stundum verða hörð barátta um að leyfa huganum að fara hratt en draga úr því að líkaminn fylgi jafnhratt á eftir. Enda dett ég óeðlilega oft. 

Ekkert af þessu gerir mig samt veikbyggða, ósjálfbjarga eða kjánalega. 

Það kjarnar kannski frekar það sem ég trúi að sé okkur mikilvægara en flest:

Sumsé það að vera sveigjanleg og mæta því sem lífið kýs að henda í okkur með eins mikilli mýkt og af eins miklilli sátt og okkur er unnt.  Líka því að eldast.

Á mínum aldri er kominn tími til að gangast við mér eins og ég er, þar hittir Oprah Winfrey naglann á höfuðið. Og hver er ég?  Ég er fullkomlega ófullkomin sem betur fer enda er bæði óhollt og leiðinlegt að reyna að vera fullkomin og ég er búin að segja upp því starfi enda var ég ekkert góð í því. Og ég er heldur ekkert góð við sjálfa mig þegar fullkomnunaráráttan tekur yfir.  Vissulega hefði ég stundum viljað gera meira og betur, sumt kom lífið í veg fyrir og sumt var aldrei tími til að gera en ég var aldrei löt. Ég var kannski lasin, þreytt eða áhugalaus en aldrei löt. Reyndar veit ég ekki hvað orðið þýðir ef ég á að vera fullkomlega hreinskilin. 

Við erum hinsvegar kynslóð duglegra kvenna. Við trúðum því að lata stelpan hafi fengið sína refsingu og letin jafngildi ómennsku og það hlýtur að vera afar slæmt að glata mennskunni sinni. Letin er talin ein af dauðasyndunum sjö og það að láta eftir sér leti verður til þess að við njótum ekki náðar guðs. Ekki er nú undarlegt að foreldrum okkar hafi verið mikið í mun að við yrðum ekki latar, heldur duglegar.

Dugnaður er annað hugtak sem er ótrúlega loðið og illa skilgreint þrátt fyrir að þessu hugtaki hafi verið mikið hampað og sé oft talið vera upphaf allrar velgengni og hamingju í tilverunni. Reyndar er dugnaður ekki ein af höfuðdyggðunum kannski sem betur fer en þó mætti halda það, miðað við hversu mikils metinn dugnaður er í íslensku samfélagi. Þó getur dugnaður úr hófi fram verið ákaflega hættulegur því þótt að það sé töff og kúl að þurfa ekki að sofa eða hvíla sig þá er það yfirleitt slæmt fyrir heilsuna og jafnvel banvænt. Okkur er því nokkur vandi á höndum að finna meðalveg á milli þessarar miklu syndar, letinnar, sem virðist búa innra með okkur öllum ásamt græðginni, öfundinni, drambinu og öllum þeim systrum, og svo hins gulli slegna og eftirsóknarverða titils, -að vera duglegar.

Þetta getur átt sér sögulegar skýringar, það var jú sérlega gott að búa til höfuðsynd úr letinni þegar konur voru  undirsátar eins og þrælar eða húsdýr og líklega eimir af því enn. Það voru karlmenn og helst höfðingjar sem gátu notið þess munaðar að láta eftir sér letina en ekki konur. Konur sem lásu bækur í stað þess að vinna, -voru latar. Og við erum enn að berja á okkur fyrir leti. Maðurinn minn var orðinn ákaflega þreyttur á togstreitunni innra með konunni sinni sem þrátt fyrir að hafa örmagnast sökum álags, var enn að sveiflast á milli þess að vera löt eða dugleg, hann tók af skarið og bannaði þessi tvö orð á okkar heimili. Sem var besta og skynsamlegasta bann sem ég hef orðið fyrir á ævinni. Ennþá þarf hann reyndar af og til að minna á bannið því að það er svo vandlega inngróið að vera ýmist löt eða dugleg, að vera allt eða ekkert. En margar gengnar kynslóðir hvísla enn þessum öfgum í eyrun á okkur, með ágætum árangri.

Og mitt í innrætingunni um að vera sæt og dugleg , varð það augljóslega útundan að kenna okkur að þykja vænt um okkur sjálfar og sýna okkur góðmennsku og mildi. Það gleymdist alveg að kenna okkur mikilvægi þess að klappa okkur sjálfum á öxlina, að hvetja okkur sjálfar, sýna mistökum okkar skilning og hugsa til okkar af ástúð. Því var ruglað saman við sjálfselsku (sem var bannað) og við gátum jafnvel haldið að við værum „eitthvað“ sem var (og er kannski enn) líka bannað.  

En við erum sannarlega eitthvað og ekki hvað síst þegar árin og lífið hafa tuskað okkur til. Og við höfum örugglega lært helling. Ömmur heyja ekki styrjaldir, ömmur selja ekki Teslur en ömmur eru sterkar og ráðagóðar og ættu að sitja í öllum ríkisstjórnum því þá myndi ekki gleymast að gera ráð fyrir litlum börnum og gömlu fólki í heiminum. Sem skiptir afar miklu máli. Heiti þessa erindis vísar einmitt til þess að ömmur samfélags, geti verið afl sem borgar sig að virða og jafnvel óttast smávegis. Amma Don.  Nýja staðalímyndin,-kona sem stendur stolt með sjálfri sér á efri árum og dettur ekki í hug að hún eigi að vera öðruvísi en hún er. Hún er eftirsóknarverð fyrirmynd fyrir ungar konur.

Kirsten Neff einn fremsti núlifandi fræðimaður í sjálfsmildi eða self compassion hefur þróað hugtakið lengra og skrifar um kraftmikla sjálfsmildi eða fierce self compassion með konur sérstaklega í huga. Kraftmikil sjálfsmildi hefur þannig til að bera góðmennsku og samkennd í eigin garð en hún setur mörk og stendur með sjálfri sér af krafti og öryggi. Það er harka í mýktinni. 

Eiginleikar sem eru konum nauðsynlegir í eigin garð og við getum líka speglað til annara. 

Amma Don.  

Hún er góð og eftirlát við barnabörnin en hörkutöff við þá sem abbast upp á hana, þá sem halda að það sé hægt að svindla á henni eða lítilsvirða hana. Og þeir sem halda að hún sé við kjáni,  þeir fá að kynnast allt öðru. Hún bakar pönnukökur eða bara alls ekki, kann að hekla eða bara alls ekki en hún er sátt við að vera hún sjálf. Hún sýnir sér sjálfsmildi en mörkin hennar eru skýr þegar hún ver þá sem minna mega sín og málstað sem hún trúir á. Kannski hún ekki mafíósi, líklega sem betur fer,  en samt svolítið spennandi og örlítið hættuleg. Það er amma sem ég vil líkjast, það er amma Don. 

Leave a comment