Nönnu og Dísuleikurinn

    Nýverið benti ég systur minni, sem er ári eldri en ég, að nú væri leyfilegt að breyta nafninu sínu að vild og ekkert væri því til fyrirstöðu að við breyttum okkar nöfnum í Nanna og Dísa. Systir mín benti reyndar á þann galla á hugmyndinni að við ættum þegar systur sem væri kölluð Dísa en að öðru leyti væri hugmyndin góð og ætlaði hún að taka þetta til athugunar. En af hverju ættum við að vilja heita Nanna og Dísa en ekki bara Inga og Guðný (sem eru okkar raunverulegu nöfn)?

Jú þegar við vorum litlar stelpur þá fórum við reglulega og jafnvel dag eftir dag í leik sem hét einfaldlega Nönnu og Dísuleikurinn. Í þann leik þurfti ekki nein leikföng, engar snjalltæki og svo sem bara ekki neitt nema ímyndunarafl systranna. Og þar var sko ekkert til sparað. Í heimi Nönnu og Dísu upplifðum við allt sem okkur fannst spennandi, hann innihélt nýjar leikreglur og annað umhverfi en okkar hversdagslega líf en samt fór hann fram í okkar tilveru. Við gerðum allt  sem við áttum að gera, fórum í skólann, borðuðum kvöldmatinn og gerðum heimaverkefnin en við vorum bara ekki við, við vorum Nanna og Dísa. Mamma þurfti að kalla okkur þessum nöfnum ef hún vildi ná sambandi við okkur systur og helst að taka þátt í leiknum því að Nanna og Dísa þurftu örlítið öðruvísi meðhöndlun en hinar venjubundnu systur. Nanna sem var „mín“, var afsprengi sveimhugans og miðjubarnsins og því lifði hún afar ævintýralegu og spennandi lífi, ferðaðist um heiminn og átti fráskilda en afar efnaða foreldra. Dísa var skilgetið afkvæmi eldri og skynsamari systur minnar og því var hún jarðbundnari týpa, svolítið smituð af sænskum gildum (okkur fannst allt rosa flott í Svíþjóð)  og á þeim bæ voru ævintýrin lágstemmdari. En það kom ekki í veg fyrir að við nytum þess að breytast reglulega í þær stöllur Nönnu og Dísu sem lögðu undir sig líf okkar. Ímyndunarafli okkar voru lítil takmörk sett og við spunnum upp endalaus ævintýri. Sum sögðum við vinum okkar í formi sagna t.d. um æsilegan draugagang heima hjá okkur þar sem fyrri (alsaklausir) íbúar áttu að hafa framið voðaverk á klósettinu og jafnvel urðu til heilir söngleikir með dönsum og söngvum, brotthlaupnum börnum, ófreskjum og hetjum.

Okkar frjói barnshugur átti ómældan efnivið í alla þessa ímynduðu heima því við lásum endalaust mikið. Við lásum allar bækurnar sem foreldrar okkar höfðu lesið, -bækur um allskyns börn um allan heim. Bíbí, Toddu, Öddu, Baldintátu, Nancy Drew, Fimm fræknu, Benna flugmann, Önnu í Grænuhlíð,-megnið af barnabókunum á Amtsbókasafninu og svo unglingadeildina og rómantíska hlutann í fullorðinsdeildinni (ég held að ég hafi lesið Suzie Wong, 30 sinnum). Einstaka sinnum var farið í bíó og það var kannski það sem kveikti neistann í eldsmat bókaheimsins. Í bíó kom liturinn og ekki hvað síst tónlistin með í líflegt ímyndunarbálið.

Við vorum kannski ekkert mjög sigldar systurnar og þekktum lítið hinn stóra heim. Við vissum auðvitað að þar gekk ýmislegt á en öryggið okkar var algjört og takmarkalaust og kannski þess vegna var óhætt að ímynda sér hvað sem var. Í barnslegu sakleysi.

Við vorum auðvitað heppnar, það var enginn sem rændi okkur þessu sakleysi. Við fengum að alast upp við það að trúa á það sem var talið gott og göfugt í okkar litla heimi,  en þá eins og nú, voru það forréttindi.  Og auðvitað eru fullt af börnum sem njóta þessara forréttinda í dag. Börn sem fara í sjóferð í pappakassa á stofugólfinu og baka súkkulaðikökur úr mold og vatni. Börn sem lesa bækur og fara í fjöruferðir.

 En áreiðanlegra er það mun flóknara að vera barn í heiminum í dag. Að takast á við öll þau áreiti sem tæknivæddari veröld hefur í för með sér, miklu meiri hraða á öllu og öllum,  og ekki hvað síst meiri hættur og nálægari en þegar Nanna litla og Dísa voru að skoppa um á Akureyrinni. Í heimi sem hentar ekki vel viðkvæmum og dreymnum börnum. Heimi þar sem bókasöfnum er lokað vegna lítillar notkunar.

Visslega er margt svo miklu betra fyrir börn í víðsýnna og upplýstara nútímasamfélagi. Og vonandi heldur það áfram að verða bara betra. En við megum líka alveg hugsa til fyrri tíma, muna eftir ímyndunaraflinu, einfaldleikanum og því sem var gott í samfélaginu á síðustu öld. Hampa lestri, bókum, bókasöfnum, ævintýrum og öllu því sem glæðir hugsanir og ímyndun barna og fullorðinna.

Allar kynslóðir eiga minningar um dásamlega hluti sem er mikilvægt að deila með komandi kynslóðum. Veljum vel fyrir börnin okkar og leyfum alltaf Nönnum og Dísum tilverunnar að blómstra.

m

Jólagleði og jólatregi

Líf okkar allra, stórra og smárra manneskja snýst að miklu leyti um tilfinningar. Ef við göngum út frá því að tilfinningar séu viðbrögð við umhverfi okkar og aðstæðum þá liggur það í augum uppi að ekkert okkar er því undanþegið að verða þeirra var, oft á dag alla daga. Við tölum stundum um að sum okkar séu tilfinningaverur og önnur okkar ekki en það er reyndar rökvilla,- við erum öll tilfinningaverur. Líklega er rökvillan sprottin af því að við erum þekkjum tilfinningar okkar misvel, við höfum ekki sömu þjálfun í að þekkja þær, skilja þær, nefna þær og við vinnum með þær á misjafnan hátt. Sum okkar reyna ákaft að forðast þær, sérstaklega ef þær eru sárar og erfiðar og svo reynum við jafnvel að berjast við þær og loka þær niðri til þess að þurfa ekki að upplifa sársaukann sem þeim fylgir. Við höfum jafnvel talið okkur trú um það sem samfélag að það sé hollara að láta sem þær séu ekki þarna og beri vott um andlegan styrk. Í mesta lagi að tár rennur niður steinrunnin vanga einhvers heljarmennis í gömlum sögum og ef það var eina merkið um innri vanlíðan þá þótti það ofur töff.

Og við leggjum mikið á okkur til að láta óþægilegu tilfinningar okkar hverfa, felum skrímslin undir rúminu og lítum aldrei þangað undir,- enginn vill þurfa að horfast í augu við það sem veldur þeim sársauka. Og enginn vill missa stjórnina á þessum skrímslum, við erum jú vandlega alin upp í því að hafa þau undir lás og slá.

Desember, jólin og hátíðahöldin eru tími góðra tilfinninga. Nema hvað, -gleðin er við völd, tilhlökkun, skrautið, samverustundirnar, gjafirnar og allar góðu minningarnar. Börnin í aðalhlutverki og allir keppast við að þeirra tilfinningar og þeirra minningar verði bjartar. Engin skrímsli undir rúmum um jólaleytið, bara jólabirta, sætindi og gleði. Eða hvað?

Hvað um þá sem tengja jólin við sársauka? Við fjölskyldumeðliminn sem alltaf var fullur á jólunum, foreldrana sem rifust, ástvininn sem er ekki lengur hluti af jólahaldinu. Hvað um foreldrið sem getur ekki veitt barninu sínu það sem auglýsingarnar telja okkur trú um að sé ómissandi á jólunum? Hvað um gamalmennið sem þráir að fá að sitja með jólaljósin í kyrrð á jólanótt og minnast þess sem liðið er en er drifið í jólafjörið,-það á jú að vera gaman og enginn á að vera einn!  Góðar tilfinningar, hvað sem það kostar.

En lífið er ekki auðvelt, það er að minnsta kosti jafn erfitt og það er ljúft og kannski bara ennþá meira en það. Það er því óraunhæft að ætlast til þess af okkur sjálfum að tilfinningar okkar á jólum séu eitthvað öðruvísi en á öðrum stundum, þær eru allar jafn mikilvægar og allar jafn réttháar. Mér hefur jafnvel dottið það í hug að jól og áramót geti hreinlega verið góður tími til að dusta rykið og kóngulóarvefina af skrímslunum í kjallaranum og undir rúmunum,- skoða þau, og leyfa þeim að vera með í jólahaldinu. Kannski getum við talað meira saman en aðra daga, talað um tilfinningar og samskipti, talað um það sem skiptir okkur öll máli þegar allt kemur til alls. Við gætum rifjað upp góðar og slæmar minningar, hlegið saman og líka grátið.  Setið saman í rökkrinu þessa stystu daga ársins og tekið okkur sjálf í sátt. Hlátur og grátur er hvort tveggja leið líkamans til að veita tilfinningum útrás og eiginlega merkilegt að annað teljist jákvætt en hitt neikvætt. Munum bara að það er hvers og eins að skoða tilfinningarnar sínar, við getum ekki gert það fyrir aðra.

Mínar eigin tilfinningar hafa alltaf verið fremur lausbeislaðar og samt er ég enn að reyna að minna mig á að það er ekkert neikvæðara að gráta yfir gömlum minningum eða fallegri tónlist en að hlæja að einhverju fyndnu. Félagsmótunin er sterk og umhverfið reynir að telja okkur trú um að það sé gott að vera alltaf hress. Reyndar grét ég svo á tónleikum þegar sonur minn var á unglingsárum að hann fann upp hugtakið „menapplause“ fyrir viðbrögð miðaldra kvenna á tónleikum en það er nú önnur saga.

Tilfinningar eru ekki hættulegar, viðbrögðin okkar við þeim geta hinsvegar verið varasöm eins og t.d.  þegar við beinum reiði að öðru fólki bara vegna þess að við getum ekki horfst í augu að hún sé okkar eigin og okkar sjálfra að taka á henni ábyrgð.

Undanfarna áratugi hefur verið lögð á það mikil áhersla við fólk að sjálfstraust og sjálfsöryggi sé  mikilvægara en flest annað og „þú getur allt sem þú vilt“ slagorðin dynja á okkur. „Árangur“, „jákvæðni“, „árangursdrifinn“, „liðsheild“, þetta eru lykilorð í nútímaheimi. Ekki ætla ég að draga úr því að raunhæft sjálfstraust sé gott en í þessum heimi sjálfsöryggis er ekki mikið pláss fyrir kvíða, depurð, ótta, ringuleið eða sorg.  Það verður hinsvegar meira pláss fyrir sjálfmiðun, ofuráherslu á eigin getu og það að öll meðul séu leyfileg til að ná árangri.

Og þá fjölgar oft skrímslunum í huga okkar. Ég óttast oft að við gleymum því að sýna okkur sjálfum mildi og umhyggju. Ég óttast að við munum ekki fyrirgefa okkur mistökin og viðurkenna mennskuna í okkur sjálfum.

Ef ég gæti kennt ungu fólki eitthvað þá myndi ég vilja kenna þeim að gráta þegar lífið er hart og sárt, leyfa sér að vera lítil og leið, en líka að standa upp og reyna aftur og aftur, aðra aðferð, nýja hluti,-og gefast aldrei upp.

Megi birta jólanna lýsa okkur myrkrið. 

Framheilafitness

Heilaleikfimi er heilsubót.

Við þekkjum öll nauðsyn þess að þjálfa líkama okkar.Það hjálpar okkur er við tökumst á við öldrun og sjúkdóma, er forvörn gegn ýmsum kvillum og bætir líðan. Flest erum við kyrrsetufólk við vinnu og að miklu leyti heima hjá okkur, en við búum samt í líkama sem er hannaður til hreyfingar og líkamlegrar áreynslu. Því þurfum við að vera meðvituð um að sjá honum fyrir tækifærum til þjálfunar. Í því skyni eru ótal margir staðir og möguleikar sem við getum nýtt okkur. Við notum sundlaugar, íþróttavelli, göngustíga, líkamsræktarstöðvar, dansstúdíó og golfvelli, – við hjólum, hlaupum, syndum. rífum í járn, förum í allskyns hreyfitíma eða bara gönguferðir, allt fyrir skrokkinn. Stundum eru markmiðin full-háleit og við gerumst dyggir stuðningsaðilar líkamsræktastöðvanna en gleymum kannski að fara þangað þegar frá líður en það er nú önnur saga og lengri.

En hvað þá með líffærið sem er fremur lítið, einungis u.þ.b. 2% líkamsþyngdar okkar en þarf mikla orku og notar um 20% blóðflæðis í líkamanum. Líffæri sem lifir á súrefni og sykri en kjamsar á ketónum úr fitu ef allt annað bregst, líffæri sem er sjálft að 60% gert úr fitu,-líffæri sem sífellt sendir efnaboð og rafmagnsboð um líkamann. Jú líffærið sem ég er að tala um og er undirstaða alls sem við segjum, gerum, hugsum og erum,-er auðvitað heilinn.

Heilinn okkar er  líffæri sem að einhverju leyti hefur ekki hefur þróast í gegnum árþúsundin og ýmis frumviðbrögð sem halda okkur á lífi eiga heima í þessum gamla hluta heilans t.a.m í litlu möndlulaga líffæri, möndlungnum. Þar má segja að sírenurnar fari í gang og bláu ljósin kvikni þegar heilinn telur okkur í hættu stödd og þar á streitan aðalbækistöðvar.  Hellisbúinn sem við eitt sinn vorum og nútímamaðurinn sem við erum núna, sebrahesturinn á sléttum Afríku og heimilishundurinn , – bregðast öll við með sama streituviðbragðinu ef þessi frumheili telur að ógnir séu að steðja að.

Gallinn er bara sá að heimurinn hefur breyst heilmikið frá því að við vorum hellisbúar og heilinn er er líka farinn að túlka ýmis áreiti nútímalífs sem stöðuga hættu. Streituviðbragðið okkar er á sterum ef svo má segja  og heilinn farinn að túlka yfirmanninn í vinnunni, umferðina, unglinginn á heimilinu, þras um heimilisþrifin,  fjármálin og allskonar lífsins bögg sem stöðuga lífshættu. Þá getum við svo auðveldlega setið föst í frumviðbrögðunum,  spennan verður meiri en við höfum gott af og stöðug yfirkeyrsla á kerfinu.

Á móti kemur að við höfum aðra mun þróaðri hluta heilans, s.s. framheilann og heilabörkinn sem hjálpa okkur stöðugt með því að beita  dómgreind, slökun og rökhugsun til að kæla kerfið þannig að við getum haldið í andlega og líkamlega heilsu..  Ef gamli hluti heilans er götulögga með blikkljós og sírenur þá er nýji hlutinn leynilögga sem ræður gáturnar, leysir málin og vinnur úr óreiðunni. Þessir tveir hlutar heilans keppast um það hver eigi að ráða ferðinni.

Flest gerum við okkur grein fyrir því að það er ekkert sérstaklega hollt til lengdar að láta stjórnast mikið af hráum og frumstæðum viðbrögðum í nútímaheimi og myndum gjarna vilja styrkja nýrri hluta heilans og hvetja þá til dáða.

En hvernig þjálfum við heilann og er yfirhöfuð hægt að breyta hlutföllum hans og starfsemi? Er til eitthvað „framheilafitness“?

Já reyndar er til fínasta heimaheilaleikfimi sem hægt er að stunda og rannsóknir sýna fram á að styrkja framheilann marktækt til góðra verka. Ekki nóg með það heldur virðist hún tempra streituviðbrögðin  og snyrta taugabrautir í möndlungnum.

Þessi leikfimi nefnist núvitund og felst í því að lifa líðandi stund án fordóma og með gæsku og mildi í eigin garð.  Núvitund hvílir hinn síhugsandi hluta heilans, kyrrir okkur og róar. Núvitundaræfingar eru oftast alveg ókeypis, án aukaverkana, þurfa ekki spandexfatnað,ekki tæki eða tól og allir ráða vel við þær. Það þarf bara ástundun.

Aðstoð til að byrja framheilafitnessið núvitund  má finna á netinu, í bókum öppum og vefsíðum og við getum ýmist framkvæmt æfingarnar út af fyrir okkur eða með öðrum. Við getum gert æfingar við ýmsar athafnir dagslegs lífs, s.s. við göngur úti í náttúrunni, áður en við förum fram úr rúminu að morgni og meira að segja við venjubundin verk s.s. að bursta tennur eða fara í sturtu.

Sumum hentar að taka frá sérstakan stað og stundir til núvitundaræfinga  en aðrir vilja frekar nota sér að taka núvitundina inn í rútínuna sem fyrir er. Svo lengi sem markmiðinum hér að ofan er náð er aðferðin ekki aðalatriði.

Núvitund breytir þér, líkamlega, andlega og vitrænt. Kjósir þú að stunda núvitund ertu að ákveða að auka hamingju, draga úr streitu, auka einbeitingu og auka sköpunargáfu um leið og þú bætir svefn, styrkir ónæmiskerfið og eykur lífslíkur. Hún hefur sterkan vísindalegan grunn og mikið magn rannsókna styðja gagnsemi hennar.

Að auki þetta; Núvitund býður líka upp á ótrúlega möguleika til aðblómstra í lífinu. Hún býður upp gagnreynda  leið til þess að staldra við, anda, sjá fegurðina og lifa í velvild og gleði. Ekki bara að líða betur heldur lifa betur, ekki bara gera heldur vera.

Inga Dagný Eydal

Hjukrunarfræðingur, ráðgjafi og núvitundarleiðbeinandi hjá Heilsu og Sálfræðiþjónustunni á Akureyri.

Sunnudagspæling Ingu Dagnýjar

Mikið er ég þakklát fyrir öfluga einstaklinga. Þakklát fyrir að það er fólk allsstaðar í kringum okkur að gera góða hluti. Fólk sem helgar dagana sína verkefnum sem eru okkur mikilvæg, samfélagsþjónustu, baráttumálum, aðstoð við þá sem eiga erfitt, stjórnmálum- og svo mætti lengi telja. En um leið og ég er þessum dýrmætum einstaklingum þakklát á ég dálítið erfitt með að sætta mig við það að ég er ekki lengur kraftmikil kona og verkefni af þessu tagi henta mér ekki nema í fremur naumum skömmtum. Ég legg fram það sem ég megna,-það er sko miklu minna en ég myndi vilja og reyni ákaft að láta ekki samviskubit og móral plaga mig. Rækta það sem þó eftir er og sinna mér og mínum.,-og mínu nánasta umhverfi.

Oft læt ég eigin ofvirkni bera mig af leið og stækka ábyrgðina mína all verulega. Ég fer að sópa stéttina, er svo komin með kústinn á sameiginlegt bílaplan fjölbýlishússins sem við búum í og maðurinn minn tekur hann svo af mér áður en ég fer að sópa götuna. Ég moka snjóinn miklu lengra en ég ætlaði í upphafi „af því að ég er komin með skófluna“ og byrji ég að taka til þá er aldrei að vita hvar sú tiltekt endar. Man jafnvel ekkert lengur hvar hún byrjaði. Ég finn mér endalaus verkefni og finnst þau flest eiga að vera unnin í gær -að minnsta kosti má alls, alls ekki gera þau seinna. Ég ætla svo alltaf að verðlauna sjálfa mig með einhverju sem er skemmtilegt og notalegt eins og að mála, hlusta á tónlist eða lesa góða bók en stundum er bara andlega orkan búin og þá hef  g ekki eirð við rólegheitin. Þá er jafnvel bara einfaldast að skipta á rúmunum eða taka til í eldhússkápunum.

Af þessu öllu er ég oft þreytt enda forgangsröðunin algjörlega úr takti við það sem ég vildi að hún væri. Duracell kanínan sem ég er, ætti auðvitað að nota þessa orku í eitthvað mikilvægt, svo ég segi nú ekki stórkostlegt eins og að gera mikilvægar uppgötvanir eða fara í doktorsnám. En bæði er líkamlega orkan ekki nema lítið brot af því  sem hugurinn hefur, og hver ætti þá að vera í allri þessari tiltekt?? Ég ímynda mér að öfluga fólkið sem ég talaði um í byrjun sé bara með það á hreinu hvar það á að byrja og þess vegna séu mikilvægu verkefnin sett í forgang.

En jú það er rétt, það er ekkert svona óhreint heima hjá okkur og já, ég á eiginmann sem er boðinn og búinn til að gera sinn skerf og rúmlega það. Þetta er fullkomlega meðvituð hugarvilla en þó virðist ég seint ætla að vinna á henni bug.

Því er ég því afar fegin að í dag get ég sinnt verkefnum sem eru mér mikils virði og ég fæ að vinna þau á góðum stað með góðu fólki. Auðvitað flæki ég þetta aðeins með því að eiga erfitt með að hætta að vinna þegar verkefnum lýkur en ég er að æfa mig. Ég er líka að æfa mig í sunnudögum til sælu, sunnudögum sem ekki eiga að snúast um neitt nema slökun sjálfsrækt og samveru. Það gengur misvel en ásetningurinn er fyrir hendi!

Jafnvægi í daglegu lífi er eitthvað sem okkur er öllum mikilvægt. Það er líklega gott jafnvægi í daglegu lífi að gera það sem skiptir okkur raunverulega máli. Það er mikilvægt að sinna bæði okkur sjálfum og þeim sem við elskum og eru okkur dýrmætir. Það getur alveg verið ágætt að raða skónum í forstofunni en ekki svo að það sem okkur er raunverulega dýrmætt lendi aftar í forgangsröðunninni.

Við höfum ekki ótakmarkaðan tíma og bæði heilsa og kraftar geta látið undan. Fólk er hinsvegar ferskvara og það gildir líka um það sem okkur er mikilvægt, okkar eigin lífsgildi. Þeim ætla ég að reyna að gefa forgang og setja frekar biðskyldu á húsverkin.

Njótið sunnudagsins gott fólk.

Sátt í sinnið

Það er í besta falli flókið að vera manneskja.

Á okkur herjar endalaust magn af upplýsingum um hörmungar af öllu tagi og heilinn sem er jú hannaður til að vernda okkur gegn öllu illu, virkjar stanslaust hin fjölmörgu kvíða og streituviðbrögð sem manneskjan hefur þróað með sér. Taugakerfið er þannig alltaf í viðbragðsstöðu, tilbúið til að berjast við og afstýra hættunum. Gallinn er auðvitað sá að í nútímaheimi er svo alltof margt sem við höfum ekki neina stjórn á en hefur þó neikvæð áhrif á tilveru okkar. Smitsjúkdómar, loftslagsvá, styrjaldir og voðaverk, græðgi og valdasýki ráðamanna, -þekktar og óþekktar ógnanir.

Við erum lítil og við erum oft hrædd, -eðlilega.

Í stóra samhenginu er það kannski óþarfi að kvarta um verðbólgu, hnignandi heilbrigðiskerfi, húsnæðisvanda og endalausa norðanáttina hér heima en þessir hlutir eru okkur þó nærtækir og hafa mikil áhrif á líf okkar.

Og hvað? Hvað gera litlar og hræddar manneskjur við allan kvíðann, óttann og depurðina?

Ég vildi óska að ég hefði góða allsherjarlausn sem hentar fyrir alla en auðvitað hef ég það ekki. Ég veit það eitt að það eina sem ég hef stjórn á er ég sjálf. Ég ber ábyrgð á mér sjálfri þrátt fyrir allar erfiðar tilfinningar og hugsanir. Ég hef val á hverjum einasta degi um eigin hegðun og ég hef val um að láta ekki þessar erfiðu tilfinningar taka af mér stjórnina.. Mér mun ekki takast það alltaf en ég get þó alltaf reynt aftur og aftur og æft mig í að vera sú manneskja sem ég vil vera.

Og hvað? Get ég þá bara losað mig við allar erfiðu tilfinningarnar? Er þetta svona „verum bara jákvæð“ hugmynd? Þurfum við alltaf að vera glöð?

Nei ég held að við höfum flest komist að því að barátta við eigin tilfinningar er bæði orkufrek og skilar okkur litlu. Við hvorki berjum úr okkur né brosum úr okkur, óttann við tilveruna.

Galdurinn, sem þó er alls enginn galdur heldur skynsemi, felst þá fremur í því að samþykkja tilfinningarnar okkar, gangast við þeim en hætta að berjast við þær. Skoða þær án þess að dæma þær. Taka þannig úr þeim ógnina og draga úr þeim tennurnar.

Sú orka sem við notum að öllu jöfnu í að berjast við eða forðast eigin tilfinningar og hugsanir getur þá kannski nýst okkur til þess að taka til í „atferlisgarðinum“ okkar. Hvað viljum við leggja rækt við og hvernig getum við sem best skipulagt garðinn okkar svo hann blómstri? Hvað er okkur raunverulega mikilvægt og hvernig viljum við hegða okkur?

Takist okkur að vera í líðandi stund og njóta þess sem er án þess að velta okkur upp úr mögulegum en ókomnum hörmungum þá eigum við meiri möguleika á að bæta góðum augnablikum í tilveruna fyrir okkur sjálf og þá sem eru í kringum okkur.

Við getum þá frekar tekið meðvitaða og yfirvegaða ákvörðun um skrefin okkar í lífinu. Viljum við fara í Kjarnaskóg í kuldanum, njóta þar skjóls og þess hvernig skógurinn ilmar best þegar svalt er úti? Eða viljum fara með Niceair til Tenerife og fá D-vítamín í blóðið og slökun í skrokkinn?

Það er enginn nema við sjálf sem getum metið hvað okkur hentar best. Við erum bílstjórar í eigin rútu þrátt fyrir að farþegarnir séu stundum til vandræða og vilji ráða aksturslaginu.

Þetta viðhorf til tilverunnar fellur undir hugmyndir ACT (Acceptance and Commitment Therapy) eða Sáttar og atferlismeðferðar eins og hugmyndafræðin hefur verið nefnd á íslensku. Meðferðin er oftast eignuð bandaríska sálfræðingnum Steven C.Hayes og hefur náð styrkri fótfestu og vísindalegum grunni innan sálfræði og annarra fræða sem hafa með andlega heilsu að gera. WHO, alþjóðlega heilbrigðisstofnunin, hefur tekið ACT upp á arma sína m.a. til að aðstoða fólk í stríðshrjáðum löndum og hugmyndafræðin hefur verið notuð bæði til að hjálpa fólki í andlegum vanda og þeim sem vilja einfaldlega bæta líf sitt og líðan. Fyrir utan upplýsingaflæðið sem á okkur dynur og sem ég minntist á hér í upphafi þurfum við öll einnig að glíma við raunverulega erfiðleika í eigin tilveru og okkar nánustu. Lífið er í eðli sínu erfitt.

Flestum þeim sem kynnast ACT er það kærkomið að fá tækifæri til að láta af baráttu við tilfinningar sínar og fara sáttarleiðina í staðinn. Í hörðum heimi er mikilvægt að sýna okkur sjálfum umburðarlyndi og mildi. Í sáttarhug gagnvart okkur sjálfum, gefst okkur tækifæri til að skoða hver við viljum raunverulega vera, og til að taka fulla ábyrgð á því sem við gerum og segjum.

Njótum sumarsins í öllum þess útgáfum,og verum sátt við okkur sjálf.

Er ég ekki örugglega fullkomin?

„Nú er ég komin undir sextugt og hái baráttu á hverjum degi við fullkomnunaráráttuna sem er sannarlega einn af mínum stærstu veikleikum

Photo by Vivien on Pexels.com

Framan af ævinni lagði ég mikla áherslu á að koma hlutum þannig fyrir að ekkert yrði útundan og að það sem væri á mína ábyrgð væri gert eins vel og mögulegt væri. Það var auðvitað ég sjálf sem setti mörkin og þau voru há. „Til hvers að gera eitthvað ef maður gerir það ekki vel?“ var eitthvað sem ég sagði gjarnan og ekki þarf að taka það fram að ef mér fannst aðrir ekki uppfylla kröfurnar mínar þá var ég meira en reiðubúin til að taka verkið yfir. Það var öruggara og féll vel að sjálfsmyndinni um að ég gerði hlutina vel -(lesist betur en aðrir).

Mikið óskaplega varð ég svo hissa þegar ég komst að því að enginn,- já nákvæmlega enginn, var að ætlast til þess að ég væri fullkomin og það var mitt eigið lága sjálfsmat sem lagði mér til lífsregluna um að ég ætti að vera það. Það sem ég hafði trúað svo einlæglega að væri kostur og styrkleiki var það kannski alls ekki.  Já fátt er flóknara en að vera manneskja og hvern einasta dag lærum við nýja hluti í þeirri list,- ef við viljum!

Fræðikonan og fyrirlesarinn Brené Brown orðar það þannig að „ef fullkomnunaráráttan er undir stýri þá er óttinn líklega í farþegasætinu og skömmin afturí“ Óttinn, er líklega óttinn við að aðrir komist að göllum okkar og skömmin sú sem af því leiðir.

Nú er ég komin undir sextugt og hái baráttu á hverjum degi við fullkomnunaráráttuna sem er sannarlega einn af mínum stærstu veikleikum. Fullkomnunaráráttuna sem segir að ég eigi að vera alltaf dugleg, aldrei þreytt, aldrei döpur eða fúl, hjá mér eigi alltaf að vera hreint og fínt, bíllinn hreinn og garðurinn sleginn, hundurinn kemdur og maturinn góður. Bara svona smotterískröfur.

Ég er búin að springa einu sinni á limminu og verða veik af streitu og örmögnun og ef ég leyfi fullkomnunaráráttunni að sitja of lengi í bílstjórasætinu á ég sannarlega á hættu að lenda á þeim stað aftur. Í staðinn þarf ég að gangast við því að ég er gigtveik og stundum lasin, oft lúin, eða löt og bara kemst ekki yfir nema brotabrot af því sem mér finnst að ég ætti að gera. Og það er vissulega erfitt.

Staðreyndin er sú að fullkomnunarsinnar reynast afkasta minna og upplifa meiri streitu en þeir sem setja sér heilbrigð og raunhæf markmið. Þeir upplifa oftar kvíða, depurð og einkenni s.s. svefntruflanir eða átraskanir. Þeir eru dómharðir á sjálfan sig og jafnvel aðra og í huga þeirra er „allt eða ekkert“ ráðandi afl með tilheyrandi niðurrifi ef markmiðin nást ekki. En þeir sömu bregðast svo jafnvel mjög illa við gagnrýni frá öðrum því það er jú ekki gott að blettir falli á ímyndina um fullkomnun.

Og hvað er hægt að gera? Hvernig gengur mér sjálfri þessi daglega barátta við að falla ekki í sama farið og hver eru verkfærin eða vopnin í þann slag.

Jú eftirfarandi hefur reynst mér vel:

 • Að gangast við mér eins og ég er og skoða af fullum heiðarleika hvaða hugsanir og tilfinningar hafa áhrif á hegðun mína.
 • Að muna að tilfinningar segja mér ekki alltaf satt og óttinn við dóm annarra er sjaldnaast á rökum reistur.
 • Að muna hvernig dómur annarra um mig er þeirra mál en ekki minn vandi.
 • Eiga góð og heiðarleg samskipti við fólk sem mér þykir vænt um og mér líður vel með en eltast ekki við aðra.
 • Að stunda núvitund og þannig tileinka mér sveigjanleika, seiglu og sátt í tilveruna.
 • Að muna hversu fullkomlega ófullkomin og dásamleg ég er, rétt eins og allir aðrir.

Þetta er oft erfitt því að ég er búin að eyða einum of mörgum áratugum í vitleysuna sem er fullkomnunarárátta. Enn er þó von um að ég verði ekki gamla konan sem situr og þurrkar stöðugt ósýnilegt ryk af borðum og bekkjum heldur finni mér eitthvað miklu skemmtilegra að gera. Krossa fingur og reyni að vanda mig…..-minna!

Bíó-fyrir bí.

Við mamma fórum saman í bíó í gær en það gerum við þegar sérstaklega spennandi konumyndir koma í bíó. Með konumyndum meina ég dramatískar myndir um ástir og örlög og ekki er verra ef þær gerast í gamla daga og skarta fallegum fötum og fallegu fólki. Þannig var einmitt myndin sem við sáum í gær en það var nýjasta bíómyndin um húsbændur og þjónustufólk á setrinu Downton Abbey. Salurinn í Borgarbíó var ekki þétt setinn en að mestu var þar fólk á miðjum aldri og eldra, vinkonur, systur, mæðgur og hjón,-flestir með silfurlitað hár. Í salnum var hlegið, klappað og grátið svolítið líka,- greinilegt að fólkið að Downton Abbey eru heimilisvinir víðar en hjá mér og mömmu.

Það rifjast alltaf upp fyrir mér þegar ég er komin í bíó hversu góð skemmtun það er og ég spyr mig eiginlega í hvert skipti af hverju ég fari ekki oftar. Þrátt fyrir allar heimsins efnisveitur og þann urmul af dagskrá sem við getum valið til að horfa á heima, þá er ekkert eins og að sökkva ofan í sætið sitt í bíó með stóran poka af poppi og ískalda kók og bíða eftir að ljósin slökkni og að myndin taki við. Ég á orðið erfiðara með að halda athygli á heilli bíómynd hér heima en í bíó lætur athyglisbresturinn undan og ég næ að detta inn í söguþráðinn og hrífast með.

Bíóferðin í gær var hinsvegar svolítið tregablandin því nú er hún Snorrabúð stekkur og Borgarbíó lokar og hættir, eftir samfelldan rekstur frá árinu 1956. Já það eru 66 ár síðan templarar á Akureyri veittu bæjarbúum val um tvö kvikmyndahús og vígðu Borgarbíó, fyrst sem sal í norðurenda Hótels Varðborgar og síðar í nýju húsi sem byggt var undir starfsemi bíósins. Mér finnst öll mín æska og uppvöxtur vera samofin bíóferðum og þótt bíóin hafi verið tvö á Akureyri þá fór ég reyndar mun oftar í Borgarbíó. Ég sé anddyrið á gamla bíóinu fyrir mér eins og ég hafi verið þar í gær, litlu miðasölukompuna og sælgætissöluna með Vallash og Jollý Kóla til drykkjar og lakkrísrörum, Lindubuffum, Akrakaramellum, og allskonar góðgæti til að nasla á, en ekki poppi. Sá siður kom ekki fyrr en síðar og í hvorugu bíóanna voru poppvélar fyrr en þá miklu síðar. Í sælgætis og miðasölunni unnu konur en dyraverðirnir voru karlmenn. Ekki á hverju þessi kynjaskipting var byggð en svona var þetta þá. Þetta fólk hafði reyndar ótrúlegt langlundargeð gagnvart unglingum sem ýmist voru of feimnir og uppburðarlitlir til að tjá sig skýrt eða voru með læti, hrindingar og flissköst fram úr hófi. Svo ekki sé nú minnst á lætin sem urðu þegar myndirnar byrjuðu og við brutum saman bíómiðana, gerðum á þá lítið gat og blístruðum í gegnum gatið með ótrúlegum hávaða.

Það var hægt að hringja í bíó og panta miða sem auðvitað voru númeraðir og símanúmerið í Borgarbíó var lengi greipt í huga mér. Svo voru seld prentuð prógrömm svona eins og lengst af tíðkuðust í leikhúsum og ég man að pabbi og mamma söfnuðu slíkum prógrömmum. Þau voru reyndar dugleg að fara í bíó, fóru ekki á aðra skemmtistaði nema til vinnu og við fórum með í bíó strax og við höfðum aldur til. Þar lærði ég snemma að meta dans og söngvamyndir og svo urðum við eiginlega alætur á bíómyndir. Eða því sem næst,-það var auðvitað mikið sport að reyna að komast inn á myndir sem voru bannaðar börnum en það tókst ekki alltaf. Ég man að við systur fórum á svo svæsna hryllingsmynd eitt skiptið að við sváfum á gólfinu hjá pabba og mömmu þá nóttina, vorum þó komnar á menntaskólaaldur. Ég hafði reyndar alltaf gaman af hryllingsmyndum og beitti öllum brögðum til að lokka Örnu vinkonu mína með mér á slíkar myndir. Hún var ekki hrifin af þeim og ef ég hafði vélað hana með mér á fölskum forsendum endaði hún oftar en ekki með því að bíða bara frammi,-en ég þraukaði samt með henni að sjá „Vin indíánanna” tvisvar sinnum því þar var svo mikið af hestum sem vöktu með henni mikinn áhuga,- en mér síður. Ekki þar fyrir að myndin skipti ekki alltaf öllu máli heldur samkomustaðurinn,- það var ofurspennandi að mæta í bíó og sjá hverjir væru þar fyrir, hverjir voru þar saman og hvaða draumaprinsar voru hugsanlega staðsettir á næstu bekkjum. Það var svo spennandi að við létum okkur hafa það að fara í „hálfleik” í bíó þegar það var orðið full kostnaðarsamt að mæta á hverja sýninguna af annarri. Í hléinu, eins og það var nú líklega kallað annarsstaðar, fór nefnilega stór hópur bíógesta út að reykja. Stóðu þá allir í einum hnapp og reyktu hver upp í annan því þeir sem ráfuðu í burtu gátu átt á hættu að komast ekki aftur inn. Slík var þvagan að bíósjúkar unglingsstelpur gátu auðveldlega blandað sér í hópinn, laumast í salinn án þess að dyraverðirnir sæju það og horft á seinni hluta myndarinnar. Þá gat verið snúið að reyna að geta upp á því hvað hafði átt sér stað fram að hléi en oft held ég að við höfum misst af inntakinu með því að horfa á hálfar bíómyndir. Það gerði ekkert til, að „fara í hálfleik í bíó” var íþrótt og dægrastytting hjá kynslóð sem átti ekki tölvur og bjó ekki að sjónvarpsdagskrá fyrir unglinga.

En Borgarbíó er á leið með að verða minningin ein og nú er eitt bíó á Akureyri,- ennþá. Við stöðvum ekki hjól tímans og breytingar eiga sér stað án afláts. Fæstar þeirra hreyfa mikið við mér en lokun Borgarbíós fyllir mig svolítið af fortíðarþrá og nostalgíu. Takk fyrir allar bíóferðirnar, allt frá þrjúbíó í sparikápu með Guðnýju systur og upp í Downton Abbey, – þetta voru góðar stundir!

Photo by Pixabay on Pexels.com

Ferðalangur, fuglahræða….

„Hvað ætlar þú að verða væni, voða ertu orðinn stór. Allir spyrja einum rómi, eilíft hljómar þessi kór“…..sungu Hrekkjusvínin fyrir margt löngu. „Hrekkjusvín“,segi ég eins og það sé bara augljóst hver Hrekkjusvínin eru, eða voru!  Þau voru samstarfsverkefni hljómsveitanna Spilverks þjóðanna og Þokkabótar, já og lagið sem geymir þetta textabrot kom út á hljómplötu árið 1977 eða fyrir 35 árum síðan. Textarnir eru þó í fullu gildi, enda lífið skoðað frá sjónarhorni barna og það er klassískt.

Hrekkjusvínin gerðu góðlátlegt grín að þessari sígildu spurningu, „hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðinn stór?“ Og ekki að furða. Því spurningin var ekki, hvað blessuð börnin langaði til að gera  heldur hvað þau ætluðu að verða. Augljósasta og skynsamlegasta svarið er auðvitað að segja „eldri“ eða kannski „gamall“ en það var kannski ekki það sem var verið að fiska eftir. Nei leitað var að því hvaða metnað barnið hefði nú fyrir því að stefna hátt í tilverunni, stefna á ævilangan starfsferil sem skilgreindi einstaklinginn helst yfir gröf og dauða. Enda má finna á legsteinum fólks eða í það minnsta karlmanna, áletranir, s.s. Jón Jónsson fiskmatsmaður, rafveitustjóri, lögmaður eða vélstjóri. Konur áttu sér eðlilegan starfsferil frá náttúrunnar hendi og þurfti sjaldnast að skilgreina þær frekar, kannski helst að þær urðu hjúkrunarkonur eða talsímaverðir. Blessuð börnin þurftu að byrja snemma að hugleiða svör við þessari stóru og mikilvægu spurningu en eitt og annað skipti þó meira máli en bara vilji þeirra. Þau gátu alveg svarað að þau ætluðu að verða löggur eða strætóbílstjórar varð sko ekki alltaf að veruleika. Það skipti máli hver staða og stétt foreldranna var, -átti barnið að taka við úrsmíðaverkstæðinu hans pabba eða var möguleiki á að barnið hefði gáfur til að mennta sig, taka landspróf og læra vélritun eða jafnvel (hamingjan hjálpi mér) að fara í háskóla?

Þessi skilgreining á fólki, samkvæmt ævistarfinu er líklega til marks um það hversu stóru hlutverki vinnan gegndi í lífi fólks. Menn unnu langan vinnudag og frístundir eða fjölskylda höfðu engan forgang,- vinnan var allt. Á legsteina var aldrei ritað, „Jón Jónsson, fyndinn náungi sem lék við barnabörninn, eða „vænsti karl en svolítið blautur“. Reyndar er held ég þessi siður með að tiltaka ævistarf á legsteininn líklega barn síns tíma og fólk er vonandi  hætt  að spá í það eftir andlátið.

Enda er þetta með æviferilinn einnig barn síns tíma. Ungt fólk er tilbúið að breyta um starf eftir því hvað þjónar þeirra hagsmunum best sem er að mínu mati mun heilbrigðara viðhorf heldur en að binda sig í ævilöngu hlutverki sem svo kannski passar ekkert sérstaklega vel í raun. Ungur maður sagði við mig um daginn þegar við ræddum nýja starfið hans, „nú ef mér líkar þetta ekki þá bara hætti ég, -ég er ekki tré“. Það er mikið til í því, við erum ekki með rætur og við getum hreyft okkur til.

Ég er hjúkrunarfræðingur að mennt og að viðhorfi, það er í raun ævihlutverk. Það þýðir hinsvegar ekki að ég ætli mé,r eða að það henti mér, að vinna alltaf við hjúkrun. Ég get gert ýmislegt annað og mig langar að prófa ýmislegt annað. Ég spyr mig enn hvað ég ætli að verða þegar ég er orðin stór og líklega geri ég það ævina út eða ég vona það í það minnsta. Það að hafa unnið í öllum skólafríum og með námi frá unga aldri eins og mín kynslóð gerði, bjó til ótrúlega fjölbreyttan vinnuferil, allt frá því að búa til kassettur og sópa götur til þess að annast aldraða og búa til útvarpsþætti og syngja með hljómsveit.

Hef ég þó aldrei unnið í fiski eða verið í sveit og vantar þar með reynslu í undirstöðuatvinnuvegunum, næ því kannski ekki héðan af. Ekkert verbúðarlíf eða kaupakonuævintýri í minningabankanum mínum en heilmikið af öðru.

En ennþá er ég ekki orðin nægilega stór til að taka þessa loka, risastóru og örlagaríku ákvörðun um framtíðina. Hvað ætla ég að verða þegar ég verð stór?

Ég hinsvegar fann mér fyrirmynd á dögunum þegar ég horfði á þátt með fjöllistakonunni Laurie Anderson sem er allmiklu eldri en ég eða 75 ára gömul en er enn að finna nýja fleti í listsköpun, ennþá forvitin um veröldina og ennþá með ofur-sveigjanlegan huga. Hún er „avant-garde“listamaður, tónskáld, tónlistarkona og kvikmyndagerðarkona, vinnur að gjörningalist, popptónlist og margmiðlunarverkefnum auk þess að vera menntuð í fiðluleik og höggmyndalist. Ég veit ekki hvort hún hefur verið í sveit eða unnið í fiski en það kæmi mér ekki á óvart.

Hún er með frjóan og skapandi huga og það lýsir úr augunum hennar, og engum dylst áhuginn á tilverunni.

Mér finnst að minnsta kosti gott framtíðarplan að verða eldri en ég er, verða alltaf forvitin, laus við fordóma og til í að skoða nýja hluti og ný sjónarmið. Ef mér tekst það þá má gjarna bæta því við á legsteininn,- „Inga Dagný Eydal, gat ekki ákveðið hvað hún vildi verða en hún var alltaf forvitin um lífið“

Svo get ég svarað spurningunni Hrekkjusvína með þeirra eigin lokaorðum „Almáttugur en sú mæða, ég get ekki svarað því. Ferðalangur, fuglahræða, flibbanaut í sumarfrí!“

Elsku kerlingin….

Það er svo merkilegt að ég skuli oft vera sjálfri mér verst þegar ég þarf mest á góðmennsku að halda.

Ég er að tala um dagana þegar orkubirgðirnar bæði þær líkamlegu og andlegu eru í lágmarki og verkirnir mínir jafnvel í hámarki. Þessa daga þegar líkaminn hrópar á hvíld og svefn en ekki verkefni og framkvæmdir. Þessa daga þegar ég finn hressilega fyrir því að vera  komin af léttasta skeiði með fulla bakpoka af allskonar -álagi, vanheilsu, kvíða og sorgum. Og hvað gerist? Jú ég stilli mér upp við vegg og gef mér fullt skotveiðileyfi á sjálfa mig. Og svo upphefst skothríðin.  Ég hef áreiðanlega einhvernvegin komið mér í þessa aðstöðu sjálf með því að:

 • Borða einhverja vitleysu
 • Hreyfa mig of lítið
 • Hreyfa mig of mikið
 • Láta mér verða of kalt
 • Vera of stressuð
 • Vera veiklunduð
 • Vera löt, ímyndunarveik, lélegur pappír……

……og þannig get ég lengi haldið áfram. Ímyndunarafli mínu virðast engin takmörk sett þegar málið snýst um að berja á sjálfri mér. Með yfirveguðum og úthugsuðum höggum sem flest eru undir beltisstað. Aldrei í lífinu myndi ég láta mér detta í hug að kenna öðrum um eigin líðan á þennan hátt, aldrei myndi ég sýna öðru fólk hvílíkan skort á skilningi, samhyggð og kærleika. Og sannarlega veit ég að ég deili þessu með ótal mörgum öðrum, ekki hvað síst kynsystrum mínum.

Gallinn er líka sá að þessi djúpstæða dómharka virkar ekki rass í bala. Maður lemur ekki vanheilsu eða vanlíðan hvorki úr sér sjálfum né öðrum,- það er einfaldlega vond hugmynd.  Í dag vitum við að verkir eru ekki bara skynjun sársauka af líkamlegum orsökum. Verkir eru í raun sálfræðilegt og huglægt fyrirbæri þar sem lífeðlisfræðilegur flutningur taugaboða fléttast saman við tilfinningalega og sálræna þætti. Þeir eru því ekki lengur bara líkamlegir heldur líka sálrænir.

Og við, í endalausri hræðslu við það að vera talin, ímyndunarveik, móðursjúk eða í andlegu ójafnvægi bætum þessum nýju vísindum ofan á gamla uppeldið sem snýst um að vera sterk, dugleg, hörð af okkur og láta aldrei deigan síga.  Úr þessari súpu trúi ég að dómhörkusjálfið eflist gífurlega. Við viljum ekki láta undan verkjum eða þreytu nema fyrir liggi sjáanlegar og mælanlegar orsakir, -orsakir sem hafa í för með sér viðurkenningu lækna og meðferð sem virkar. Annað er óásættanlegt.

Þetta er í raun grátbroslegt þar sem einmitt þessi vitneskja um að verkir séu bæði af líkamlegum og sálrænum toga spunnir ættu einmitt að segja okkur það að hver sem orsökin er þá breytir það ekki upplifun okkar af þeim. Við höfum þá verki sem við upplifum og við þurfum að sýna okkar sálfrænu upplifunum sömu mildi og skilning og þeim líkamlegu. Og hvað er líkaminn að segja okkur þegar við finnum til þreytu? Að við séum löt? Nei sjaldnast. Að við séum þreytt? Já yfirleitt er það orsökin og það breytir litlu þótt við reynum að telja okkur trú um að við eigum ekki að vera þreytt.

Í þeirri samfélagslegu innrætingu að það sé manndómsmerki að bíta á jaxlinn, varð það augljóslega útundan að kenna okkur að þykja vænt um okkur sjálf og sýna okkur góðmennsku og mildi. Það gleymdist alveg að kenna okkur mikilvægi þess að klappa okkur sjálfum á öxlina, að hvetja okkur sjálf og hugsa til okkar af ástúð. Því var ruglað saman við sjálfselsku (sem var bannað) og við gátum jafnvel haldið að við værum „eitthvað“ sem var (og er kannski enn) líka bannað.

En viti menn, ég er eitthvað! Þótt ég gleymi mér alltof oft og detti í gömlu dómaragryfjuna gagnvart eigin vanmætti, þá veit ég samt núna að ég er eitthvað! Ég er 58 ára gömul, hef farið í gegnum allskonar bras og brölt, með sjálfsónæmissjúkdóm, með athyglisbrest og kvíðatilhneigingu en ég er virkilega stolt af þessari konu og mér þykir óumræðilega vænt um hana. Ég óska henni þess að hún hvíli sig oftar og sýni sér oftar mildi og blíðu, ég óska henni þess að vera stolt af sjálfri sér. Bæði líkami og sál er svo sem margstagað og bætt en ég vil bera örin mín með reisn og ég vil vera stolt af þessari konu sem hefur upplifað allskonar í lífinu. Ég ætla vera meðvituð í því að þjálfa upp ástúð og skilning í eigin garð og sættast við ákvarðanir mínar.

Ég veit hversu erfitt það er að byrja á því að horfa í spegilinn og ná sátt við eigin spegilmynd og hversu erfitt það er að fyrirgefa sér það að vera ekki fullkomin. Að geta ekki allt og gera ekki allt en elska sig þrátt fyrir það. En eins og flest annað þá kemur það með æfingunni. Og er sannarlega ekki minna mikilvægt en að hreyfa sig og borða hollan mat og annað sem okkur finnst sjálfsagt. Það að vera manneskja þýðir að við erum flókið samspil af upplifunum, innrætingu, erfðum, taugaboðum, efnaboðum og svo ótal mörgu öðru. Við erum öll einstök og dagarnir okkar eru allskonar. Við erum öll ófullkomin. Sýnum því virðingu og sýnum okkur sjálfum skilning og svolítið af kærleika,- við megum alveg við því.

Af vetri, veðri og frostbólgnum hjörtum.

Hlýtt nýtt ár!

Árið 2021 rann framhjá okkur á fleygiferð líkt og öll ár virðast orðið gera.“Glottir tungl en hrín við hrönn, og hratt flýr stund“ orti Jón Ólafsson fyrir margt löngu síðan og eins gott að kveða fast að þegar álfadansinn er stiginn. Nýtt ár virðist byrja með fullmiklum gassagangi og ótíðindum, veiran sem hefur sett mark sitt á líf okkar allra færðist enn í aukana nú um áramótin þótt sitthvað bendi til þess að um fjörbrot séu að ræða og vetrarveðrin skella á okkur af þunga.  Fréttir af siðblindu og óþverraskap einstaklinga eru samt eiginlega ennþá sorglegri því að þar eru ekki náttúruhamfarir á ferðinni heldur bara meðvitaðar gjörðir ákveðinna hópa sem virðast álíta það vera í lagi að níðast á þeim sem minna mega sín. Ekki skortir þessa einstaklinga greind en virðist þó skorta heilmikið upp á dómgreind og samvisku. Það er vissulega sorglegt.

Vetrarkvíði.

Við erum nefnilega fá og smá sem byggjum þetta land og það væri áreiðanlega farsælt ef þessar fáu hræður kynnum að umgangast hvort annað af samhyggð og virðingu. Bara svona yfirhöfuð og sem oftast. Þá gætum við verið stolt af því að vera Íslendingar.

Ég ætlaði nú samt ekkert að gerast fréttaskýrandi á vondar fréttir. Nei ég ætlaði í byrjun árs að hugleiða aðeins tengslin á milli okkar og náttúrunnar en kannski hljómar það nú eins og sitthvor endinn á sömu spýtunni. Nú er hávetur og vetur á Íslandi eru sannarlega langir og strangir um það þarf ekki að deila. Íslendingar flykkjast til Kanaríeyja á vetrum eins og hverjir aðrir farfuglar því sólaleysi og kuldi gera mörgum lífið býsna erfitt. Ég ætla nú samt að leyfa mér að halda því farm að það séu samt ákveðin forréttindi að fá að upplifa svo sterkar andstæður árstíða eins og við gerum. Á einum og sama deginum getum við upplifað frostkaldar stillur, snævi þakta jörð og stjörnuskin og svo eins og hendi sé veifað er skollinn á bylur og sér ekki út úr augum.

Veður og færð

Við hjónin ákváðum að hlífa flugeldakvíðnum hundinum okkar og leigðum okkur pínulítinn sumarbústað út með Eyjafirði þar sem við dvöldum á nýársnótt. Það var sannarlega dásamlegt, það var stillt og kalt og þar sem engin ljósmengun truflaði hvelfdist yfir okkur stjörnuhiminn og tunglskinið glampaði á snjónum Við fórum snemma að sofa enda engin sérstök ástæða til að bíða miðnættis fyrir okkur og sérlega ljúft að kúra í hlýju og þögn í þessu litla og afskekkta húsi. Um sex leytið var þó friðurinn úti þegar norðaustanáttin bókstaflega skall á húsinu og stormurinn fór að ýlfra og hamast úti fyrir. Við klæddum okkur, tókum saman dótið okkar og ákváðum að renna heim áður en færið versnaði. Samt kom okkur á óvart þegar við komum út hversu fljótt er að fenna yfir vegi og hversu skafrenningur í lausamjöll getur byrgt manni sýn. Við höfum þó búið á norðurhelmingi landsins nær alla okkar tíð. Það er varla að undra að útlendingar á bílaleigubílum trúi ekki að færð og veður geti breyst eins hratt og það gerir.

Þetta getur auðvitað verið miserfitt en taki maður mark á veðurspám ,sem varla eru spár lengur heldur fræði sem vita með nokkurri vissu hvernig náttúruöflin haga, sér, er vel hægt að forðast að láta veðrið skapa sér voða. Við eigum hlý hús, fatnað, góða bíla og góðar skóflur og getum jafnvel brynjað okkur með æðruleysi gagnvart þeirri óumflýjanlegu staðreynd að á Íslandi er vetur í 9 mánuði.  Og þá er ég auðvitað að tala um venjuleg vetrarveður en ekki ógnir s.s. snjóflóð.

En ef við hinsvegar ætlum á annað borð að búa hér áfram þá er eiginlega fremur tilgangslaust að ergja sig á frosti, hríð eða myrkri því það tekur einungis frá okkur orku sem við gætum notið til þess að gera eitthvað skemmtilegra. Eða vitlegra. Við getum til dæmis rifjað upp hvernig sumarið á Íslandi er eiginlega stórkostlegra en önnur sumur af því einmitt að andstæðurnar eru svo stórkostlegar. Andstæður frá svartamyrkri yfir í nóttleysi sumarsins. Hvítt vetrarlandslag breytist í litadýrð í stórkostlegri sumarsinfóníu. Grasið er grænna og sjórinn blárri en þar sem árstíðirnar lulla um í einhverri meðalmennsku. Ísland ætti eiginlega hið mesta sólarland því að hér er sólin okkur svo einstaklega dýrmæt og hjartfólgin.

Frostbólgur

Ég segi ekki að einstaka sinnum á vetrum finn ég til þess að gaman væri að geta farið berfættur á sandölum út í göngutúr eða bara gengið upprétt og frjálsleg í fasi en ekki staulast um í sífelldri hálku og fallhræðslu. En bara stundum, svona þegar að það er sérstaklega erfitt að þreyja Þorrann og Góuna. Annars er ég búin að læra að klæða af mér kuldann enda orðin gigtarskrokkur og ekki lengur hégómleg gagnvart síðum nærbuxum og ullarsokkum. Ég man þá tíð að gallabuxur voru vetrarklæðnaður og maður var alltaf kuldabólginn á fótunum. Þegar maður svo kom inn úr frostinu í þá daga þá tók við ofsakláði og hiti í frostbólginni húð…en þótti ekkert sérstakt tiltökumál. Kannski ekkert skrýtið að maður sé gigtveikur í dag.

Mér sýnist að við gætum okkur að meinalausu eytt minni tíma í það sem er ekki í okkar valdi að breyta líkt og veðrinu á Íslandi,  en eytt meiri tíma þegar að því kemur að ala hér upp kynslóðir af réttsýnu og samheldnu fólki. Ekki fólki með krónískar frostbólgur í hjartanu, það er svo einstaklega óspennandi. Jafnrétti þýðir svo miklu meira en bara sömu laun fyrir sömu vinnu eða einhverjir kynjakvótar.Jafnrétti er djúp sannfæring um að allar manneskjur verðskuldi sömu virðingu og reynslan er að sýna okkur núna að við þurfum að vanda okkur meira á því sviði. Notum tímann vel í að kenna börnunum okkar og barnabörnum um siðferði og jafnrétti þannig að sagan um ríku kallana sem misnota stöðu sína og niðurlægja aðrar manneskjur þurfi ekki að endurtaka sig.

Gleðilegt ár og haldið endilega á ykkur hita.