Hvenær er það sem maður skrifar og birtir umheiminum, of persónulegt? Er hægt að skrifa eitthvað án þess að það sé persónulegt? Er mikilvægt að deila með öðrum því sem maður hefur upplifað og skiptir það einhverju máli? Allar þessar spurningar hafa farið um huga minn í dag þegar ég var að velta vöngum yfir því hvort ég ætti að skrifa um dætur mínar þær Pálínu og Guðfinnu, sem ekki fengu að verða fullburða börn en fæddust andvana á miðri meðgöngu. Að hugsa um þær og atburðarásina í þau tvö skipti sem ég þurfti að ganga í gegnum slíka fæðingu. Ekki til að velta mér upp úr því um aldur og æfi en það er vissulega hluti af minni vegferð og er mér hjálp í viðleitni til að horfast í augu við sjálfa mig Gæti það hugsanlega hjálpað einhverjum öðrum er það gott.
Á þeim átján árum sem liðin eru frá því að systurnar fæddust, önnur í febrúar og hin í október, árið 1999, hefur auðvitað mikið breyst. Umræðan hefur opnast, fólk er ófeimnara við að tjá sig, við að syrgja og fær vonandi miklu meiri viðurkenningu á tilfinningum sínum. En líklega er það alltaf til góðs að lesa um upplifun annarra og uppgötva e.t.v. að tilfinningarnar eiga sér samhljóm hjá öðrum foreldrum sem staðið hafa í sömu sporum. Því ætla ég að setja hér inn vangaveltur um tilfinningarnar sem ég upplifði og sem sannarlega settu marki sitt varanlega á mig.
Kannski verður þessi pistill ekki langur, ég hef ekki reynslu í því að skrifa um slíka atburði. Veit í raun ekkert hvort ég get skrifað einhverja rökræna frásögn með samhengi um þetta. Atburðarásin í kringum fæðingar dætra minna er þó óafmáanlega greypt í hugann minn og ég get í raun rifjað upp sérhvert smáatriði,- eins og í kvikmynd. Þegar ég missti allt legvatnið í vinnunni á sjúkrahúsinu,- vissulega mjög óþægilegt augnablik, en ég sagði engum frá, heldur tók bara lyftuna upp á kvennadeild í rennblautum hjúkkufötum og rennblautum skóm. Ljósmóðirin sem spurði mig, þegar ég var komin með háan hita og köldu og hætt að finna hreyfingar barnsins míns, hvort ég væri ekki bara svona stressuð, erfiðið við að fara í gegnum fæðingu með 40 stiga hita, geisladiskurinn með píanólögunum sem ég hlustaði á andvökunæturnar á spítalanum….upptalningin er endalaus.
Seinna skiptið aðeins nokkrum mánuðum síðar þegar allt átti að vera í fínu og fullkomnu lagi en var það bara alls ekki. Ég fór í gönguferð í fallegu haustveðri og allt í einu voru belgirnir komnir niður og greinilegt að fæðing var komin af stað. Þá varð ég ekki eins mikið veik og í fyrra skiptið, alveg skýr í höfðinu og ákaflega meðvituð um hvað væri að gerast. Litla krílið hélt áfram að sparka fjörlega til hins síðasta, jafnvel þótt að allt væri henni andstætt og hríðarnar lemdu endalaust á okkur mæðgum. Þá var ég búin að halda aftur af fæðingunni með einbeittum viljastyrk í nokkra daga og þurfti ekki annað en að slaka á spennunni og þá fæddist barnið mitt. Ég fékk hana í fangið, hún gerði tilraunir til að draga andann nokkrum sinnum en svo varð hún kyrrlát í fanginu mínu og öllu var lokið,- aftur. Ég grét svo mikið að ég sá varla út úr augunum, ég gat bara ekki trúað að guð eða einhver sá sem réði, væri svona óstjórnlega grimmur og óréttlátur, að taka af okkur annað barn á einu ári. Við sem höfðum reynt í 13 ár að eignast barn, við sem vorum tilbúin til að elska barn, -elsku besti stóri bróðirinn sem fékk ekki að verða stóri bróðir. Allt var þetta svo andstyggilega vont og ég var svo reið. Þegar ég kom heim tók ég ungbarnateppið sem ég hafði verið að prjóna, fór með það út í ruslatunnu, henti því ofan í og skellti lokinu aftur eins fast og ég gat, – en það linaði reiðina lítið.
Síðan hef ég lært að lífið er hvorki réttlátt, né óréttlátt, lífið bara er. Það tekur ekki afstöðu til þess hvað er sanngjarnt eða rétt, slæmir hlutir henda gott fólk og gæfa og gjörvileiki fer sannarlega ekki alltaf saman. Eða mér sýnist þetta vera þannig. Lífið fer sínu fram, það valtar yfir okkur og það eina sem við getum gert er að reyna að taka sérhverja lífsreynslu og draga af henni lærdóm. Því er reiðin líklega gagnslaus eða í öllu falli áhrifalaus, en við verðum samt reið. Og við megum vera reið. Börnin okkar eiga að lifa það af að fæðast og það sem meira er, þau eiga að lifa okkur. Það er lítil huggun í því að börn sem ekki fá að lifa, sleppi við hörmungar lífsins, þau lendi ekki í styrjöldum og sorgum- þau verði ekki flóttamenn. Sársaukinn grefur sig í líkamann sem man hann eins lengi og við lifum Það er okkur eðlislægt að syrgja afkvæmi okkar
Börn sem fæðast eftir 20 viku meðgöngu eru líka af ýmsum orsökum orðin ákaflega minnisstæð. Fóstureyðing kemur ekki til greina jafnvel þótt vitað sé að barnið sé andvana, fæðing verður það að vera. Og barnið sem fæðist lítur út eins og agnarsmá útgáfa af fullþroska barni, augun eru lokuð en allt er svo tilbúið. Fullkomið barn með neglur, litlar hendur, tásur, nef og munn. Húðin þunn og gegnsæ eins og pappír en jafnvel þá er hægt að sjá hverjum barnið líkist. Við gáfum dætrum okkar nöfn og við settum þær í litlar kistur, sungið var yfir þeim og þær lagðar til hvílu hjá afa sínum. Annað var óhugsandi.
Þær lifa með okkur alltaf og á hverju ári rifjast upp hversu gamlar þær væru núna. Sorgin er orðin mjúk en það gerðist ekki fyrr en ég horfðist í augu við sársaukann. Við getum ýtt sársaukanum til hliðar, falið hann og kæft en hann býr með okkur og heldur áfram að vera sár þar til að við viðurkennum hann og hlutdeild hans í lífinu.
Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér
Takk fyrir þína fallegu pistla Inga.
LikeLiked by 1 person