Nærvera sálar

baby-teddy-bear-cute-39369.jpegHún litla systir mín er kennari við leikskóla þar sem ávarpsorðin „kæri vinur” og „kæra vinkona” eru notuð í öllum samskiptum. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá hvernig það eitt og sér getur ýtt undir andrúmsloft virðingar og vináttu. Það er eitthvað mjög rangt við að kalla einhvern “kæra vinkona” og vera jafnframt súr og pirraður. Slík lífsleikniverkefni bæði hjá leikskólabörnum og þeim sem eldri eru skipta miklu máli, og ekki hvað síst að vera fyrirmynd barnanna okkar í þeim dyggðum sem við viljum að þau tileinki sér. Að kenna þeim að lesa bæði í eigin tilfinningar og annarra, kenna um vináttu, glaðværð, hófsemi, kærleika….allt það sem fær okkur til að koma vel fram við aðra.

Lífsleikni var ekki kennd formlega í minni skólagöngu en sannarlega fengum við fræðslu um dyggðir og mikilvægi þess að vera góður við annað fólk- bæði heima og í skólanum og yfirleitt í uppeldinu. Stundum var skotið yfir markið, sumt fór inn um annað og út um hitt, sumt týndist í áranna rás en vonandi hefur eitthvað skilað sér til góðs.

Stundum efast ég samt stórlega um það, og mest þegar mér verður það á að lesa athugasemdir í vefmiðlum. Þar er áherslan á menn en ekki málefni og verk manna breytast í þá sjálfa. Þeir sem á einhvern hátt eru þekktir og eru fréttaefni verða gangandi skotmörk fyrir skítkast og persónulegar svívirðingar og guð hjálpi þeim ef þeir eru í almannaþjónustu svo sem stjórnmálum. Það er eins og eitthvað hafi gerst í höfðinu á okkur þegar okkur varð frjálst að birta skoðanir okkar hvar og hvenær sem er og við gleymum að ritstýra orðunum okkar, við gleymum því að gæta hófsemi og við gleymum því að við erum að tala um,- og við alvöru manneskjur af holdi og blóði. Við getum ekki lengur rætt að einhver sé langorður, hafi ekki kynnt sér málin nægilega vel, hafi ekki vandað sig, -nei nú er viðkomandi einfaldlega fífl eða eitthvað þaðan af verra.

Nú má ekki misskilja mig,- ég er sko aldeilis ekkert stikkfrí. Ég gleymi mér og tala stundum niðrandi um fólk,- af því að ég er pirruð og nenni ekki að vanda mig. Ég veit alveg hvernig ég vil vera,- en man ekki alltaf eftir að vera það.

Sjálfsagt fer mér líka eins og mörgum öðrum, við greinum ekki alltaf línuna á milli þess að standa með okkur sjálfum og þess að traðka á næsta manni. Pabbi minn sagði stundum „frelsi mitt nær að nefi næsta manns” og það er mikill sannleikur. Frelsi mitt til að láta í ljós skoðanir nær ekki lengra en að því að ég meiði ekki aðra. Ég meira að segja er stundum hissa á því þegar mínar, að því ég tel „málefnalegu” skoðanir móðga einhvern annan og yfirleitt er það vegna þess að ég gleymi að setja þær fram á mildan hátt….ég gleymi að segja „kæra vinkona”og „kæri vinur” og viðhef brussugang í samskiptunum.

Ástæðan fyrir því að ég fór að hugleiða þetta allt með lífsleiknina og dyggðirnar var viðtal sem ég hlustaði á í hádegisfréttum dagsins við stjórnmálamann sem hafði ákveðið að gefa ekki kost á sér lengur en setja heilsu sína og fjölskyldu í fyrirrúm. Hann taldi það umhugsunarefni hversu fólk staldraði stutt við í stjórnmálum dagsins í dag og taldi jafnvel að harka umræðunnar hefði sitt að segja þar um. Ég er algjörlega sammála honum og held að við séum að tapa mörgum góðum einstaklingum út úr stjórnmálum. Fólk með hugsjónir og löngun til að vinna samfélaginu sínu gagn, gefst upp og brotnar niður fyrir harkalegri umræðu og persónulegu skítkasti. Og þá sitjum við uppi með hörkutólin sem eru fyrir löngu búin að forherða sig vandlega og hafa allt aðra hagsmuni en fyrrnefndar dyggðir að leiðarljósi. Þeirra hagsmunir eru ekki ekki okkar hagsmunir.

Kæru vinir, vöndum okkur!

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s