Hamingjuskottið-erindi flutt á málþingi “Blæbrigði lífs og dauða” á Akureyri 26.maí 2018.

 

(Kristín Sólveig Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur hélt málþingið í tilefni af fimmtugsafmæli sínu á árinu. Það var haldið til styrktar stríðshrjáðum börnum í samvinnu við Unicef)

Hamingjan er undarlegast af þeim gyðjum gerð,

sem gista veröld bitra.

Snauðir bæði og ríkir, geta hlotið hennar fylgd,

og heimskur jafnt þeim vitra.

 

En jafnan, ef þú reynir að rekja hennar spor,

hún reifast þokumekki,

en leggur krók á veg sinn að leita uppi þann

sem leitar hennar ekki.

 

Hún fánýt virðist öllum, sem hún fylgispökust er.

Það fer svo margt í vana.

Hamingjuna lofar sá einn í fjöldans för,

sem fer á mis við hana.

 

Komið þið öll sæl og til hamingju með lýðræðið og þennan dag og þessa góðu hugmynd kæra Kristín.Ljóðið sem ég las upp í byrjun um hamingjuna sem allir leita, er eftir Kristján frá Djúpalæk.

Hamingjan var honum gjarnan yrkisefni og hamingjan er líka efni sögunnar sem ég ætla að segja ykkur. Sagan er mín eigin, og er svo sem ekkert merkilegri en allra annara sögur. Kannski er líka dálítið sjálfmiðað að ætla að tala eingöngu um sjálfan sig en það er nú einu sinni þannig að ég þekki sjálfa mig betur en nokkurn annan og ég vil helst tala um það sem ég þekki vel. Ennfremur finnst mér mikilvægt að tala um ýmislegt í lífinu sem ég hefði líklega skammast mín fyrir að ræða áður. Það er hluti af minni vegferð og mínum bata að deila mér og minni sögu með ykkur og það er að mínu mati mikilvægt að við göngumst við okkur sjálfum að öllu leyti en viðurkennum ekki bara það sem vel gengur. Annars sættum við okkur bara við hluta af eigin sjálfsmynd.

Einu sinni og ekki fyrir svo löngu síðan, hélt ég að ég væri nagli. Ég var í nokkuð góðri stöðu, hafði mannaforráð og ágæt laun, svona miðað við konur á mínum aldri, ég hafði háskólamenntun og mér gekk vel í starfi. Mér fannst ég oftast hafa rétt fyrir mér og hafði það örugglega stundum, en líklega ekki eins oft og mér fannst.

Yfirhöfuð átti ég þó farsælt líf og gekk vel í því sem ég tók mér fyrir hendur. Ég var bara ekkert sérstaklega hamingjusöm. Ég var og er þakklát fyrir að eiga góða fjölskyldu og góðan son en ekki einu sinni það færði mér hamingjuna sem ég leitaði að. Mér fannst ég oft vanþakklát að líða svona og reyndi að kyngja vansældinni en það gekki ekki nógu vel.

Í hjartanu var tóm sem ekkert virtist ná að fylla, ekki frami, laun, ferðalög, flutningar eða annað fólk. Sjálfsmyndin mín var alls ekki sterk og mér fannst ég eiginlega aldrei standa mig nógu vel í neinu. Ég var þó dugleg að eigin mati og annarra, ég vann mikið og ég hafði sko farið á hörku og hnefa í gegnum ýmis áföll í lífinu enda var ég nagli.

Sum þessara áfalla sneru að því að lífið rændi mig ástvinum mínum eða það sem mér fannst erfiðast, börnunum mínum sem ekki fengu að fæðast til lengra lífs, -og stundum bara vonum mínum og væntingum. Síðan hef ég lært að lífið er hvorki réttlátt, né óréttlátt, lífið bara er. Það tekur ekki afstöðu til þess hvað er sanngjarnt eða rétt og slæmir hlutir henda gott fólk. Eða mér sýnist þetta vera þannig. Lífið fer sínu fram, það valtar stundum yfir okkur og það eina sem við getum gert er að reyna að taka sérhverja lífsreynslu og draga af henni lærdóm. Það gerir maður ekki með því að vera nagli.

Svo voru hinsvegar áföllin sem stöfuðu af mínum eigin röngu ákvörðunum. Áföllin sem urðu þegar ég uppgötvaði að þessi veika sjálfsmynd mín hafði gert mér grikk og ég hafði lagt lífið mitt í hendur fólks sem vildi mér alls ekki vel. Fólks sem þreifst á einstaklingum eins og mér enda fársjúkt sjálft. Og ég þráði sárlega viðurkenninguna sem ég hélt að fælist í þessum samböndum, enda var fátt auðveldara en að sannfæra mig um að ég gæti verið björgunarbátur og félagsmálastofnun allt í einni manneskju. Það er ekkert erfitt að sannfæra þá sem eru ákafir í að trúa lyginni og það er heldur ekkert mál að notfæra sér fólk sem hefur slaka og brothætta sjálfsmynd. Svoleiðis áföllum fylgir skömm og viðleitni til að leyna mistökum sínum. Enda var ég jú nagli og þeir gera ekki mistök.

Þetta er mjög stutt útgáfa á sögunni af leitinni minni að hamingjunni. Leit sem gekk bara ekki vel þrátt fyrir dugnaðinn og eljuna. Samböndin mín við annað fólk voru viðkvæm og oft erfið, mér fannst lífið skulda mér eitthvað sem ég vissi ekki hvað var. En ég átti ágæt og viðurkennd svör við hinum klassísku íslensku spurningum „hvað gerir þú'” og „er ekki brjálað að gera?” þannig að þetta var allt að sleppa fyrir horn. Það var jú brjálað að gera! Svo ég bara gerði, eins og svo alltof margir gera, ég beit á jaxlinn og vann bara meira.

Svo gerðist það um miðjan aldur að ég bar gæfu til að kynnast góðum og ljúfum manni sem var tilbúinn til að halda utan um þessa brothættu konu í öllum kringumstæðum lífsins. Hann var líka alveg til í, að þykja vænt um mig nákvæmlega eins og ég var og var eiginlega alveg sama um hvaða hlutverkum ég gengdi og hvaða frama ég hafði hugsanlega hlotið. Og þrátt fyrir að vera örugg í samskiptum við þennan mann, manninn minn, eða kannski einmitt þess vegna, liðaðist ég í sundur ein góðan annríkisdag Öll áföllin sem fyrr máttu ekki trufla dugnaðinn og metnaðinn skullu á af fullum þunga og af því að skelin harða var horfin varð ég einfaldlega fárveik á sál og líkama. Vinnuþrekið hvarf og á einu ári hafði ég glatað starfinu mínu, og félagslegri stöðu að mestu leyti. Ég varð kona sem var alls enginn nagli lengur. Eg varð kvíðin, félagsfælin og einkenni frá taugakerfi s.s. verkir og ýmis konar vanlíðan urðu mitt daglega brauð. Stjórnandaferillinn fór í vaskinn og allir boltarnir sem ég hafði haldið á lofti hrundu niður með braki og brestum. Það eru tvö ár síðan þetta gerðist. Ég vann lengi með skömmina sem tengist því að vera ekki sú „duglega” og þurfa að verða „þiggjandi” af samfélaginu en ég fékk góðan stuðning og umhyggju frá mínum nánustu til að vinna mig hægt og rólega upp úr allra dýpsta dalnum og þangað sem ég er núna.

Hlutirnir gerast hinsvegar ákaflega hægt í þessu ferli. Enn er ég ekki vinnuhæf á hefðbundinn mælikvarða, orkan er lítil og streituþolið enn minna, fullkomnunaráráttan þvælist fyrir mér, ég hef ekki getað stundað fasta vinnu og orkan fer eiginlega öll í að troða marvaðann og halda mér á floti.

Þrátt fyrir þetta geri ég heilmikið, bara á allt öðrum og nýjum forsendum og á annan hátt. Núna finn ég þrátt fyrir allt hamingjuna mína á hverjum degi, hún felst í því að njóta lítilla hluta, hún er í einverunni og hún finnst í náttúrunni og gönguferðunum mínum með hundinn okkar. Hún er í góðu fólki sem hefur hjálpað mér að rétta úr bakinu aftur, í fanginu á manninum mínum, -í nýbökuðum vöfflum með rjóma, moldrarilm í rigningu og meira að segja köldu íslensku vori. Hún býr í börnunum okkar og barnabörnunum og þeirri vitneskju að þau eru hamingjusamar og góðar manneskjur. Hún felst í því að senda þeim kærleik og ljós sem búa við skelfilegar aðstæður í veröldinni en líka í því að vera þakklát fyrir þó þetta friðsæla horn heimsins sem ég fékk að fæðast á. Hamingjan býr núna í sjálfri mér og ég er auðmjúk gagnvart þeirri staðreynd.

Ég get sannarlega ekki bjargað heiminum og ég hef ekki einu sinni orku til taka þátt í baráttu fyrir jöfnuði og réttlæti hér heima eins og ég hefði gjarna viljað. Áföllin munu koma, af því að lífið er þannig, ég er ekki heil heilsu og vissulega kvíði ég stundum því sem verður. Ég get ekki gert nema brot af því sem ég myndi vilja og það sem mér svíður stundum sárast, það sem öðrum finnst að ég ætti að geta. En ég get skrifað og lesið og talað og ég get reynt að vera mínum nánustu einhvers virði. Iðja er ekki bara föst og launuð vinna og ég er sannarlega ekki iðjulaus, meira að segja þannig að manninum mínum finnst ég megi alveg finna mér þó nokkuð meiri tíma til hvíldar og slökunar. Á hverjum degi þarf ég einmitt að vanda mig við að finna jafnvægi á milli hvíldar, iðju, æfinga, og slökunar eins og ég hefði kannski alltaf átt að gera.

Stóra verkefnið mitt er samt að rækta áfram þá hamingju sem á ekkert skylt við heilsu, frama eða aldur. Hamingju sem þarf ekki annars við en hugsanlega að geta gengið út í garð í fullkomnum friði og hengt upp þvott á snúrur eða farið að sofa sátt eftir góðan dag. Það er skrýtið að finna þessa ró í hjartanu sem ég leitaði svo lengi mitt í vanheilsu, blankheitum og erfiðleikum en kannski sannar það að hamingjan er viðhorf, viðhorf sem skapast af sátt við það sem er og verður.

Auðvitað hafa aðrir komist að þessu á undan mér. Ég leyfi mér að vitna í Önnu Valdimarsdóttur sálfræðing sem segir í grein sinni um hamingju og ást: „Hamingja og ást spretta af lifandi, virkum huga. Þótt yfirleitt sé talað um virkni eða dugnað sem birtist í sýnilegum athöfnum er virkni miklu meira en ytri athafnasemi. Virkni birtist líka í lifandi huga sem hugsar djúpt, nýtur til fulls og brýtur viðfangsefni sín til mergjar. Því getur sú manneskja verið mjög virk sem situr og les sama ljóðið aftur og aftur þótt athöfn hennar leiði ekki til sýnilegrar nytsemi.”

Og hún Anna bætir við.

„Ekki má setja jafnaðarmerki milli þess að vera virkur og þess að vera alltaf að. Manneskja sem er önnum kafin og gefur sér varla tíma til að setjast niður getur virst afar dugleg og virk. En ekki er víst að athafnasemi hennar komi til af góðu.”

Mín athafnasemi kom sannarlega ekki alltaf til af góðu. Oft var hún bara afleiðing af fullkomunaráráttu og oft bara óhemjugangur. Enn þarf ég stundum að taka mig á og hægja nægilega mikið á mér til að brjóta viðfangsefnin mín til mergjar. En ég er að æfa mig og ætla mér að halda áfram að ná í skottið á hamingjunni eins oft og ég mögulega get.

Um leið og ég óska ykkur þess að halda rígfast í ykkar hamingjuskott hvar sem þið grípið þau og þakka fyrir að fá að taka þátt í afmælinu hennar Kristínar þá vil ég enda á orðum ljóðskáldsins Kamand Kojouri frá Íran.

Gleymdu rödd þinni, syngdu!

Gleymdu fótum þínum,dansaðu!

Gleymdu lífi þínu, lifðu!

Gleymdu sjálfum þér og vertu!

carefree cheerful child daisies
Photo by Pixabay on Pexels.com

 

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s