Konur sem taka rangar ákvarðanir

Jæja enn er ég stödd í fylki hinna grænu fjalla í Trumplandi og eyði dögunum með sonarsyni mínum. Mamma hans vinnur langar vaktir á spítalanum sínum og pabbi hans er að vinna við sjónvarpsútsendingar í Kaliforníu og því eru dagarnir okkar oft ansi langir. Því hef ég horft mun meira á sjónvarp en ég The-Mindy-Project-Promo-Saison1-2er vön og má segja að um hámhorf sé að ræða eða „binge watching” eins og það er kallað. Það er að segja, ég hef „dottið” í seríur af sjónvarpsþáttum eins og t.d. „The Mindy Project” þætti um konu, kvensjúkdómalækni af indverskum ættum á Manhattan og svo nú síðast „Shrill” sem eru nýjir þættir um blaðakonu í yfirþyngd sem fer að skoða sjálfsmynd sína upp á nýtt eftir margra ára baráttu við aukakílóin. Sameiginlegt með öllum þessum þáttum sem teljast gamanþættir með sterkum kvenkyns aðalpersónum, er mikil áhersla á kynlíf eða allavega finnst mér það en kannski er ég lituð af mínu uppeldi og minni miðaldra tilveru. Kannski bara er þetta svona núna að allir eru ýmist að hugsa um eða tala um kynlíf, hvað veit ég?  Þetta gæti líka alveg haft með það að gera að þær eru konur, eflaust er ég líka fordómafull hvað það varðar. Ég þarf að vinna betur í þessu.

Annað sem gerir það að verkum að ég verð nokkuð pirruð á þessum seríum, er það að konurnar í þeim eru stanslaust að taka rangar ákvarðanir. Aftur og aftur, lenda þær í sama bullinu sem oftast nær snýst um sambönd þeirra við karlmenn, val þeirra á kærustum, meðvirkni þeirra og hvernig þær gefa lúserum og skíthælum fullkomið leyfi til að traðka á sjálfum sér, klárum og vel menntuðum konum.  Þessir þættir eru auðvitað framleiddir hér í Trumplandi sjálfu og það má auðvitað segja sem svo, að þar sem neysluhyggju  og yfirborðsmennsku er gert svo hátt undir höfði er áreiðanlega erfiðara fyrir konur að standa með sjálfum sér en víða annarsstaðar. Allavega á ég mjög erfitt með að fyrirgefa þessum persónum þetta veiklyndi og kvenlegu undirgefni sem þarna birtist.

Svo er spurningin hvort þetta pirrar mig svona mikið af því að ég hef í gegnum tíðina gert mig seka um nákvæmlega þetta? Að taka rangar ákvarðanir um það hverja ég á að elska og annast, og ekki bara af og til heldur aftur og aftur. Ég er líka kona sem telst greind og vel menntuð og jafnvel með ýmsa aðra kosti en hef látið útlitskomplexa og slaka sjálfsmynd verða til þess að ég hef gefið afslátt af sjálfri mér,- og farið langt undir raunvirði. Alveg nákvæmlega eins og þessar konur og kannski er það nákvæmlega boðskapur þáttanna. Að það verður aldrei nóg að hafa jöfn tækifæri til menntunar og launa ef við konur, getum ekki hysjað upp um okkur sjálfsmyndina og hætt að biðja afsökunar á því að vera til. Allavega langar mig mjög mikið til að ungar konur geri betur en ég hvað þetta varðar (og ýmislegt annað).

Við eigum að umfaðma mistökin okkar og fyrirgefa okkur rangar ákvarðanir,- eða svo er sagt. Gott og vel, ég viðurkenni að það er mjög æskilegt en það er samt ótrúlega þreytandi þegar maður sjálfur (eða persónur í sjónvarpsþáttum), gera sömu mistökin æ ofan í æ. Maður dettur sjö sinnum í sama pyttinn áður en manni dettur í hug að krækja fyrir hann. En auðvitað er þetta flókið. Eina örugga leiðin er kannski sú að hætta bara að taka slíkar ákvarðanir en það er jú það sama og hætta að lifa lífinu og það er lítið skemmtilegt.

Þegar ég kynntist núverandi manninum mínum hafði ég í raun allar forsendur til að setja handbremsuna á og segja „hingað og ekki lengra, nú verða ekki gerð fleiri mistök”. Það gerði ég ekki, ég tók sénsinn á því að innsæið væri ekki að svíkja mig og að nú þyrfti ég ekki að „elska manninn í lag”, (nokkuð sem við konur eru snillingar í að trúa að sé hægt ). Guði sé lof fyrir kjarkinn sem ég sýndi þar, stundum er mikil gæfa fólgin í því að vera kjánalega hugrakkur. Maðurinn minn er bara í góðu lagi, hann er ekki fullkominn en ég þarf aldrei að gefa afslátt af sjálfri mér. Og það skiptir öllu máli.

Á morgun ætla ég ekkert að horfa á fleiri seríur, nú er þetta orðið gott í bili. Amma á eftir að lesa nokkrar bækur fyrir drenginn og lita handa honum nýja mynd á vegginn hans og þá þýðir ekkert að liggja í sjónvarpsglápi. Þessar konur verða bara að gera mistökin sín upp á eigin spýtur án þess að ég sé að fylgjast með enda dugar mér alveg að fyrirgefa sjálfri mér eigin mistök. Ég mun nota síðustu dagana hér til að rækta góðu samböndin í lífinu og hlakka til að koma heim.worth-amy

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s