Að una öðru fólki.

Nú höfum við verið í hinu græna og skógi vaxna Vermont fylki í Banaríkjunum í tvær vikur. Aðallega að passa barnabarnið en líka að njóta þess að kynna okkur land og þjóð. Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla en fjarlægðin setur líka stundum hlutina í samhengi og leyfir á þeim nánari skoðun.

Núna sitjum við hjónin og horfum út um stofugluggann heima hjá syni mínum og tengdadóttur. Þar eru gatnamót og á þeim er eins og algengt er hér, stöðvunarskylda úr öllum fjórum áttum. Það þýðir að sá sem kemur fyrstur á fyrsta rétt, sá sem kom næstur á rétt númer tvö, osfrv. Og það sem er svo merkilegt að mati okkar hjóna, þetta svínvirkar! Hér er umferðin yfirveguð, menn eru kurteisir og tillitssamir, og þetta með stöðvunarskylduna margföldu virkar svo vel að stundum virðist enginn ætla að taka af skarið. Og þetta er risastór þjóð þar sem hjól atvinnulífs snúast hratt og menn eru bara nokkuð mikið að passa upp á tímann sinn. Þetta snýst sko alls ekki um að hér liggi allir í hengirúmum með hasspípur, nei aldeilis ekki, ekki einu sinni í Vermont. Á Íslandinu góða dugar varla að hafa stöðvunarskyldu yfirleitt, menn eru yfirleitt að flýta sér of mikið til að gera meira en hægja líttilega á sér, ef þá það. Við erum líka yfirleitt of mikið að flýta okkur til að hanga á eftir einhverjum útlendingum eða gömlum köllum með hatta á þjóðvegum landsins og reynum ákaft að græða einhverjar mínútur í áhættuatriðinu sem kallast framúrakstur. Og þó eigum við nóg pláss og enginn á sérstaklega langt að fara í vinnu.

dog on concrete road

Við erum sannarlega í Trumplandi þessa dagana, firring, vopnaburður, stríðsrekstur og skotárásir er það sem við heyrum af á hverjum degi og einhvernveginn finnst manni að þessir hlutir hljóti að móta hugarástand fólks hér á einhvern hátt. Sem það líklega gerir en það er eitthvað sem við finnum lítið fyrir í okkar daglega vafstri í hinu græna ríki sem reyndar er þekkt fyrir frjálslyndi. Bara í dag, daginn sem Pence heimsótti Ísland höfum við hitt fólk sem hefur beðið okkur þess lengstra orða að senda hann ekki til baka.

Hverfið þar sem okkar fólk býr, er sannarlega fjölbreytt, hér búa flóttamenn, Sómalíumenn, fólk frá Nepal, svartir, hvítir, fjölskyldufólk upp til hópa en efnin eru ekki mikil. Sjoppan á horninu fengi ekki endilega leyfi frá íslenskum heilbrigðiseftirlitsmönnum en þar má kaupa, franskar, ís og kannabisolíu jöfnum höndum. Flestir þeir sem ganga fram hjá húsinu, heilsa glaðlega, sitji maður úti á veröndinni og allir spjalla, tala nú ekki um þegar við erum með barnabarnið úti í kerru. Víða má finna skilti á mörgum tungumálum sem benda á að sama hvaðan viðkomandi komi, þá sé hann velkominn í nágrennið og skiltin „Black Lives matter” eru víða. Einhver samfélagsvitund ríkir hér sem hefur ekkert að gera með pólitík, Trump eða sorglegan skort á opinberum stuðningi við þá sem standa höllum fæti.

Þessi samfélagsvitund endurspeglast líka í því að fólki hér virðist þykja á einhvern hátt eðlilegra en okkur að hjálpast að.  Ýmislegt sem tengist velferð og menningu kemur frá góðgerðarstarfsemi og svo er hjálpsemi við meðbræður og granna er algeng.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ýmislegt í þessu stóra ríkjabandalagi er skakkt og skrýtið á okkar forsendum og elur t.d. af sér einstaklinga sem beita vopnavaldi af mikilli grimmd. En í fullkominni andstæðu elur það líka af sér friðsama og glaðlynda þjóð sem lætur hverjum degi nægja sína þjáningu og vinnur saman sem samfélag eins og dæmið um stöðvunarmerkin sýnir.

Við getum lært af Bandaríkjum Norður-Ameríku heilmikið um hvernig við eigum ekki að gera, en líka eitt og annað um það hvernig hægt er að vinna saman sem samfélag a.m.k. af hinum frjálslyndu fjallabúum Vermont.

En svo hlökkum við mikið til að koma heim.

wooden houses in green field under white skies

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s