Kornflex við kvíða

Kornflex var vinsæll morgunmatur bernskuáranna.

Fyrir réttu ári síðan lá ég á gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri eftir stóra og bráða aðgerð. Var mjög meðtekin og líkamlega lasin en bjartsýn og upprifin á sálinni, þess fullviss um að nú væri það versta búið og innan skamms yrði ég komin heim. Auðvitað vissi ég lítið um það þá að veikindin væru á upphafsreit og að næstu sex vikur yrði ég að á sjúkrahúsi á Akureyri og í Reykjavík. Vissi ekki að ég fengi nýrnabilun, að ég fengi brisbólgu, að ég færi í sex tíma aðgerð með biluðu speglunartæki, að ég færi í sjúkraflugvél,- að ég ætti eftir að vera marga mánuði að ná þreki og orku, finna til og geta hvorki sofið né nærst.  Sem betur fer vissi ég ekkert af þessu fyrirfram. Oftast er okkur nóg að setja annan fótinn fram fyrir hinn á degi hverjum og vita sem minnst um það hvað hið óútreiknanlega líf ætlar okkur daginn eftir. Því það er auðvitað þannig að þó við skipuleggjum tilveruna með reglustiku og reiknivél á lofti þá hlær lífið að öllum slíkum tilraunum og skellir á okkur óvæntum uppákomum, og þeim ekki öllum skemmtilegum. Því er lífsgaldurinn kannski sá að plana mátulega mikið, búast við því besta en fá ekki áfall þegar lífið skellir á okkur óvæntum hælkrók.

Það er hinsvegar ekki einfalt og því erum við kannski öll haldin eðlilegum lífskvíða, kvíða sem helgast af því að við vitum barasta miklu minna um framtíðina en við myndum vilja og getum lítið gert í því nema að spenna beltin og reyna að njóta ferðarinnar. Sem er jú erfitt þegar að maður er kvíðinn og því er í besta falli flókið að vera manneskja!

Sem betur fer er lífið auðvitað að koma okkur þægilega á óvart líka, með óvæntum gleðilegum atburðum, -ástin birtist okkur, börn verða til og fæðast, við eignumst nýja vini, sólin skín og hlutirnir ganga jafnvel betur en við þorðum að vona. Þá er mikilvægt að kunna að gleðjast og njóta þessara stunda og hugsa sem minnst um það sem gæti verið framundan. Það er jú ókomið og tilgangslaust að kvíða því fyrirfram.

Við kvíðaboltarnir eigum erfitt með að hugsa svona. Við förum í gegnum lífið, nokkuð svo viss um að hlutirnir fari einhversstaðar úrskeiðis og kvíðum því óstjórnlega að lífið muni koma okkur skelfilega á óvart. Þessi kvíði gerir okkur erfitt að njóta daganna og við vinnum ötullega í því alla daga að stoppa í öll göt sem gætu orðið til þess að koma í veg fyrir þetta stjórnleysi. Við göngum um með axlabönd, belti og bara allt sem mögulega gæti haldið uppi um okkur buxunum og eyðum í þessa tilgangslausu iðju bæði orku og tíma.

Ég reyni markvisst að tileinka mér bæði bjartsýni og núvitund þannig að hver stund eigi sitt andrými. Ég er þrátt fyrir allt glöð í eðli mínu og vil vera bjartsýn og jákvæð. Þó gerist það reglulega að inn í vellíðunarstundir læðast þær hugsanir að mér verði refsað fyrir gleðina með einhverju skelfilegu, einhverju óvæntu trikki af hálfu lífsins. Kvíðinn grípur um sig, maginn fer í hnút, hjartað fer að hamast og það er eins og líkaminn taki yfir alla vitræna hugsun.

Frammistöðukvíðinn á sér t.d. margar misskemmtilegar birtingamyndir,  t.d. drauma sem snúast um verkefni sem ég tek að mér en ræð þó ekkert við, s.s. að syngja á tónleikum, kunnandi hvorki textann eða lagið. Reyndar á ég ýmis góð ráð í þessum draumum eins og  að semja nýjan texta jafnóðum og impróvisera laglínu sem passar við hljóma lagsins, -loddarinn lætur á sér kræla. „Loddaraheilkennið” snýst nefnilega um það að hinn kvíðni er sannfærður um að aðrir hljóti að sjá í gegnum hann á einhverjum tímapunkti sem er jú mjög fyrirkvíðanlegt. Að það komist upp að hann sé latur, kunni ekki eða geti ekki. Að hann sé loddari.

Ég veit vel að fyrir þá sem að jafnaði eru vafðir í notalega ábreiðu kvíðaleysisins hljómar þetta eins og hver önnur steypa en þeir kvíðnu skilja hvað ég er að tala um. Þeir skilja líka af hverju það veldur kvíða að taka upp síma og hringja í fólk og af hverju maður forðast að fara á mannmarga staði. Þeir vita hvernig það er að vera búinn að skrifa minningargrein um manninn sinn þegar honum seinkar aðeins í kvöldmatinn og hvernig óvænt atvik líkt og veikindin mín á síðasta ári, verða að fínasta eldsneyti fyrir hinn sjúklega þreytandi félaga, kvíðann.

Því var það að við heimkomu af sjúkrahúsi í miðri fyrstu bylgju af Covid, var ég enn á ný farin að kljást við kvíðann. Mér gekk illa að sofa, ég var enn með magasondu og var að brasa með að standa upp án hjálpar og ég hafði ekki getað borðað af neinu viti í einhverjar vikur.

Bragðskynið var í rugli og ég gat alls ekki borðað það sem ég var vön. Ég hinsvegar fór að ráða við ýmislegt sem ég hafði borðað sem barn, drakk ískalda léttmjólk með matnum, borðaði eintómt ritzkex og langaði mikið í samloku með roastbeef og remúlaði. Já og kornflex. Kornflex með kaldri mjólk varð eiginlega mitt besta kvíðaráð eftir heimkomuna. Þegar ég átti erfitt með að sofa var besta ráðið að fara fram í eldhús, ná í kornflexpakkann og kalda mjólk og kjammsa um stund í góða stólnum mínum. Þá varð allt auðveldara.

Og þannig er það enn. Já jafnvel þótt heilsan sé önnur og betri, lífið sé mér gott og kvíðinn hafi losað tökin þá er kornflex (ó)siðurinn enn til staðar.  Stundum vaknar hundurinn og er eitthvað órólegur og þá förum við saman fram. Ég fæ mér kornflex og hundurinn leggst við stólinn minn og steinsofnar. Svo fer ég inn í rúm með fullan maga af óhollustu frá bernskudögum og sofna vært. Já því kornflex telst varla til hollustu í dag þótt Kellogs gamli hafi talið það vera stórkostlega uppfinningu og nært gesti á heilsuhælinu sínu með þessari nýju heilsusprengju. En það er voða bragðgott og fer einstaklega vel með léttmjólk fyrir utan hversu gaman það er að bryðja það. Venjulegt og gamaldags kornflex takk fyrir.

Ég hef auðvitað fundið mér samviskubit út af þessu kvíðakornflexráði mínu en eiginlega kæfði það í fæðingu. Ég gæti verið að fara á fætur til að fá mér í glas, eða reykja, eða spila póker á netinu eða hvað veit ég? Það er svo margt sem við gerum til að fóðra kvíðann okkar og svæfa hann um stund. Ég ætla að vera stoltur kornflexkjammsari og njóta þess á meðan ég hef þörf fyrir að vakna að nóttu og tækla kvíðann. Í dag skín samt sólin, sunnudagurinn lofar öllu fögru og líklega verður ekkert kornflex á mínum diski fyrr en í fyrsta lagi í nótt. Njótið dagsins!

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s