Stjórnsýsla og forgangsröðun

Stundum langar mig að skrifa um það hvernig málum er stjórnað bæði bæjarmálum í mínum bæ, sem í mínum huga er mikilvægasti staður jarðarinnar, og svo ýmsu á stærri mælikvarða,- en oftast held ég mig við mannlega hegðun í pistlunum mínum og málefni sem varða svona hin heldur mýkri gildi. Ég tel mér trú um að ég hafi meira vit á þeim málum en stjórnmálum og reyni að velja mér baráttumál sem hæfa áhuga mínum. Gleymi þá gjarna að auðvitað eru stjórnmál „mjúk” mál og lúta að miklu fleiru en framkvæmdum og peningum,- eða eiga að minnsta kosti að gera það. Þegar hús eru byggð eiga þau að þjóna þeim tilgangi helstum að íbúunum líði þar vel og allar framkvæmdir bæjarfélagsins eiga að snúast um að blómlegt mannlíf og vellíðan þegnanna séu í forgangi.  Samgöngur, akbrautir og göngustígar eiga að þjóna öllum íbúum og þarfir íbúanna fyrir hreyfingu, nærveru við náttúruna og heilsubót má aldrei vanmeta.

Þeim sem við treystum til að stýra okkar sameiginlegu hagsmunamálum er því falin mikil ábyrgð og hún er vandmeðfarin. Stundum harðnar á dalnum og þá þarf að meta vel hverjir verða verst úti og þurfa meiri stuðning í það og það skiptið. Þetta erum við farin að þekkja eftir kreppur, náttúruhamfarir og nú síðast heimsfaraldur Covid.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta og leyfi mér núna að minnast á forgangsröðun hér í mínum heimbæ er sú að fyrir einhverjum áratugum var hér byggð lítil sundlaug við íþróttahús Glerárskóla sem er eins og nafnið bendir til í Glerárhverfi. Laugin var á sínum tíma byggð í samvinnu við Sjálfsbjörg félag fatlaðra og átti að þjóna fólki með færniskerðingu auk þess að vera kennslulaug fyrir börn í hverfinu. Hún var því hönnuð með þarfir þessara hópa í huga, hún er grunn og hefur gott aðgengi fyrir fatlaða, þar er lítið útisvæði með tveimur heitum pottum, köldu kari og agnarsmárri „baðströnd” þar sem yngstu börnin geta sullað og aðrir sólað sig. 

Í þau ár sem ég hef stundað þessa laug, stundum reglulega til að gera æfingarnar mínar og stundum bara af og til, hef ég séð mér til mikillar ánægju að það eru einmitt þeir sem ekki geta vel stundað aðrar sundlaugar, sem koma í Glerárlaug. Þar er rólegt og það finnst þeim gott sem eiga erfitt með ys og þys og hávaðann sem gjarna fylgir stórum sundlaugum. Þar koma aldraðir, fatlaðir,  ungbörnin, fólk í sundleikfimi, litlu börnin í „Dillusundi”, fólk sem af einhverjum ástæðum finnst ekki þægilegt að láta horfa á sig eða treystir sér illa til að synda á miklu dýpi eða innan um fjörið í rennibrautunum.  Starfsfólkið hafa verið ljúflingar hinir mestu í gegnum tíðina og lagt sig fram um að aðstoða sitt fólk og oft gengið miklu lengra en hægt er að ætlast til af starfsfólki á lágum launum. Já ég segi lágum launum því að núverandi umræður bæjarstjórnar Akureyrar um að loka Glerárlaug fyrir almenningi munu spara bæjarfélaginu 18 milljónir á ári. Já ég segi og skrifa 18 milljónir. Mig langar að rifja upp hvað hinar risvöxnu rennibrautir í „stóru” lauginni kostuðu og ýmislegt annað sem framkvæmt var bara á liðnu ári, en ég hætti mér ekki á hálar brautir. Ég geri mér grein fyrir því að margir hópar í þessum bæ þykir að þeir fái of lítið af fjármunum úr bæjarsjóðnum, s.s. íþróttafélög og eflaust margir fleiri og þar eru á ferðinni hópar sem eiga sér sterka talsmenn sem kunna að hafa hátt og tala sínu máli.

Hópurinn sem sækir Glerárlaug er ekki hópur sem er vanur því að hafa hátt eða berja sér á brjóst. Nei þessi hópur barna, eldri borgara og fatlaðra einstaklinga sækir sér þessa dýrmætu heilsubót með þakkarhug en án þess að vera með neina fyrirferð. Margir Akureyringar hafa aldrei í Glerárlaug komið og margir vita ekki einu sinni að hún er til.  Hún er vel falin perla eins og einhver orðaði það.

Og 18 milljónir eru ekki miklir peningar fyrir forvarnir og heilsuvernd hjá viðkvæmum hópi sem nýtur líklega ekki þeirrar þjónustu í heilbrigðiskerfinu að vel sé.  Að geta komist í heita pottinn sinn, spjallað við starfsfólkið og kunningjana, notið þess að hreyfa sig við góðar og öruggar aðstæður,- það er hluti af því að eldast með reisn t.a.m.

18 milljónir er líklega nálægt þeirri upphæð sem það kostar samfélagið að vista einn aldraðan einstakling í hjúkrunarrými á ári.

Um þessar mundir er fjallað um sölu á húsnæði fyrrum Öldrunarheimila Akureyrarbæjar og hafa heyrst tölur s.s. þrír milljarðar. Þar er matarhola sem mætti nota til að hafa Glerárlaug opna áfram og jafnvel væri hægt að nota tekjur þær sem væntanlega skapast af gjaldtöku á bílastæðum bæjarins. Nú ef allt um þrýtur þá er kannski hægt að leita til fyrirtækja og almennings sem hafa sýnt frábæran samtakamátt þegar á reynir.

Það er ljóst að hópurinn sem sækir Glerárlaug borgar ekki mikið í bæjarkassann fyrir sundferðirnar en það er góð stjórnsýsla og manndómur að sýna því fólki virðingu og umhyggju sem byggir bæinn okkar, ekki hvað síst þeim sem hafa ekki mikið á milli handanna.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s