Sunnudagspæling Ingu Dagnýjar

Mikið er ég þakklát fyrir öfluga einstaklinga. Þakklát fyrir að það er fólk allsstaðar í kringum okkur að gera góða hluti. Fólk sem helgar dagana sína verkefnum sem eru okkur mikilvæg, samfélagsþjónustu, baráttumálum, aðstoð við þá sem eiga erfitt, stjórnmálum- og svo mætti lengi telja. En um leið og ég er þessum dýrmætum einstaklingum þakklát á ég dálítið erfitt með að sætta mig við það að ég er ekki lengur kraftmikil kona og verkefni af þessu tagi henta mér ekki nema í fremur naumum skömmtum. Ég legg fram það sem ég megna,-það er sko miklu minna en ég myndi vilja og reyni ákaft að láta ekki samviskubit og móral plaga mig. Rækta það sem þó eftir er og sinna mér og mínum.,-og mínu nánasta umhverfi.

Oft læt ég eigin ofvirkni bera mig af leið og stækka ábyrgðina mína all verulega. Ég fer að sópa stéttina, er svo komin með kústinn á sameiginlegt bílaplan fjölbýlishússins sem við búum í og maðurinn minn tekur hann svo af mér áður en ég fer að sópa götuna. Ég moka snjóinn miklu lengra en ég ætlaði í upphafi „af því að ég er komin með skófluna“ og byrji ég að taka til þá er aldrei að vita hvar sú tiltekt endar. Man jafnvel ekkert lengur hvar hún byrjaði. Ég finn mér endalaus verkefni og finnst þau flest eiga að vera unnin í gær -að minnsta kosti má alls, alls ekki gera þau seinna. Ég ætla svo alltaf að verðlauna sjálfa mig með einhverju sem er skemmtilegt og notalegt eins og að mála, hlusta á tónlist eða lesa góða bók en stundum er bara andlega orkan búin og þá hef  g ekki eirð við rólegheitin. Þá er jafnvel bara einfaldast að skipta á rúmunum eða taka til í eldhússkápunum.

Af þessu öllu er ég oft þreytt enda forgangsröðunin algjörlega úr takti við það sem ég vildi að hún væri. Duracell kanínan sem ég er, ætti auðvitað að nota þessa orku í eitthvað mikilvægt, svo ég segi nú ekki stórkostlegt eins og að gera mikilvægar uppgötvanir eða fara í doktorsnám. En bæði er líkamlega orkan ekki nema lítið brot af því  sem hugurinn hefur, og hver ætti þá að vera í allri þessari tiltekt?? Ég ímynda mér að öfluga fólkið sem ég talaði um í byrjun sé bara með það á hreinu hvar það á að byrja og þess vegna séu mikilvægu verkefnin sett í forgang.

En jú það er rétt, það er ekkert svona óhreint heima hjá okkur og já, ég á eiginmann sem er boðinn og búinn til að gera sinn skerf og rúmlega það. Þetta er fullkomlega meðvituð hugarvilla en þó virðist ég seint ætla að vinna á henni bug.

Því er ég því afar fegin að í dag get ég sinnt verkefnum sem eru mér mikils virði og ég fæ að vinna þau á góðum stað með góðu fólki. Auðvitað flæki ég þetta aðeins með því að eiga erfitt með að hætta að vinna þegar verkefnum lýkur en ég er að æfa mig. Ég er líka að æfa mig í sunnudögum til sælu, sunnudögum sem ekki eiga að snúast um neitt nema slökun sjálfsrækt og samveru. Það gengur misvel en ásetningurinn er fyrir hendi!

Jafnvægi í daglegu lífi er eitthvað sem okkur er öllum mikilvægt. Það er líklega gott jafnvægi í daglegu lífi að gera það sem skiptir okkur raunverulega máli. Það er mikilvægt að sinna bæði okkur sjálfum og þeim sem við elskum og eru okkur dýrmætir. Það getur alveg verið ágætt að raða skónum í forstofunni en ekki svo að það sem okkur er raunverulega dýrmætt lendi aftar í forgangsröðunninni.

Við höfum ekki ótakmarkaðan tíma og bæði heilsa og kraftar geta látið undan. Fólk er hinsvegar ferskvara og það gildir líka um það sem okkur er mikilvægt, okkar eigin lífsgildi. Þeim ætla ég að reyna að gefa forgang og setja frekar biðskyldu á húsverkin.

Njótið sunnudagsins gott fólk.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s