Geðheilbrigði, hvað er nú það?

Þetta er risavaxin spurning og við henni eru til mjög mörg svör. Hún er samt sú spurning sem mér finnst eðlilegt að við spyrjum okkur sjálf á alþjóðlegum geðheilbrigðisdegi 10.október. Geðlæknar hafa kannski svör, sálfræðingar hafa jafnvel önnur svör, lærðir og leiknir hafa sín svör en þó hefur sjálfsagt enginn svarið sem við leitum að. Svarið sem sker úr um það hvorum megin við lendum við hina ósýnilegu línu sem skilur á milli þeirra sem eru heilbrigðir á geði og hverjir veikir. Ekki hef ég svarið enda ekki sérfræðingur í neinu nema að velta vöngum. Og ég velti sannarlega vöngum yfir spurningunni þótt ég hafi ekki fundið einhlítt svar. Continue reading “Geðheilbrigði, hvað er nú það?”

Hvernig rífumst við?

Ég er sko ekki sálfræðingur og ekki sérfræðingur í mannlegri hegðun. Mér finnst hinsvegar afskaplega áhugavert að velta fyrir mér bæði eigin hegðun og annarra. Ég á það til að gleyma mér við það að fylgjast með ókunnugu fólki, ekki af forvitni heldur til að spá í það hver tengsl fólksins eru hvort við annað, hvaða hlutverki þau gegna í tilverunni og hvernig þau bregðast við.

Eitt af því sem mér finnst áhugavert er ágreiningur. Ég er að læra það með aldrinum að ágreiningur hefur líklega slæmt orð á sér að ósekju því hann þarf ekki að vera neikvætt fyrirbæri. Ágreiningur getur einfaldlega verið merki um það að við leggjum mismunandi sjónarmið inn í sambönd okkar við aðra og það er í raun mjög áhugavert verkefni að vinna með þessi sjónarmið. Takist okkur vel til þá getum við komist að góðum sameiginlegum niðurstöðum og málamiðlunum sem allir geta unað vel við. Svo auðvitað veljum við okkur orrustur og getum hreinlega valið að vera sammála um að vera ósammála.

Ágreiningur getur hinsvegar verið erfiður og við eigum sannarlega öll það til að nota aðferðir sem skila ekki miklum árangri.. Hér fyrir neðan nefni ég fimm ágreiningstýpur eða aðferðir sem mér hafa reynst sérlega erfiðar á lífsleiðinni hvort sem ég hef dottið í að nota þær sjálf eða aðrir í kringum mig. Þetta er nú kannski meira grín en alvara…og þó.

Predikarinn: Hann reynir að leysa ágreining með því að messa yfir öðrum og er gjarna með vísifingurinn á lofti til að hrinda jafnvel ímynduðum árásum. Algengir frasar:„Heldurðu að ég sé fífl?” og „Ég skal láta þig vita það góða mín….”. Þetta er algengur ágreiningsstíll karlmanna sér í lagi þeirra óöruggu og er gullið tækifæri til hrútskýringa. Þeim sem fara fljótt í predikunarhaminn finnst mjög mikilvægt að þeir séu taldir vita meira um ágreiningsefnið en allur þorri almennings. Þeir hækka fljótt röddina og eru snillingar í að taka andstæðinginn „niður” með því að lítillækka hann. Ákaflega erfitt er að leysa ágreining með þessum einstaklingum jafnvel þótt þeir hafi oft eitthvað til síns máls.

Steinveggurinn: Þessir einstaklingar reyna til hins ítrasta að beita þögninni til að sýna vanþóknun sýna og stýra líðan annarra í kringum sig. Þeir telja sig hafa góða stjórn á tilfinningum sínum og frekar en að þurfa að tala um vanlíðan eða reiði þá þegja þeir, sýna helst ekki svipbrigði og í versta falli láta sig hverfa. Það er eiginlega engin leið til að leysa ágreining með steinveggnum þar sem afneitunin er oft algjör. Algengasti frasinn: „Nei það er sko ekkert að!!”

Hugsanalesarinn: Hann er eiginlega búinn að skilgreina fyrirfram allt sem hinir hafa til málana að leggja og jafnvel búinn að sálgreina þá líka. Enda búinn að lesa margar bækur um efnið. Hann veit hvað hinn er að hugsa og meina, jafnvel þótt hann segi eitthvað allt annað. Hann notar ímyndað innsæi í mannlegt eðli til að hrekja öll rök og fer í krókaleiðir frá umræðuefninu til að koma því að hversu klár hann er í þessum efnum. Hugsanalesarinn hefur ekki tíma til að hlusta því hann er of upptekinn við að upphugsa eigin snilldarlegu athugasemdir.

Íþróttamaðurinn: Hann er ekki að reyna að leysa ágreining, hann er í keppni og vill vinna. Annars þá tapar hann og það líkar íþróttamanninum illa. Því eru flest brögð leyfileg og íþróttamaðurinn oft afburða snjall í að forðast það að leika af sér. Hann viðurkennir ekki málamiðlun heldur bara sigur. Sigurinn er hinsvegar íþróttamanninum oft dýrkeyptur og skaðar samband hans við annað fólk. Algengur frasi: „Þú hefur rangt fyrir þér!”

Grenjuskjóðan: Einstaklingar sem gjarna eiga mjög erfitt með að mæta gagnrýni eða ásökunum frá öðrum og tilfinningarnar bera þá ofurliði. Þeir vilja gjarna ræða málið og segja frá því hvernig þeim líður en geta það ekki þar sem röddin brestur eða tárin byrja að streyma. Með aldrinum skánar þetta hjá sumum en aðrir stríða við það alla æfi að geta ekki tjáð reiði eða erfiðar tilfinningar sökum skorts á sjálfstjórn á þessu sviði. Það er ekki auðvelt að leysa ágreining með þeim sem háskælir og aðeins á færi mjög þroskaðra einstaklinga að standa í slíku með þessu fólki.

Orðhákurinn: Hefur í raun ákaflega gaman af ágreiningi og lítur á hann sem nokkurskonar Morfískeppni eða keppni í rökræðum. Hann elskar að tala og mest að rökræða. Hann vill ekki hækka röddina eða rífast en vill ræða málin til þrautar, hversu langan tíma sem það tekur. Gallinn er sá að hann veit alls ekkert hvenær það hæfir að hætta og viðurkenna að engin sameiginleg niðurstaða sé í sjónmáli. Hann rökræðir því fólk út í horn, króar það af með orðum og uppsker því oft grimmileg viðbrögð. Skilur þá oftast ekki neitt, enda var hann bara að „ræða málin”. Algengur frasi: „Það þarf bara að ræða þetta!”.

Paddan: Sá sem fer alltaf beint í manninn en skautar framhjá málefninu. Pöddur eru oft bæði dómharðar og fordómafullar og gera öll mál persónuleg. Í staðinn fyrir að vera ósammála málflutningi annarra eru eiginlega allir hálfvitar í þeirra augum eða eitthvað þaðan af verra. Munnsöfnuður og andstyggilegheit eru notuð til að koma tilfinningum á framfæri eða kannski helst til að fela eigin vanmátt og tilheyrandi skort á vinsemd og væntumþykju til annarra. Það er bara vonlaust að leysa ágreining með pöddunni, best er knúsa þær duglega í þeirri von að svæla þær út úr kommentakerfunum.

Undirrituð er mjög mikið af orðháknum og töluvert af grenjuskjóðunni. Ég á auðvitað til að næla mér í eitthvað úr öllum hinum flokkunum, það er þó helst að ég verð aldrei nú seint steinveggur því þá þyrfti ég að geta þagað í meira en tvær mínútur í einu. Dagsformið er misjafnt og ekki alltaf sem það tekst að sýna ákjósanleg viðbrögð.

Ágreiningur er hluti af því að vera manneskja og lifa með öðru fólki. Lífið yrði framúrskarandi litlaust ef okkur fyndist alltaf það sama eða okkur liði alltaf eins. Við eigum öll til að nota fyrrgreindar aðferðir í meiri eða minni mæli, oftast af því að tilfinningarnar flæða yfir okkur og við náum ekki að stýra hegðun okkar eða hugsa um hana. Ég trúi því samt að því meira sem við spáum í það hvernig við vinnum með ágreining og bregðumst við honum, því meiri líkur til þess að viðbrögðin okkar geti verið svolítið skynsamleg. Þannig náum við betri árangri í því að ágreiningur verði til góðs.

Gangi okkur öllum sem best!

images

 

Hvenær drepur maður mann?

index

Ég er nýbúin að horfa á sjónvarpsþátt sem ég losna illa við úr huga mér. Um var að ræða þátt úr myndaflokki sem gerist í framtíðinni. Þættirnir nefnast Orville og eru eiginlega grínþættir eða allavega efni sem tekur sig ekki mjög hátíðlega. Í þættinum sem ég sá eru söguhetjurnar staddar í óþekktu samfélagi sem býr við einkennilegt réttarfar. Engir eru dómarar eða lögfræðingar og ekkert réttarkerfi eins og við þekkjum það, heldur er það samfélagið sjálft sem dæmir með því að gefa rautt eða grænt spjald á einhverskonar interneti fyrir hverja athöfn sem meðlimir samfélagsins framkvæma. Grænt spjald fyrir að standa upp fyrir gamalli konu í strætó, rautt spjald fyrir að gera það ekki. Nokkurskonar fullkomið lýðræði. Auðvitað er fyrirkomulagið meingallað þar sem það litast af geðþóttaákvörðunum og tilfinningasveiflum fjöldans þegar kemur að því að dæma fólk. Maðurinn sem stóð ekki upp í strætó, einfaldlega sá ekki gömlu konuna en sannleikurinn má sín lítils fyrir vanþóknun fjöldans.

Minnir þetta ykkur ekki á eitthvað? Mér fannst tilvísunin vera svo augljós að mér rann kalt vatn á milli skinns og hörunds.

Samfélagsmiðlarnir eru dómstóll fjöldans í dag, þar sem allt miðast við að fá „like” eða einhverskonar sýnda velþóknun á orðum sínum eða athöfnum. Athöfnum sem oftar en ekki eru einskonar sýndarveruleiki því hann sýnir það sem við vildum vera en erum líklega ekki nema í huga okkar sjálfra eða á bestu augnablikunum. Rétt lýsing, réttur klæðnaður, hrukkur sléttaðar, bólur fjarlægðar, línurnar lagaðar, svipurinn fullur af kynþokka eða hamingju. Þannig augnablik. Og talandi um augnablik,- við sýnum ekki öll hin, þar sem undirhakan var áberandi, svipurinn aulalegur, við gleymdum að greiða augabrúnirnar eða fela bingóvöðvana. Augnablikin þar sem krakkarnir grenjuðu (nema það hafi verið á einhvern hátt fyndið), augnablikin sem eru bara grá og kámug og hversdagsleg. Þau eru nefnilega líka lífið og það er mjög, mjög hættulegt að ímynda sér að lífið sé alltaf geislandi, fallegt, sexý, bragðgott og nýbakað,- það er bara ávísun á vonbrigði. Það getur líka verið ávísun á það að leita annarra leiða til að finnast lífið alltaf vera frábært, leiða sem verða til þess að fallið á hversdagsplánetuna jörð verður enn hærra og harkalegra.

Dómur götunnar hefur alltaf verið harkalegur og illt umtal hefur alltaf verið til. Þetta er bara orðið mun auðveldara í dag. Að vera hampað á samfélagsmiðlum hefur oft ekkert að gera með sannleikann, Oft er um að ræða ofmat fjöldans á sýndarveruleikanum sem okkur er birtur. Að sama skapi er mjög auðvelt að taka fólk af lífi á samfélagsmiðlum, frysta það úti fyrir litlar eða engar sakir. En hvers virði er að segjast hafa gert eitthvað, birta mynd eða myndband….ef enginn maður skoðar það, horfir á myndina eða það sem verra er, -ef þú færð engin „like”!

Þetta á líka við um okkur sem skrifum pistla og birtum á samfélagsmiðlum. Við erum líka vandlega flækt inn í sama leikinn, við viljum auðvitað að pistlarnir séu lesnir, við erum í raun öll löngu orðin hluti af nýrri þjóðfélagsmynd.

Ég er í mörgum hópum á Facebook og þar af er einn (og reyndar fleiri) sem snýst um fallega og gefandi tómstundaiðju. Varla fer þar fram neitt misjafnt eða hvað? Nýlega setti kona ein inn hugmynd varðandi hópinn, hugmynd sem snerist eingöngu um hennar skoðun á ákveðnu máli en innihélt ekki neitt meiðandi. Viðbrögðin voru samt þannig að það hefði mátt halda að hún hefði boðist til að rasskella landsliðið í fótbolta. Inn kom skriða af athugasemdum, fyrst voru þær saklausar en svo virtist hópurinn færast í aukana, viðbrögðin urðu hatrammari með hverri færslu og urðu loks meiðandi. Konan átti sko bara að hypja sig úr hópnum og ýmislegt í þeim dúr. Þetta hélt áfram þar til loksins að ein rödd bað fólk um að róa sig aðeins niður, þessi kona ætti rétt á sinni skoðun án þess að vera tekin af lífi af hópnum. Við þetta virtust flestir átta sig, einn og einn kom áfram með skot en svo dró úr vitleysunni og þráðurinn dó út. Það var verulega athyglisvert að fylgja þessu eftir og sjá „dómstól fjöldans” taka konu af lífi þótt það væri „bara” á netinu. Það var samt mest hrikalegt!

Það þarf sterk bein til að segja sína skoðun þegar fólk getur átt von á slíkum viðbrögðum en vonandi eru betri tímar framundan. Fleiri og fleiri stíga fram og sýna kjark í því að sýna sitt rétta „sjálf”, gangast við ófullkomleikanum sínum án þess að hampa honum sérstaklega og verða þannig góð fyrirmynd fyrir okkur hin.

Litla röddin í þræðinum hér að ofan er áreiðanlega ekki ein og ef við förum að vera sammála um að frysta ofbeldisseggina eina úti af samfélagsmiðlum, þá er von um betri tíma.

Góðar stundir gott fólk (og vonandi lesið þið pistlana mína).

photo of laptop near plant
Photo by Tobias Dziuba on Pexels.com

 

Að una öðru fólki.

Nú höfum við verið í hinu græna og skógi vaxna Vermont fylki í Banaríkjunum í tvær vikur. Aðallega að passa barnabarnið en líka að njóta þess að kynna okkur land og þjóð. Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla en fjarlægðin setur líka stundum hlutina í samhengi og leyfir á þeim nánari skoðun.

Núna sitjum við hjónin og horfum út um stofugluggann heima hjá syni mínum og tengdadóttur. Þar eru gatnamót og á þeim er eins og algengt er hér, stöðvunarskylda úr öllum fjórum áttum. Það þýðir að sá sem kemur fyrstur á fyrsta rétt, sá sem kom næstur á rétt númer tvö, osfrv. Og það sem er svo merkilegt að mati okkar hjóna, þetta svínvirkar! Hér er umferðin yfirveguð, menn eru kurteisir og tillitssamir, og þetta með stöðvunarskylduna margföldu virkar svo vel að stundum virðist enginn ætla að taka af skarið. Og þetta er risastór þjóð þar sem hjól atvinnulífs snúast hratt og menn eru bara nokkuð mikið að passa upp á tímann sinn. Þetta snýst sko alls ekki um að hér liggi allir í hengirúmum með hasspípur, nei aldeilis ekki, ekki einu sinni í Vermont. Á Íslandinu góða dugar varla að hafa stöðvunarskyldu yfirleitt, menn eru yfirleitt að flýta sér of mikið til að gera meira en hægja líttilega á sér, ef þá það. Við erum líka yfirleitt of mikið að flýta okkur til að hanga á eftir einhverjum útlendingum eða gömlum köllum með hatta á þjóðvegum landsins og reynum ákaft að græða einhverjar mínútur í áhættuatriðinu sem kallast framúrakstur. Og þó eigum við nóg pláss og enginn á sérstaklega langt að fara í vinnu.

dog on concrete road

Við erum sannarlega í Trumplandi þessa dagana, firring, vopnaburður, stríðsrekstur og skotárásir er það sem við heyrum af á hverjum degi og einhvernveginn finnst manni að þessir hlutir hljóti að móta hugarástand fólks hér á einhvern hátt. Sem það líklega gerir en það er eitthvað sem við finnum lítið fyrir í okkar daglega vafstri í hinu græna ríki sem reyndar er þekkt fyrir frjálslyndi. Bara í dag, daginn sem Pence heimsótti Ísland höfum við hitt fólk sem hefur beðið okkur þess lengstra orða að senda hann ekki til baka.

Hverfið þar sem okkar fólk býr, er sannarlega fjölbreytt, hér búa flóttamenn, Sómalíumenn, fólk frá Nepal, svartir, hvítir, fjölskyldufólk upp til hópa en efnin eru ekki mikil. Sjoppan á horninu fengi ekki endilega leyfi frá íslenskum heilbrigðiseftirlitsmönnum en þar má kaupa, franskar, ís og kannabisolíu jöfnum höndum. Flestir þeir sem ganga fram hjá húsinu, heilsa glaðlega, sitji maður úti á veröndinni og allir spjalla, tala nú ekki um þegar við erum með barnabarnið úti í kerru. Víða má finna skilti á mörgum tungumálum sem benda á að sama hvaðan viðkomandi komi, þá sé hann velkominn í nágrennið og skiltin „Black Lives matter” eru víða. Einhver samfélagsvitund ríkir hér sem hefur ekkert að gera með pólitík, Trump eða sorglegan skort á opinberum stuðningi við þá sem standa höllum fæti.

Þessi samfélagsvitund endurspeglast líka í því að fólki hér virðist þykja á einhvern hátt eðlilegra en okkur að hjálpast að.  Ýmislegt sem tengist velferð og menningu kemur frá góðgerðarstarfsemi og svo er hjálpsemi við meðbræður og granna er algeng.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ýmislegt í þessu stóra ríkjabandalagi er skakkt og skrýtið á okkar forsendum og elur t.d. af sér einstaklinga sem beita vopnavaldi af mikilli grimmd. En í fullkominni andstæðu elur það líka af sér friðsama og glaðlynda þjóð sem lætur hverjum degi nægja sína þjáningu og vinnur saman sem samfélag eins og dæmið um stöðvunarmerkin sýnir.

Við getum lært af Bandaríkjum Norður-Ameríku heilmikið um hvernig við eigum ekki að gera, en líka eitt og annað um það hvernig hægt er að vinna saman sem samfélag a.m.k. af hinum frjálslyndu fjallabúum Vermont.

En svo hlökkum við mikið til að koma heim.

wooden houses in green field under white skies

Undir stýri í eigin lífi

IMG_7140Ég held að maðurinn minn eigi ekki alltaf sjö dagana sæla. Verkefnin eru óþrjótandi, sé maður giftur konu sem er önnum kafin við að taka út þroska á einhverskonar hraðferð. Þroska sem átti í raun að vera verkefni allra fullorðinsáranna en þar sem það rann nokkuð seint upp fyrir mér að þar væri mikið verk óunnið, þá þarf ég bara að gera þetta nokkuð fljótt og örugglega.

Ég var jú meistari í aðferðum sem var ætlað að skauta framhjá því að kynnast sjálfri mér til hlítar og horfast í augu við eigin kvíða og óöryggi. Það var ekki farsælt til lengdar.

Þessa dagana er ég hinsvegar að hamast við að þykja nægilega vænt um sjálfa mig til að gangast við tilfinningum mínum, skoðunum og öllu því sem ég er.

Þetta er snúið fyrir mig og ekki síður snúið fyrir manninn minn. Hann lendir nefnilega í því að vera sálarspegill fyrir mig og vera ætlað að hlusta á allar vangavelturnar og helst að svara öllum spurningunum sem vakna á þessari vegferð. Dagarnir okkar geta gengið þannig fyrir sig að árla morguns er erfiðum tilvistarlegum spurningum hellt yfir manninn sem er varla vaknaður, ekki búinn að fá kaffið sitt og ekki búinn að pissa. Um hádegisbilið er ég farin að efast um að tilfinningar mínar gagnvart ákveðnum málefnum eigi rétt á sér og þá liggur auðvitað beinast við að spyrja hann hvort svo sé. Hvort ég sé bara móðursjúk, eða hvað hann haldi að fólk muni nú halda um mig? Sem er líklega jafnvitlausasta spurning sem hefur verið borin upp. Hann veit bara hvað hann heldur um mig en hefur auðvitað ekki hugmynd um hvað aðrir halda um mig. Og sem betur fer finnst honum ég frábær, fyndin og elskuverð. Annars væri ég í vondum málum. Um kvöldmatarleytið er ég búin að velta einhverju allt öðru fyrir mér frá miðjum degi og ég stekk beint inn í umræðuefnið án þess að muna að hann var aldrei settur inn í það. Sem betur fer hefur hann húmor fyrir allri þessari vitleysu. Hann stýrir mér oftast mjúklega á rétta braut, hann forðast að svara öllu þessu spurningaflóði heldur hvetur mig áfram í því að svara sjálfri mér.

Þetta snýst nefnilega alls ekki um hvað honum finnst, eða hvað neinum öðrum finnst. Þetta snýst eingöngu og fyrst og síðast um hvað mér sjálfri finnst og hvaða leiðir henta mér til að sýna sjálfri mér væntumþykju. Það er auðvelt að kunna réttu replikkurnar í leikritinu, það er auðvelt að hafa fræðin á hreinu og vita að miðaldra konan ég á skilið bæði virðingu, vinsemd og ást, líka frá sjálfri mér. Allt annar handleggur er að sannfæra tilfinningalífið um að svo sé. Sleppa öllum töffaraskap, kaldhæðni og rökræðum og leyfa mér að vera auðsæranleg og berskjölduð. Feðraveldið hefur jú fordæmt tilfinningasemi og kerlingavæl og móðursýkin er sérstaklega eyrnamerkt okkur konum. Þær skulu sérstaklega passa sig yfirhöfuð, á að sýna ekki tilfinningar þar sem það dregur úr möguleikum á því að karlmenn taki þær alvarlega og veiti þeim sess í karlaheiminum.

En hvað ef þessu er í raun þveröfugt farið? Tilfinningarnar okkar eru það sem gerir okkur mennsk og það er líklega ekki fyrr en við viðurkennum þær fyrir það sem þær eru, að okkur getur liðið vel í eigin skinni. Því er það þroskaverkefnið mitt að læra að tilfinningarnar mínar eiga tilverurétt. Ég þarf eins og allir aðrir að skilja þær og setja þær í heilbrigðan farveg en til þess verð ég vissulega að gefa þeim rými.

Dæmi um samskipti okkar hjóna þessa dagana snýst um langkeyrslur. Ég er ekkert feimin við að viðurkenna að hann er öruggari bílstjóri en ég en ég tek þó að sjálfsögðu við stýrinu til að hvíla hann. Húnavatnssýslurnar hafa gjarna verið mínar í þessum skiptum og fræg er sagan þegar við rifumst í Vestursýslunni, ég sneri tvisvar við til að fara heim aftur en svo sættumst við tvisvar fyrir Holtavörðuheiði þannig að við enduðum á að keyra sýslurnar fimm sinnum. Þetta var reyndar útúrdúr, ég ætlaði að segja frá mínu óöryggi við aksturinn sem hefur þau áhrif að ég þarf að spyrja með reglulegu millibili….„finnst þér nokkuð að ég eigi að keyra hraðar?”, „á ég nokkuð að fara fram úr þessum?”, osfrv. Ég fæ alltaf sama svarið. „Þú ert að keyra bílinn, þú ræður þessu sjálf”. Svo lokar hann augunum og blundar eða heldur áfram að skrolla í símanum sínum. Nákvæmlega þetta gildir í lífinu sjálfu. Þar er ég sjálf undir stýri og hvorki hann né nokkur annar getur sagt til um það hvernig ég haga akstrinum.

Ég er nefnilega ágætis bílstjóri, ég þarf bara að trúa því sjálf og hægja svo svolítið á mér og treysta því að það sé bara fullt af öðrum ágætis bílstjórum þarna úti.

Nú situr hann hinsvegar sjálfur undir stýri og við brunum um hið græna fylki Vermont á leið til að passa barnabarnið. Lífið er mjúkt þennan laugardag og ég sendi góðar kveðjur úr Trumplandi.

Frelsið við að vera kerling

66747229_10156470896964109_9000651581393207296_nÁ facebook gengur núna skemmtilegur leikur sem felst í því að setja mynd af sér í ákveðna viðbót og láta hana þannig sýna hvaða útlitsbreytingar verða þegar aldurinn færist yfir. Útkoman er ótrúlega skemmtilegar og eðlilegar myndir þar sem karakter viðkomandi skín í gegn um hrukkur og skalla. Mín mynd sýndi ótrúlega hrukkótta mig þar sem þó klárlega mín eigin augu horfa út úr þessu gamla andliti. Mér finnst þetta skemmtilegur leikur. Ég verð alls ekki ósátt við þetta útlit, frekar en ég er ósátt við hvernig ég lít út núna. Og trúið mér, það að sættast við sjálfa mig, tók langan tíma og var býsna erfitt. Það hefur ekkert með það að gera að finnast ég líta vel út eða illa, það hefur með það að gera að ég hef fundið þann stað í lífinu þar sem það skiptir ekki máli.

Ég get notið þess að setja á mig varalit og fara í fínan kjól og ég get líka farið út í rauðum gúmmístígvélum með buff og það er allt jafn gott.

Ég er nefnilega kerling sem verð fimmtíu og sex ára eftir nokkra daga og þessi kerling er bara laus við áratuga vandræðagang sem fylgdi því að vera aldrei sátt við sjálfa sig.

Ef það voru ekki aukakílóin, þá voru það psoriasisblettirnir, eða hárið, eða fötin eða nefið….eða bara það að vera ég, svona ómöguleg í alla staði. Og þessu bara deildi ég með milljónum annarra kvenna. Við eyðum tíma, orku, hamingju og peningum í að vera ósáttar við okkur sjálfar, nógu ósáttar til að kaupa allar heimsins lausnir sem geta bætt úr þessari ljótu allri. Ljótu sem er samt bara innra með okkur sjálfum og verður ekki þjálfuð, megruð, pússuð eða slípuð í burtu.

Svo koma fram ungar konur sem krefjast þess að fá að vera lausar við þessa komplexa alla og taka myndir af sér á bikiní og brjóstunum, flottar og frjálsar stelpur. Hvað gerist þá? Jú það spretta upp lærðir og leiknir sem fyllast áhyggjum af því að nú sé verið að normalisera það að vera of feitur.  Fussum svei bara…sértu of þung þá er það heilsufarsvandamál og því skaltu fela þig vel og vandlega þar til þú hefur náð af þér kílóunum!

Þvílík endemis þvæla! Þetta er álíka galið og að ætla að fela þá sem hafa krabbamein þar til að þeir eru orðnir frískir….ekki má normalisera það að hafa krabbamein eða hvað?

Við erum það sem við erum, við erum öll ófullkomin, með aukakíló, hárlaus, einn handlegg í stað tveggja, gömul, hrukkótt og öll gullfalleg. Falleg af því að við erum lifandi og mikils virði hvert og eitt.

Og ég sem er bæði orðin gömul og hef þurft að endurmeta hverja einustu frumeind af tilverunni minni hef loksins náð því huglæga frelsi að vera sama. Mér er þokkalega sama hvernig ég lít út, ég get sleppt því að fá samviskubit yfir því að segja eitthvað kjánalegt eða að öðrum finnist ég ekki vera að passa inn í rammann.

Ég get reyndar alveg tekið upp gamla takta svo sem að horfa inn í fataskápinn og taka móðursýkiskast yfir því að ég eigi ekkert til að fara í og verði bara að vera heima! Munurinn er samt sá að núna veit ég að það er tóm vitleysa og húmbúkk að hugsa svona og hverjum er svo sem ekki sama í hverju ég mæti.,- eða hvort ég er bara heima.

Njótum sumarsins og njótum þess að vera við sjálf.

 

Ég elska Internetið

Já ég viðurkenni það, ég elska Facebook, og ég elska Instagram og Messenger og þetta bara allt saman, mest alnetið samt. Ég vildi reyndar alveg vera ein af þessum viljasterku meinlætakonum sem taka sér frí frá Facebook eða jafnvel loka aðganginum sínum, mér finnst það megatöff en ég er bara ekki svoleiðis. Ég er alltof innhverf, alltof löt eða bara þá hentar það mér óskaplega vel að vera mikið á samfélagsmiðlum.

Svo finnst mér alltof margt hreinlega jákvætt og gott til að tíma að missa af því. Get nefnt um það fjölmörg dæmi og hér eru nokkur:

blur blurred background bokeh cellphone

Hóparnir á Messenger s.s. fjölskylduhóparnir þar sem hægt er til að mynda að skiptast á myndum af börnunum, miðla fréttum og „ekki” fréttum og deila sérstökum húmor sem bara viðkomandi skilja. Systir mín orðaði það svo að „þetta sé eins og að vera í góðu fjölskylduboði” og það er sannarlega rétt. Fólkið sem maður saknar alla daga, og er dreift um borg og bý, lönd og höf getur spjallað og hlegið saman í rauntíma, það er dásamlegt.

Vinnuhóparnir, vinir og vinkonur, kórar og félagar, bara allir þeir sem eiga eitthvað sameiginlegt, eiga þar mun auðveldara að eiga samskipti og skipuleggja hittinga og verkefni.

Þarna þarf reyndar að fara varlega og passa að skrifa í rétta hópa. Ég hafði eitt sinn skipulagt hóp með vinum og vandamönnum sem voru að aðstoða mig við flutninga og þar á meðal var góð vinkona. Ég deildi síðan mjög svo persónulegum upplýsingum með vinkonu minni eitt kvöldið, en í fljótræði og flumbrugangi, gleymdi ég því að ég var ekki bara að tala við vinkonu mína heldur allan flutningshópinn. Ef ég hef einhverntíma séð síma verða rauðglóandi þá var það þegar þeir fyrstu hringdu í ofboði til að segja mér að skrúfa fyrir upplýsingarnar. Þessu var ekki hægt að eyða og uppákoman var hin vandræðalegasta….en sem betur fer var þetta allt fólk sem þekkti mig vel og hafði ágætis húmor fyrir ruglukollunni mér.

Facebook hjálpar mér til að fylgjast með því sem gerist í menningarlífi, fylgjast með fréttum, fylgjast með vinum og vandamönnum, fylgjast með stjórnmálum. Ég er ekkert sérlega mannblendin alltaf og Facebook bjargar mér frá því að verða eins og einsetumaður á fjalli, vitandi ekki hvað er að gerast nær og fjær. Það sem getur þó gerst á Facebook er að maður fær líka hinar upplýsingarnar,- þær sem koma manni í raun ekki við eða maður vill ekki fá á vegginn sinn, rasisma, fordóma, dómhörku og illgirni. En þannig lærir maður líka að velja sér vini. Það er reyndar líka alltaf val, hvort maður tekur þátt í mannskemmandi umræðum og illu umtali en þegar fólk sem ég þekki ekki mjög mikið kýs að deila tilfinningum sínum með okkur hinum þá finnst mér það oft mjög gefandi. Við erum jú öll að glíma við sorgir og sigra og það er lærdómsríkt og gott að sjá hvernig aðrir takast á við tilveruna.

Instagram opnaði fyrir mér heim þeirra sem deila ljósmyndum og þar gleymi ég mér í fallegu myndefni. Álitsgjafarnir svonefndu hafa kyrfilega farið framhjá mínum aðgangi og það er líklega einn af kostunum við að vera kominn á miðjan aldur. Sama er með Snapchat, þar bý ég svo vel að eiga ekki aðgang að öðrum en börnum, barnabörnum og örfáum nánum vinum. Facetime og Skype er snilld og hafa gert svo ólíkt léttbærara, að hafa ekki börn og barnabörn nálægt okkur. Mín kynslóð man svo alltof vel þá tíð að það var skelfilega dýrt að hringja til útlanda og ekki bara til útlanda heldur líka í aðra landshluta og það var helst ekki gert nema um líf og dauða væri að tefla,- og jafnvel þá varð að hafa hraðann á.

Í dag spjalla ég við lítinn snáða í Vermont oft í viku, syng með honum og bulla án þess að hafa áhyggjur af kostnaði. Alnetið lifi!

Ég gæti haldið lengi áfram. Netflix leysti vanda hjóna sem ég þekki og sem aldrei geta komið sér saman um sjónvarpsefni, Spotify sparar mér marga hillumetra af geisladiskum, á netinu panta ég varning, ferðalög og skyndibita og það nýjasta gerðist fyrir síðustu helgi, ég pantaði helgarinnkaupin á netinu.

Reyndar fela kostirnir í sér gallana líka eins og með svo margt annað. Þannig enda ég kannski á því að þurfa aldrei að fara neitt og aldrei að hitta neinn. Spurningin er bara hvað kom á undan, eggið eða hænan og hvort Alnetið sé að bjarga okkur frá einsemd eða valda okkur einsemd.

Líklega er það sín ögnin af hverju en ég mun í það minnsta halda áfram að njóta tækninnar, spjalla og spekúlera á netinu en ég ætla líka að láta ekki tæknina taka alveg af mér völdin. Ennþá tölum við hjónin saman, í það minnsta ef við erum í sama herbergi.IMG_9239

Í endurnýjun lífdaga

white flowers between brown rabbit figure and eggsMargir hafa velt fyrir sér þýðingu þeirra siða og venja sem tengjast páskum. Það er í raun ekkert undarlegt að fólk skuli eiga erfitt með að tengja saman páskaegg úr súkkulaði með málsháttum innaní, við pínu og upprisu Krists. Páskarnir eru líkt og jólin heiðin hátíð löngu fyrir daga kristni og hún er líka hátíð gyðingdóms. Hin forna gyðja Eastre var gyðja vorsins, morgunsins, endurfæðingarinnar og barna. Eastre breytti uppáhalds gælufuglinum sínum í kanínu að því er sögur herma. Kanínan gladdi síðan börn með því að færa þeim marglit egg, tákn upphafsins og lífsins, að gjöf frá vorgyðjunni. Gott og vel, þar er komin páskakanínan eina og sanna sem enn færir börnum páskaegg (í sumum löndum) þó ekki hafi þau verið úr súkkulaði fyrr en löngu síðar. Og líka skýring á því af hverju kanína kemur með egg, en það skýrir svo sem ekki af hverju vorgyðjan kaus að breyta fugli í kanínu. Líklega verður það ekki rökstutt en kanínur eru jú frjósamar með afbrigðum og gætu verið annað tákn um líf og vor.

Gyðingar halda sína páska til að minnast þess er Guð leiddi þjóð sína úr ánauð Egypta og þeim er t.d. ekki leyfilegt að nota kornvörur eða borða sýrt brauð á páskum. Eðlilega ekki! Páskar gyðinga eiga þó fátt skylt við okkar kristnu hátíð enda er verið að minnast gjörólíkra atburða, aðeins nafnið er hið sama og tímasetningin.

Ég mun ekki skoða páska gyðinga neitt meira, nóg er nú ruglingurinn samt þótt páskarnir komist ekki með tærnar þar sem jólin hafa hælana. Við minnumst fórnardauða og upprisu Krists að því er ég best veit, en páskasiðirnir virðast að mestu leyti tengdir heiðni. Kanínur og egg virðast vera tákn endurnýjunar lífs og eiga þannig bæði við vorið og upprisuna. Svo hafa siðirnir tekið breytingum og eru mismunandi á milli þjóða og landa. Við borðum páskaegg, förum á skíði og skreytum með gulu, Tékkar flengja konur með páskavendi til að gera þær fegurri og á Filippseyjum eru menn krossfestir í fúlustu alvöru!

Fyrir mér sem ekki er sérstaklega áköf í barnatrúnni lengur er þessi tenging við vorið og frjósemina ákaflega viðeigandi. Vetri er að linna, fræið sem svaf í frosti er ekki dáið heldur lifnar við í eilífri og ótrúlegri hringrás náttúrunnar. Ekkert gefur meira tilefni til að fagna heldur en einmitt það. Við eigum nokkra frábæra og vel þegna frídaga eftir langan vetur og það er kannski það allra besta við þessa hátíð.

Við, eins og allt annað líf, þurfum nefnilega á hvíld að halda, við þurfum að endurheimta orkuna okkar því hún er auðvitað ekki óþrjótandi uppspretta. Við það að hvíla okkur, þá myndum við t.d hormón sem yngir okkur og eflir og svefninn er auðvitað forsenda góðrar heilsu, andlegrar og líkamlegrar. En við erum nú svo mögnuð með það að misskilja, lítillega eða bara heilmikið, þetta með frídagana og hvíldina. Spurningin „hvað á svo að gera um páskana?”, er eiginlega jafn algeng og spurningin „ertu búin að öllu fyrir jólin?”. Og hún þýðir auðvitað að samfélagið gerir ráð fyrir því að frídagarnir séu nýttir í að „gera” eitthvað. Dytta að bústaðnum, fara á skíði, ferðast, halda veislur og hvaðeina sem okkur kemur í hug. Sem er jú allt ákaflega skemmtilegt og áreiðanlega gott og blessað nema að því leyti að við erum þá kannski bara ekkert að hvíla okkur. Einhverjir halda ennþá í það að lesa bækur, sofa út og láta sig dreyma með súkkulaðitaum í munnvikinu en það eru áreiðanlega of fáir. Allavega miðað við þá sem þurfa á því að halda að hvíla sig. Hvíla sálina, heilann og líkamann. Draga úr áreitinu, símanum og fréttunum, ganga hægar, hlaupa minna, fara lítið og gera enn minna. Þá og aðeins þá náum við að framleiða hvíldarhormónin og endurnýja okkur fyrir sumarið sem í hönd fer.

Það er endurnýjun lífs sem er boðskapur páskahátíðarinnar, bæði þeirrar kristnu og gömlu heiðnu vorhátíðarinnar og það er vel við hæfi að halda upp á hana með því að endurnýja okkur sjálf, -með því að hvíla okkur!

Gleðilega páska.fullsizeoutput_2466

Innhverft smáspjall

Öll höfum við heyrt eða lesið um hvernig fólk getur haft innhverfan persónuleika (introvert) eða úthverfan persónuleika (extrovert). Sjálfsagt erum við flest blanda af hvorutveggja, njótum þess að vera með öðrum en þurfum líka tíma til einveru, mismikinn að sjálfsögðu. Við erum hópdýr en sum okkar eru meiri hluti hjarðarinnar en aðrir. Ég leyfi mér að fullyrða að öll þurfum við á öðrum að halda, líka eftir að við erum orðin fullorðin, við þurfum félagslegan stuðning, ást, snertingu og umhyggju, svo einfalt er það.

IMG_6687

Ég hélt lengst af að ég væri mjög úthverf manneskja, ég á jú fremur auðvelt með að tjá mig og hef líklega það sem talið eru vera góðir samskiptahæfileikar. Ég reyni að vera góður hlustandi og ég hef ákaflega gaman af því að heyra fólk segja frá því hvernig það hugsar, hvernig því líður og hvernig það upplifir veröldina.

Ég verð þó alltaf meira og meira innhverf með árunum, mér finnst gott að umgangast fáa og mér finnst gott að vera ein með sjálfri mér. Svo gott að það jaðrar við að vera truflandi að þurfa að fara mikið út úr húsi. Mig langar samt að hitta fólkið mitt, fjölskyldu og vini miklu oftar en ég geri. Mig langar að eiga djúp og innihaldsrík samskipti, tala um lífið, dauðann, tilfinningarnar og það sem skiptir okkur raunverulega máli. Mig langar að fara á fleiri tónleika, hlusta og njóta. En það sem mér finnst erfiðast er að hitta þá sem ég þekki ekki mikið og þurfa að taka þátt í smáspjalli.

Smáspjall eða „small talk” er mikil list.  Ég veit aldrei hvernig ég á að svara spurningum eins og „hvernig hefurðu það”, svo ég tali nú ekki um „er ekki nóg að gera?”. Ég er fáránlega mikill streitari og svarið mitt gæti verið á þessa leið „jú ég hef það gott einmitt þessa stundina en rétt áðan þá varð mér hugsað til þess að hundurinn minn hefði verið lengi einn heima og þá hafði ég það ekki svo gott. Í gær hafði ég það ágætt fram eftir morgni en eftir hádegi var ég mjög þreytt og hafði það ekki sérstaklega gott”. Enginn vill svona svör.

Hið staðlaða svar er: „Bara fínt, takk fyrir”. Í smáspjalli er ekki gert ráð fyrir hörmungarsögum eða vanlíðunarsvari, ekki löngu máli eða tilfinningasemi. Og það er alltaf nóg að gera munum það. Svör eins og  „nei veistu það er bara djöfull og dauði í vinnunni hjá mér, líklega verður mér bara sagt upp”, eiga ekki við í smáspjalli. Smáspjall er svolítið eins og Instagram, það sýnir glansmynd af okkur sjálfum, yfirborðskennda og grunna. Smáspjallið er mjög orkukrefjandi, það er flókið og hentar sko alls ekki öllum. Áreiðanlega myndi mér bregða ef einhver sem ég þekki ekki mikið myndi snúa sér að mér og spyrja „Inga, er hamingjan viðhorf eða ástand?” en mikið óskaplega væri það hressandi.

Það má segja smáspjallinu til varnar að það gefur tækifæri til að eiga orðaskipti  við þá sem maður hefur oft ekki séð lengi, fólk sem manni þykir vænt um en kannski hefur misst sjónar á. Samskiptaleiðir alnetsins gera þetta vissulega líka og þeir sem hafa knýjandi þörf fyrir að segja eitthvað meira, þeir skrifa pistla. En við megum þó ekki gleyma því að við megum alveg birta dýpri mynd af okkur sjálfum í daglegum samskiptum líka.

Innhverfur heimsins, þreytast meira á mannamótum en þeir úthverfu, þeir þurfa lengri tíma til einveru og hvíldar í sjálfum sér en það þýðir ekki að þeir vilji ekki eiga samskipti. Þeir vilja bara dýpri og innilegri samskipti en smáspjall og froðusnakk (sem er sko magnað orð). Þeir þurfa meiri tíma, tíma sem fáir virðast eiga en allir þrá.

Setningin „við verðum að fara að hittast” má ekki bara verða frasi, við þurfum að hittast í alvöru og eiga samskipti sem henta bæði úthverfum og innhverfum.  Taka í spila, spjalla í einlægni, drekka kaffi og elda saman mat.

Góða helgi

pexels-photo-403448.jpeg

Konur sem taka rangar ákvarðanir

Jæja enn er ég stödd í fylki hinna grænu fjalla í Trumplandi og eyði dögunum með sonarsyni mínum. Mamma hans vinnur langar vaktir á spítalanum sínum og pabbi hans er að vinna við sjónvarpsútsendingar í Kaliforníu og því eru dagarnir okkar oft ansi langir. Því hef ég horft mun meira á sjónvarp en ég The-Mindy-Project-Promo-Saison1-2er vön og má segja að um hámhorf sé að ræða eða „binge watching” eins og það er kallað. Það er að segja, ég hef „dottið” í seríur af sjónvarpsþáttum eins og t.d. „The Mindy Project” þætti um konu, kvensjúkdómalækni af indverskum ættum á Manhattan og svo nú síðast „Shrill” sem eru nýjir þættir um blaðakonu í yfirþyngd sem fer að skoða sjálfsmynd sína upp á nýtt eftir margra ára baráttu við aukakílóin. Sameiginlegt með öllum þessum þáttum sem teljast gamanþættir með sterkum kvenkyns aðalpersónum, er mikil áhersla á kynlíf eða allavega finnst mér það en kannski er ég lituð af mínu uppeldi og minni miðaldra tilveru. Kannski bara er þetta svona núna að allir eru ýmist að hugsa um eða tala um kynlíf, hvað veit ég?  Þetta gæti líka alveg haft með það að gera að þær eru konur, eflaust er ég líka fordómafull hvað það varðar. Ég þarf að vinna betur í þessu.

Annað sem gerir það að verkum að ég verð nokkuð pirruð á þessum seríum, er það að konurnar í þeim eru stanslaust að taka rangar ákvarðanir. Aftur og aftur, lenda þær í sama bullinu sem oftast nær snýst um sambönd þeirra við karlmenn, val þeirra á kærustum, meðvirkni þeirra og hvernig þær gefa lúserum og skíthælum fullkomið leyfi til að traðka á sjálfum sér, klárum og vel menntuðum konum.  Þessir þættir eru auðvitað framleiddir hér í Trumplandi sjálfu og það má auðvitað segja sem svo, að þar sem neysluhyggju  og yfirborðsmennsku er gert svo hátt undir höfði er áreiðanlega erfiðara fyrir konur að standa með sjálfum sér en víða annarsstaðar. Allavega á ég mjög erfitt með að fyrirgefa þessum persónum þetta veiklyndi og kvenlegu undirgefni sem þarna birtist.

Svo er spurningin hvort þetta pirrar mig svona mikið af því að ég hef í gegnum tíðina gert mig seka um nákvæmlega þetta? Að taka rangar ákvarðanir um það hverja ég á að elska og annast, og ekki bara af og til heldur aftur og aftur. Ég er líka kona sem telst greind og vel menntuð og jafnvel með ýmsa aðra kosti en hef látið útlitskomplexa og slaka sjálfsmynd verða til þess að ég hef gefið afslátt af sjálfri mér,- og farið langt undir raunvirði. Alveg nákvæmlega eins og þessar konur og kannski er það nákvæmlega boðskapur þáttanna. Að það verður aldrei nóg að hafa jöfn tækifæri til menntunar og launa ef við konur, getum ekki hysjað upp um okkur sjálfsmyndina og hætt að biðja afsökunar á því að vera til. Allavega langar mig mjög mikið til að ungar konur geri betur en ég hvað þetta varðar (og ýmislegt annað).

Við eigum að umfaðma mistökin okkar og fyrirgefa okkur rangar ákvarðanir,- eða svo er sagt. Gott og vel, ég viðurkenni að það er mjög æskilegt en það er samt ótrúlega þreytandi þegar maður sjálfur (eða persónur í sjónvarpsþáttum), gera sömu mistökin æ ofan í æ. Maður dettur sjö sinnum í sama pyttinn áður en manni dettur í hug að krækja fyrir hann. En auðvitað er þetta flókið. Eina örugga leiðin er kannski sú að hætta bara að taka slíkar ákvarðanir en það er jú það sama og hætta að lifa lífinu og það er lítið skemmtilegt.

Þegar ég kynntist núverandi manninum mínum hafði ég í raun allar forsendur til að setja handbremsuna á og segja „hingað og ekki lengra, nú verða ekki gerð fleiri mistök”. Það gerði ég ekki, ég tók sénsinn á því að innsæið væri ekki að svíkja mig og að nú þyrfti ég ekki að „elska manninn í lag”, (nokkuð sem við konur eru snillingar í að trúa að sé hægt ). Guði sé lof fyrir kjarkinn sem ég sýndi þar, stundum er mikil gæfa fólgin í því að vera kjánalega hugrakkur. Maðurinn minn er bara í góðu lagi, hann er ekki fullkominn en ég þarf aldrei að gefa afslátt af sjálfri mér. Og það skiptir öllu máli.

Á morgun ætla ég ekkert að horfa á fleiri seríur, nú er þetta orðið gott í bili. Amma á eftir að lesa nokkrar bækur fyrir drenginn og lita handa honum nýja mynd á vegginn hans og þá þýðir ekkert að liggja í sjónvarpsglápi. Þessar konur verða bara að gera mistökin sín upp á eigin spýtur án þess að ég sé að fylgjast með enda dugar mér alveg að fyrirgefa sjálfri mér eigin mistök. Ég mun nota síðustu dagana hér til að rækta góðu samböndin í lífinu og hlakka til að koma heim.worth-amy