Kúlan í maganum

Ég lærði nýverið af 5 ára barnabarni að „kúla í maganum” er notað til að lýsa kvíða. Börn eru oftast fremur hlutbundin í hugsun og eiga kannski erfitt með að koma því í orð hvernig þeim líður en þau skilja vel hvernig það getur verið að hafa slíka kúlu í maganum. Við fullorðnu þekkjum líka kúluna mætavel, hnútinn í maganum sem myndast þegar við erum spennt, full streitu eða kvíðin. Og auðvitað er það ekki bara einhver huglæg upplifun, heilinn er beintengdur líkamanum og kvíðinn veldur líkamlegum breytingum, mjög gjarnan á meltingarfærin þar sem við finnum vel fyrir þeim.

Góðu fréttirnar eru þær að nú er að vaxa úr grasi kynslóð sem lærir um tilfinningar strax frá upphafi. Þau læra að tilfinningar eru nauðsynlegar og að allir hafa þær.  Þau læra að setja nöfn á tilfinningarnar sínar, skoða þær og horfast í augu við þær. Þannig læra þau ekki einungis að gangast við sjálfum sér og vinna með erfiðar tilfinningar, þau verða einnig í minni hættu á að sjúkdómsgera tilfinningar og gera það á einhvern hátt óeðlilegt að finna t.d. til kvíða.

Og af hverju skiptir þetta máli? Höfum við kynslóðirnar sem nú erum fullorðin, mín kynslóð og kynslóð foreldra minna ekki skilað okkar, án þess að hafa lært um tilfinningar? Þarf eitthvað að vera að tala um tilfinningar, er það ekki bara vesen sem engu skilar?

Vissulega höfum við skilað okkar framlagi, við höfum unnið dagvinnu, unnið vaktavinnu og yfirvinnu, staðið okkar plikt, komið upp börnunum okkar og eignast eigið húsnæði. Langflest. Einhverjir brotnuðu undan álagi lífsins eins og gengur, einhverjir voru „tilfinningasamir” og jafnvel „móðursjúkir” og „taugaveiklaðir” og það þótti skrítið og engan vegin eftirsóknarvert. Karlmennska og æðruleysi fólst í því að bíta á jaxlinn og ræða ekki sársauka og hjartasár, – í  mesta lagi að eitt tár rynni niður steinrunnin andlit.

Misskilningurinn er reyndar sá að við erum öll jafn tilfinningasöm og taugaveikluð, við finnum öll fyrir kvíðanum, depurð, gleði, afbrýðissemi, reiði, og öllum hinum tilfinningunum. Og höfum við aldrei lært að skilja þær, þessar undarlegu kenndir sem brjótast fram þegar síst skyldi, þá höfum við heldur engar forsendur til að hafa á þeim stjórn og til að geta beint þeim í skynsamlegan farveg.  Við berjum þær niður eins lengi og við getum og þegar þær brjótast svo fram í stormum tilverunnar, taka þær óhikað af okkur stjórnina. Sorg sem aldrei var rædd verður að kvíða og kúlan í maganum verður að grjóti. Þannig grær aldrei um heilt og alltof margir fara þannig á mis við heilmikið af hamingju og vellíðan.

Það er nefnilega þannig að tilfinningar eru hluti af þeirri heild sem er manneskja, þær eiga upptök sín í heilastarfsemi og taugaboðum og eru okkur öllum lífsnauðsynlegar. Þegar við viðurkennum það, þá sjáum við líka mikilvægi þess að læra um tilfinningarnar, alveg á sama hátt og við lærum um blóðrásina, lungun og það hvernig börnin verða til.  Við getum ekki lært um þessa hluti nema að mega ræða um þá, velta upp hugmyndum og spyrja spurninga.

Þetta fær kynslóðin sem nú er að vaxa upp að gera og þetta getum við sannarlega líka gert. Það er aldrei of seint að skoða eigin tilfinningar, gangast við þeim og læra á þær. Láta af dómhörku í eigin garð en taka í staðinn upp sáttartilburði við sjálfan sig. Það er til fullt af fagfólki sem getur aðstoðað við þetta og það er líka til mikið af góðum og vitrum vinum sem eiga eyra til að hlusta og öxl til að gráta á.

Ég allavega mæli með þjóðarátaki til að vinna með „kúlur í maga” og láta þær ekki stjórna ekki of miklu í tilverunni. Þá geta þessi 5 ára áreiðanlega kennt okkur heilmikið.

Kornflex við kvíða

Kornflex var vinsæll morgunmatur bernskuáranna.

Fyrir réttu ári síðan lá ég á gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri eftir stóra og bráða aðgerð. Var mjög meðtekin og líkamlega lasin en bjartsýn og upprifin á sálinni, þess fullviss um að nú væri það versta búið og innan skamms yrði ég komin heim. Auðvitað vissi ég lítið um það þá að veikindin væru á upphafsreit og að næstu sex vikur yrði ég að á sjúkrahúsi á Akureyri og í Reykjavík. Vissi ekki að ég fengi nýrnabilun, að ég fengi brisbólgu, að ég færi í sex tíma aðgerð með biluðu speglunartæki, að ég færi í sjúkraflugvél,- að ég ætti eftir að vera marga mánuði að ná þreki og orku, finna til og geta hvorki sofið né nærst.  Sem betur fer vissi ég ekkert af þessu fyrirfram. Oftast er okkur nóg að setja annan fótinn fram fyrir hinn á degi hverjum og vita sem minnst um það hvað hið óútreiknanlega líf ætlar okkur daginn eftir. Því það er auðvitað þannig að þó við skipuleggjum tilveruna með reglustiku og reiknivél á lofti þá hlær lífið að öllum slíkum tilraunum og skellir á okkur óvæntum uppákomum, og þeim ekki öllum skemmtilegum. Því er lífsgaldurinn kannski sá að plana mátulega mikið, búast við því besta en fá ekki áfall þegar lífið skellir á okkur óvæntum hælkrók.

Það er hinsvegar ekki einfalt og því erum við kannski öll haldin eðlilegum lífskvíða, kvíða sem helgast af því að við vitum barasta miklu minna um framtíðina en við myndum vilja og getum lítið gert í því nema að spenna beltin og reyna að njóta ferðarinnar. Sem er jú erfitt þegar að maður er kvíðinn og því er í besta falli flókið að vera manneskja!

Sem betur fer er lífið auðvitað að koma okkur þægilega á óvart líka, með óvæntum gleðilegum atburðum, -ástin birtist okkur, börn verða til og fæðast, við eignumst nýja vini, sólin skín og hlutirnir ganga jafnvel betur en við þorðum að vona. Þá er mikilvægt að kunna að gleðjast og njóta þessara stunda og hugsa sem minnst um það sem gæti verið framundan. Það er jú ókomið og tilgangslaust að kvíða því fyrirfram.

Við kvíðaboltarnir eigum erfitt með að hugsa svona. Við förum í gegnum lífið, nokkuð svo viss um að hlutirnir fari einhversstaðar úrskeiðis og kvíðum því óstjórnlega að lífið muni koma okkur skelfilega á óvart. Þessi kvíði gerir okkur erfitt að njóta daganna og við vinnum ötullega í því alla daga að stoppa í öll göt sem gætu orðið til þess að koma í veg fyrir þetta stjórnleysi. Við göngum um með axlabönd, belti og bara allt sem mögulega gæti haldið uppi um okkur buxunum og eyðum í þessa tilgangslausu iðju bæði orku og tíma.

Ég reyni markvisst að tileinka mér bæði bjartsýni og núvitund þannig að hver stund eigi sitt andrými. Ég er þrátt fyrir allt glöð í eðli mínu og vil vera bjartsýn og jákvæð. Þó gerist það reglulega að inn í vellíðunarstundir læðast þær hugsanir að mér verði refsað fyrir gleðina með einhverju skelfilegu, einhverju óvæntu trikki af hálfu lífsins. Kvíðinn grípur um sig, maginn fer í hnút, hjartað fer að hamast og það er eins og líkaminn taki yfir alla vitræna hugsun.

Frammistöðukvíðinn á sér t.d. margar misskemmtilegar birtingamyndir,  t.d. drauma sem snúast um verkefni sem ég tek að mér en ræð þó ekkert við, s.s. að syngja á tónleikum, kunnandi hvorki textann eða lagið. Reyndar á ég ýmis góð ráð í þessum draumum eins og  að semja nýjan texta jafnóðum og impróvisera laglínu sem passar við hljóma lagsins, -loddarinn lætur á sér kræla. „Loddaraheilkennið” snýst nefnilega um það að hinn kvíðni er sannfærður um að aðrir hljóti að sjá í gegnum hann á einhverjum tímapunkti sem er jú mjög fyrirkvíðanlegt. Að það komist upp að hann sé latur, kunni ekki eða geti ekki. Að hann sé loddari.

Ég veit vel að fyrir þá sem að jafnaði eru vafðir í notalega ábreiðu kvíðaleysisins hljómar þetta eins og hver önnur steypa en þeir kvíðnu skilja hvað ég er að tala um. Þeir skilja líka af hverju það veldur kvíða að taka upp síma og hringja í fólk og af hverju maður forðast að fara á mannmarga staði. Þeir vita hvernig það er að vera búinn að skrifa minningargrein um manninn sinn þegar honum seinkar aðeins í kvöldmatinn og hvernig óvænt atvik líkt og veikindin mín á síðasta ári, verða að fínasta eldsneyti fyrir hinn sjúklega þreytandi félaga, kvíðann.

Því var það að við heimkomu af sjúkrahúsi í miðri fyrstu bylgju af Covid, var ég enn á ný farin að kljást við kvíðann. Mér gekk illa að sofa, ég var enn með magasondu og var að brasa með að standa upp án hjálpar og ég hafði ekki getað borðað af neinu viti í einhverjar vikur.

Bragðskynið var í rugli og ég gat alls ekki borðað það sem ég var vön. Ég hinsvegar fór að ráða við ýmislegt sem ég hafði borðað sem barn, drakk ískalda léttmjólk með matnum, borðaði eintómt ritzkex og langaði mikið í samloku með roastbeef og remúlaði. Já og kornflex. Kornflex með kaldri mjólk varð eiginlega mitt besta kvíðaráð eftir heimkomuna. Þegar ég átti erfitt með að sofa var besta ráðið að fara fram í eldhús, ná í kornflexpakkann og kalda mjólk og kjammsa um stund í góða stólnum mínum. Þá varð allt auðveldara.

Og þannig er það enn. Já jafnvel þótt heilsan sé önnur og betri, lífið sé mér gott og kvíðinn hafi losað tökin þá er kornflex (ó)siðurinn enn til staðar.  Stundum vaknar hundurinn og er eitthvað órólegur og þá förum við saman fram. Ég fæ mér kornflex og hundurinn leggst við stólinn minn og steinsofnar. Svo fer ég inn í rúm með fullan maga af óhollustu frá bernskudögum og sofna vært. Já því kornflex telst varla til hollustu í dag þótt Kellogs gamli hafi talið það vera stórkostlega uppfinningu og nært gesti á heilsuhælinu sínu með þessari nýju heilsusprengju. En það er voða bragðgott og fer einstaklega vel með léttmjólk fyrir utan hversu gaman það er að bryðja það. Venjulegt og gamaldags kornflex takk fyrir.

Ég hef auðvitað fundið mér samviskubit út af þessu kvíðakornflexráði mínu en eiginlega kæfði það í fæðingu. Ég gæti verið að fara á fætur til að fá mér í glas, eða reykja, eða spila póker á netinu eða hvað veit ég? Það er svo margt sem við gerum til að fóðra kvíðann okkar og svæfa hann um stund. Ég ætla að vera stoltur kornflexkjammsari og njóta þess á meðan ég hef þörf fyrir að vakna að nóttu og tækla kvíðann. Í dag skín samt sólin, sunnudagurinn lofar öllu fögru og líklega verður ekkert kornflex á mínum diski fyrr en í fyrsta lagi í nótt. Njótið dagsins!

Fullkomna konan

Photo by Suzy Hazelwood on Pexels.com

Einu sinni var kona sem komin var af léttasta skeiði og hún var haldin fullkomnunaráráttu. Það var henni stundum dálítið erfitt þar sem hún var bæði gigtveik og orðin nokkuð þreytt og stundum kvíðin. Hún hafði þó áráttu fyrir því að eiga að vinna að þúsund og einu verkefni á sama tíma, gera þau öll fullkomlega vel þannig að enginn gæti nú sett út á framkvæmdina.  Allt varð að vera í fullkomnu lagi, úti og inni, bíllinn hennar og húsið, landið og miðin.

 Hún hafði erft frá formæðrum sínum vilja til að taka ábyrgð á mörgu og byrðin var henni stundum þung. Þó hafði nú enginn lagt byrðina á herðar henni, hún hafði kosið sitt hlutskipti sjálf.  Fullkomna konan (með gigtina) var samt ekkert að hugleiða hvaðan byrðin væri komin, hún bara var þarna og ekkert annað í stöðunni en að halda áfram að vera fullkomin. Enda var hún svo ansi dugleg, allavega áður en hún varð svona þreytt og gigtveik, hún gat haldið húsinu hreinu, tekið slátur, soðið sultur, unnið, stýrt og stjórnað og tekið gráður í háskóla. „Til hvers að gera hlutina ef það á að kasta til þeirra höndunum” átti hún það til að hugsa og í hennar huga voru bara til tvær útgáfur, fullkomið eða ekki fullkomið. Og það sem var ekki fullkomið var ekki verðugt neinnar athygli og ekki þess virði að það væri gert.

Góðviðrisdagar að hausti voru stundum ákaflega erfiðir því að eins og allir vita þarf að nota góð veður. Sérstaklega á haustin. Þá þarf að ganga frá í garðinum, þvo gluggana að utan, slá garðinn, klára að taka upp kartöflur, þrífa bílinn, fara í berjamó, skipta út sumarblómunum fyrir haustlyng, sjóða sultur og saft og nota svo útsölurnar til að byrja á jólagjafainnkaupunum, svona ásamt öðru smálegu. Ég ætla nú ekki einu sinni að segja ykkur frá jólamánuðinum, þá fyrst átti nú allt að vera fullkomið. Reyndar var því nú þannig farið að því fleira sem var fullkomið hjá konunni því fleira stakk fram höfðinu og heimtaði ámóta fullkomnun, en það er nú önnur saga og lengri.  

Þegar fullkomna konan (en þó gigtveika) var þreytt þá var hún líka fremur óánægð með sig sem kom fram í því að henni fannst mikilvægara en nokkru sinni að hafa allt fullkomið. Því þreif hún og pússaði mun meira en venjulega og varð því að sjálfsögðu mun þreyttari fyrir vikið. Það var konunni erfitt að verða þreytt.

Maðurinn fullkomnu konunnar skildi voðalega lítið í þessu, hann hélt að það ætti að njóta góðviðrisdagana en ekki að nota þá. Hann var hinsvegar góður og vænn maður og vissi að hann átti að vera glaður með að eiga svona duglega konu en stundum fannst honum að hún væri að mæðast í aðeins of mörgu. Hann var bara fyrir löngu búinn að læra að láta kyrrt liggja, hún tók því ekki alltaf mjög vel ef hann lét að því liggja að hún gæti kannski gert aðeins minna.

Svo kom að því að fullkomna (en þó gigtveika) konan) varð alltof þreytt til að halda áfram að vera svona fullkomin. Hún reyndi aftur og aftur að byrja á öllum verkefnunum sínum en allt kom fyrir ekki. Hún hreinlega gleymdi hvað hún hafði ætlað að gera, komst ekki nema stutt inn í verkefnahrúguna þá fór allt í þrot. Þetta var hið versta ástand, fullkomna konan hágrét yfir eigin ófullkomleika og vissi ekkert í hvorn fótinn hún átti nú að stíga. Eiginmaðurinn reyndi allt til að hjálpa fullkomnu (nú ófullkomnu) konunni en það var erfitt. Honum hafði jú alltaf fundist hún fullkomin og honum fannst það líka núna en því gat hún ekki trúað.

Einn dag þegar konan var búin að liggja lengi og gráta fullkomna lífið sitt ákvað hún að nenna þessu ekki lengur. Hún fór á fætur, setti annan fótinn fram fyrir hinn á mjög svo ófullkominn hátt vegna gigtarinnar en uppgötvaði sér til mikillar gleði að hún gat samt gengið. Ekki kannski hlaupið en hún gat gengið og það dugði.  Svo leið dagurinn og konan gerði ýmislegt ófullkomið en mest gerði hún ekkert og það var best af öllu.  Þá fyrst gat hún farið að skapa og hugsa skemmtilegar hugsanir.

Maðurinn hennar kom heim úr vinnunni og gladdist ákaflega yfir því hversu konan var ófullkomin og elskaði hana meira en nokkru sinni fyrr.

Konan er nú vissulega ófullkomin en miklu léttari á sér en áður því að byrðin þunga er farin og það munaði nú sannarlega um minna. Góðviðrisdagar að hausti snúast nú oftar um ísbíltúra og sjaldnar um tiltekt og bara þegar orkan og gleðin eru til staðar. Slíkra daga er notið og stundum eru þeir notaðir.  Nú er ófullkomna konan miklu glaðari en hún var áður, sulturnar hennar eru keyptar í búð og hún er mikið til hætt að stýra og stjórna.

Hún hefur skilið að hún sjálf var aldrei og átti aldrei að vera fullkomin og það var óþarfi að reyna að fela það með fullkomnum verkum.  Ekkert er fullkomið í veröldinni og meira að segja náttúran sjálf gerir mistök.  Nú er konan þakklát fyrir ófullkomleikann og gerir sitt ítrasta til að gleyma ekki því sem hún hefur lært.

Sjúkrahúsminning

Á tímum þar sem endalaus og (oft innistæðulaus) jákvæðni er dyggð þá deili ég með ykkur hugsunum sem komu upp um það að liggja lengi á sjúkrahúsi, gjössovel (tek það fram að ég er heima núna í bataferli):

vintage photo of hospital patient with visitor

Það er fátt einmanalegra en að liggja á sjúkrahúsi
Að liggja í rúmi sem er ekki þitt, á dýnu sem hefur ekki lagað sig að líkama þínum heldur er sérstaklega framleidd til að laga sig ekki að neinum einum.
Í rúmi og á dýnu og með sæng og kodda sem ekki þekkja þína vöðva, þína hryggjarliði, þína drauma og þinn veruleika. Í hvítu líni sem er merkt spítalanum, (eins og þér dytti í hug að ræna þér gatslitnum sjúkrahússængurverum. )

Starfsfólk sem er þér vænt og vill þér eflaust vel en stéttaskiptingin er skýr,- þau eru starfsmenn, þú ert sjúklingur. Þau eru hraust og ilma vel, nýkomin úr sturtunni, hress og dugleg og það sem meira er,- þau geta farið inn á vaktina og rætt um þig, haft á þér álit og skoðanir algjörlega án þinnar þáttöku. Þú liggur bara í hvítu ljótu nærfötunum í ókunna rúminu, þú með þínar slöngur og dren,- það er ekki góð lykt af þér og þú getur ekki skrifað þína eigin sjúkraskýrslu. Það gera aðrir.
Starfsmaður sem pirrast nett yfir bjölluhringinum að nóttu þegar þú þarft að pissa einum of oft, – lætur pirringinn smita yfir í sjúkraskýrsluna og þar má nú lesa að þú nennir ekki alveg að gera sjálfur,- að þú sért ekki að leggja nógu mikið á þig?
Þegar allt sem þú þráir er að komast út og heim og verða aftur manneskja en ekki bara skrokkur í hnausþykkum bómullarnærfötum með óklipptar táneglur. Þú bara getur ekki betur.

Læknirinn sem kemur og stendur brosandi við rúmstokkinn, fullur af bjartsýni og faglegum ákafa,- honum er varla hægt að segja hvernig þér líður. Það myndi kannski rýra traustið og álitið á þér sem sjúklingi ef þú segðir honum að þú sért bæði hrædd og einmana.
Þú ætlaðir ekkert að lenda þarna, þú ætlaðir ekki að gráta, þú ætlaðir ekki að upplifa allan þennan sársauka og óttast að deyja.

Næturnar þegar þú iðar af sársauka sem ekkert linar og ef þú nærð að sofna dreymir þig að þú sért að kafna,- eða drukkna. Morfínlyfin hafa þau áhrif í þínu tilfelli. Langar, langar nætur með heimþrá og tíma sem líður óendanlega hægt.

En svo er hjúkrunarfræðingurinn sem sér þig gráta og býðst til að þvo á þér hárið í rúminu og gerir það af þvílíkri natni og elskusemi að sálin nærist ekki síður en hárið. Og sú sem situr á rúmstokknum og hlustar á söguna þína,- og sú sem heldur í höndina þína með hanskaklæddri sinni á meðan þú ert svæfð enn einu sinni,- og segir þér að hugsa fallegar hugsanir inn í svæfinguna. Og svo er læknirinn sem sem veit hvernig þér líður og finnst það eftir allt saman bæði eðlilegt og sjálfsagt að þú sért hrædd og döpur.
Þetta fólk og margir fleiri létta þér sannarlega þessa skrýtnu daga sem voru sannarlega ekki á planinu þínu.

Vinir og vandamenn gera auðvitað sitt, senda kveðjur, rafræna kossa, hjörtu og batakveðjur sem gleðja, húrra fyrir Internetinu. Ekki er víst fyrir að án þess hefðu allir sest niður og skrifað mér bréf eða haft fyrir því að koma í heimsókn, – og þú skrollar og skrollar,- þumalfingur í stanslausri æfingu. Verra er að geta litlu svarað, orkan leyfir ekki meira en að senda hjarta til baka. Það litla hjarta er fullt af þakklæti.

Meira að segja þínir nánustu sem koma daglega eru ekki innvígðir,- þeir eru gestir og maður kvartar ekki og kveinar þegar gestir koma í heimsókn. Hvernig í ósköpunum ættu þeira að skilja það sem þinn kollur berst við af hugsunum á dögum sem ætla aldrei að líða. Þannig á það líka að vera, þú ert lasin og þitt er að takast á við lífið þitt. Það þýðir þó ekki að mikilvægi þessa einstaka og takmarkalausa stuðnings sé minna,- það er meira en mikið.

Þú átt að vera læknavísindunum og heilbrigðiskerfinu þakklát, það er alls ekki víst að þú hefðir fengið líkn og lækningu í öðrum heimshlutum. Og þú ert þakklát, reynir að sýna það, stundum tekst það en stundum verðurðu bara tárvot frekjudós,- af því að sálin er lítil og aum. Stjórnin var tekin af þér og þú ert að reyna að hafa stjórn á því litla sem þú getur.

Þú lærir og lærir, miklu meira en þú vildir en það er samt dýrmætur lærdómur.

Hún á afmæli í dag…..

EB9C8ECC-353D-4A9E-A546-A37FEDDB46DEAfmælisbær dagsins á sér bæði bakhlið og framhlið eins og flestir þéttbýlisstaðir veraldarinnar. Þetta gildir bæði um mannvirki, gróður og mannlíf eins og gefur að skilja en framhlið Akureyrar er sannarlega falleg, -gróðursæl, umkringd fallegum fjallahring . Hún býr við veðursæld blessunin og oftast friðsæld líka og þó stundum sé þráttað þá berast íbúarnir allavega ekki á banaspjótum. Það þykir mun betri tómstundaiðja að þvo bílinn sinn eða slá lóðina en að vera með vesen.

 

Mér þykir undurvænt um Akureyrina mína jafnvel þótt bakhliðin hennar sé ekki alveg jafn fögur og framhiðin. Hún er svolítið svona snobbuð maddama Akureyri á köflum enda borðaði hún danskar napóleonskökur á uppvaxtarárunum og hýsti garðveislur með fínu fólki. Hún á alvöru lystigarð og leikhús jafnvel þótt KEA, Amaró og SÍS heyri nú sögunni til.

Í mínum huga táknar Akureyrin eitthvað sem er stærra en ég,- framvindu tilverunnar. Hér bjó fólkið mitt löngu fyrir minn dag og hér verður áfram lifað og starfað. Hér eru göturnar sem langafi og langamma gengu og það gefur einhvern vegin öryggi og ró í sinnið að Vaðlaheiðin skuli enn brosa við okkur yfir Pollinn, hvernig sem veröldin veltist.

Við skulum allavega fara vel með hina bústnu maddömu, fegra hana eftir föngum en ganga ekki fram af henni með offorsi í breytingum. Gamlar maddömur þurfa umþóttunartíma.

Til hamingju fóstra mín, mun halda áfram að mæta í afmælisboðin þín.

IMG_5784
Enter a caption

 

Haustveira

young woman hugging cute daughter with dog in masks taking selfie on steps

Já lífið krakkar mínir,- lífið! Enn á ný erum við minnt á það hversu litla stjórn maðurinn hefur á náttúrunni, eða þá í besta falli, hverslags óstjórn það er sem við reynum að viðhafa. Enn og aftur minnir allt okkur á það að við þurfum að lifa með lífinu en við stjórnum því ekki. Jörðin skelfur, veður verða válynd og veiran okkar stóri vágestur snýr aftur magnaðri en fyrr. Fréttatíminn er aftur kominn með myndskreytingar af risastórri ljótri veiru og sama parið gengur endalaust inn í Leifsstöð með grímurnar fyrir andlitinu. Við reynum enn að skella skuldinni hvort á annað en enginn vill missa spón úr sínum eigin aski, meira að segja íþróttir eru farnar að snúast að svo miklu leyti um fjárhagslega hagsmuni að forsvarsmenn þeirra taka fullan þátt í þessum dansi í kringum gullkálfinn.

Við vissum vel og okkur var margoft sagt það að lífið með faraldrinum yrði langhlaup, við fengum ágætis sumarfrí og gátum látið um stund sem veiran væri orðin minningin ein en það gengur ekki mikið lengur. Sumarfríinu er að ljúka.

Nú þarf að setja upp grímurnar, sleppa tökunum og fórna ýmsu því sem við áður töldum sjálfsagt, svona eins og það að geta hópast saman,- hópverur sem við erum. Hörfa aftur inn á við og treysta á þá sem þurfa að standa í eldlínunni, láta skynsemi og samhyggð ráða fremur en skammtímagróða. Hlýða öðlingnum honum Víði sem er orðinn nokkurs konar samnefnari skynsemi og vísinda.

Óvissu um framtíð, heilsu og afkomu fylgir kvíði og kvíðinn er ekkert sérstaklega góður félagi. Hann fer meira að segja að verða fylginautur barnanna okkar og það er auðvitað það versta. Það er mörgu að kvíða og mörg vandamálin sem ráða þarf fram úr.

Ég ætlaði hinsvegar ekki að predika neitt,- stundum reyndar verður það svona eins og ósjálfrátt því ég er jú eins og við flest, nokkuð viss um að mín viðbrögð og mínar tilfinningar séu rökréttar. Sorrý bara, skal reyna að gera betur. Predikun lokið, allavega í bili.

Ég ætlaði hinsvegar aðeins að koma inn á það sem koma skal og segja ykkur hvernig mér líður gagnvart því. Ég viðurkenni vel að ég er kannski ekki sú sem þjáist mest fyrir að draga mig í hlé, verandi félagskvíðin kona en mér finnst vond tilhugsun að bakka aftur. Mig langar að geta boðið mínu fólki í mat og mig langar að hitta þá sem mér þykir vænt um, langar að vita hvenær ég hugsanlega get hitt barnabarnið mitt í Ameríku, hvenær ég get farið aftur á tónleika og svo má lengi telja.

Það er svo skrýtið að þegar ég byrja að skrifa um þessa veirutíma, þá finnst mér að ég geti talið upp endalaust slæma hluti, ég megi ekki sleppa neinu því allir séu að þjást fyrir ástandið. En kannski liggur kvíðinn einmitt þar og eftirfarandi er mikilvægt að muna: Ég ber ekki ábyrgð á vanlíðan allra og ég má skapa mér góða daga jafnvel þótt öðrum líði illa. Samhyggð er ekki það að upplifa kvíða og sorgir allra annarra á eigin skinni. Samhyggð er að geta sett sig í spor annarra og skilið hvernig þeim líður en ekki að taka tilfinningar þeirra og gera þær að sínum.

Að því sögðu viðurkenni ég bara að ég get séð fram á góða daga þrátt fyrir allt. Ég bý við vanheilsu og stunda ekki fasta vinnu þannig að ég get unnið mín verkefni eftir sem áður að heiman að hluta til. Ég get sinnt heilsunni minni heima, gengið úti og hugsað um veröldina mína sem skreppur saman og verður lítil og viðráðanleg en samt með óþrjótandi verkefnum. Þar eru ólesnar bækur og óbakað brauð, ómálaðir veggir og ósögð orð. Þar er tölvusamband sem ég þakka fyrir dag hvern. Ég get talað við fólkið mitt, lesið og sungið með barnabarninu í annarri heimsálfu, skrifað bréf og unnið að allskonar verkefnum. Unnið ljósmyndir, farið í bankann minn, talað við lækninn í Reykjavík, horft á bíómyndir, kannað lönd og heima. Ég eignast vini í gegnum netið og held sambandi við gömlu vinina. Fólk deilir meiru á netinu nú en áður, segir frá hugsunum og tilfinningum, deilir upplifunum af veikindum og sorgum. Við það færumst við nær því að skilja hvort annað og þannig verður til samhyggð.

Kannski (og nei ég hætti aldrei að vona það) lærum við meira um mennsku og samhyggð í mátulegri fjarlægð og kannski getum við verið betri hvort við annað þegar samskiptin færast í eðlilegt horf aftur. Við verðum jafnvel búin að læra að draga úr lífsgæðakapphlaupinu og farin að kunna að meta að manneskjan er bara lítið brot af lífskeðjunni, hvorki höfundur eða stjórnandi náttúrunnar.

En nú er ég líklega aftur farin að predika. Förum inn í haustið og faraldurinn af varkárni og ábyrgð en gleymum ekki að það má alveg vera gaman. Það meira að segja á að vera gaman.

Góðar stundir.

Um gömul föt og minningar

clothes clothes hanger clothing dressÉg hef verið upptekin nú í sumarhretinu að hreinsa til í fataskápnum mínum og komist að því að það er býsna margt líkt með fötum og gömlum minningum. Á sama hátt og það er erfitt að koma sér að verki með að byrja að vinna sig í gegnum skúffur og hillur, getur verið ótrúlega erfitt að fara yfir gamlar minningar og hreinsa til í tilfinningunum sem þeim fylgja. Því alveg eins og föt sem maður setur innst í fataskápinn, sitja minningar um kyrrt í undirvitundinni, þangað til að maður opnar upp á gátt, hleypir birtunni og skoðar það sem fyrir er.

Það sem er efst í hillum og skúffum er jú það sem oftast er notað, er nýlegt, ferskt og spennandi og gaman að spóka sig í slíkum flíkum. Sumt lendir reyndar aftast þótt það sé nýlegt en það eru flíkurnar sem maður hafði ekki fyrir því að máta almennilega eða lét freistast þótt þær pössuðu ekki alveg og væru ekki þægilegar.

Það er líka það sem maður gerir við önnur vonbrigði lífsins, maður lokar þau í hugarfylgsnunum og oft dugar það í ákveðinn tíma,- erfiðleikarnir gleymast, minningar dofna og fyrnast. Þær minna á sig af og til eins og óljós verkur en það er of sársaukafullt að skoða þær. Og alveg eins og með flíkurnar þá er oft um að ræða minningar um fólk og tilveru sem passaði okkur aldrei og voru sannarlega ekki þægilegar.

En hver vill sitja uppi með fataskáp fullan af gömlum rykugum flíkum sem engum passa? Sem fara að lykta af innilokun og menga þannig það sem gott er í skápnum. Það sem við viljum nota daglega, er vandað og okkur líður vel með.

Nei út með draslið, það er hægt að gefa föt í Rauða krossinn eða Hertex, eitthvað sem ekki er hægt að gera með minningar, -kannski sem betur fer. En það er hægt að taka upp minningar eins og gamla kápu og skó, skoða og rifja upp hvað það var sem olli því að þær pössuðu ekki og láta þær svo hverfa með öðru rusli.

Við erum nefnilega ekki dæmd til að sitja uppi með slæmar minningar. Stundum rifjast upp að hlutirnir voru alls ekki eins slæmir og okkur minnti og við getum endurskoðað tilfinningar sem þeim tengjast. Við getum fyrirgefið okkur sjálfum og öðrum og mildað þannig gömul sárindi og við getum jafnvel skilað skömminni til þeirra sem hafa unnið okkur mein og þannig hætt að sitja uppi með skammartilfinninguna í eigin barmi.

Forsendan er samt sú að fara í það erfiða og oft leiðinlega verkefni að skoða sjálfan sig á sama hátt og við skoðum í fataskápinn. Ekki fresta því of lengi, manni líður svo miklu betur þegar það er búið.

Við eigum skilið það sem gott er, föt sem okkur líður vel með, eru framleidd á sjálfbæran máta, fara okkur vel, eru þægileg og kosta ekki of mikið.

Við eigum líka skilið að okkur líði vel í sálinni, að við þekkjum tilfinningar okkar og minningarnar sem þær tengjast, könnumst við þær og náum sátt við okkur sjálf og tilveruna.

 

Góða og gleðilega tiltekt.

Endurfæðing.

Tímarnir sem við lifum núna eru eins og að lifa skáldsögu eða kvikmynd og víst er að höfundar hafa margoft sett upp landslagið sem heimurinn allur upplifir núna. Veirufaraldur svo hastarlegan að allt mannlíf er sett úr skorðum um lengri eða skemmri tíma. Sérhver einasti jarðarbúi upplifir ógnina á sinn hátt og það rennur upp fyrir okkur flestum að nú erum við öll á sama báti, jafnvel þótt stjórnvöld reyni að ýta undir þjóðernishyggju.

Það er samt gott að búa með lítilli þjóð núna. Þjóð sem hefur svo lengi verið einangruð í hafinu að henni er eðlislægt að hafa nægt rými fyrir hvern og einn, þjóð sem er svo fámenn að sérhver einstaklingur skiptir máli. Þjóð sem kann að rísa upp gegn kúgurum og valdastétt og hefur gert það áður.

Við höfum eins og heimurinn tekið þátt í kapphlaupinu á þessari öld, ferðalög á milli heimsálfa eru sjálfsögð, neyslan gengdarlaus og virðing fyrir jörðinni sem elur okkur er hverfandi. Mannkynið hefur ítrekað fengið viðvaranir um að hægja á, hægja á lífsmynstri, kröfum, neyslu, ferðalögum og stríðsrekstri.

Dæmin um hamfarahlýnun, skógarelda, endaskipti á árstíðum,- og nú veirufaraldur sem ljóst er að tekur af okkur ráð og völd. Við erum tilneydd til að hægja á.

Sjálf veiktist ég hastarlega í febrúarbyrjun af kvilla sem ekkert hafði með veirur að gera heldur voru eftirköst og aukaverkanir eftir gallblöðrutöku. Ég var á Landspítala eftir aðgerð í lok febrúar og þá var þjóðin að byrja að átta sig á nýjum veruleika þegar veiran fór að stinga sér niður og smitaðir streymdu heim frá norður Ítalíu og Austurríki. Þrátt fyrir að hafa verið mikið veik í margar vikur, óttaðist ég samgang við aðra á spítalanum, hafði minn eigin sprittbrúsa á náttborðinu mínu og hélt eins mikilli fjarlægð og mér var unnt.

Ég komst á Sjúkrahúsið á Akureyri með sjúkraflugi daginn fyrir heimsóknarbann á Landspítalanum og fékk að útskrifast heim í leyfi daginn sem slíkt bann tók gildi hér. Ég hef aldrei verið eins fegin á ævinni að komast heim til Akureyrar og hef ég þó oft verið afar glöð vegna þess.Það góða fólk sem sá til þess að ég komst alla, hjúkraði, læknaði og hlúði að mér, fær ævinlangar blessunaróskir.

Þessi tími átti reyndar að vera uppskerutími, bókarkornið sem ég hafði unnið að í heilt ár, var gefið út í byrjun mars og ljósmynda og ljóðasýning var opnuð að mér fjarstaddri í marsbyrjun. Mér var reyndar sama,- ég var svo fegin að vera á lífi og fá að vera heima. Veikindin voru óvænt þótt ég hefði fundið lengi fyrir aðdraganda þeirra og mig grunaði ekki að svona gæti farið.

Og nú er ég á sama stað og allir hinir, nema hvað orka og úthald eiga langt eftir og ég þarf að bíða eftir síðustu aðgerðinni minni. Ég get orðið sett í þvottavél, farið sjálf í sturtu og þurrkað af og það eru lífsgæði. Ég get farið í stuttan göngutúr á góðum dögum og ég hef nægan tíma til að hugsa um framtíðina og gera mitt til að varpa af mér fortíðinni.

Þannig ætla ég að líta á þessa tíma sem endurfæðingu. Fæðingu nýrra tíma, nýrra hugsana, nýrra tækifæra. Ef ég hef þann styrk sem þarf til að komast í gegnum aðdraganda endurfæðingarinnar, þá vil ég vera í liðinu sem styður nýja hugsun, sjálfbærni og vonandi betri heim fyrir börnin okkar og barnabörnin.

Kannski eru þetta útópísk markmið en þó ekkert óraunverulegri en það sem setti þau af stað. Ég hef ennþá trú á því að mannkynið geti lært og breyst en hver og einn getur ekki meira en að setja sér eigin markmið og fagna vorinu og því að betri tímar munu koma.

5D62AA55-24C3-470E-9747-35EDE03F4863

FARÐU ÚT!

IMG_8840Mér hefur, eins og svo mörgum öðrum alltaf fundist gott að vera úti í náttúrunni, ganga, horfa, hlusta og skynja. Ég er hinsvegar ekkert sérlega dugleg við að ganga á fjöll, það hentar mér ekki sérlega vel að hlaupa og mín útivera var aldrei neitt sérlega mikið „keppnis”. Ég var því ekki alveg að upplifa að mínar léttu göngur og mín náttúruskoðun væri nein sérstök heilsubót, en eyddi hinsvegar mörgum árum í að leita að hinni „réttu” líkamsrækt í hinum ýmsu líkamsræktarstöðvum. Það er fátt sem ég ekki hef prófað en fæst hefur mér þótt skemmtilegt nema þá helst að dansa. En ég var dugleg við að styrkja líkamsræktarstöðvar með því að kaupa af þeim áskriftarkort sem ekki voru notuð nema í örfá skipti.

Árið 2016 var sérkennilegt ár í mínu lífi þar sem ég veiktist illa af sjúklegri streitu, kulnun og örmögnun en það var líka árið sem við hjónin eignuðumst hund og ég fór að hreyfa mig úti með hundinum hvern einasta dag burtséð frá veðri, vindum, skapi, dagsformi eða neinu því öðru sem oft hafði komið í veg fyrir markvissa útiveru. Ég get auðvitað ekki sagt að útiveran hafi læknað mig af mínum veikindum en ekki get ég ímyndað mér hvernig líðan mín, líkamlegt og andlegt ástand væri hefði hennar ekki notið við. Í dag á ég kraftgalla, allskonar mannbrodda, skíðagleraugu, sólgleraugu, gönguskó….allt sem þarf til að þurfa sem sjaldnast að sleppa því að fara út að ganga.

Ég fór því að lesa mér til, kynna mér rannsóknir og skoða niðurstöður því að þótt okkur þyki kannski ekkert eðlilegra en að það sé hollt að vera úti og hreyfa sig þá vildi ég kafa dýpra og kanna t.d. áhrif á streituhormón og sjá hvað vísindin hefðu fram að færa varðandi náttúruna og áhrif hennar á streitu.

Í stuttu máli þá styðja rannsóknir sannarlega það að útivera og t.d. göngur í náttúrunni eða á grænum svæðum, getur mildað áhrif álags og streitu á líf okkar. Ekki einungis að slík svæði hvetji til líkamsræktar og félagslegrar virkni sem út af fyrir sig virkar vel gegn streituáhrifum heldur hefur útivistin ein og sér slakandi áhrif.

Jafnvel stutt heimsókn í almenningsgarð eða á grænt svæði innan borgarmarka dugar til að lækka cortisol í munnvatni en cortisol er hormón sem hækkar í streituástandi. Þessi áhrif eru óháð því hvernig og hvort fólk er að stunda líkamsrækt eða nútvitund í útiverunni. Hvers vegna skyldi þetta vera?

Ósnortin náttúruleg svæði virka mjög vel fyrir marga og einvera í náttúrunni er oft notuð til að sækja sér hugarró og íhugun. Frumbyggjar Norður Ameríku eiga sér hefð sem byggist á einveru, ferð í óbyggðir í nokkra daga þar sem samskiptin eru eingöngu við náttúruna sjálfa og eiga sér þann tilgang að endurmeta forgangsröðun, markmið og eigin stöðu í stóru samhengi. Við göngum Jakobsveginn, förum í óbyggðaferðir ofl. í sama tilgangi.

En við þurfum ekki að vera í fantaformi, hlaupa á fjöll eða hjóla til Dalvíkur til að fá fram þessi jákvæðu slakandi áhrif. Útiveran ein og sér er nægjanleg. Rannsóknir sýna að jákvæð tilfinningaleg og vitræn áhrif fást með nálægum grænum svæðum s.s. görðum en ekki einungis ósnortinni náttúru. Jafnvel það að sjá náttúruna út um glugga getur hjálpað til. Græn planta í sjúkrastofu hefur sýnt sig að hafa jákvæð áhrif á andlega líðan sjúklinga. Hver hefur ekki setið á þúfu í berjamó og fundið þessi jákvæðu áhrif bara við það að sitja og njóta útiverunnar?

Græn svæði hafa ekki einungis áhrif á streitu og andlega þreytu í augnablikinu en virðast yfir lengri tíma byggja upp aukið þol gegn áhrifum streituvalda í lífinu s.s sorg og meiri háttar áföllum s.s. að greinast með krabbamein. Sænskar rannsóknir sýna að dagleg umgengni við náttúruna bætir geðheilsu og athygli þegar bregðast þarf við slíkum áföllum. Að njóta lífsins á grænum svæðum eykur hamingju, styður við íhugun, hjálpar til að bregðast við áföllum og verndar gegn streituáhrifum. Þegar ekki er hægt að fara út fyrir bæjar- eða borgarmörkin er nauðsynlegt að hafa aðgengi að almenningsgarði eða grænum svæðum. Því fleiri slíka garða sem hægt er að mynda á auðum svæðum borga, því minni streita íbúanna. Því er mjög mikilvægt að vernda græn svæði.

Tré og sérstaklega sígræn tré, virðast hafa sín eigin sérstöku áhrif á streitu og heilsufar og hefur það verið rannsakað heilmikið líka. Að baða sig í skógi heitir á japönsku „Shinrin-yoku” og á rætur sínar að rekja til þess að borgarbúar í hinu þéttbýla Japan fundu vaxandi þörf til að leita kyrrðar og slökunar í skógum landsins. Skógarbað snýst um að ganga hægt um skóglendi og taka inn umhverfið með allri skynjun og að njóta þess sem það gefur.

Fyrirbærið hefur verið rannsakað mikið og hafa niðurstöður verið mjög samhljóma um jákvæð áhrif. Heilsubótin sem felst í því að vera innan um tré virðist að mestu snúast um tvennt sem hefur bein áhrif á líkamlega líðan. Hærra magn súrefnis í andrúmslofti skógarins, miðað við borgarloftið og svo návist efna sem kallast phytoncides, náttúrulegar olíur sem eru hluti af varnarkerfi trjáa gegn sýklum, skordýrum og sveppum. Návist við þessi efni getur haft mælanleg áhrif á menn. Um er að ræða áhrif sem draga úr streituviðbrögðum s.s. að bæði blóðþrýstingur og hjartsláttur lækka. Sígræn tré s.s. fura, framleiða mest af phytoncidum þannig að þar ættu mestu áhrifin að finnast.

Þetta voru þannig hinar hörðu staðreyndir og vísindalegu niðurstöður sem sanna okkur að það að vera úti í náttúrunni og njóta þess sem hún hefur upp á að bjóða lækkar þau neikvæðu streituáhrif sem of mikið álag hefur í för með sér.

En hvað með dulúðina? Hvaða segja trúarbrögðin, tilfinningarnar, ljóðin, sögurnar myrkrið og ljósið í lífi okkar. Jú vísindin gera kannski ekki annað en setja stimpilinn sinn á það sem mannkynið hefur alltaf vitað um náttúruna.Við höfum t.d. öll farið í skógarbað, við höfum bara kannski ekki kallað það því nafni.

Við höfum áreiðanlega gengið í skógi eða innan um trjágróður og notað þar öll skilningarvit. Hlustað, lyktað, snert og horft á náttúruna. Andað að okkur ilmi skógarins og notað hann til að vekja gleði og frið.

Það þarf ekki að flýta sér í skóginum því að að skógurinn flýtir sér aldrei. Tré vaxa hægt og þau hafa nógan tíma. Það gildir reyndar um alla útivist, það er allt í lagi að ganga stundum rösklega en það er líka mikilvægt að gefa sér tíma til að njóta þess að upplifa það sem náttúran er að miðla til okkar.

Það má gera gera núvitundaræfingar, taka hlé til að teygja eða gera öndunaræfingar.Taka með sér nesti og svo má yrkja ljóð, skoða plöntur og fugla, ýmist einn eða með öðrum.

Lærðu að meta hljóðin í skóginum, þau róa og lækna. Þytur í trjám og laufi, lækjarniður, fuglasöngur. Stundum bara þögnin ein. Það þarf ekki að gera neitt nema sitja og hlusta á þögnina. Að tengjast náttúrunni minnir okkur á að við erum hluti af stærri heild og allsstaðar í kringum okkur er eitthvað sem andar og lifir.

Sá sem dvelur úti í náttúrunni lærir af árstíðunum að lífið er hringrás og jafnvel þegar stórhríðin geisar úti og lauftrén hafa fellt blöðin sín, vitum við að það mun vora á ný og lífið mun kvikna. Alveg eins og við vitum innst inni þegar lífið færir okkur erfiðleika að þeim mun ljúka. Tré sem sveigist í veðrum og vindum stendur samt traust. Þau þurfa, eins og við, að næra ræturnar sínar, styrkja stofninn og teygja sig upp í ljósið.

Náttúran minnir okkur á það sem er okkur æðra og meira, bæði í okkur sjálfum og lífinu. Náttúran er í senn bæði stöðug og óvænt. Hún kennir okkur hversu fátt við vitum og hversu margt okkur er ekki ætlað að vita. Náttúran getur kennt okkur að við þurfum ekki að skilja allt í kringum okkur, stundum skiptir miklu máli bara að kunna að meðtaka og upplifa. Takist okkur þetta þá erum við líka miklu sterkari í baráttunni við streituna, hraðann og álagið sem herjar á okkur öll.

Ætlað sem fyrirlestur í Glerárkirkju þann 13.febrúar 2020. Vegna veikinda sendi ég ykkur þessar hugleiðingar héðan af Sjúkrahúsinu á Akureyri og með þeim bestu kveðjur.

Að einfalda líf sitt-hver er galdurinn?

apple background desk electronics
Ég settist niður með það að markmiði að skrifa nokkur orð um það að einfalda lífið. Ég hafði sjálf ýmsar hugmyndir að því hvernig slíkt gæti átt sér stað, hagnýt ráð og ýmislegt sem ég hafði viðað að mér hér og þar en mér fannst vanta meira kjöt á beinin. Það er ósköp þægilegt að benda fólki á að anda djúpt og lifa augnablikið (sem er jú frábær uppskrift að einföldu og væntanlega hamingjuríku lífi) en það er þetta með að vita hvar á að byrja.
Byrjar maður á að losa sig við veraldlega hluti, þarf tiltekt í húsinu eða þarf að dusta í burtu andlega köngulóarvefi og losa sig við hugarflækjur? Þarf að losa sig við eitruð sambönd og eiga þannig svigrúm fyrir góð tengsl við aðeins færri eða þarf að fækka tómstundum foreldra og barna svo að hálfur dagurinn fari ekki í skutl og transport af ýmsu tagi?
Þarf að einfalda alla þætti lífsins eða bara suma og hvernig í ósköpunum á þetta allt að ganga upp á einfaldan máta? Samfélagið er jú flókið og flóknar aðferðir virðast vera það eina sem dugar til að lifa af? Eða hvað?
Ég gerði það sem ég oftast geri þegar mig vantar svör og byrja að skoða málin…ég fer á netið. Viti menn, það kom upp síða eftir síðu af svörum frá alnetinu flestar buðu þær upp á allt frá 20 upp í 78 aðferðir til að einfalda lífið. Allt frá nokkuð nákvæmum leiðbeiningum um það hvernig mætti einfalda hvern lið í tilverunni til ofurnákvæmra leiðbeininga um það hvernig mætti gera slíkt hið sama. Allar þessar leiðbeiningar voru settar fram af mjög vel menntuðu fólki, fræðingum ýmiskonar og ekki síst heilli stétt af markþjálfum sem hafa jú orðið til m.a. til að uppfylla þörf fólks fyrir slíkar leiðbeiningar.
Og það er sko ekki bara á alnetinu sem finna má leiðbeiningar um að einfalda lífið nei ó nei….-bækur og námskeið eru allsstaðar í gífurlegu framboði og sannarlega vandi að velja.
Ég eiginlega gafst upp. Við erum eins misjöfn og við erum mörg og það er sannarlega ekki hægt að gefa eina uppskrift af því hvers við þurfum með. Tvennt fannst mér þó athyglisvert á þann hátt að það gæti virkað sem ágætis byrjun.
1. SLEPPTU ÞVÍ BARA AÐ LESA SJÁLFSHJÁLPARBÆKUR OG GREINAR UM ÞAÐ HVERNIG Á AÐ EINFALDA LÍFIÐ. Það er mun árangursríka að slaka svolítið á, horfa inn á við og skoða hvort við raunverulega þurfum á því að halda og þá hvernig. Í leiðinni getur verið gott að muna að við erum yfirleitt bæði snjallari og betri en við sjálf trúum.
2. FINNDU Á HVERJUM DEGI EITTHVAÐ EITT SEM GÆTI VERIÐ HJÁLPLEGT AÐ LOSA SIG VIÐ.Gæti verið postulínsskál sem þú erfðir eftir Siggu frænku en hefur aldrei þótt falleg, áhyggjur af ókomnum atburðum eða ósamstæðir sokkar. Jógatímarnir sem þú nærð ekki sambandi við…eða bara útrunnin sulta úr ísskápnum. Það er ekki gott að burðast með meiri farangur en nauðsynlegt er.
Góðar stundir og gangi ykkur vel.
Upphaflega skrifað fyrir gönguhópinn „gengið gegn streitu”.