Frelsið við að vera kerling

66747229_10156470896964109_9000651581393207296_nÁ facebook gengur núna skemmtilegur leikur sem felst í því að setja mynd af sér í ákveðna viðbót og láta hana þannig sýna hvaða útlitsbreytingar verða þegar aldurinn færist yfir. Útkoman er ótrúlega skemmtilegar og eðlilegar myndir þar sem karakter viðkomandi skín í gegn um hrukkur og skalla. Mín mynd sýndi ótrúlega hrukkótta mig þar sem þó klárlega mín eigin augu horfa út úr þessu gamla andliti. Mér finnst þetta skemmtilegur leikur. Ég verð alls ekki ósátt við þetta útlit, frekar en ég er ósátt við hvernig ég lít út núna. Og trúið mér, það að sættast við sjálfa mig, tók langan tíma og var býsna erfitt. Það hefur ekkert með það að gera að finnast ég líta vel út eða illa, það hefur með það að gera að ég hef fundið þann stað í lífinu þar sem það skiptir ekki máli.

Ég get notið þess að setja á mig varalit og fara í fínan kjól og ég get líka farið út í rauðum gúmmístígvélum með buff og það er allt jafn gott.

Ég er nefnilega kerling sem verð fimmtíu og sex ára eftir nokkra daga og þessi kerling er bara laus við áratuga vandræðagang sem fylgdi því að vera aldrei sátt við sjálfa sig.

Ef það voru ekki aukakílóin, þá voru það psoriasisblettirnir, eða hárið, eða fötin eða nefið….eða bara það að vera ég, svona ómöguleg í alla staði. Og þessu bara deildi ég með milljónum annarra kvenna. Við eyðum tíma, orku, hamingju og peningum í að vera ósáttar við okkur sjálfar, nógu ósáttar til að kaupa allar heimsins lausnir sem geta bætt úr þessari ljótu allri. Ljótu sem er samt bara innra með okkur sjálfum og verður ekki þjálfuð, megruð, pússuð eða slípuð í burtu.

Svo koma fram ungar konur sem krefjast þess að fá að vera lausar við þessa komplexa alla og taka myndir af sér á bikiní og brjóstunum, flottar og frjálsar stelpur. Hvað gerist þá? Jú það spretta upp lærðir og leiknir sem fyllast áhyggjum af því að nú sé verið að normalisera það að vera of feitur.  Fussum svei bara…sértu of þung þá er það heilsufarsvandamál og því skaltu fela þig vel og vandlega þar til þú hefur náð af þér kílóunum!

Þvílík endemis þvæla! Þetta er álíka galið og að ætla að fela þá sem hafa krabbamein þar til að þeir eru orðnir frískir….ekki má normalisera það að hafa krabbamein eða hvað?

Við erum það sem við erum, við erum öll ófullkomin, með aukakíló, hárlaus, einn handlegg í stað tveggja, gömul, hrukkótt og öll gullfalleg. Falleg af því að við erum lifandi og mikils virði hvert og eitt.

Og ég sem er bæði orðin gömul og hef þurft að endurmeta hverja einustu frumeind af tilverunni minni hef loksins náð því huglæga frelsi að vera sama. Mér er þokkalega sama hvernig ég lít út, ég get sleppt því að fá samviskubit yfir því að segja eitthvað kjánalegt eða að öðrum finnist ég ekki vera að passa inn í rammann.

Ég get reyndar alveg tekið upp gamla takta svo sem að horfa inn í fataskápinn og taka móðursýkiskast yfir því að ég eigi ekkert til að fara í og verði bara að vera heima! Munurinn er samt sá að núna veit ég að það er tóm vitleysa og húmbúkk að hugsa svona og hverjum er svo sem ekki sama í hverju ég mæti.,- eða hvort ég er bara heima.

Njótum sumarsins og njótum þess að vera við sjálf.

 

Ég elska Internetið

Já ég viðurkenni það, ég elska Facebook, og ég elska Instagram og Messenger og þetta bara allt saman, mest alnetið samt. Ég vildi reyndar alveg vera ein af þessum viljasterku meinlætakonum sem taka sér frí frá Facebook eða jafnvel loka aðganginum sínum, mér finnst það megatöff en ég er bara ekki svoleiðis. Ég er alltof innhverf, alltof löt eða bara þá hentar það mér óskaplega vel að vera mikið á samfélagsmiðlum.

Svo finnst mér alltof margt hreinlega jákvætt og gott til að tíma að missa af því. Get nefnt um það fjölmörg dæmi og hér eru nokkur:

blur blurred background bokeh cellphone

Hóparnir á Messenger s.s. fjölskylduhóparnir þar sem hægt er til að mynda að skiptast á myndum af börnunum, miðla fréttum og „ekki” fréttum og deila sérstökum húmor sem bara viðkomandi skilja. Systir mín orðaði það svo að „þetta sé eins og að vera í góðu fjölskylduboði” og það er sannarlega rétt. Fólkið sem maður saknar alla daga, og er dreift um borg og bý, lönd og höf getur spjallað og hlegið saman í rauntíma, það er dásamlegt.

Vinnuhóparnir, vinir og vinkonur, kórar og félagar, bara allir þeir sem eiga eitthvað sameiginlegt, eiga þar mun auðveldara að eiga samskipti og skipuleggja hittinga og verkefni.

Þarna þarf reyndar að fara varlega og passa að skrifa í rétta hópa. Ég hafði eitt sinn skipulagt hóp með vinum og vandamönnum sem voru að aðstoða mig við flutninga og þar á meðal var góð vinkona. Ég deildi síðan mjög svo persónulegum upplýsingum með vinkonu minni eitt kvöldið, en í fljótræði og flumbrugangi, gleymdi ég því að ég var ekki bara að tala við vinkonu mína heldur allan flutningshópinn. Ef ég hef einhverntíma séð síma verða rauðglóandi þá var það þegar þeir fyrstu hringdu í ofboði til að segja mér að skrúfa fyrir upplýsingarnar. Þessu var ekki hægt að eyða og uppákoman var hin vandræðalegasta….en sem betur fer var þetta allt fólk sem þekkti mig vel og hafði ágætis húmor fyrir ruglukollunni mér.

Facebook hjálpar mér til að fylgjast með því sem gerist í menningarlífi, fylgjast með fréttum, fylgjast með vinum og vandamönnum, fylgjast með stjórnmálum. Ég er ekkert sérlega mannblendin alltaf og Facebook bjargar mér frá því að verða eins og einsetumaður á fjalli, vitandi ekki hvað er að gerast nær og fjær. Það sem getur þó gerst á Facebook er að maður fær líka hinar upplýsingarnar,- þær sem koma manni í raun ekki við eða maður vill ekki fá á vegginn sinn, rasisma, fordóma, dómhörku og illgirni. En þannig lærir maður líka að velja sér vini. Það er reyndar líka alltaf val, hvort maður tekur þátt í mannskemmandi umræðum og illu umtali en þegar fólk sem ég þekki ekki mjög mikið kýs að deila tilfinningum sínum með okkur hinum þá finnst mér það oft mjög gefandi. Við erum jú öll að glíma við sorgir og sigra og það er lærdómsríkt og gott að sjá hvernig aðrir takast á við tilveruna.

Instagram opnaði fyrir mér heim þeirra sem deila ljósmyndum og þar gleymi ég mér í fallegu myndefni. Álitsgjafarnir svonefndu hafa kyrfilega farið framhjá mínum aðgangi og það er líklega einn af kostunum við að vera kominn á miðjan aldur. Sama er með Snapchat, þar bý ég svo vel að eiga ekki aðgang að öðrum en börnum, barnabörnum og örfáum nánum vinum. Facetime og Skype er snilld og hafa gert svo ólíkt léttbærara, að hafa ekki börn og barnabörn nálægt okkur. Mín kynslóð man svo alltof vel þá tíð að það var skelfilega dýrt að hringja til útlanda og ekki bara til útlanda heldur líka í aðra landshluta og það var helst ekki gert nema um líf og dauða væri að tefla,- og jafnvel þá varð að hafa hraðann á.

Í dag spjalla ég við lítinn snáða í Vermont oft í viku, syng með honum og bulla án þess að hafa áhyggjur af kostnaði. Alnetið lifi!

Ég gæti haldið lengi áfram. Netflix leysti vanda hjóna sem ég þekki og sem aldrei geta komið sér saman um sjónvarpsefni, Spotify sparar mér marga hillumetra af geisladiskum, á netinu panta ég varning, ferðalög og skyndibita og það nýjasta gerðist fyrir síðustu helgi, ég pantaði helgarinnkaupin á netinu.

Reyndar fela kostirnir í sér gallana líka eins og með svo margt annað. Þannig enda ég kannski á því að þurfa aldrei að fara neitt og aldrei að hitta neinn. Spurningin er bara hvað kom á undan, eggið eða hænan og hvort Alnetið sé að bjarga okkur frá einsemd eða valda okkur einsemd.

Líklega er það sín ögnin af hverju en ég mun í það minnsta halda áfram að njóta tækninnar, spjalla og spekúlera á netinu en ég ætla líka að láta ekki tæknina taka alveg af mér völdin. Ennþá tölum við hjónin saman, í það minnsta ef við erum í sama herbergi.IMG_9239

Í endurnýjun lífdaga

white flowers between brown rabbit figure and eggsMargir hafa velt fyrir sér þýðingu þeirra siða og venja sem tengjast páskum. Það er í raun ekkert undarlegt að fólk skuli eiga erfitt með að tengja saman páskaegg úr súkkulaði með málsháttum innaní, við pínu og upprisu Krists. Páskarnir eru líkt og jólin heiðin hátíð löngu fyrir daga kristni og hún er líka hátíð gyðingdóms. Hin forna gyðja Eastre var gyðja vorsins, morgunsins, endurfæðingarinnar og barna. Eastre breytti uppáhalds gælufuglinum sínum í kanínu að því er sögur herma. Kanínan gladdi síðan börn með því að færa þeim marglit egg, tákn upphafsins og lífsins, að gjöf frá vorgyðjunni. Gott og vel, þar er komin páskakanínan eina og sanna sem enn færir börnum páskaegg (í sumum löndum) þó ekki hafi þau verið úr súkkulaði fyrr en löngu síðar. Og líka skýring á því af hverju kanína kemur með egg, en það skýrir svo sem ekki af hverju vorgyðjan kaus að breyta fugli í kanínu. Líklega verður það ekki rökstutt en kanínur eru jú frjósamar með afbrigðum og gætu verið annað tákn um líf og vor.

Gyðingar halda sína páska til að minnast þess er Guð leiddi þjóð sína úr ánauð Egypta og þeim er t.d. ekki leyfilegt að nota kornvörur eða borða sýrt brauð á páskum. Eðlilega ekki! Páskar gyðinga eiga þó fátt skylt við okkar kristnu hátíð enda er verið að minnast gjörólíkra atburða, aðeins nafnið er hið sama og tímasetningin.

Ég mun ekki skoða páska gyðinga neitt meira, nóg er nú ruglingurinn samt þótt páskarnir komist ekki með tærnar þar sem jólin hafa hælana. Við minnumst fórnardauða og upprisu Krists að því er ég best veit, en páskasiðirnir virðast að mestu leyti tengdir heiðni. Kanínur og egg virðast vera tákn endurnýjunar lífs og eiga þannig bæði við vorið og upprisuna. Svo hafa siðirnir tekið breytingum og eru mismunandi á milli þjóða og landa. Við borðum páskaegg, förum á skíði og skreytum með gulu, Tékkar flengja konur með páskavendi til að gera þær fegurri og á Filippseyjum eru menn krossfestir í fúlustu alvöru!

Fyrir mér sem ekki er sérstaklega áköf í barnatrúnni lengur er þessi tenging við vorið og frjósemina ákaflega viðeigandi. Vetri er að linna, fræið sem svaf í frosti er ekki dáið heldur lifnar við í eilífri og ótrúlegri hringrás náttúrunnar. Ekkert gefur meira tilefni til að fagna heldur en einmitt það. Við eigum nokkra frábæra og vel þegna frídaga eftir langan vetur og það er kannski það allra besta við þessa hátíð.

Við, eins og allt annað líf, þurfum nefnilega á hvíld að halda, við þurfum að endurheimta orkuna okkar því hún er auðvitað ekki óþrjótandi uppspretta. Við það að hvíla okkur, þá myndum við t.d hormón sem yngir okkur og eflir og svefninn er auðvitað forsenda góðrar heilsu, andlegrar og líkamlegrar. En við erum nú svo mögnuð með það að misskilja, lítillega eða bara heilmikið, þetta með frídagana og hvíldina. Spurningin „hvað á svo að gera um páskana?”, er eiginlega jafn algeng og spurningin „ertu búin að öllu fyrir jólin?”. Og hún þýðir auðvitað að samfélagið gerir ráð fyrir því að frídagarnir séu nýttir í að „gera” eitthvað. Dytta að bústaðnum, fara á skíði, ferðast, halda veislur og hvaðeina sem okkur kemur í hug. Sem er jú allt ákaflega skemmtilegt og áreiðanlega gott og blessað nema að því leyti að við erum þá kannski bara ekkert að hvíla okkur. Einhverjir halda ennþá í það að lesa bækur, sofa út og láta sig dreyma með súkkulaðitaum í munnvikinu en það eru áreiðanlega of fáir. Allavega miðað við þá sem þurfa á því að halda að hvíla sig. Hvíla sálina, heilann og líkamann. Draga úr áreitinu, símanum og fréttunum, ganga hægar, hlaupa minna, fara lítið og gera enn minna. Þá og aðeins þá náum við að framleiða hvíldarhormónin og endurnýja okkur fyrir sumarið sem í hönd fer.

Það er endurnýjun lífs sem er boðskapur páskahátíðarinnar, bæði þeirrar kristnu og gömlu heiðnu vorhátíðarinnar og það er vel við hæfi að halda upp á hana með því að endurnýja okkur sjálf, -með því að hvíla okkur!

Gleðilega páska.fullsizeoutput_2466

Innhverft smáspjall

Öll höfum við heyrt eða lesið um hvernig fólk getur haft innhverfan persónuleika (introvert) eða úthverfan persónuleika (extrovert). Sjálfsagt erum við flest blanda af hvorutveggja, njótum þess að vera með öðrum en þurfum líka tíma til einveru, mismikinn að sjálfsögðu. Við erum hópdýr en sum okkar eru meiri hluti hjarðarinnar en aðrir. Ég leyfi mér að fullyrða að öll þurfum við á öðrum að halda, líka eftir að við erum orðin fullorðin, við þurfum félagslegan stuðning, ást, snertingu og umhyggju, svo einfalt er það.

IMG_6687

Ég hélt lengst af að ég væri mjög úthverf manneskja, ég á jú fremur auðvelt með að tjá mig og hef líklega það sem talið eru vera góðir samskiptahæfileikar. Ég reyni að vera góður hlustandi og ég hef ákaflega gaman af því að heyra fólk segja frá því hvernig það hugsar, hvernig því líður og hvernig það upplifir veröldina.

Ég verð þó alltaf meira og meira innhverf með árunum, mér finnst gott að umgangast fáa og mér finnst gott að vera ein með sjálfri mér. Svo gott að það jaðrar við að vera truflandi að þurfa að fara mikið út úr húsi. Mig langar samt að hitta fólkið mitt, fjölskyldu og vini miklu oftar en ég geri. Mig langar að eiga djúp og innihaldsrík samskipti, tala um lífið, dauðann, tilfinningarnar og það sem skiptir okkur raunverulega máli. Mig langar að fara á fleiri tónleika, hlusta og njóta. En það sem mér finnst erfiðast er að hitta þá sem ég þekki ekki mikið og þurfa að taka þátt í smáspjalli.

Smáspjall eða „small talk” er mikil list.  Ég veit aldrei hvernig ég á að svara spurningum eins og „hvernig hefurðu það”, svo ég tali nú ekki um „er ekki nóg að gera?”. Ég er fáránlega mikill streitari og svarið mitt gæti verið á þessa leið „jú ég hef það gott einmitt þessa stundina en rétt áðan þá varð mér hugsað til þess að hundurinn minn hefði verið lengi einn heima og þá hafði ég það ekki svo gott. Í gær hafði ég það ágætt fram eftir morgni en eftir hádegi var ég mjög þreytt og hafði það ekki sérstaklega gott”. Enginn vill svona svör.

Hið staðlaða svar er: „Bara fínt, takk fyrir”. Í smáspjalli er ekki gert ráð fyrir hörmungarsögum eða vanlíðunarsvari, ekki löngu máli eða tilfinningasemi. Og það er alltaf nóg að gera munum það. Svör eins og  „nei veistu það er bara djöfull og dauði í vinnunni hjá mér, líklega verður mér bara sagt upp”, eiga ekki við í smáspjalli. Smáspjall er svolítið eins og Instagram, það sýnir glansmynd af okkur sjálfum, yfirborðskennda og grunna. Smáspjallið er mjög orkukrefjandi, það er flókið og hentar sko alls ekki öllum. Áreiðanlega myndi mér bregða ef einhver sem ég þekki ekki mikið myndi snúa sér að mér og spyrja „Inga, er hamingjan viðhorf eða ástand?” en mikið óskaplega væri það hressandi.

Það má segja smáspjallinu til varnar að það gefur tækifæri til að eiga orðaskipti  við þá sem maður hefur oft ekki séð lengi, fólk sem manni þykir vænt um en kannski hefur misst sjónar á. Samskiptaleiðir alnetsins gera þetta vissulega líka og þeir sem hafa knýjandi þörf fyrir að segja eitthvað meira, þeir skrifa pistla. En við megum þó ekki gleyma því að við megum alveg birta dýpri mynd af okkur sjálfum í daglegum samskiptum líka.

Innhverfur heimsins, þreytast meira á mannamótum en þeir úthverfu, þeir þurfa lengri tíma til einveru og hvíldar í sjálfum sér en það þýðir ekki að þeir vilji ekki eiga samskipti. Þeir vilja bara dýpri og innilegri samskipti en smáspjall og froðusnakk (sem er sko magnað orð). Þeir þurfa meiri tíma, tíma sem fáir virðast eiga en allir þrá.

Setningin „við verðum að fara að hittast” má ekki bara verða frasi, við þurfum að hittast í alvöru og eiga samskipti sem henta bæði úthverfum og innhverfum.  Taka í spila, spjalla í einlægni, drekka kaffi og elda saman mat.

Góða helgi

pexels-photo-403448.jpeg

Konur sem taka rangar ákvarðanir

Jæja enn er ég stödd í fylki hinna grænu fjalla í Trumplandi og eyði dögunum með sonarsyni mínum. Mamma hans vinnur langar vaktir á spítalanum sínum og pabbi hans er að vinna við sjónvarpsútsendingar í Kaliforníu og því eru dagarnir okkar oft ansi langir. Því hef ég horft mun meira á sjónvarp en ég The-Mindy-Project-Promo-Saison1-2er vön og má segja að um hámhorf sé að ræða eða „binge watching” eins og það er kallað. Það er að segja, ég hef „dottið” í seríur af sjónvarpsþáttum eins og t.d. „The Mindy Project” þætti um konu, kvensjúkdómalækni af indverskum ættum á Manhattan og svo nú síðast „Shrill” sem eru nýjir þættir um blaðakonu í yfirþyngd sem fer að skoða sjálfsmynd sína upp á nýtt eftir margra ára baráttu við aukakílóin. Sameiginlegt með öllum þessum þáttum sem teljast gamanþættir með sterkum kvenkyns aðalpersónum, er mikil áhersla á kynlíf eða allavega finnst mér það en kannski er ég lituð af mínu uppeldi og minni miðaldra tilveru. Kannski bara er þetta svona núna að allir eru ýmist að hugsa um eða tala um kynlíf, hvað veit ég?  Þetta gæti líka alveg haft með það að gera að þær eru konur, eflaust er ég líka fordómafull hvað það varðar. Ég þarf að vinna betur í þessu.

Annað sem gerir það að verkum að ég verð nokkuð pirruð á þessum seríum, er það að konurnar í þeim eru stanslaust að taka rangar ákvarðanir. Aftur og aftur, lenda þær í sama bullinu sem oftast nær snýst um sambönd þeirra við karlmenn, val þeirra á kærustum, meðvirkni þeirra og hvernig þær gefa lúserum og skíthælum fullkomið leyfi til að traðka á sjálfum sér, klárum og vel menntuðum konum.  Þessir þættir eru auðvitað framleiddir hér í Trumplandi sjálfu og það má auðvitað segja sem svo, að þar sem neysluhyggju  og yfirborðsmennsku er gert svo hátt undir höfði er áreiðanlega erfiðara fyrir konur að standa með sjálfum sér en víða annarsstaðar. Allavega á ég mjög erfitt með að fyrirgefa þessum persónum þetta veiklyndi og kvenlegu undirgefni sem þarna birtist.

Svo er spurningin hvort þetta pirrar mig svona mikið af því að ég hef í gegnum tíðina gert mig seka um nákvæmlega þetta? Að taka rangar ákvarðanir um það hverja ég á að elska og annast, og ekki bara af og til heldur aftur og aftur. Ég er líka kona sem telst greind og vel menntuð og jafnvel með ýmsa aðra kosti en hef látið útlitskomplexa og slaka sjálfsmynd verða til þess að ég hef gefið afslátt af sjálfri mér,- og farið langt undir raunvirði. Alveg nákvæmlega eins og þessar konur og kannski er það nákvæmlega boðskapur þáttanna. Að það verður aldrei nóg að hafa jöfn tækifæri til menntunar og launa ef við konur, getum ekki hysjað upp um okkur sjálfsmyndina og hætt að biðja afsökunar á því að vera til. Allavega langar mig mjög mikið til að ungar konur geri betur en ég hvað þetta varðar (og ýmislegt annað).

Við eigum að umfaðma mistökin okkar og fyrirgefa okkur rangar ákvarðanir,- eða svo er sagt. Gott og vel, ég viðurkenni að það er mjög æskilegt en það er samt ótrúlega þreytandi þegar maður sjálfur (eða persónur í sjónvarpsþáttum), gera sömu mistökin æ ofan í æ. Maður dettur sjö sinnum í sama pyttinn áður en manni dettur í hug að krækja fyrir hann. En auðvitað er þetta flókið. Eina örugga leiðin er kannski sú að hætta bara að taka slíkar ákvarðanir en það er jú það sama og hætta að lifa lífinu og það er lítið skemmtilegt.

Þegar ég kynntist núverandi manninum mínum hafði ég í raun allar forsendur til að setja handbremsuna á og segja „hingað og ekki lengra, nú verða ekki gerð fleiri mistök”. Það gerði ég ekki, ég tók sénsinn á því að innsæið væri ekki að svíkja mig og að nú þyrfti ég ekki að „elska manninn í lag”, (nokkuð sem við konur eru snillingar í að trúa að sé hægt ). Guði sé lof fyrir kjarkinn sem ég sýndi þar, stundum er mikil gæfa fólgin í því að vera kjánalega hugrakkur. Maðurinn minn er bara í góðu lagi, hann er ekki fullkominn en ég þarf aldrei að gefa afslátt af sjálfri mér. Og það skiptir öllu máli.

Á morgun ætla ég ekkert að horfa á fleiri seríur, nú er þetta orðið gott í bili. Amma á eftir að lesa nokkrar bækur fyrir drenginn og lita handa honum nýja mynd á vegginn hans og þá þýðir ekkert að liggja í sjónvarpsglápi. Þessar konur verða bara að gera mistökin sín upp á eigin spýtur án þess að ég sé að fylgjast með enda dugar mér alveg að fyrirgefa sjálfri mér eigin mistök. Ég mun nota síðustu dagana hér til að rækta góðu samböndin í lífinu og hlakka til að koma heim.worth-amy

Í Nýja Englandi á baráttudegi kvenna.

Í dag, á þessimagesum alþjóðlega baráttudegi kvenna, er ég stödd í borginni Burlington sem er í Vermont fylki í norðurhluta Bandaríkjanna. Ég er hér aðallega til að hitta barnabarn sem er fimm mánaða yndissnáði og eyði með honum dögunum að mestu. Við erum því laus við að vera mikið að velta umheiminum fyrir okkur skötuhjúin, enda er mjög kalt og lítið fyrir okkur að sækja þangað núna. Ungabörn sofa aldrei úti í vögnum hér og dæmi þess að íslendingar hafi hreinlega verið lögsóttir fyrir að reyna slíkt. Við söknum þó einskis við tvö, það er hlýtt hjá okkur og okkur leiðist bara frekar lítið.

Það er auðvitað mikið að gera hjá litla athafnamanninum, hann er sko aldeilis ekki iðjulaus. Það þarf að æfa sig í svo mörgu. Það þarf að æfa sig í að sitja, að snúa sér, að ná í alla þessa hluti sem maður sér og smakka á þeim, að prófa nýja hluti svo sem að borða graut og ótal margt fleira. Og amma snýst eins og skopparakringla að sækja dótið sem hent er á gólfið, blanda pela og njóta þess að vera hér og nú.

Ég auðvitað velti fyrir mér stöðu kvenna á þessum degi eins og ég geri að einhverju leyti flesta daga og hugsanir mínar í dag, litast heilmikið af pælingum í stöðu þeirra hér í Bandaríkjunum. Auðvitað eru þau ekki eitt ríki og misjöfn löggjöfin en menningin hér í Vermont er í það minnsta all mikið öðruvísi en við þekkjum hér heima. Fæðingarorlof er að hámarki tólf vikur og að því loknu tekur við að finna barnagæslu sem er dýr enda ekki niðurgreidd og það eru biðlistar hér rétt eins og heima. Að öðrum kosti hætta konur að vinna og gerast heimavinnandi mæður. Heimavinnandi feður eru til en þeir eru miklu mun fámennari.

Vermont fylki er þekkt fyrir frálslyndi enda kjördæmi Bernie Sanders sem er fylkisstjóri Vermontbúa og hér eru lög sem tryggja foreldrum allt að tólf vikna leyfi vegna barnsburðar og það innifelur veikindi á meðgöngu, mæðraskoðanir og alla frídaga eftir að barnið fæðist. Þetta leyfi er ólaunað en hægt er að fara fram á það við vinnuveitanda að fá sex vikur greiddar af uppsöfnuðum frídögum að mér skilst. Hið opinbera kemur ekki nálægt neinum greiðslum.

Kjósi kona að vinna úti eða hreinlega á ekki annars úrkosti tekur við önnur vinnumenning en við þekkjum. Bandaríkjamenn vinna ákaflega langan vinnu- dag, samkeppni á vinnustöðum er mikil og réttindi eru oft lítil. Það kallast gott að fá tveggja vikna sumarleyfi og samkeppnin er slík að mjög margir kjósa að nota ekki þessar tvær vikur heldur vinna allt sumarið. Enda sýna rannsóknir að streitutengd einkenni, kulnun á vinnustað og veikindi vegna örmögnunar eru ört vaxandi vandamál í Bandaríkjunum. Og kerfið sem grípur fólk að einhverju leyti á Íslandi s.s. sjúkrasjóðir stéttarfélaga og lífeyrissjóða, er ekki til staðar á sama hátt og á Íslandi. Veikindadagar sem slíkir eru sjaldnast hluti af kjörum fólks heldur svokallaðir persónulegir dagar sem eru þá eigin veikindi, veikindi barna og aðrir frídagar sem þú gætir þurft að fá. Nokkuð gott eða hvað?

Nú þær og þeir sem hafa efni á góðum tryggingum eða semja um þær í kjörum sínum eru auðvitað í betri málum og geta tryggt sig fyrir eigin veikindum og einnig fyrir kostnaði við fæðingu og fæðingarorlof.

Margt er auðvitað frábært í þessu landi alsnægtanna, laun geta verið há og skattar eru lágir en glerþakið er líka ákaflega lágt og talið er að einungis 43% kvenna í vinnu hafi laun sem duga þeim til framfærslu.

Ég nefni þetta allt í dag á þessum baráttudegi kvenna til að minna á þá staðreynd að réttindin sem við þó njótum á Íslandi eru dýrmæt og að ekki allar konur veraldar þekkja til slíkra réttinda. Íslenskir verkalýðsleiðtogar börðust fyrir þeim sem og auknum jöfnuði í launakjörum og um þessi verðmæti höfum við ekki staðið vörð. Við höfum ekki farið vel með velferðina, kjörin okkar gliðna æ meira og ef við ekki gætum okkar verður til stétt auðmanna sem nýtir sér þá velferð sem skattar okkar fara í að borga, en borga þó ekki skatta sjálfir nema að litlu leyti.

Verkföll eru alvörumál og öllum erfið en verkakonur á lágmarkslaunum þurfa að eiga sér rödd, bæði á Íslandi og annarsstaðar í heiminum-öðruvísi glutrum við niður velferðinni.

Ég vona að litli kúturinn sem nú er farinn í háttinn muni verða fyrirmyndarborgari, feministi og sósíalisti og vonandi hefur hann mannbætandi áhrif á samfélagið hvar sem hann verður í framtíðinni. Það er þó foreldranna að ala upp með honum gott siðferði og ég er ekki í vafa um að þau gera það vel og fallega.

Kveðjur frá Burlington.

IMG_7329

Blessaður sé snjórinn….

IMG_9673…..sagði enginn, aldrei (nema hugsanlega skíðamenn og fólk með annarlegar hvatir)! Ég finn að með vaxandi aldri, vex óþol mitt fyrir þessu hvíta hlassi sem virðist á köflum finna sér hvíldarstað innan bæjarmarkanna, nákvæmlega þar og hvorki utan þeirra né innan. Endalausar pælingar um veðurhorfur og úrkomuspár einkenna líf mitt – verður fært, mun hlána, verður svell úr þessu, mun ég detta og rotast eða brjóta mig, hversu oft þarf ég að moka, þarf ég að færa bílinn fyrir mokstursvélarnar….og svo framvegis? Þetta eru sko margar spurningar fyrir eina konu.

Og svo skoða ég veðurspána íslensku, wunderground stöðina, norsku stöðina og svo nokkur öpp í símanum mínum,- ber þetta saman og bý til mína eigin líkindaspá. Einnar konu veðurklúbbur, það er ég! Stundum segir ég manninum mínum að það séu 55% líkur á því að það fari að snjóa klukkan þrjú og hann horfir á mig eins og ég sé komin endanlega yfir strikið.

Það skondna er að ég á ekki líf mitt eða afkomu undir færð og snjóalögum. Ég þarf tiltölulega lítið að ferðast, bý miðsvæðis í bænum, á góð pólsk gúmmístígvél sem ég hef áreiðanlega áður sagt hér frá, snjógalla, húfu og vettlinga….já og brodda á stígvélin! Fátt stoppar mig með skófluna, maðurinn minn var meira að segja spurður nýlega hvort hann ætti snjóblásara en nei það var nú bara konan hans, með skóflugarminn á ferð!

Hvaðan kemur þá þessi ógurlega snjóþreyta? Á facebook fann ég skemmtilega setningu sem hljómaði á þá leið að finni maður ekki til gleði yfir snjónum þá muni vissulega verða minna um gleði í tilverunni en nákvæmlega jafn mikið af snjó! Það er einmitt það! Alveg sama hvernig ég reyni þá verður þessi setning alltaf jafn gáfuleg. Snjórinn er óumflýjanlegur, við höfum á honum enga stjórn hér og nú, hvað sem öllum loftslagsbreytingum líður. Kannski er snjókvíðinn minn skyldur öðrum kvíða, þ.e. að kvíða því sem ég get ekki stýrt. Líklega þarf ég að beita hann sömu tökum og ég tók flughræðsluna föstum tökum á sínum tíma. Í staðinn fyrir að láta óþægindin yfir aðstæðum sem ég gæti engan vegin stjórnað ná tökum á mér, þá lærði ég með tímanum að njóta einmitt þess. Að setjast inn í flugvél og njóta þess að bera enga ábyrgð. Setja traust mitt á lífið og flugmennina og hafa það eitt hlutverk að drekka kaffi og hlusta á eitthvað skemmtilegt í símanum mínum.

Þegar ég var lítil á Akureyri, fannst mér snjórinn frábær en þó snjóaði mun meira en núna, að minnsta kosti í minningunni. Kannski var einhver meiri stöðugleiki í veðurfarinu, veit ekki en froststillur og snjóþyngsli er það vetrarveður sem ég man mest eftir. Við ferðuðumst mikið um á svokölluðum skíðasleðum eða sparksleðum enda umferðin miklu minni, ekkert var saltað heldur þjappaðist snjórinn niður og varð sléttur og fínn. Ég horfði aldrei á veðurspá, elskaði stórhríð og sá nákvæmlega ekkert neikvætt við það þegar snjóaði hressilega. Að vísu þurfti ég ekki að keyra bílinn eða fara til vinnu en veðrið var nú sjaldnast þannig að ekki mætti brjótast í kjörbúðina á næsta götuhorni og á þessum árum voru jú matvöruverslanir á svo til hverju götuhorni í bænum. Svo tók veturinn enda án þess að nokkur hefði farið til Tenerife (enginn sem ég þekkti allavega) og allir fremur sáttir.

Í vetur mun ég bara ferðast til Vermont þar sem sonur minn býr og þar snjóar sko síst minna en hér þannig að eina leiðin fyrir mig er núna að taka í hnakkadrambið á sjálfri mér og hætta þessari vitleysu. Læra það að mitt hlutverk er ekki að hafa stjórn á snjókomu eða færð í götunni þar sem ég bý…eitthvað sem hljómar augljóst en ég var samt farin að efast. Njóta snjókomunnar, njóta kaffibollans inni, njóta þess að geta ennþá mokað en gera það aðeins sjaldnar, fækka veðurathugunum og treysta því að mér verði sagt frá ef von er á stórhríð. Og gleðjast ómælt yfir bráðsnjöllum mokstursmönnum sem mæta eins og glaðir englar og hreinsa í kringum okkur.

Sumsé að hætta að draga úr gleðinni í lífi mínu með að hafa áhyggjur af snjó en það gefur álíka mikið og að naga frosinn ullarvettling.IMG_8102

 

 

Að baða sig í skógi

person holding fern

Ég er, og hef lengi verið, heilluð af trjám og skóglendi. Tré virka ákaflega róandi á mig, mér finnst gott að vera í návist þeirra. Vísindin eru að komast að áhugaverðum staðreyndum um það hvernig tré tjá sig og tala saman ýmist með efnasamböndum eða ferómónum og svo með rótarkerfinu sem sumir hafa nefnt hið eina sanna alnet. Tré vernda ung tré og þau aðstoða þá einstaklinga sem eiga undir högg að sækja eða eru á einhvern máta veikbyggðari en hin trén. Mér hefur alltaf þótt þyngra en tárum taki þegar fólk heggur niður tré sem á Íslandi eiga erfitt uppdráttar, áratuga eða árhundraða gömul tré, bara af því þau passa ekki lengur útlitslega eða skyggja á sólina. Auðvitað þurfa þau stundum að víkja þar sem mannvirki eru í húfi en alltof oft eru ástæðurnar léttvægar. Það að skyggja á sólina er reyndar eitt af því stórkostlega sem trén gera fyrir mannkynið, þau skapa einnig skjól fyrir vindi og jafnvel regni. En þau eru höggvin eins og dauðir hlutir og án umhugsunar og á heimsvísu útrýmum við heilum regnskógum sem þó eru óendanlega mikilvægir fyrir heilbrigði allra íbúa jarðkúlunnar.

Japanir og svo fleiri þjóðir stunda „skógarböð” eða „forest bathing” sem heilsubót. Þetta hljómar svolítið öfgakennt eða jafnvel fáránlegt en er það alls ekki í raun. Skógarböðin snúast um það að fara og njóta þess að vera í skógi, horfa og hlusta meðvitað og án truflana, vinda ofan af streitunni og eiga stund með náttúrunni. Þetta, sem okkur finnst kannski sjálfsagt, er líklega orðinn munaður í manngerðu umhverfi og gífurlega þéttbyggðu.

Ég hef velt þessu með trén fyrir mér undanfarið, þar sem ég eins og fleiri, hugleiði listrænt gildi tveggja pálmatrjáa í glerhólkum. „Trjáníð” hafa garðyrkjumenn kallað það og víst er tilhugsunin ógeðfelld. Að taka lifandi veru, hvaða nafni sem hún nefnist og setja í glerhólk án nokkurs samneytis við sína líka, við ferskt loft, við rótarkerfi annarra plantna, við aðrar lifandi verur.

En líklega höfum við manneskjur gert eitthvað í þessa veru frá upphafi, við höfum jú haldið bæði plöntur, dýr og jafnvel aðrar manneskjur til að þjóna okkar eigin þörfum. Að mínu mati er þetta ekkert verra „níð” en við beitum hvort annað mannfólkið.

Og hvað þá? Spurningin er þá kannski þessi; Er þetta list og mun þessi list gleðja?

Spurningin „er þetta list?” er reyndar býsna snúin og líklega eru svörin jafn mörg og svarendur. Maður hefur heyrt þessa spurningu hnussaða með fyrirlitningu og maður hefur líka heyrt spurt í einlægni og af heiðarleika, því án þessarar spurningar væri líklega engin list til. Ég er ekki lærð í list (fremur en líffræði) en mér sýnist að tré í glerhólki hafi a.m.k. það listræna gildi að eitthvað hafi verið sett í nýtt samhengi og veki upp nýja hugsun og ef til vill víðara sjónarhorn en áður.

Gleður þá þessi list? Því mun auðvitað sérhver sá sem horfir á pálmatrén, svara. Það sem mér finnst kannski umhugsunarvert er að fyrir þessa peninga væri hægt að fegra græn svæði í nýja hverfinu, gróðursetja tré og skapa fólki aðstöðu til að njóta náttúrunnar í alvöru og samt eiga afgang til að setja upp listaverk. Pálmarnir í glerhólkunum verða ekki í „alvöru”, það verður enginn vindur til að bæra laufin, það verður ekki hægt að heyra þyt í þessum trjám og líklega verður í mesta lagi hægt að horfa á þau deyja hægum dauðdaga. Kannski að það eigi að vera listin?

Auðvitað eru þessar hugleiðingar aðeins lítið innlegg í allar þær vangaveltur sem hafa átt sér stað um þessi mál undanfarið en það er kannski einmitt hið listræna gildi tillögunnar, þ.e. allar umræðurnar og allar pælingarnar.

Að svo mæltu hvet ég bara alla til að stunda skógarböð sem oftast og að horfa á listina í lífinu með opnum en líka gagnrýnum huga.

man and woman sitting on hanging chair by a tree
Photo by Artem Bali on Pexels.com

Þegar ég varð gömul

Mér sýnist á öllu að ég sé orðin gömul. Og það sem meira er, það virðist hafa gerst á einni nóttu. Um miðja síðustu viku sofnaði ég hipp og kúl að eigin áliti og upplifun og svo miklu yngri en árin sögðu til um. Næsta morgun eiginlega hrökk ég upp við það að ég var orðin gömul.images

Auðvitað hafði ég ekkert breyst á þessari einu nóttu. Ég les enn gleraugnalaus þótt það megi nú litlu muna á stundum, – ég er jafn stirð og áður ég finn ennþá fyrir veðrabreytingum í hægri mjöðminni. Ég er ennþá nokkuð tæknifær, góð á fjarstýringar og síma sem þýðir að ég er enn ágætlega fær um að læra nýja hluti, og ég er enn gefin fyrir að keyra ívið of hratt. Þetta breyttist ekkert, nóttina sem ég varð gömul en eitthvað annað breyttist. Allt í einu hætti mér að finnast ég vera á fyrri hluta ævinnar og ég uppgötvaði að ég var sigin yfir á hina hliðina. Ég á barn sem er komið á fertugsaldur og ég á barnabörn og það eru bara fjögur ár þar til mér verður boðið í félag aldraðra. Ég er löngu orðin gráhærð og ef að mannkynið skiptist í tvo hópa, ungt fólk og gamalt fólk,- þá held ég að ekki þurfi vitnanna við. Ég tilheyri seinni hópnum.

Hvernig lýsir sér þá þessi hugarfarsbreyting? Jú ég gerði þá uppgötvun að það er komin fram kynslóð af ungu fólki sem ég bara botna ekkert í. Eða lítið. Ekki það að við getum vissulega talað saman, mér finnst ungt fólk upp til hópa frábært og þau eru skemmtileg og klár en þau tala tungumál sem ég skil ekki lengur, þau upplifa heim sem er ekki lengur minn heimur og þeirra viðhorf og skilgreiningar eru þaðan. Þau eru ekki með annan fótinn í snjalltækjum og stafrænum heimi, þau eru fædd inn í þann heim og eiga þar heima. Það að lesa bækur og blöð, er þeim mörgum orðið framandi og þau hafa ekki hugmynd um hvernig skífusími virkar. Línuleg dagskrá í sjónvarpi er fjarlæg hugmynd og hvað þá sjónvarp sem tekur sér frí bæði á fimmtudögum og í júlímánuði eins og mín kynslóð man svo vel.

Ég sjálf, sem í mínum athyglisbresti tók snjalltækjum fagnandi og sekk mér helst til hraustlega ofan í þau, kemst aldrei með tærnar þar sem ungt fólk hefur hælana í þessum efnum.

Er þeirra heimur þá betri eða er betra að vera gömul?

Að mínu mati er hvorugt betra. Ég elska að vera á mínum aldri, ég elska að þekkja fleiri en eina heimsmynd, ég elska reynsluna mína og að vera komin þangað sem ég er stödd núna. Mér finnst eiginlega bara frábært að kæra mig kollótta um hvort ég sé hipp eða kúl, hvort ég er á gúmmístígvélum eða hælaskóm. Ég nenni ekki lengur að skilja nýja tónlist en ég vil líka sleppa við harmonikutónlist og íslensk einsöngslög. Að verða gömul er ákveðið frelsi og svolítið eins og að verða aftur ungur að því leyti að ég get slakað á og leyft mér að vera algjörlega sú sem ég er. Eða eins og meistari Bowie orðaði það, sú sem ég alltaf átti að vera.

Það sem er kannski mikilvægast í þessu öllu er samt að það á að vera stórkostlegt að vera ungur og það á að vera stórkostlegt að vera gamall. Ég vil að skoðanir mínar skipti máli í samfélaginu og ég vil að mér sé sýnd virðing,- það viljum við öll ung og gömul. Við eigum líka til þess sama rétt, hvert og eitt.

Ég ætla að reyna að vera sátt við sjálfa mig og ég ætla líka að reyna að bera virðingu fyrir þeim sem ég skil ekki, hvort sem þeir eru ungir eða gamlir. Það er auðvitað misjafnlega erfitt en þannig eru jú öll verðug verkefni. Svo er bara að setjast með snjallsímann í ruggustólinn og nota youtube til að rifja upp hvernig var að vera diskódís.233601-325x487-bell-bottom-everything

Photo by Gerd Altmann on Pexels.com

Að vera amma

ground group growth hands
Photo by Pixabay on Pexels.com

Amma mín á Akureyri var lágvaxin og mjúk. Það var gott að kyssa hana á vangann og hún var eiginlega alltaf heima og til staðar. Hún var aldrei uppteknari af því að tala við annað fólk en barnabörn og hún var sannarlega ekki á facebook eða instagram. Hún bjó til dásamlegan mat, betri rjómaís en aðrir og ávanabindandi piparkökur í lítilli Rafha eldavél sem einhverntíma hafði verið stórkostleg tækninýjung. Rjómaterturnar hennar voru stórkostlegar og eftir að hún eignaðist frystikistu í eldhúsið uppgötvaði hún þá snilld að skella þeim í frystinn og átti þannig alltaf rjómatertu ef gesti bar að garði. Fjölskyldan mætti gjarnan óvænt og hún veiddi þá upp gaddfreðna rjómatertu með orðum sem urðu sígild í okkar hópi,- „æ æ, er hún frosin?” og hún var alltaf jafn hissa. Amma var með gláku og hennar kúlínarisku listaverkum fækkaði með hrakandi sjón en aldrei lét hún hjá líða að bjóða upp á eitthvað gott úr kistunni með kaffinu, það var auðvitað ekki í boði að eiga bara molasopa handa hjörðinni sem ruddist inn að vild, án þess að hringja dyrabjöllu eða gera boð á undan sér. Amma var væn og góð og aldrei man ég eftir því að hún léti í ljós að henni mislíkaði hvernig húsið hennar var umferðarmiðstöð fjölskyldunnar eða hefði óskir um að við kæmum frekar í heimsókn við betra tækifæri. Öll tækifæri voru góð í hennar huga, að því er virtist.

Og nú er ég orðin amma. Allt öðruvísi amma sýnist mér á öllu en líklega eru tilfinningarnar þær sömu samt. Ég er skrýtna amma sem dansar og syngur, segir sonur minn, fer ekki í vinnuna en er samt alltaf upptekin við eitthvað og þessari ömmu hentar ekki umferðarmiðstöðvarstíllinn, alls ekki! Nei hún er dálítið haldin af þráhyggjum ýmiskonar og líkar ekki vel þegar hlutir koma henni á óvart, það veldur henni bara kvíða. Amman ég elskar að fá barnabörnin í heimsókn en hún þarf að vera óþreytt og vel upplögð og finna að hún ráði vel við verkefnið.

Amma mín, hlýtur oft að hafa verið þreytt og örg með öll barnabörnin á hlaupum um húsið en hún lét það sannarlega ekki í ljós, hún virtist ekki hafa neinar þráhyggjur og hvorki vera að berjast við kvíða eða depurð. Hún bara virtist njóta tilverunnar sem vissulega var einfaldari þá, með reglubundnari og hægari takti en þeim sem ræður okkar lífi í dag. Þó veit ég að hennar líf var engan vegin laust við sorgir og áföll, langt því frá, en æðruleysið virtist vera henni eðlislægt og hún var mjög einlæg í allri sinni elsku.

Ég var svo heppin að fá að eignast tvær ömmustelpur sem eru samkvæmt skilgreiningu barnabörn mannsins míns, en foreldrar þeirra hafa aldrei látið mig finna annað en ég sé amma þeirra og þær auðvitað ekki heldur. Svo eignaðist ég fyrsta barnabarnið sem er mitt líffræðilega afsprengi, nú í haust og ég fann jú að það var einhvernvegin öðruvísi. Ekki það ég elskaði hann meira en þær en þarna voru nýjar tilfinningar á ferðinni og ég var búin að spá svolítið í þennan mun og í hverju hann lægi, þegar það loks rann upp fyrir mér hvernig þetta væri vaxið. Litlu frænkurnar fæddust í þennan heim, dásamlegar og fullkomnar, lítil kraftaverk sem ég var heilluð af en ég þurfti að kynnast þeim til að elska þær og auðvitað er auðvelt að þykja bara vænna og vænna um þær. Með drenginn er það aftur þannig að amma gat elskað hann strax, ég leit bara á hann, fann að ég þekkti hann ofurvel og fann strax djúpar og miklar tilfinningar sem ég þurfti ekki að bíða eftir. Meira að segja þegar pabbi hans fæddist þurfti ég að bíða eftir móðurástinni, ekki reyndar lengi en ég var ung og óreynd mamma og þekkti hann aldeilis ekki eins og ég þekki son hans. Það er einhver vissa á frumustigi, djúpt í genunum mínum, sem segir mér hver hann er, hann er minn í gegnum pabba hans. Maðurinn minn kannaðist við þetta þegar ég lýsti fyrir honum þessum mun en sagði að um leið og hann gat tekið snáðann í fangið sem var ekki fyrr en nokkrum vikum eftir fæðingu, hafi hann orðið hans á sama hátt og hans eigin barnabörn.

Þegar frá líður breytist þetta og ég mun elska ömmubörnin öll á sama máta en þessi munur gagnvart þeim nýfæddum sýnir mér mjög vel hversu lífsmynstrið er fallega ofið. Það segir mér líka að á sama hátt og amma mín var öðruvísi amma en ég þá eru tilfinningarnar mínar jafn sannar og djúpar og þær voru hjá henni þótt líf okkar og aðstæður séu allt öðruvísi. Lífsvefurinn er samur við sig og það eru stórkostleg forréttindi að fá að verða amma og afi. Maður getur leyft sér að njóta elskunnar til þessara dásamlegu einstaklinga án ábyrgðarinnar sem fylgir því að eiga að ala þau upp. Við getum treyst því að þetta unga fólk, foreldrarnir, sé betur til þess fallið en við.

Líkamlega eru þau sterkari, betur fær um að vaka á nóttunni og trúið mér að sá sem er þriggja mánaða en þegar átta kíló er sko farinn að taka í axlir og bak á 55 ára gamalli ömmu eftir fárra daga samveru. Foreldrarnir eru einnig betur fær um að aðlagast breyttri veröld og taka skynsamlegar ákvarðanir fyrir börnin sín í framtíðinni. Afar og ömmur eiga svo verðmæt innlegg í uppeldið, innlegg sem eru mótuð af öðrum tímum og annarri lífsreynslu. Þau eru mikilvægur hluti þorpsins sem elur upp barnið.

Okkar er sumsé að treysta börnunum okkar í nýju hlutverki og njóta þess að fá að vera á hliðarlínunni, hvetja og uppörva og njóta árangursins. Stundum stígum við yfir þessar fínu línur sem skilja að umhyggju og afskiptasemi eða jafnvel stjórnsemi. Þá þarf að sýna okkur mildi og benda okkur vinsamlega á að stíga út af vellinum aftur. Við erum jú líka ný í hlutverkinu og það er svo stutt síðan við vorum foreldrar sjálf með allri ábyrgðinni að það er auðvelt að gleyma sér.

Það eru ekki bara barnabörnin mín sem eiga margar ömmur og afa, fjölskyldur voru líka flóknar hér áður fyrr og sjálf átti ég þrjár ömmur. Eina þá sem hér var lýst í upphafi og lék stærsta hlutverkið í lífi okkar enda bjó hún á sama stað og við. Hinar tvær bjuggu annarsstaðar, voru reyndar systur þótt ólíkar væru, en yndislegar og jafnmiklar ömmur okkar báðar tvær. Ömmur eru nefnilega allskonar, stórar, litlar, skáömmur og stjúpömmur, gamlar og ungar, lasnar og frískar…en allar vonandi dýrmætar og afarnir líka.

Höldum bara fast í alla þræðina í lífsvefnum, því fleiri sem þeir eru því fallegri og litríkari verður tilveran.

img_7190.jpg