Um gömul föt og minningar

clothes clothes hanger clothing dressÉg hef verið upptekin nú í sumarhretinu að hreinsa til í fataskápnum mínum og komist að því að það er býsna margt líkt með fötum og gömlum minningum. Á sama hátt og það er erfitt að koma sér að verki með að byrja að vinna sig í gegnum skúffur og hillur, getur verið ótrúlega erfitt að fara yfir gamlar minningar og hreinsa til í tilfinningunum sem þeim fylgja. Því alveg eins og föt sem maður setur innst í fataskápinn, sitja minningar um kyrrt í undirvitundinni, þangað til að maður opnar upp á gátt, hleypir birtunni og skoðar það sem fyrir er.

Það sem er efst í hillum og skúffum er jú það sem oftast er notað, er nýlegt, ferskt og spennandi og gaman að spóka sig í slíkum flíkum. Sumt lendir reyndar aftast þótt það sé nýlegt en það eru flíkurnar sem maður hafði ekki fyrir því að máta almennilega eða lét freistast þótt þær pössuðu ekki alveg og væru ekki þægilegar.

Það er líka það sem maður gerir við önnur vonbrigði lífsins, maður lokar þau í hugarfylgsnunum og oft dugar það í ákveðinn tíma,- erfiðleikarnir gleymast, minningar dofna og fyrnast. Þær minna á sig af og til eins og óljós verkur en það er of sársaukafullt að skoða þær. Og alveg eins og með flíkurnar þá er oft um að ræða minningar um fólk og tilveru sem passaði okkur aldrei og voru sannarlega ekki þægilegar.

En hver vill sitja uppi með fataskáp fullan af gömlum rykugum flíkum sem engum passa? Sem fara að lykta af innilokun og menga þannig það sem gott er í skápnum. Það sem við viljum nota daglega, er vandað og okkur líður vel með.

Nei út með draslið, það er hægt að gefa föt í Rauða krossinn eða Hertex, eitthvað sem ekki er hægt að gera með minningar, -kannski sem betur fer. En það er hægt að taka upp minningar eins og gamla kápu og skó, skoða og rifja upp hvað það var sem olli því að þær pössuðu ekki og láta þær svo hverfa með öðru rusli.

Við erum nefnilega ekki dæmd til að sitja uppi með slæmar minningar. Stundum rifjast upp að hlutirnir voru alls ekki eins slæmir og okkur minnti og við getum endurskoðað tilfinningar sem þeim tengjast. Við getum fyrirgefið okkur sjálfum og öðrum og mildað þannig gömul sárindi og við getum jafnvel skilað skömminni til þeirra sem hafa unnið okkur mein og þannig hætt að sitja uppi með skammartilfinninguna í eigin barmi.

Forsendan er samt sú að fara í það erfiða og oft leiðinlega verkefni að skoða sjálfan sig á sama hátt og við skoðum í fataskápinn. Ekki fresta því of lengi, manni líður svo miklu betur þegar það er búið.

Við eigum skilið það sem gott er, föt sem okkur líður vel með, eru framleidd á sjálfbæran máta, fara okkur vel, eru þægileg og kosta ekki of mikið.

Við eigum líka skilið að okkur líði vel í sálinni, að við þekkjum tilfinningar okkar og minningarnar sem þær tengjast, könnumst við þær og náum sátt við okkur sjálf og tilveruna.

 

Góða og gleðilega tiltekt.

Endurfæðing.

Tímarnir sem við lifum núna eru eins og að lifa skáldsögu eða kvikmynd og víst er að höfundar hafa margoft sett upp landslagið sem heimurinn allur upplifir núna. Veirufaraldur svo hastarlegan að allt mannlíf er sett úr skorðum um lengri eða skemmri tíma. Sérhver einasti jarðarbúi upplifir ógnina á sinn hátt og það rennur upp fyrir okkur flestum að nú erum við öll á sama báti, jafnvel þótt stjórnvöld reyni að ýta undir þjóðernishyggju.

Það er samt gott að búa með lítilli þjóð núna. Þjóð sem hefur svo lengi verið einangruð í hafinu að henni er eðlislægt að hafa nægt rými fyrir hvern og einn, þjóð sem er svo fámenn að sérhver einstaklingur skiptir máli. Þjóð sem kann að rísa upp gegn kúgurum og valdastétt og hefur gert það áður.

Við höfum eins og heimurinn tekið þátt í kapphlaupinu á þessari öld, ferðalög á milli heimsálfa eru sjálfsögð, neyslan gengdarlaus og virðing fyrir jörðinni sem elur okkur er hverfandi. Mannkynið hefur ítrekað fengið viðvaranir um að hægja á, hægja á lífsmynstri, kröfum, neyslu, ferðalögum og stríðsrekstri.

Dæmin um hamfarahlýnun, skógarelda, endaskipti á árstíðum,- og nú veirufaraldur sem ljóst er að tekur af okkur ráð og völd. Við erum tilneydd til að hægja á.

Sjálf veiktist ég hastarlega í febrúarbyrjun af kvilla sem ekkert hafði með veirur að gera heldur voru eftirköst og aukaverkanir eftir gallblöðrutöku. Ég var á Landspítala eftir aðgerð í lok febrúar og þá var þjóðin að byrja að átta sig á nýjum veruleika þegar veiran fór að stinga sér niður og smitaðir streymdu heim frá norður Ítalíu og Austurríki. Þrátt fyrir að hafa verið mikið veik í margar vikur, óttaðist ég samgang við aðra á spítalanum, hafði minn eigin sprittbrúsa á náttborðinu mínu og hélt eins mikilli fjarlægð og mér var unnt.

Ég komst á Sjúkrahúsið á Akureyri með sjúkraflugi daginn fyrir heimsóknarbann á Landspítalanum og fékk að útskrifast heim í leyfi daginn sem slíkt bann tók gildi hér. Ég hef aldrei verið eins fegin á ævinni að komast heim til Akureyrar og hef ég þó oft verið afar glöð vegna þess.Það góða fólk sem sá til þess að ég komst alla, hjúkraði, læknaði og hlúði að mér, fær ævinlangar blessunaróskir.

Þessi tími átti reyndar að vera uppskerutími, bókarkornið sem ég hafði unnið að í heilt ár, var gefið út í byrjun mars og ljósmynda og ljóðasýning var opnuð að mér fjarstaddri í marsbyrjun. Mér var reyndar sama,- ég var svo fegin að vera á lífi og fá að vera heima. Veikindin voru óvænt þótt ég hefði fundið lengi fyrir aðdraganda þeirra og mig grunaði ekki að svona gæti farið.

Og nú er ég á sama stað og allir hinir, nema hvað orka og úthald eiga langt eftir og ég þarf að bíða eftir síðustu aðgerðinni minni. Ég get orðið sett í þvottavél, farið sjálf í sturtu og þurrkað af og það eru lífsgæði. Ég get farið í stuttan göngutúr á góðum dögum og ég hef nægan tíma til að hugsa um framtíðina og gera mitt til að varpa af mér fortíðinni.

Þannig ætla ég að líta á þessa tíma sem endurfæðingu. Fæðingu nýrra tíma, nýrra hugsana, nýrra tækifæra. Ef ég hef þann styrk sem þarf til að komast í gegnum aðdraganda endurfæðingarinnar, þá vil ég vera í liðinu sem styður nýja hugsun, sjálfbærni og vonandi betri heim fyrir börnin okkar og barnabörnin.

Kannski eru þetta útópísk markmið en þó ekkert óraunverulegri en það sem setti þau af stað. Ég hef ennþá trú á því að mannkynið geti lært og breyst en hver og einn getur ekki meira en að setja sér eigin markmið og fagna vorinu og því að betri tímar munu koma.

5D62AA55-24C3-470E-9747-35EDE03F4863

FARÐU ÚT!

IMG_8840Mér hefur, eins og svo mörgum öðrum alltaf fundist gott að vera úti í náttúrunni, ganga, horfa, hlusta og skynja. Ég er hinsvegar ekkert sérlega dugleg við að ganga á fjöll, það hentar mér ekki sérlega vel að hlaupa og mín útivera var aldrei neitt sérlega mikið „keppnis”. Ég var því ekki alveg að upplifa að mínar léttu göngur og mín náttúruskoðun væri nein sérstök heilsubót, en eyddi hinsvegar mörgum árum í að leita að hinni „réttu” líkamsrækt í hinum ýmsu líkamsræktarstöðvum. Það er fátt sem ég ekki hef prófað en fæst hefur mér þótt skemmtilegt nema þá helst að dansa. En ég var dugleg við að styrkja líkamsræktarstöðvar með því að kaupa af þeim áskriftarkort sem ekki voru notuð nema í örfá skipti.

Árið 2016 var sérkennilegt ár í mínu lífi þar sem ég veiktist illa af sjúklegri streitu, kulnun og örmögnun en það var líka árið sem við hjónin eignuðumst hund og ég fór að hreyfa mig úti með hundinum hvern einasta dag burtséð frá veðri, vindum, skapi, dagsformi eða neinu því öðru sem oft hafði komið í veg fyrir markvissa útiveru. Ég get auðvitað ekki sagt að útiveran hafi læknað mig af mínum veikindum en ekki get ég ímyndað mér hvernig líðan mín, líkamlegt og andlegt ástand væri hefði hennar ekki notið við. Í dag á ég kraftgalla, allskonar mannbrodda, skíðagleraugu, sólgleraugu, gönguskó….allt sem þarf til að þurfa sem sjaldnast að sleppa því að fara út að ganga.

Ég fór því að lesa mér til, kynna mér rannsóknir og skoða niðurstöður því að þótt okkur þyki kannski ekkert eðlilegra en að það sé hollt að vera úti og hreyfa sig þá vildi ég kafa dýpra og kanna t.d. áhrif á streituhormón og sjá hvað vísindin hefðu fram að færa varðandi náttúruna og áhrif hennar á streitu.

Í stuttu máli þá styðja rannsóknir sannarlega það að útivera og t.d. göngur í náttúrunni eða á grænum svæðum, getur mildað áhrif álags og streitu á líf okkar. Ekki einungis að slík svæði hvetji til líkamsræktar og félagslegrar virkni sem út af fyrir sig virkar vel gegn streituáhrifum heldur hefur útivistin ein og sér slakandi áhrif.

Jafnvel stutt heimsókn í almenningsgarð eða á grænt svæði innan borgarmarka dugar til að lækka cortisol í munnvatni en cortisol er hormón sem hækkar í streituástandi. Þessi áhrif eru óháð því hvernig og hvort fólk er að stunda líkamsrækt eða nútvitund í útiverunni. Hvers vegna skyldi þetta vera?

Ósnortin náttúruleg svæði virka mjög vel fyrir marga og einvera í náttúrunni er oft notuð til að sækja sér hugarró og íhugun. Frumbyggjar Norður Ameríku eiga sér hefð sem byggist á einveru, ferð í óbyggðir í nokkra daga þar sem samskiptin eru eingöngu við náttúruna sjálfa og eiga sér þann tilgang að endurmeta forgangsröðun, markmið og eigin stöðu í stóru samhengi. Við göngum Jakobsveginn, förum í óbyggðaferðir ofl. í sama tilgangi.

En við þurfum ekki að vera í fantaformi, hlaupa á fjöll eða hjóla til Dalvíkur til að fá fram þessi jákvæðu slakandi áhrif. Útiveran ein og sér er nægjanleg. Rannsóknir sýna að jákvæð tilfinningaleg og vitræn áhrif fást með nálægum grænum svæðum s.s. görðum en ekki einungis ósnortinni náttúru. Jafnvel það að sjá náttúruna út um glugga getur hjálpað til. Græn planta í sjúkrastofu hefur sýnt sig að hafa jákvæð áhrif á andlega líðan sjúklinga. Hver hefur ekki setið á þúfu í berjamó og fundið þessi jákvæðu áhrif bara við það að sitja og njóta útiverunnar?

Græn svæði hafa ekki einungis áhrif á streitu og andlega þreytu í augnablikinu en virðast yfir lengri tíma byggja upp aukið þol gegn áhrifum streituvalda í lífinu s.s sorg og meiri háttar áföllum s.s. að greinast með krabbamein. Sænskar rannsóknir sýna að dagleg umgengni við náttúruna bætir geðheilsu og athygli þegar bregðast þarf við slíkum áföllum. Að njóta lífsins á grænum svæðum eykur hamingju, styður við íhugun, hjálpar til að bregðast við áföllum og verndar gegn streituáhrifum. Þegar ekki er hægt að fara út fyrir bæjar- eða borgarmörkin er nauðsynlegt að hafa aðgengi að almenningsgarði eða grænum svæðum. Því fleiri slíka garða sem hægt er að mynda á auðum svæðum borga, því minni streita íbúanna. Því er mjög mikilvægt að vernda græn svæði.

Tré og sérstaklega sígræn tré, virðast hafa sín eigin sérstöku áhrif á streitu og heilsufar og hefur það verið rannsakað heilmikið líka. Að baða sig í skógi heitir á japönsku „Shinrin-yoku” og á rætur sínar að rekja til þess að borgarbúar í hinu þéttbýla Japan fundu vaxandi þörf til að leita kyrrðar og slökunar í skógum landsins. Skógarbað snýst um að ganga hægt um skóglendi og taka inn umhverfið með allri skynjun og að njóta þess sem það gefur.

Fyrirbærið hefur verið rannsakað mikið og hafa niðurstöður verið mjög samhljóma um jákvæð áhrif. Heilsubótin sem felst í því að vera innan um tré virðist að mestu snúast um tvennt sem hefur bein áhrif á líkamlega líðan. Hærra magn súrefnis í andrúmslofti skógarins, miðað við borgarloftið og svo návist efna sem kallast phytoncides, náttúrulegar olíur sem eru hluti af varnarkerfi trjáa gegn sýklum, skordýrum og sveppum. Návist við þessi efni getur haft mælanleg áhrif á menn. Um er að ræða áhrif sem draga úr streituviðbrögðum s.s. að bæði blóðþrýstingur og hjartsláttur lækka. Sígræn tré s.s. fura, framleiða mest af phytoncidum þannig að þar ættu mestu áhrifin að finnast.

Þetta voru þannig hinar hörðu staðreyndir og vísindalegu niðurstöður sem sanna okkur að það að vera úti í náttúrunni og njóta þess sem hún hefur upp á að bjóða lækkar þau neikvæðu streituáhrif sem of mikið álag hefur í för með sér.

En hvað með dulúðina? Hvaða segja trúarbrögðin, tilfinningarnar, ljóðin, sögurnar myrkrið og ljósið í lífi okkar. Jú vísindin gera kannski ekki annað en setja stimpilinn sinn á það sem mannkynið hefur alltaf vitað um náttúruna.Við höfum t.d. öll farið í skógarbað, við höfum bara kannski ekki kallað það því nafni.

Við höfum áreiðanlega gengið í skógi eða innan um trjágróður og notað þar öll skilningarvit. Hlustað, lyktað, snert og horft á náttúruna. Andað að okkur ilmi skógarins og notað hann til að vekja gleði og frið.

Það þarf ekki að flýta sér í skóginum því að að skógurinn flýtir sér aldrei. Tré vaxa hægt og þau hafa nógan tíma. Það gildir reyndar um alla útivist, það er allt í lagi að ganga stundum rösklega en það er líka mikilvægt að gefa sér tíma til að njóta þess að upplifa það sem náttúran er að miðla til okkar.

Það má gera gera núvitundaræfingar, taka hlé til að teygja eða gera öndunaræfingar.Taka með sér nesti og svo má yrkja ljóð, skoða plöntur og fugla, ýmist einn eða með öðrum.

Lærðu að meta hljóðin í skóginum, þau róa og lækna. Þytur í trjám og laufi, lækjarniður, fuglasöngur. Stundum bara þögnin ein. Það þarf ekki að gera neitt nema sitja og hlusta á þögnina. Að tengjast náttúrunni minnir okkur á að við erum hluti af stærri heild og allsstaðar í kringum okkur er eitthvað sem andar og lifir.

Sá sem dvelur úti í náttúrunni lærir af árstíðunum að lífið er hringrás og jafnvel þegar stórhríðin geisar úti og lauftrén hafa fellt blöðin sín, vitum við að það mun vora á ný og lífið mun kvikna. Alveg eins og við vitum innst inni þegar lífið færir okkur erfiðleika að þeim mun ljúka. Tré sem sveigist í veðrum og vindum stendur samt traust. Þau þurfa, eins og við, að næra ræturnar sínar, styrkja stofninn og teygja sig upp í ljósið.

Náttúran minnir okkur á það sem er okkur æðra og meira, bæði í okkur sjálfum og lífinu. Náttúran er í senn bæði stöðug og óvænt. Hún kennir okkur hversu fátt við vitum og hversu margt okkur er ekki ætlað að vita. Náttúran getur kennt okkur að við þurfum ekki að skilja allt í kringum okkur, stundum skiptir miklu máli bara að kunna að meðtaka og upplifa. Takist okkur þetta þá erum við líka miklu sterkari í baráttunni við streituna, hraðann og álagið sem herjar á okkur öll.

Ætlað sem fyrirlestur í Glerárkirkju þann 13.febrúar 2020. Vegna veikinda sendi ég ykkur þessar hugleiðingar héðan af Sjúkrahúsinu á Akureyri og með þeim bestu kveðjur.

Að einfalda líf sitt-hver er galdurinn?

apple background desk electronics
Ég settist niður með það að markmiði að skrifa nokkur orð um það að einfalda lífið. Ég hafði sjálf ýmsar hugmyndir að því hvernig slíkt gæti átt sér stað, hagnýt ráð og ýmislegt sem ég hafði viðað að mér hér og þar en mér fannst vanta meira kjöt á beinin. Það er ósköp þægilegt að benda fólki á að anda djúpt og lifa augnablikið (sem er jú frábær uppskrift að einföldu og væntanlega hamingjuríku lífi) en það er þetta með að vita hvar á að byrja.
Byrjar maður á að losa sig við veraldlega hluti, þarf tiltekt í húsinu eða þarf að dusta í burtu andlega köngulóarvefi og losa sig við hugarflækjur? Þarf að losa sig við eitruð sambönd og eiga þannig svigrúm fyrir góð tengsl við aðeins færri eða þarf að fækka tómstundum foreldra og barna svo að hálfur dagurinn fari ekki í skutl og transport af ýmsu tagi?
Þarf að einfalda alla þætti lífsins eða bara suma og hvernig í ósköpunum á þetta allt að ganga upp á einfaldan máta? Samfélagið er jú flókið og flóknar aðferðir virðast vera það eina sem dugar til að lifa af? Eða hvað?
Ég gerði það sem ég oftast geri þegar mig vantar svör og byrja að skoða málin…ég fer á netið. Viti menn, það kom upp síða eftir síðu af svörum frá alnetinu flestar buðu þær upp á allt frá 20 upp í 78 aðferðir til að einfalda lífið. Allt frá nokkuð nákvæmum leiðbeiningum um það hvernig mætti einfalda hvern lið í tilverunni til ofurnákvæmra leiðbeininga um það hvernig mætti gera slíkt hið sama. Allar þessar leiðbeiningar voru settar fram af mjög vel menntuðu fólki, fræðingum ýmiskonar og ekki síst heilli stétt af markþjálfum sem hafa jú orðið til m.a. til að uppfylla þörf fólks fyrir slíkar leiðbeiningar.
Og það er sko ekki bara á alnetinu sem finna má leiðbeiningar um að einfalda lífið nei ó nei….-bækur og námskeið eru allsstaðar í gífurlegu framboði og sannarlega vandi að velja.
Ég eiginlega gafst upp. Við erum eins misjöfn og við erum mörg og það er sannarlega ekki hægt að gefa eina uppskrift af því hvers við þurfum með. Tvennt fannst mér þó athyglisvert á þann hátt að það gæti virkað sem ágætis byrjun.
1. SLEPPTU ÞVÍ BARA AÐ LESA SJÁLFSHJÁLPARBÆKUR OG GREINAR UM ÞAÐ HVERNIG Á AÐ EINFALDA LÍFIÐ. Það er mun árangursríka að slaka svolítið á, horfa inn á við og skoða hvort við raunverulega þurfum á því að halda og þá hvernig. Í leiðinni getur verið gott að muna að við erum yfirleitt bæði snjallari og betri en við sjálf trúum.
2. FINNDU Á HVERJUM DEGI EITTHVAÐ EITT SEM GÆTI VERIÐ HJÁLPLEGT AÐ LOSA SIG VIÐ.Gæti verið postulínsskál sem þú erfðir eftir Siggu frænku en hefur aldrei þótt falleg, áhyggjur af ókomnum atburðum eða ósamstæðir sokkar. Jógatímarnir sem þú nærð ekki sambandi við…eða bara útrunnin sulta úr ísskápnum. Það er ekki gott að burðast með meiri farangur en nauðsynlegt er.
Góðar stundir og gangi ykkur vel.
Upphaflega skrifað fyrir gönguhópinn „gengið gegn streitu”.

Svartur hundur á aðventu.

IMG_9308Hið almáttuga alnet hefur undanfarna daga verið iðið við að minna mig á að langt sé um liðið frá því að ég hafi skrifað pistil og hvort mér sé ekki farið að liggja eitthvað á hjarta. Maðurinn minn og margir fleiri geta vitnað um það að mér liggur yfirleitt alltaf eitthvað á hjarta en þó gerist það að mér finnast hugsanir mínar ekki eiga erindi út fyrir höfuðið á sjálfri mér. Oftast þó þegar þær hugsanir eru dapurlegar og fullar af skammdegi. Þannig hefur líðanin verið undanfarna daga og jafnvel þó að styttist hratt í hátíð ljóss og friðar. Eða kannski einmitt þess vegna.

Ég er viðkvæm fyrir desembermyrkrinu og helst þá því huglæga. Myrkrinu sem fylgir óveðri, hríðarbyljum og stuttum degi er hægt að verjast en myrkrinu sem fylgir því að ungt fólk týni lífi er erfiðara að bægja frá. Ekki síður er lítinn frið að finna fyrir myrkrinu sem grimmd, forheimskun og kúgun orsaka. Stundum verður svo dimmt í mannheimum að meira að segja minning um ljós og líf dofnar. Og jólin sem eiga að lýsa upp vetrarmyrkrið eru orðin svo undirlögð af græðgi og neysluáherslum að boðskapurinn fýkur líka út í myrkrið með norðanvindinum.

Fjölmiðlar og netmiðlar keppast við að gera allar vörur að jólavörum, jólin eiga heima í flestum verslunum og byrja í fjölmörgum líka. Í auglýsingum er boðskapur jólanna gerður fyndinn, afkáralegur eða menn reyna að setja upp helgisvip og selja út á hann. Við erum með grátstafinn í kverkunum að reyna að telja okkur trú um að við þurfum ekki að þrífa út í hornin og að Gunna frænka móðgist ekki þótt hún fái bara heimalagaða bláberjasultu í jólagjöf en erum samt kyrfilega miður okkar yfir því að vera ekki með fullkomnu jólin á hreinu. Þessi sem kosta augun úr og skilja lítið eftir sig nema jólapappír og glimmer í rifunum á parketinu. Væntingarnar smjúga inn í hjörtun sem eru opin og viðkvæm í myrkrinu og við getum ekki alveg brynjað okkur fyrir röddunum í útvarpinu og snappsögunum af því hvernig jólin eiga að vera.

Það eru helst sakleysingjar sem geta kennt okkur eitthvað um frið og birtu þessa dagana. Ég var að hugsa um það í daglegri gönguferð með hundinn minn, hversu mikið við getum lært af dýrum og börnum. Voffaskottið hefur engar sérstakar væntingar til daganna, honum dugar að fá að borða og að eiga hlýjan stað að kúra á. Hann óttast það eitt í lífinu að vera aðskilinn frá okkur fjölskyldunni sinni og að okkur líði illa því þá líður honum illa. Hann hlustar ekki á útvarpið nema á fallega tónlist og hann horfir ekki á sjónvarpið nema ef það eru þættir um dýr. Hann elskar að leika sér, hann elskar að vera úti jafnt í sólskini og stórhríð og hann elskar að vera umkringdur af þeim sem hann elskar. Jú vissulega má rökstyðja það að hann sé svona af því að hann sé ekki nógu greindur til að vera öðruvísi en kannski er hann bara miklu greindari en við, Í öllu falli veit hann betur hvað það er sem skiptir mestu máli í lífinu. Og hann kann að vera í andránni (núinu).

Um þessi jól ætla ég að reyna að taka hundinn minn til fyrirmyndar og láta ekki myrkrið gleypa mig. Ég ætla að vera í andránni, njóta þess að borða, hvíla mig mikið, fara út að leika, vera með fjölskyldunni, horfa á þætti með dýrum og hlusta á fallega tónlist. Aðrar væntingar og pælingar verða látnar bíða síns tíma og þeir sem vilja efnast á vetrarkvíðanum mínum, geta farið í rass og rófu.

Gleðileg jól.

Abba labba lá og önnur kvæði.

submit_1566988698Þegar ég var lítil stelpa þá fann ég lúið og marglesið eintak af Svörtum fjöðrum Davíðs Stefánssonar sem var fyrsta bók skáldsins unga, gefin út 1919 og fékk eins og flestir þekkja, gríðarlega góðar móttökur. Ég sjálf, varla meira en tólf ára gömul, heillaðist gjörsamlega og las þessa litlu bók aftur og aftur.

Mér fundust þessi ljóð heillandi og einhvernvegin svo nálægt mér. Mér fannst ég raunverulega getað lifað mig inn í þau eins og skáldsögu, upplifað tilfinningarnar, séð landslagið og fundið ilminn. Eina ljóðið sem ég ekki gat tengt við og fannst eiginlega arfavitlaust að það skyldi vera haft með öllum dásamlegu ljóðunum var „Abba labba lá”. Ég botnaði ekkert í því hvað Davíð var að fara þar og margir hafa reyndar síðan fundið mismunandi boðskap í ljóðinu því.

Síðan hef ég þó verið mikill aðdáandi Davíðs og flest af hans kveðskap finnst mér vera merkilegt og magnað. Því skil ég vel hvernig æska landsins brást við þessari fyrstu bók hans, það virðist hafa verið álíka bylting og ef Bítlarnir frá Liverpool hefðu birst í Austurstræti fyrst allra staða.

Fyrir mörgum árum síðan vann ég einn vetur á deild fyrir heilabilaða, aldraða einstaklinga á hjúkrunarheimili í Reykjavík. Ég fékk þar frábært tækifæri til að vinna skemmtilega þróunarvinnu í því að finna hæfilegar tómstundir fyrir íbúa deildarinnar. Ég starfaði með frábærum þroskaþjálfa og við höfðum báðar mikinn áhuga á að finna tómstundir sem sýndu íbúunum virðingu sem fullorðnum einstaklingum en væru að veita ánægju þrátt fyrir skerta vitsmunalega færni. Við brölluðum ýmislegt þennan vetur, lærðum öll ýmislegt og skemmtum okkur trúi ég öll vel. Við prófuðum nýjar matartegundir, horfðum á dans og söngvamyndir, sungum og spiluðum, stofnuðum jazzklúbb og ekki hvað síst, stofnuðum ljóðaklúbb. Ekki höfðu allir trú á okkur og ljóðaklúbburinn var af mörgum talinn vonlaus. Hvernig átti fólk sem mundi ekki eftir sínum nánustu að geta hlustað á eða farið með ljóð?

Ljóðaklúbburinn var þó árangursríkur, fólk naut þess að hlusta og sérstaklega ef ljóðin voru kunnugleg og höfðu hrynjandi og rím.

Svo kom að Davíðs þætti Stefánssonar. Skemmst er frá því að segja að þá fór hópurinn og sérstaklega konurnar á flug. Þær lyftust í sætunum,, brostu allan hringinn og það kom ljómi í augun. Sumar fóru auðveldlega með kvæðin hans, sérstaklega þau úr Svörtum fjöðrum og jafnvel þótt þær væru eiginlega hættar að tala annars. Ein þessara kvenna hafði unnið í bókabúð í Reykjavík þegar bókin kom út og hún hafði meira að segja hitt skáldið. Hún varð dreymin þegar hún sagði frá þeim fundi og greinilegt að það lifði í minningunni sem eitthvað stórkostlegt.

Á komandi ljóðaklúbbsfundum þýddi lítið að fjalla um önnur skáld en Davíð þannig að við gáfumst bara upp og héldum áfram að rifja upp ljóðin hans, lesa þau og syngja, og við heyrðum söguna af því þegar Davíð kom í bókabúðina í Reykjavík í nokkur skipti í viðbót.

Það var göldrótt að upplifa tilfinningar þessar kynslóðar til skáldsins og upplifun fyrir mig og aðra sem urðu vitni að því . Og nú eru liðin hundrað ár frá fyrstu útgáfu Svartra fjaðra og við erum enn að minnast snilldarinnar. Ég skora á rappara landsins að búa til nýja vakningu með ljóðunum hans Davíðs á meðal ungra dagsins í dag og rappa ljóðin hans, þau eru áreiðanlega frábærlega til þess fallin.

Svo treysti ég því að einhver setji Svartar fjaðrir í mín heyrnartól í ellinni takk.

Geðheilbrigði, hvað er nú það?

Þetta er risavaxin spurning og við henni eru til mjög mörg svör. Hún er samt sú spurning sem mér finnst eðlilegt að við spyrjum okkur sjálf á alþjóðlegum geðheilbrigðisdegi 10.október. Geðlæknar hafa kannski svör, sálfræðingar hafa jafnvel önnur svör, lærðir og leiknir hafa sín svör en þó hefur sjálfsagt enginn svarið sem við leitum að. Svarið sem sker úr um það hvorum megin við lendum við hina ósýnilegu línu sem skilur á milli þeirra sem eru heilbrigðir á geði og hverjir veikir. Ekki hef ég svarið enda ekki sérfræðingur í neinu nema að velta vöngum. Og ég velti sannarlega vöngum yfir spurningunni þótt ég hafi ekki fundið einhlítt svar. Continue reading “Geðheilbrigði, hvað er nú það?”

Hvernig rífumst við?

Ég er sko ekki sálfræðingur og ekki sérfræðingur í mannlegri hegðun. Mér finnst hinsvegar afskaplega áhugavert að velta fyrir mér bæði eigin hegðun og annarra. Ég á það til að gleyma mér við það að fylgjast með ókunnugu fólki, ekki af forvitni heldur til að spá í það hver tengsl fólksins eru hvort við annað, hvaða hlutverki þau gegna í tilverunni og hvernig þau bregðast við.

Eitt af því sem mér finnst áhugavert er ágreiningur. Ég er að læra það með aldrinum að ágreiningur hefur líklega slæmt orð á sér að ósekju því hann þarf ekki að vera neikvætt fyrirbæri. Ágreiningur getur einfaldlega verið merki um það að við leggjum mismunandi sjónarmið inn í sambönd okkar við aðra og það er í raun mjög áhugavert verkefni að vinna með þessi sjónarmið. Takist okkur vel til þá getum við komist að góðum sameiginlegum niðurstöðum og málamiðlunum sem allir geta unað vel við. Svo auðvitað veljum við okkur orrustur og getum hreinlega valið að vera sammála um að vera ósammála.

Ágreiningur getur hinsvegar verið erfiður og við eigum sannarlega öll það til að nota aðferðir sem skila ekki miklum árangri.. Hér fyrir neðan nefni ég fimm ágreiningstýpur eða aðferðir sem mér hafa reynst sérlega erfiðar á lífsleiðinni hvort sem ég hef dottið í að nota þær sjálf eða aðrir í kringum mig. Þetta er nú kannski meira grín en alvara…og þó.

Predikarinn: Hann reynir að leysa ágreining með því að messa yfir öðrum og er gjarna með vísifingurinn á lofti til að hrinda jafnvel ímynduðum árásum. Algengir frasar:„Heldurðu að ég sé fífl?” og „Ég skal láta þig vita það góða mín….”. Þetta er algengur ágreiningsstíll karlmanna sér í lagi þeirra óöruggu og er gullið tækifæri til hrútskýringa. Þeim sem fara fljótt í predikunarhaminn finnst mjög mikilvægt að þeir séu taldir vita meira um ágreiningsefnið en allur þorri almennings. Þeir hækka fljótt röddina og eru snillingar í að taka andstæðinginn „niður” með því að lítillækka hann. Ákaflega erfitt er að leysa ágreining með þessum einstaklingum jafnvel þótt þeir hafi oft eitthvað til síns máls.

Steinveggurinn: Þessir einstaklingar reyna til hins ítrasta að beita þögninni til að sýna vanþóknun sýna og stýra líðan annarra í kringum sig. Þeir telja sig hafa góða stjórn á tilfinningum sínum og frekar en að þurfa að tala um vanlíðan eða reiði þá þegja þeir, sýna helst ekki svipbrigði og í versta falli láta sig hverfa. Það er eiginlega engin leið til að leysa ágreining með steinveggnum þar sem afneitunin er oft algjör. Algengasti frasinn: „Nei það er sko ekkert að!!”

Hugsanalesarinn: Hann er eiginlega búinn að skilgreina fyrirfram allt sem hinir hafa til málana að leggja og jafnvel búinn að sálgreina þá líka. Enda búinn að lesa margar bækur um efnið. Hann veit hvað hinn er að hugsa og meina, jafnvel þótt hann segi eitthvað allt annað. Hann notar ímyndað innsæi í mannlegt eðli til að hrekja öll rök og fer í krókaleiðir frá umræðuefninu til að koma því að hversu klár hann er í þessum efnum. Hugsanalesarinn hefur ekki tíma til að hlusta því hann er of upptekinn við að upphugsa eigin snilldarlegu athugasemdir.

Íþróttamaðurinn: Hann er ekki að reyna að leysa ágreining, hann er í keppni og vill vinna. Annars þá tapar hann og það líkar íþróttamanninum illa. Því eru flest brögð leyfileg og íþróttamaðurinn oft afburða snjall í að forðast það að leika af sér. Hann viðurkennir ekki málamiðlun heldur bara sigur. Sigurinn er hinsvegar íþróttamanninum oft dýrkeyptur og skaðar samband hans við annað fólk. Algengur frasi: „Þú hefur rangt fyrir þér!”

Grenjuskjóðan: Einstaklingar sem gjarna eiga mjög erfitt með að mæta gagnrýni eða ásökunum frá öðrum og tilfinningarnar bera þá ofurliði. Þeir vilja gjarna ræða málið og segja frá því hvernig þeim líður en geta það ekki þar sem röddin brestur eða tárin byrja að streyma. Með aldrinum skánar þetta hjá sumum en aðrir stríða við það alla æfi að geta ekki tjáð reiði eða erfiðar tilfinningar sökum skorts á sjálfstjórn á þessu sviði. Það er ekki auðvelt að leysa ágreining með þeim sem háskælir og aðeins á færi mjög þroskaðra einstaklinga að standa í slíku með þessu fólki.

Orðhákurinn: Hefur í raun ákaflega gaman af ágreiningi og lítur á hann sem nokkurskonar Morfískeppni eða keppni í rökræðum. Hann elskar að tala og mest að rökræða. Hann vill ekki hækka röddina eða rífast en vill ræða málin til þrautar, hversu langan tíma sem það tekur. Gallinn er sá að hann veit alls ekkert hvenær það hæfir að hætta og viðurkenna að engin sameiginleg niðurstaða sé í sjónmáli. Hann rökræðir því fólk út í horn, króar það af með orðum og uppsker því oft grimmileg viðbrögð. Skilur þá oftast ekki neitt, enda var hann bara að „ræða málin”. Algengur frasi: „Það þarf bara að ræða þetta!”.

Paddan: Sá sem fer alltaf beint í manninn en skautar framhjá málefninu. Pöddur eru oft bæði dómharðar og fordómafullar og gera öll mál persónuleg. Í staðinn fyrir að vera ósammála málflutningi annarra eru eiginlega allir hálfvitar í þeirra augum eða eitthvað þaðan af verra. Munnsöfnuður og andstyggilegheit eru notuð til að koma tilfinningum á framfæri eða kannski helst til að fela eigin vanmátt og tilheyrandi skort á vinsemd og væntumþykju til annarra. Það er bara vonlaust að leysa ágreining með pöddunni, best er knúsa þær duglega í þeirri von að svæla þær út úr kommentakerfunum.

Undirrituð er mjög mikið af orðháknum og töluvert af grenjuskjóðunni. Ég á auðvitað til að næla mér í eitthvað úr öllum hinum flokkunum, það er þó helst að ég verð aldrei nú seint steinveggur því þá þyrfti ég að geta þagað í meira en tvær mínútur í einu. Dagsformið er misjafnt og ekki alltaf sem það tekst að sýna ákjósanleg viðbrögð.

Ágreiningur er hluti af því að vera manneskja og lifa með öðru fólki. Lífið yrði framúrskarandi litlaust ef okkur fyndist alltaf það sama eða okkur liði alltaf eins. Við eigum öll til að nota fyrrgreindar aðferðir í meiri eða minni mæli, oftast af því að tilfinningarnar flæða yfir okkur og við náum ekki að stýra hegðun okkar eða hugsa um hana. Ég trúi því samt að því meira sem við spáum í það hvernig við vinnum með ágreining og bregðumst við honum, því meiri líkur til þess að viðbrögðin okkar geti verið svolítið skynsamleg. Þannig náum við betri árangri í því að ágreiningur verði til góðs.

Gangi okkur öllum sem best!

images

 

Hvenær drepur maður mann?

index

Ég er nýbúin að horfa á sjónvarpsþátt sem ég losna illa við úr huga mér. Um var að ræða þátt úr myndaflokki sem gerist í framtíðinni. Þættirnir nefnast Orville og eru eiginlega grínþættir eða allavega efni sem tekur sig ekki mjög hátíðlega. Í þættinum sem ég sá eru söguhetjurnar staddar í óþekktu samfélagi sem býr við einkennilegt réttarfar. Engir eru dómarar eða lögfræðingar og ekkert réttarkerfi eins og við þekkjum það, heldur er það samfélagið sjálft sem dæmir með því að gefa rautt eða grænt spjald á einhverskonar interneti fyrir hverja athöfn sem meðlimir samfélagsins framkvæma. Grænt spjald fyrir að standa upp fyrir gamalli konu í strætó, rautt spjald fyrir að gera það ekki. Nokkurskonar fullkomið lýðræði. Auðvitað er fyrirkomulagið meingallað þar sem það litast af geðþóttaákvörðunum og tilfinningasveiflum fjöldans þegar kemur að því að dæma fólk. Maðurinn sem stóð ekki upp í strætó, einfaldlega sá ekki gömlu konuna en sannleikurinn má sín lítils fyrir vanþóknun fjöldans.

Minnir þetta ykkur ekki á eitthvað? Mér fannst tilvísunin vera svo augljós að mér rann kalt vatn á milli skinns og hörunds.

Samfélagsmiðlarnir eru dómstóll fjöldans í dag, þar sem allt miðast við að fá „like” eða einhverskonar sýnda velþóknun á orðum sínum eða athöfnum. Athöfnum sem oftar en ekki eru einskonar sýndarveruleiki því hann sýnir það sem við vildum vera en erum líklega ekki nema í huga okkar sjálfra eða á bestu augnablikunum. Rétt lýsing, réttur klæðnaður, hrukkur sléttaðar, bólur fjarlægðar, línurnar lagaðar, svipurinn fullur af kynþokka eða hamingju. Þannig augnablik. Og talandi um augnablik,- við sýnum ekki öll hin, þar sem undirhakan var áberandi, svipurinn aulalegur, við gleymdum að greiða augabrúnirnar eða fela bingóvöðvana. Augnablikin þar sem krakkarnir grenjuðu (nema það hafi verið á einhvern hátt fyndið), augnablikin sem eru bara grá og kámug og hversdagsleg. Þau eru nefnilega líka lífið og það er mjög, mjög hættulegt að ímynda sér að lífið sé alltaf geislandi, fallegt, sexý, bragðgott og nýbakað,- það er bara ávísun á vonbrigði. Það getur líka verið ávísun á það að leita annarra leiða til að finnast lífið alltaf vera frábært, leiða sem verða til þess að fallið á hversdagsplánetuna jörð verður enn hærra og harkalegra.

Dómur götunnar hefur alltaf verið harkalegur og illt umtal hefur alltaf verið til. Þetta er bara orðið mun auðveldara í dag. Að vera hampað á samfélagsmiðlum hefur oft ekkert að gera með sannleikann, Oft er um að ræða ofmat fjöldans á sýndarveruleikanum sem okkur er birtur. Að sama skapi er mjög auðvelt að taka fólk af lífi á samfélagsmiðlum, frysta það úti fyrir litlar eða engar sakir. En hvers virði er að segjast hafa gert eitthvað, birta mynd eða myndband….ef enginn maður skoðar það, horfir á myndina eða það sem verra er, -ef þú færð engin „like”!

Þetta á líka við um okkur sem skrifum pistla og birtum á samfélagsmiðlum. Við erum líka vandlega flækt inn í sama leikinn, við viljum auðvitað að pistlarnir séu lesnir, við erum í raun öll löngu orðin hluti af nýrri þjóðfélagsmynd.

Ég er í mörgum hópum á Facebook og þar af er einn (og reyndar fleiri) sem snýst um fallega og gefandi tómstundaiðju. Varla fer þar fram neitt misjafnt eða hvað? Nýlega setti kona ein inn hugmynd varðandi hópinn, hugmynd sem snerist eingöngu um hennar skoðun á ákveðnu máli en innihélt ekki neitt meiðandi. Viðbrögðin voru samt þannig að það hefði mátt halda að hún hefði boðist til að rasskella landsliðið í fótbolta. Inn kom skriða af athugasemdum, fyrst voru þær saklausar en svo virtist hópurinn færast í aukana, viðbrögðin urðu hatrammari með hverri færslu og urðu loks meiðandi. Konan átti sko bara að hypja sig úr hópnum og ýmislegt í þeim dúr. Þetta hélt áfram þar til loksins að ein rödd bað fólk um að róa sig aðeins niður, þessi kona ætti rétt á sinni skoðun án þess að vera tekin af lífi af hópnum. Við þetta virtust flestir átta sig, einn og einn kom áfram með skot en svo dró úr vitleysunni og þráðurinn dó út. Það var verulega athyglisvert að fylgja þessu eftir og sjá „dómstól fjöldans” taka konu af lífi þótt það væri „bara” á netinu. Það var samt mest hrikalegt!

Það þarf sterk bein til að segja sína skoðun þegar fólk getur átt von á slíkum viðbrögðum en vonandi eru betri tímar framundan. Fleiri og fleiri stíga fram og sýna kjark í því að sýna sitt rétta „sjálf”, gangast við ófullkomleikanum sínum án þess að hampa honum sérstaklega og verða þannig góð fyrirmynd fyrir okkur hin.

Litla röddin í þræðinum hér að ofan er áreiðanlega ekki ein og ef við förum að vera sammála um að frysta ofbeldisseggina eina úti af samfélagsmiðlum, þá er von um betri tíma.

Góðar stundir gott fólk (og vonandi lesið þið pistlana mína).

photo of laptop near plant
Photo by Tobias Dziuba on Pexels.com

 

Að una öðru fólki.

Nú höfum við verið í hinu græna og skógi vaxna Vermont fylki í Banaríkjunum í tvær vikur. Aðallega að passa barnabarnið en líka að njóta þess að kynna okkur land og þjóð. Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla en fjarlægðin setur líka stundum hlutina í samhengi og leyfir á þeim nánari skoðun.

Núna sitjum við hjónin og horfum út um stofugluggann heima hjá syni mínum og tengdadóttur. Þar eru gatnamót og á þeim er eins og algengt er hér, stöðvunarskylda úr öllum fjórum áttum. Það þýðir að sá sem kemur fyrstur á fyrsta rétt, sá sem kom næstur á rétt númer tvö, osfrv. Og það sem er svo merkilegt að mati okkar hjóna, þetta svínvirkar! Hér er umferðin yfirveguð, menn eru kurteisir og tillitssamir, og þetta með stöðvunarskylduna margföldu virkar svo vel að stundum virðist enginn ætla að taka af skarið. Og þetta er risastór þjóð þar sem hjól atvinnulífs snúast hratt og menn eru bara nokkuð mikið að passa upp á tímann sinn. Þetta snýst sko alls ekki um að hér liggi allir í hengirúmum með hasspípur, nei aldeilis ekki, ekki einu sinni í Vermont. Á Íslandinu góða dugar varla að hafa stöðvunarskyldu yfirleitt, menn eru yfirleitt að flýta sér of mikið til að gera meira en hægja líttilega á sér, ef þá það. Við erum líka yfirleitt of mikið að flýta okkur til að hanga á eftir einhverjum útlendingum eða gömlum köllum með hatta á þjóðvegum landsins og reynum ákaft að græða einhverjar mínútur í áhættuatriðinu sem kallast framúrakstur. Og þó eigum við nóg pláss og enginn á sérstaklega langt að fara í vinnu.

dog on concrete road

Við erum sannarlega í Trumplandi þessa dagana, firring, vopnaburður, stríðsrekstur og skotárásir er það sem við heyrum af á hverjum degi og einhvernveginn finnst manni að þessir hlutir hljóti að móta hugarástand fólks hér á einhvern hátt. Sem það líklega gerir en það er eitthvað sem við finnum lítið fyrir í okkar daglega vafstri í hinu græna ríki sem reyndar er þekkt fyrir frjálslyndi. Bara í dag, daginn sem Pence heimsótti Ísland höfum við hitt fólk sem hefur beðið okkur þess lengstra orða að senda hann ekki til baka.

Hverfið þar sem okkar fólk býr, er sannarlega fjölbreytt, hér búa flóttamenn, Sómalíumenn, fólk frá Nepal, svartir, hvítir, fjölskyldufólk upp til hópa en efnin eru ekki mikil. Sjoppan á horninu fengi ekki endilega leyfi frá íslenskum heilbrigðiseftirlitsmönnum en þar má kaupa, franskar, ís og kannabisolíu jöfnum höndum. Flestir þeir sem ganga fram hjá húsinu, heilsa glaðlega, sitji maður úti á veröndinni og allir spjalla, tala nú ekki um þegar við erum með barnabarnið úti í kerru. Víða má finna skilti á mörgum tungumálum sem benda á að sama hvaðan viðkomandi komi, þá sé hann velkominn í nágrennið og skiltin „Black Lives matter” eru víða. Einhver samfélagsvitund ríkir hér sem hefur ekkert að gera með pólitík, Trump eða sorglegan skort á opinberum stuðningi við þá sem standa höllum fæti.

Þessi samfélagsvitund endurspeglast líka í því að fólki hér virðist þykja á einhvern hátt eðlilegra en okkur að hjálpast að.  Ýmislegt sem tengist velferð og menningu kemur frá góðgerðarstarfsemi og svo er hjálpsemi við meðbræður og granna er algeng.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ýmislegt í þessu stóra ríkjabandalagi er skakkt og skrýtið á okkar forsendum og elur t.d. af sér einstaklinga sem beita vopnavaldi af mikilli grimmd. En í fullkominni andstæðu elur það líka af sér friðsama og glaðlynda þjóð sem lætur hverjum degi nægja sína þjáningu og vinnur saman sem samfélag eins og dæmið um stöðvunarmerkin sýnir.

Við getum lært af Bandaríkjum Norður-Ameríku heilmikið um hvernig við eigum ekki að gera, en líka eitt og annað um það hvernig hægt er að vinna saman sem samfélag a.m.k. af hinum frjálslyndu fjallabúum Vermont.

En svo hlökkum við mikið til að koma heim.

wooden houses in green field under white skies