Meistaramánuður

Jæja þá datt á okkur enn einn október. Merkilegur fjandi er það, að alltaf skuli bilið styttast á milli þeirra októbera, ekki einu sinni farsóttir og sóttkví duga til að hægja á tímanum,- altso mínum tíma,- og á mínum aldri. En það er nú útúrdúr.

Október á sína merkimiða eins og aðrir mánuðir, sumri lýkur formlega og hversdagslífið tekur við. Október á sér yfirleitt haustliti  þótt þeir séu seint á ferð í ár og hann er líka bleikur sem er litur baráttu gegn brjóstakrabbameini.  Börnin eru farin í skólana, þótt mörg þeirra séu reyndar komin í sóttkví, lömbum hefur verið smalað og þeim slátrað, berin eru löngu farin í sultukrukkurnar og kartöflurnar hafa verið dregnar upp í dagsljósið.  Svolítið uppáhalds hjá mér, þessi mánuður. Akureyrarhaustið mitt er með spegilsléttum sólskinsdögum, eldrauðum reyniberjum og kulda sem klípur í nefið. Gott að gera súpu, setja upp trefil og fara út og taka myndir.

En október er líka meistaramánuður. Það þýðir að mánuðurinn er helgaður því að fólk setji sér markmið sem snúast um að vera besta útgáfan af sér og takast á við hið þýfða landslag sem er utan þægindarammans. Það þýðir þá líklega að ögra svolítið kvíðanum og óttanum við það sem við þekkjum ekki. Og það er nú ekkert lítið verkefni út af fyrir sig.

Fyrir suma snýst þetta um að hlaupa hraðar og klifra hærra og fyrir aðra snýst það um að skrifa niður ljóðin sem sveima í kollinum eða að fara út eftir kvöldmat. Þetta síðastnefnda er til dæmis orðið kyrfilega utan míns þægindahrings og þannig breytast markmiðin okkar með nýjum aðstæðu. Við eldumst og getum ekki lengur allt sem við gátum fyrr, heilsan tekur breytingum og tíminn hleypur stundum miklu hraðar en við ráðum við.

Við getum hinsvegar öll verið og erum líklega flest meistarar. Ekki bara í október heldur alla mánuði ársins. Ekki bara þegar við náum markmiðunum okkar heldur líka þegar okkur mistekst. Jafnvel helst þegar okkur mistekst því að það þýðir að við munum læra eitthvað nýtt til að nota okkur í næstu atrennu. Markmiðin eru líka bara leiðir til að lifa eftir þeim gildum sem eru okkur mikilvæg. Þau gildi breytast ekkert þótt að við hrösum á leiðinni að markmiðunum en þau gera það að verkum að við gefumst ekki upp og reynum aftur.

Það held ég að sé besta útgáfan af okkur, sú sem tekst stundum vel upp og stundum ekki. Útgáfan sem skilur að kvíðinn, óttinn og allar hinar tilfinningarnar og erfiðu hugsanirnar, eru sameiginleg okkur öllum og eiga sér tilverurétt og jafnvel tilgang. Að lífið er ekki einfalt eða auðvelt nema bara stundum. Þeir sem gera sér grein fyrir þessu en halda samt áfram að brosa í gegnum tárin og byrja aftur,- þeir kunna á meistarataktana.

Þannig held ég að við þurfum ekki að gera eitthvað stórkostlegt til að vera meistarar í október og öllum hinum mánuðunum. Við getum gert eins og starfsfólkið í apótekinu hér á Akureyri sem árum saman hefur heftað kærleiksrík og falleg skilaboð á lyfjaafgreiðslurnar eða eigandi kaffihússins sem gefur matinn sem ekki selst yfir daginn, til þeirra sem minna hafa á milli handanna. Við getum brosað til samferðamannanna, auðsýnt góðmennsku og virðingu.  Við getum hugsað hlýlega til jarðarinnar sem fæðir okkur og gert okkar til að hlú að henni og við getum yfirhöfuð reynt að vera sæmilega artarlegar manneskjur. Þannig getum við öll verið meistarar í október.

Tómatsósubrandarinn

30+ Best Tomato Puns That Won't Have You Seeing Red by Kidadl

Undanfarið hef ég þurft að taka því rólegar en ég hefði kosið. Mér líður ágætlega en þarf að huga að gróanda eftir aðgerð og verandi hjúkrunarfræðingur er ég auðvitað meðvituð um nauðsyn þess að hvílast undir slíkum kringumstæðum. Það að vita gerir það þó ekki alltaf auðvelt að framkvæma. Væri svo, myndu sálfræðingar vera í fullkomnu andlegu jafnvægi, uppeldisfræðingar eiga fullkomin börn, bifvélavirkjar fullkomna bíla og svo mætti lengi telja.

Þannig er tilveran bara ekki vaxin og því hef ég þurft að hafa verulega fyrir því að taka þessu nýjasta útspili tilverunnar með þolinmæði, mig hreinlega langar ekki að hvíla mig og æðruleysið er með hálla móti og erfitt að festa á því hendur. Þetta gerir það að verkum að þráðurinn styttist og það er snúnara en venjulega að vera glöð. Og æðrulaus.

Fyrir nú utan þau ósköp að kosningar nálgast og menn berast á banaspjótum í umræðunni jafnvel svo að persónulegt skítkast fer að verða daglegt brauð,- eins og það bragðast nú illa með kaffinu. Menn keppast við að dusta rykið af öllu því sem miður fór síðustu fjögur ár og af nógu er greinilega að taka. Við virðumst sitja uppi með haug af spilltum stjórnmálamönnum sem láta sig eigin hneykslismál engu varða og ekki nóg með það heldur kjósum við þá ótrauð áfram. Ég gæti haldið lengi áfram að útlista hörmungarnar bæði á heimsvísu og hér heima. Ég þarf ekkert að segja ykkur af Covid og loftslagshörmungum og annarri óáran. Ég hlusta á fréttir og ég hef áhuga á stjórnmálum og á köflum verð ég tuðandi og miðaldra,- kannski ekki alveg „virk í athugasemdum” en svona svolítið að láta pirringinn smita út í samfélagsmiðlana. Maður þarf jú að taka ábyrga afstöðu ekki satt?

En svo gerist eitthvað sem minnir á hvað það er sem skiptir máli.  Minn bráðum þriggja ára sonarsonur hringdi myndsímtal í ömmu í morgun og við fórum að tala um brandara. Ég sagði honum brandarann um tómatinn sem varð undir bíl og var þá bent á (af millikynslóðinni) að hann væri miklu fyndnari á ensku. Það varð til þess að barnið bað ömmu að segja brandarann á ensku og þegar því var lokið hvort ég myndi vera svo væn að syngja hann á ensku. Og amma syngur tómatabrandarann á ensku. Með frumsömdu lagi og texta. Málið vandast aðeins þegar barnið segir „aftur” eins og börn gera og amma þarf að reyna að rifja upp textann og lagið aftur. Svo syngur amma lagið um drenginn og mömmu hans og pabba og ömmu á Akureyri og það var líka uppklapp og endurtekið með ofurlitlum tilbrigðum.

Allt þetta samtal var hvorugt okkar að hugsa um stjórnmál, sár sem ekki gróa, covid eða neitt annað en þessa litlu söngstund og samskiptin okkar á milli heimsálfa. Og ekkert alvarlegt gerðist þrátt fyrir það. Hann bara dró mig í núið sitt þar sem hann kann svo vel að vera og athygli ömmu beindist að því sem er jákvætt og gott.

Það er jú galdurinn, allt sem við veitum athygli það vex og dafnar. Ef athyglin festist um of á því hversu allt sé erfitt og ómögulegt, þá virkilega verður allt bæði erfitt og ómögulegt.

Stundum er bent á þá staðreynd að núið er í raun allt sem er raunverulegt þar sem fortíðin er jú liðin og framtíðin ókomin. Ekki svo að skilja að núið er ekki alltaf jafn ljúft og það var hjá mér í myndsímtalinu í morgun, líðandi stund getur verið sársaukafull og þungbær. Og þá krefst það hugrekkis að gangast við augnablikinu og takast uppréttur á við áskoranir tilverunnar.

Galdurinn við að vera glaður er kannski einmitt fólginn í því að mæta lífinu á forsendum lífsins. Ekki að þvinga fram einhverja jákvæðni gagnvart erfiðleikum eða falskan hressileika á erfiðum stundum, -heldur einfaldlega að opna hjartað fyrir öllu því sem er.  Og enginn lofaði okkur að það yrði alltaf gaman og það er ávísun á vonbrigði að ætla að svo verði.

Ég ætla örugglega að halda áfram að æfa mig. Æfa mig í að taka litbrigðum daganna, æfa mig í að taka góðar ákvarðanir sem eru mér og öðrum hjálplegar en láta ekki gráma og þungbúna daga taka yfir hugarfarið. Hætta aldrei að reyna að meðtaka og rifja upp þegar ég gleymi. Og svo þarf ég auðvitað að æfa mig í að syngja brandara, teikna hús með gluggum og strompi og leiklesa bækur. Þetta sem skiptir máli í alvöru og er aldrei fullæft!

Gamlar stúlkur

Í morgun hlustaði ég á aldeilis frábæran þátt úr þáttaröð um breytingaskeið kvenna. Að vísu var hann endurfluttur en ég hafði greinilega misst af þessu í frumflutningi. Í hjarta mér varð ég þakklát fyrir það að til skuli vera útvarpsstöð sem lítur á miðaldra og eldri konur sem manneskjur en ekki afgangsstærð, bagga á heilbrigðisskerfinu eða eitthvað þaðan af verra. Ekki spillti það fyrir að þátturinn var bráðskemmtilegur og stútfullur af bráðgáfuðum og mögnuðum eldri konum.

Stundum hef ég nefnilega á tilfinningunni að þessi hópur sé hreinlega ekki í tísku. Eldri konur sem eru auðvitað jafn misjafnar og þær eru margar, guði sé lof, en eiga það kannski sameiginlegt að vera heldur hnarreistari en formæður okkar þótt þær hefðu auðvitað fulla ástæðu til þess líka. Þessar konur eru mikilvægar samfélaginu, eru fjárhagslega sjálfstæðar og stoltar gamlar ljónynjur. Ég upplifi þetta að minnsta kosti svona, verandi 58 ára gömul, löngu búin með mitt breytingaskeið, amma með ör og hrukkur sem tilheyra mínum aldri- en sannarlega með 18 ára sjálfsvitund eins og ég held að við höfum flest, eftir að þeim aldri er náð.

 Og það er býsna stórt í þessari 18 ára ef henni er misboðið og ekki síst ef henni finnst að ungt fólk sjái í henni konu sem ekki þurfi að taka mark á og skipti ekki máli. Miðaldra hnussið er alltaf tiltækt og engin feimni lengur yfir því að segja meiningu sína á vandaðri íslensku. Það eru kannski forréttindi okkar gráhærðu að hafa litlar áhyggjur af því hvað fólki finnst um það sem við erum og segjum, en viljum að okkur sé sýnd kurteisi og virðing. Af öllu ungu fólki í samfélaginu og ekki bara börnum og barnabörnum.

Við erum auðvitað ekkert alltaf viskan uppmáluð þrátt fyrir aldurinn, en þurfum þess auðvitað ekkert frekar en aðrir. Megum vera sérvitrar og utan við okkur án þess að glata virðingunni.

Eitt barnabarna minna segir að ég sé auðvitað tveggja ára, eins og hann og fullyrðir stoltur að ég sé ekki gömul.  Önnur ömmustelpa sagði mér um daginn þegar ég setti upp bleika glimmerhárkollu að þetta „sé eiginlega bara fyrir stúlkur” sem var hennar fallega leið til að segja mér að haga mér samkvæmt aldri. Aldri sem í hennar huga er kannski óræður en alveg örugglega ekki „stúlka”.  Hún á eftir að uppgötva að „stúlkan” innra með henni er komin til að vera og verður bara ekkert gömul ef hún fær að leika sér æfina út.

Það er mikil sjálfsvirðing fólgin í því að taka sig ekki of hátíðlega, leyfa okkur að leika okkur en gera það ekki að forréttindum þeirra sem yngri eru.  Það inniber líka að halda áfram að horfa á heiminn með augum barnsins innra með okkur, vera forvitin og alltaf fús til að læra eitthvað nýtt. Það hjálpar líka til við að viðhalda sveigjanlegum huga og sálfræðilegum liðleika sem er algjörlega nauðsynlegt að þjálfa þegar aldurinn færist yfir. Um leið og við stirðnum hugarfarslega er voðinn vís og það er mun meira aldursmerki en stirðir liðir eða vöðvar. 

Sjálfri finnst mér gott að hvíla í því að vera með 58 ár af mistökum, sorgum, bulli, hamingju og reynslu í farteskinu en vera stundum líka tveggja ára, leika með hinum krökkunum, vera ýmist gigtveik í jogging eða skvís í sparikjól og njóta þess að upplifa öll tilbrigði lífsins.

Ég er afar glöð yfir að breytingaskeiðið mitt  sé yfirstaðið og þurfa ekki að spá í barneignir, hælaskó eða hvort ég sé nógu sæt. Ég er hinsvegar marktæk og orðin mín og hugsanir skipta máli. Aldurinn sem við mælum í árum er óvéfengjanlegur en svo stjórnum við því sjálf hvort að hin innri „stúlka” fær að eiga rödd líka. Ég leyfi mér að fullyrða að lífið er litríkara með henni.

Sjálf Oprah Winfrey segir: „Við lifum í menningu sem er heltekin af æskudýrkun og reynir sífellt að telja okkur trú um að ef við séum ekki ung, ljómandi og kynþokkafull, þá skiptum við ekki máli. Ég neita að láta kerfi eða menningu eða afbakaða sýn á raunveruleikann segja mér að ég skipti ekki máli. Ég veit að aðeins með því að gangast við því hver og hvað þú ert geturðu farið að upplifa lífið til fulls .Sérhvert ár ætti að kenna okkur eitthvað dýrmætt. Hvort þú lærir eitthvað er eiginlega undir þér komið.”

„Soldið lasinn”

Þeir eru hlýjir og mjúkir þessir gullnu síðsumardagar sem við njótum þessa daganna. Framhald af einstaklega veðursælu sumri hér norðanlands, sumri sem minnti á bernskusumrin mín, þegar vetur voru kaldir og snjóþungir og sumrin hlý og sólrík. Silfurreynirinn í næsta garði á bara eftir að lita berin sín með svolitlu af rauðu og allur gróður sem náði sér í einhverja vætu hefur vaxið og blómgast upp um allar koppagrundir. Þetta ljúfa ljúfa veður er kannski svolítill plástur á sárin okkar því að öll göngum við inn í þetta haust í óvissu og ótta. Það er rökrétt afleiðing þess að heimsmyndin okkar hefur skekkst og öryggistilfinningin stendur á brauðfótum. Það er ekki nóg með það að heimsfaraldurinn ætli ekki að gera það endasleppt heldur erum við líka að upplifa loftslagsógn af mannavöldum. Við höfum sannarlega hagað okkur eins og höfundar og réttmætir eigendur að náttúrunni og jörðinni okkar en hvorugt er rétt og nú er komið að þolmörkum. Það er ein af grunnþörfum manneskjunnar að búa við einhverja staðfestu eða öryggi í tilverunni og það er vegið að þessu öryggi um þessar mundir.

Tilveran er „soldið lasin” eins og eitt af mínum barnabörnum myndi orða það og það er okkur erfitt að geta ekki séð hvað er handan við næsta horn. Öll getum við eflaust tekið undir það að lausnin sé í okkar eigin höndum en okkur ber ekki alltaf saman um það hver hún eigi að vera. Öfl sem snúast um peninga og völd berjast við vísindi og mannúð, það er gömul saga og ný. Meira að segja hér á litla landinu bláa, virðast æ fleiri vera farnir að trúa því að það sé ásættanlegt að tapa mannslífum, heilsu og jafnvel heilu heilbrigðiskerfi bara ef við missum ekki spón úr askinum okkar. Eða allavega ef einhverjir þarna úti missa ekki einhvern spón úr óskilgreindum aski. Við erum öll hrædd og þegar hræðslan nær á okkur tökum rýkur oft dómgreindin út um gluggann. Kosningar og barátta um völd blandast svo inn í allt klabbið og menn hætta að taka skynsamlegar ákvarðanir af ótta við að tapa vinsældum.

Það er önnur grunnþörf mannsins, nátengd þeirri sem ég nefndi áðan  að upplifa að við höfum stjórn á aðstæðum okkar. Og af því að það er okkur svo mikilvægt, verður auðvelt að selja okkur hugmyndir um það hvernig við náum stjórn á aðstæðum, hvert og eitt. Við jafnvel trúum því að það sé nauðsynlegt að fara ekki að því sem stjórnvöld boða og jafnvel það að láta ekki bólusetja sig verður tákn um að maður hafi einhverslags stjórn á tilverunni.  Og sannarlega er það í þágu stórfyrirtækja og iðnríkja að við trúum því að bara ef við skiptum yfir í rafmagnsbíl eða reiðhjól þá muni okkur takast að koma í veg fyrir loftslagsvána sem öllu ógnar.

Við höfum auðvitað val um að haga okkur af skynsemi og af yfirvegun. Og auðvitað er langbest að byrja á okkur sjálfum um leið og við leggjum öllum skynsamlegum samfélagslegum málsstað lið.  Að horfast í augu við og samþykkja það að við erum öll í sama báti, við erum öll lítil og hrædd en sameinuð erum við býsna sterk. Um það snýst velferðarkerfið okkar og ég held að hvað sem öllu líður þá sé ekkert okkar tilbúið til að fórna sameiginlegum hagsmunum og örygginu sem felst í því að eiga jafnan aðgang að góðu heilbrigðiskerfi.

Og þó að haustið sé hlýtt og gott þá styttist samt í vetur og það verður vetur með veiru, enn og aftur hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er gott að horfast í augu við eigin ótta og gefa honum rými, þá er minni hætt á að hann valdi okkur tjóni.  Við getum þá haldið áfram að njóta stundanna þrátt fyrir allt og upplifað haustið með von og tilhlökkun, tína ber og klífa fjöll. Haustið er nefnilega angurvært í eðli sínu,  það er tími til að una því sem er og hvíla í þeirri fullvissu að allt líður hjá, bæði gott og slæmt.

Hin lævísa leti

Photo by Lisa on Pexels.com

Letin hefur þvælst heilmikið fyrir mér um ævina. Ekki það að ég sé neitt sérstaklega löt (eða það held ég ekki) en ég hef alltaf þurft að velta þessu hugtaki sérstaklega mikið fyrir mér. Leti er óáþreifanleg og ósýnileg en eins og ýmislegt annað þvíumlíkt í lífinu er okkur ætlað að trúa því að hún sé til. Hún er svolítið eins og lítill og óþægur ormur í huga okkar, ormur sem hvíslar að okkur að nú sé best að gera sem allra minnst. Svona lævís lítill gaur og mjög illur, kannski hinn eiginlegi letipúki, því að við vitum jú öll að það er fátt verra en að vera latur.

Við vorum alin upp og ólumst upp við það að lati Geir hafi dáið úr þorsta vegna leti, lata stelpan hafi fengið sína refsingu og letin jafngildi ómennsku og það hlýtur að vera afar slæmt að glata mennskunni sinni. Letin er talin ein af dauðasyndunum sjö og það að láta eftir sér leti verður til þess að við njótum ekki náðar guðs. Ekki er nú undarlegt að foreldrum okkar hafi verið mikið í mun að við yrðum ekki löt, heldur dugleg.

Dugnaður er annað hugtak sem er ótrúlega loðið og illa skilgreint þrátt fyrir að þessu hugtaki hafi verið mikið hampað og sé oft talið vera upphaf allrar velgengni og hamingju í tilverunni. Reyndar er dugnaður ekki ein af höfuðdyggðunum kannski sem betur fer en þó mætti halda það, miðað við hversu mikils metinn dugnaður er í íslensku samfélagi. Þó getur dugnaður úr hófi fram verið ákaflega hættulegur því þótt að það sé töff og kúl að þurfa ekki að sofa eða hvíla sigþá er það yfirleitt slæmt fyrir heilsuna og jafnvel banvænt.Okkur er því nokkur vandi á höndum að finna meðalveg á milli þessarar miklu syndar, letinnar, sem virðist búa innra með okkur öllum ásamt græðginni, öfundinni, drambinu og öllum þeim systrum, og svo hins gulli slegna og eftirsóknarverða titils, -að vera duglegur. Duglegur er litli drengurinn sem ekki grætur þótt hann detti og meiði sig og duglegur er sá sem gerir það gott í bissness, hvernig svo sem hann fer að því.

Þetta getur átt sér sögulegar skýringar, það var jú sérlega gott að búa til höfuðsynd úr letinni þegar menn voru upp til hópa þrælar eða leiguliðar og líklega eimir af því enn. Það voru aðalsmenn og konungar sem gátu notið þess munaðar að láta eftir sér letina en aðrir ekki.Maðurinn minn var orðinn ákaflega þreyttur á togstreitunni innra með konunni sinni sem þrátt fyrir að hafa örmagnast sökum mikils álags, var enn að sveiflast á milli þess að vera löt eða dugleg, hann tók af skarið og bannaði þessi tvö orð á okkar heimili. Sem var besta og skynsamlegasta bann sem ég hef orðið fyrir á ævinni. Ennþá þarf hann reyndar af og til að minna á bannið því að það er svo vandlega inngróið að vera ýmist latur eða duglegur, að vera allt eða ekkert. En margar gengnar kynslóðir hvísla enn þessum öfgum í eyrun á okkur, með ágætum árangri.

Er þá ekkert til sem heitir að vera latur? Eða að vera duglegur? Jú vissulega og leti er áreiðanlega dauðasynd. En ég er ekki að tala um leti í hefðbundinni merkingu. Ég trúi því alls ekki að það sé dauðasynd að horfa út um gluggann og hugleiða eða lesa góða bók í stað þess að skúra og skrúbba. Ég trúi því heldur ekki að það sé synd að vinna stuttan vinnudag og njóta þess að vera með fólkinu sínu og eiga aðeins minna af veraldlegum gæðum.Ég hinsvegar held að letin sem felst í því að nenna ekki að taka réttar og góðar ákvarðanir sé löstur. Ég held að það sé leti að taka auðveldu leiðina hugarfarslega, synda um í þægilegri meðalmennskunni og hafa ekki dug í sér til að standa með sannfæringu sinni. Það er leti að rísa ekki upp gegn óréttlæti heimsins og láta í sér heyra. Og ég geri mig oft seka um slíka leti og það gerum við áreiðanlega öll. Það er kannski mesti dugnaður sem við getum sýnt ef við segjum þessari leti stríð á hendur. Á sama hátt erum við líka dugleg þegar við temjum okkur víðsýni og umburðarlyndi, það krefst hugarfarsvinnu, það krefst þess að spyrja spurninga. Það er dugnaður sem mig langar til að innræta börnum og barnabörnum, skítt með ryk í hornum eða óslegið gras.

Kúlan í maganum

Ég lærði nýverið af 5 ára barnabarni að „kúla í maganum” er notað til að lýsa kvíða. Börn eru oftast fremur hlutbundin í hugsun og eiga kannski erfitt með að koma því í orð hvernig þeim líður en þau skilja vel hvernig það getur verið að hafa slíka kúlu í maganum. Við fullorðnu þekkjum líka kúluna mætavel, hnútinn í maganum sem myndast þegar við erum spennt, full streitu eða kvíðin. Og auðvitað er það ekki bara einhver huglæg upplifun, heilinn er beintengdur líkamanum og kvíðinn veldur líkamlegum breytingum, mjög gjarnan á meltingarfærin þar sem við finnum vel fyrir þeim.

Góðu fréttirnar eru þær að nú er að vaxa úr grasi kynslóð sem lærir um tilfinningar strax frá upphafi. Þau læra að tilfinningar eru nauðsynlegar og að allir hafa þær.  Þau læra að setja nöfn á tilfinningarnar sínar, skoða þær og horfast í augu við þær. Þannig læra þau ekki einungis að gangast við sjálfum sér og vinna með erfiðar tilfinningar, þau verða einnig í minni hættu á að sjúkdómsgera tilfinningar og gera það á einhvern hátt óeðlilegt að finna t.d. til kvíða.

Og af hverju skiptir þetta máli? Höfum við kynslóðirnar sem nú erum fullorðin, mín kynslóð og kynslóð foreldra minna ekki skilað okkar, án þess að hafa lært um tilfinningar? Þarf eitthvað að vera að tala um tilfinningar, er það ekki bara vesen sem engu skilar?

Vissulega höfum við skilað okkar framlagi, við höfum unnið dagvinnu, unnið vaktavinnu og yfirvinnu, staðið okkar plikt, komið upp börnunum okkar og eignast eigið húsnæði. Langflest. Einhverjir brotnuðu undan álagi lífsins eins og gengur, einhverjir voru „tilfinningasamir” og jafnvel „móðursjúkir” og „taugaveiklaðir” og það þótti skrítið og engan vegin eftirsóknarvert. Karlmennska og æðruleysi fólst í því að bíta á jaxlinn og ræða ekki sársauka og hjartasár, – í  mesta lagi að eitt tár rynni niður steinrunnin andlit.

Misskilningurinn er reyndar sá að við erum öll jafn tilfinningasöm og taugaveikluð, við finnum öll fyrir kvíðanum, depurð, gleði, afbrýðissemi, reiði, og öllum hinum tilfinningunum. Og höfum við aldrei lært að skilja þær, þessar undarlegu kenndir sem brjótast fram þegar síst skyldi, þá höfum við heldur engar forsendur til að hafa á þeim stjórn og til að geta beint þeim í skynsamlegan farveg.  Við berjum þær niður eins lengi og við getum og þegar þær brjótast svo fram í stormum tilverunnar, taka þær óhikað af okkur stjórnina. Sorg sem aldrei var rædd verður að kvíða og kúlan í maganum verður að grjóti. Þannig grær aldrei um heilt og alltof margir fara þannig á mis við heilmikið af hamingju og vellíðan.

Það er nefnilega þannig að tilfinningar eru hluti af þeirri heild sem er manneskja, þær eiga upptök sín í heilastarfsemi og taugaboðum og eru okkur öllum lífsnauðsynlegar. Þegar við viðurkennum það, þá sjáum við líka mikilvægi þess að læra um tilfinningarnar, alveg á sama hátt og við lærum um blóðrásina, lungun og það hvernig börnin verða til.  Við getum ekki lært um þessa hluti nema að mega ræða um þá, velta upp hugmyndum og spyrja spurninga.

Þetta fær kynslóðin sem nú er að vaxa upp að gera og þetta getum við sannarlega líka gert. Það er aldrei of seint að skoða eigin tilfinningar, gangast við þeim og læra á þær. Láta af dómhörku í eigin garð en taka í staðinn upp sáttartilburði við sjálfan sig. Það er til fullt af fagfólki sem getur aðstoðað við þetta og það er líka til mikið af góðum og vitrum vinum sem eiga eyra til að hlusta og öxl til að gráta á.

Ég allavega mæli með þjóðarátaki til að vinna með „kúlur í maga” og láta þær ekki stjórna ekki of miklu í tilverunni. Þá geta þessi 5 ára áreiðanlega kennt okkur heilmikið.

Kornflex við kvíða

Kornflex var vinsæll morgunmatur bernskuáranna.

Fyrir réttu ári síðan lá ég á gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri eftir stóra og bráða aðgerð. Var mjög meðtekin og líkamlega lasin en bjartsýn og upprifin á sálinni, þess fullviss um að nú væri það versta búið og innan skamms yrði ég komin heim. Auðvitað vissi ég lítið um það þá að veikindin væru á upphafsreit og að næstu sex vikur yrði ég að á sjúkrahúsi á Akureyri og í Reykjavík. Vissi ekki að ég fengi nýrnabilun, að ég fengi brisbólgu, að ég færi í sex tíma aðgerð með biluðu speglunartæki, að ég færi í sjúkraflugvél,- að ég ætti eftir að vera marga mánuði að ná þreki og orku, finna til og geta hvorki sofið né nærst.  Sem betur fer vissi ég ekkert af þessu fyrirfram. Oftast er okkur nóg að setja annan fótinn fram fyrir hinn á degi hverjum og vita sem minnst um það hvað hið óútreiknanlega líf ætlar okkur daginn eftir. Því það er auðvitað þannig að þó við skipuleggjum tilveruna með reglustiku og reiknivél á lofti þá hlær lífið að öllum slíkum tilraunum og skellir á okkur óvæntum uppákomum, og þeim ekki öllum skemmtilegum. Því er lífsgaldurinn kannski sá að plana mátulega mikið, búast við því besta en fá ekki áfall þegar lífið skellir á okkur óvæntum hælkrók.

Það er hinsvegar ekki einfalt og því erum við kannski öll haldin eðlilegum lífskvíða, kvíða sem helgast af því að við vitum barasta miklu minna um framtíðina en við myndum vilja og getum lítið gert í því nema að spenna beltin og reyna að njóta ferðarinnar. Sem er jú erfitt þegar að maður er kvíðinn og því er í besta falli flókið að vera manneskja!

Sem betur fer er lífið auðvitað að koma okkur þægilega á óvart líka, með óvæntum gleðilegum atburðum, -ástin birtist okkur, börn verða til og fæðast, við eignumst nýja vini, sólin skín og hlutirnir ganga jafnvel betur en við þorðum að vona. Þá er mikilvægt að kunna að gleðjast og njóta þessara stunda og hugsa sem minnst um það sem gæti verið framundan. Það er jú ókomið og tilgangslaust að kvíða því fyrirfram.

Við kvíðaboltarnir eigum erfitt með að hugsa svona. Við förum í gegnum lífið, nokkuð svo viss um að hlutirnir fari einhversstaðar úrskeiðis og kvíðum því óstjórnlega að lífið muni koma okkur skelfilega á óvart. Þessi kvíði gerir okkur erfitt að njóta daganna og við vinnum ötullega í því alla daga að stoppa í öll göt sem gætu orðið til þess að koma í veg fyrir þetta stjórnleysi. Við göngum um með axlabönd, belti og bara allt sem mögulega gæti haldið uppi um okkur buxunum og eyðum í þessa tilgangslausu iðju bæði orku og tíma.

Ég reyni markvisst að tileinka mér bæði bjartsýni og núvitund þannig að hver stund eigi sitt andrými. Ég er þrátt fyrir allt glöð í eðli mínu og vil vera bjartsýn og jákvæð. Þó gerist það reglulega að inn í vellíðunarstundir læðast þær hugsanir að mér verði refsað fyrir gleðina með einhverju skelfilegu, einhverju óvæntu trikki af hálfu lífsins. Kvíðinn grípur um sig, maginn fer í hnút, hjartað fer að hamast og það er eins og líkaminn taki yfir alla vitræna hugsun.

Frammistöðukvíðinn á sér t.d. margar misskemmtilegar birtingamyndir,  t.d. drauma sem snúast um verkefni sem ég tek að mér en ræð þó ekkert við, s.s. að syngja á tónleikum, kunnandi hvorki textann eða lagið. Reyndar á ég ýmis góð ráð í þessum draumum eins og  að semja nýjan texta jafnóðum og impróvisera laglínu sem passar við hljóma lagsins, -loddarinn lætur á sér kræla. „Loddaraheilkennið” snýst nefnilega um það að hinn kvíðni er sannfærður um að aðrir hljóti að sjá í gegnum hann á einhverjum tímapunkti sem er jú mjög fyrirkvíðanlegt. Að það komist upp að hann sé latur, kunni ekki eða geti ekki. Að hann sé loddari.

Ég veit vel að fyrir þá sem að jafnaði eru vafðir í notalega ábreiðu kvíðaleysisins hljómar þetta eins og hver önnur steypa en þeir kvíðnu skilja hvað ég er að tala um. Þeir skilja líka af hverju það veldur kvíða að taka upp síma og hringja í fólk og af hverju maður forðast að fara á mannmarga staði. Þeir vita hvernig það er að vera búinn að skrifa minningargrein um manninn sinn þegar honum seinkar aðeins í kvöldmatinn og hvernig óvænt atvik líkt og veikindin mín á síðasta ári, verða að fínasta eldsneyti fyrir hinn sjúklega þreytandi félaga, kvíðann.

Því var það að við heimkomu af sjúkrahúsi í miðri fyrstu bylgju af Covid, var ég enn á ný farin að kljást við kvíðann. Mér gekk illa að sofa, ég var enn með magasondu og var að brasa með að standa upp án hjálpar og ég hafði ekki getað borðað af neinu viti í einhverjar vikur.

Bragðskynið var í rugli og ég gat alls ekki borðað það sem ég var vön. Ég hinsvegar fór að ráða við ýmislegt sem ég hafði borðað sem barn, drakk ískalda léttmjólk með matnum, borðaði eintómt ritzkex og langaði mikið í samloku með roastbeef og remúlaði. Já og kornflex. Kornflex með kaldri mjólk varð eiginlega mitt besta kvíðaráð eftir heimkomuna. Þegar ég átti erfitt með að sofa var besta ráðið að fara fram í eldhús, ná í kornflexpakkann og kalda mjólk og kjammsa um stund í góða stólnum mínum. Þá varð allt auðveldara.

Og þannig er það enn. Já jafnvel þótt heilsan sé önnur og betri, lífið sé mér gott og kvíðinn hafi losað tökin þá er kornflex (ó)siðurinn enn til staðar.  Stundum vaknar hundurinn og er eitthvað órólegur og þá förum við saman fram. Ég fæ mér kornflex og hundurinn leggst við stólinn minn og steinsofnar. Svo fer ég inn í rúm með fullan maga af óhollustu frá bernskudögum og sofna vært. Já því kornflex telst varla til hollustu í dag þótt Kellogs gamli hafi talið það vera stórkostlega uppfinningu og nært gesti á heilsuhælinu sínu með þessari nýju heilsusprengju. En það er voða bragðgott og fer einstaklega vel með léttmjólk fyrir utan hversu gaman það er að bryðja það. Venjulegt og gamaldags kornflex takk fyrir.

Ég hef auðvitað fundið mér samviskubit út af þessu kvíðakornflexráði mínu en eiginlega kæfði það í fæðingu. Ég gæti verið að fara á fætur til að fá mér í glas, eða reykja, eða spila póker á netinu eða hvað veit ég? Það er svo margt sem við gerum til að fóðra kvíðann okkar og svæfa hann um stund. Ég ætla að vera stoltur kornflexkjammsari og njóta þess á meðan ég hef þörf fyrir að vakna að nóttu og tækla kvíðann. Í dag skín samt sólin, sunnudagurinn lofar öllu fögru og líklega verður ekkert kornflex á mínum diski fyrr en í fyrsta lagi í nótt. Njótið dagsins!

Fullkomna konan

Photo by Suzy Hazelwood on Pexels.com

Einu sinni var kona sem komin var af léttasta skeiði og hún var haldin fullkomnunaráráttu. Það var henni stundum dálítið erfitt þar sem hún var bæði gigtveik og orðin nokkuð þreytt og stundum kvíðin. Hún hafði þó áráttu fyrir því að eiga að vinna að þúsund og einu verkefni á sama tíma, gera þau öll fullkomlega vel þannig að enginn gæti nú sett út á framkvæmdina.  Allt varð að vera í fullkomnu lagi, úti og inni, bíllinn hennar og húsið, landið og miðin.

 Hún hafði erft frá formæðrum sínum vilja til að taka ábyrgð á mörgu og byrðin var henni stundum þung. Þó hafði nú enginn lagt byrðina á herðar henni, hún hafði kosið sitt hlutskipti sjálf.  Fullkomna konan (með gigtina) var samt ekkert að hugleiða hvaðan byrðin væri komin, hún bara var þarna og ekkert annað í stöðunni en að halda áfram að vera fullkomin. Enda var hún svo ansi dugleg, allavega áður en hún varð svona þreytt og gigtveik, hún gat haldið húsinu hreinu, tekið slátur, soðið sultur, unnið, stýrt og stjórnað og tekið gráður í háskóla. „Til hvers að gera hlutina ef það á að kasta til þeirra höndunum” átti hún það til að hugsa og í hennar huga voru bara til tvær útgáfur, fullkomið eða ekki fullkomið. Og það sem var ekki fullkomið var ekki verðugt neinnar athygli og ekki þess virði að það væri gert.

Góðviðrisdagar að hausti voru stundum ákaflega erfiðir því að eins og allir vita þarf að nota góð veður. Sérstaklega á haustin. Þá þarf að ganga frá í garðinum, þvo gluggana að utan, slá garðinn, klára að taka upp kartöflur, þrífa bílinn, fara í berjamó, skipta út sumarblómunum fyrir haustlyng, sjóða sultur og saft og nota svo útsölurnar til að byrja á jólagjafainnkaupunum, svona ásamt öðru smálegu. Ég ætla nú ekki einu sinni að segja ykkur frá jólamánuðinum, þá fyrst átti nú allt að vera fullkomið. Reyndar var því nú þannig farið að því fleira sem var fullkomið hjá konunni því fleira stakk fram höfðinu og heimtaði ámóta fullkomnun, en það er nú önnur saga og lengri.  

Þegar fullkomna konan (en þó gigtveika) var þreytt þá var hún líka fremur óánægð með sig sem kom fram í því að henni fannst mikilvægara en nokkru sinni að hafa allt fullkomið. Því þreif hún og pússaði mun meira en venjulega og varð því að sjálfsögðu mun þreyttari fyrir vikið. Það var konunni erfitt að verða þreytt.

Maðurinn fullkomnu konunnar skildi voðalega lítið í þessu, hann hélt að það ætti að njóta góðviðrisdagana en ekki að nota þá. Hann var hinsvegar góður og vænn maður og vissi að hann átti að vera glaður með að eiga svona duglega konu en stundum fannst honum að hún væri að mæðast í aðeins of mörgu. Hann var bara fyrir löngu búinn að læra að láta kyrrt liggja, hún tók því ekki alltaf mjög vel ef hann lét að því liggja að hún gæti kannski gert aðeins minna.

Svo kom að því að fullkomna (en þó gigtveika) konan) varð alltof þreytt til að halda áfram að vera svona fullkomin. Hún reyndi aftur og aftur að byrja á öllum verkefnunum sínum en allt kom fyrir ekki. Hún hreinlega gleymdi hvað hún hafði ætlað að gera, komst ekki nema stutt inn í verkefnahrúguna þá fór allt í þrot. Þetta var hið versta ástand, fullkomna konan hágrét yfir eigin ófullkomleika og vissi ekkert í hvorn fótinn hún átti nú að stíga. Eiginmaðurinn reyndi allt til að hjálpa fullkomnu (nú ófullkomnu) konunni en það var erfitt. Honum hafði jú alltaf fundist hún fullkomin og honum fannst það líka núna en því gat hún ekki trúað.

Einn dag þegar konan var búin að liggja lengi og gráta fullkomna lífið sitt ákvað hún að nenna þessu ekki lengur. Hún fór á fætur, setti annan fótinn fram fyrir hinn á mjög svo ófullkominn hátt vegna gigtarinnar en uppgötvaði sér til mikillar gleði að hún gat samt gengið. Ekki kannski hlaupið en hún gat gengið og það dugði.  Svo leið dagurinn og konan gerði ýmislegt ófullkomið en mest gerði hún ekkert og það var best af öllu.  Þá fyrst gat hún farið að skapa og hugsa skemmtilegar hugsanir.

Maðurinn hennar kom heim úr vinnunni og gladdist ákaflega yfir því hversu konan var ófullkomin og elskaði hana meira en nokkru sinni fyrr.

Konan er nú vissulega ófullkomin en miklu léttari á sér en áður því að byrðin þunga er farin og það munaði nú sannarlega um minna. Góðviðrisdagar að hausti snúast nú oftar um ísbíltúra og sjaldnar um tiltekt og bara þegar orkan og gleðin eru til staðar. Slíkra daga er notið og stundum eru þeir notaðir.  Nú er ófullkomna konan miklu glaðari en hún var áður, sulturnar hennar eru keyptar í búð og hún er mikið til hætt að stýra og stjórna.

Hún hefur skilið að hún sjálf var aldrei og átti aldrei að vera fullkomin og það var óþarfi að reyna að fela það með fullkomnum verkum.  Ekkert er fullkomið í veröldinni og meira að segja náttúran sjálf gerir mistök.  Nú er konan þakklát fyrir ófullkomleikann og gerir sitt ítrasta til að gleyma ekki því sem hún hefur lært.

Sjúkrahúsminning

Á tímum þar sem endalaus og (oft innistæðulaus) jákvæðni er dyggð þá deili ég með ykkur hugsunum sem komu upp um það að liggja lengi á sjúkrahúsi, gjössovel (tek það fram að ég er heima núna í bataferli):

vintage photo of hospital patient with visitor

Það er fátt einmanalegra en að liggja á sjúkrahúsi
Að liggja í rúmi sem er ekki þitt, á dýnu sem hefur ekki lagað sig að líkama þínum heldur er sérstaklega framleidd til að laga sig ekki að neinum einum.
Í rúmi og á dýnu og með sæng og kodda sem ekki þekkja þína vöðva, þína hryggjarliði, þína drauma og þinn veruleika. Í hvítu líni sem er merkt spítalanum, (eins og þér dytti í hug að ræna þér gatslitnum sjúkrahússængurverum. )

Starfsfólk sem er þér vænt og vill þér eflaust vel en stéttaskiptingin er skýr,- þau eru starfsmenn, þú ert sjúklingur. Þau eru hraust og ilma vel, nýkomin úr sturtunni, hress og dugleg og það sem meira er,- þau geta farið inn á vaktina og rætt um þig, haft á þér álit og skoðanir algjörlega án þinnar þáttöku. Þú liggur bara í hvítu ljótu nærfötunum í ókunna rúminu, þú með þínar slöngur og dren,- það er ekki góð lykt af þér og þú getur ekki skrifað þína eigin sjúkraskýrslu. Það gera aðrir.
Starfsmaður sem pirrast nett yfir bjölluhringinum að nóttu þegar þú þarft að pissa einum of oft, – lætur pirringinn smita yfir í sjúkraskýrsluna og þar má nú lesa að þú nennir ekki alveg að gera sjálfur,- að þú sért ekki að leggja nógu mikið á þig?
Þegar allt sem þú þráir er að komast út og heim og verða aftur manneskja en ekki bara skrokkur í hnausþykkum bómullarnærfötum með óklipptar táneglur. Þú bara getur ekki betur.

Læknirinn sem kemur og stendur brosandi við rúmstokkinn, fullur af bjartsýni og faglegum ákafa,- honum er varla hægt að segja hvernig þér líður. Það myndi kannski rýra traustið og álitið á þér sem sjúklingi ef þú segðir honum að þú sért bæði hrædd og einmana.
Þú ætlaðir ekkert að lenda þarna, þú ætlaðir ekki að gráta, þú ætlaðir ekki að upplifa allan þennan sársauka og óttast að deyja.

Næturnar þegar þú iðar af sársauka sem ekkert linar og ef þú nærð að sofna dreymir þig að þú sért að kafna,- eða drukkna. Morfínlyfin hafa þau áhrif í þínu tilfelli. Langar, langar nætur með heimþrá og tíma sem líður óendanlega hægt.

En svo er hjúkrunarfræðingurinn sem sér þig gráta og býðst til að þvo á þér hárið í rúminu og gerir það af þvílíkri natni og elskusemi að sálin nærist ekki síður en hárið. Og sú sem situr á rúmstokknum og hlustar á söguna þína,- og sú sem heldur í höndina þína með hanskaklæddri sinni á meðan þú ert svæfð enn einu sinni,- og segir þér að hugsa fallegar hugsanir inn í svæfinguna. Og svo er læknirinn sem sem veit hvernig þér líður og finnst það eftir allt saman bæði eðlilegt og sjálfsagt að þú sért hrædd og döpur.
Þetta fólk og margir fleiri létta þér sannarlega þessa skrýtnu daga sem voru sannarlega ekki á planinu þínu.

Vinir og vandamenn gera auðvitað sitt, senda kveðjur, rafræna kossa, hjörtu og batakveðjur sem gleðja, húrra fyrir Internetinu. Ekki er víst fyrir að án þess hefðu allir sest niður og skrifað mér bréf eða haft fyrir því að koma í heimsókn, – og þú skrollar og skrollar,- þumalfingur í stanslausri æfingu. Verra er að geta litlu svarað, orkan leyfir ekki meira en að senda hjarta til baka. Það litla hjarta er fullt af þakklæti.

Meira að segja þínir nánustu sem koma daglega eru ekki innvígðir,- þeir eru gestir og maður kvartar ekki og kveinar þegar gestir koma í heimsókn. Hvernig í ósköpunum ættu þeira að skilja það sem þinn kollur berst við af hugsunum á dögum sem ætla aldrei að líða. Þannig á það líka að vera, þú ert lasin og þitt er að takast á við lífið þitt. Það þýðir þó ekki að mikilvægi þessa einstaka og takmarkalausa stuðnings sé minna,- það er meira en mikið.

Þú átt að vera læknavísindunum og heilbrigðiskerfinu þakklát, það er alls ekki víst að þú hefðir fengið líkn og lækningu í öðrum heimshlutum. Og þú ert þakklát, reynir að sýna það, stundum tekst það en stundum verðurðu bara tárvot frekjudós,- af því að sálin er lítil og aum. Stjórnin var tekin af þér og þú ert að reyna að hafa stjórn á því litla sem þú getur.

Þú lærir og lærir, miklu meira en þú vildir en það er samt dýrmætur lærdómur.

Hún á afmæli í dag…..

EB9C8ECC-353D-4A9E-A546-A37FEDDB46DEAfmælisbær dagsins á sér bæði bakhlið og framhlið eins og flestir þéttbýlisstaðir veraldarinnar. Þetta gildir bæði um mannvirki, gróður og mannlíf eins og gefur að skilja en framhlið Akureyrar er sannarlega falleg, -gróðursæl, umkringd fallegum fjallahring . Hún býr við veðursæld blessunin og oftast friðsæld líka og þó stundum sé þráttað þá berast íbúarnir allavega ekki á banaspjótum. Það þykir mun betri tómstundaiðja að þvo bílinn sinn eða slá lóðina en að vera með vesen.

 

Mér þykir undurvænt um Akureyrina mína jafnvel þótt bakhliðin hennar sé ekki alveg jafn fögur og framhiðin. Hún er svolítið svona snobbuð maddama Akureyri á köflum enda borðaði hún danskar napóleonskökur á uppvaxtarárunum og hýsti garðveislur með fínu fólki. Hún á alvöru lystigarð og leikhús jafnvel þótt KEA, Amaró og SÍS heyri nú sögunni til.

Í mínum huga táknar Akureyrin eitthvað sem er stærra en ég,- framvindu tilverunnar. Hér bjó fólkið mitt löngu fyrir minn dag og hér verður áfram lifað og starfað. Hér eru göturnar sem langafi og langamma gengu og það gefur einhvern vegin öryggi og ró í sinnið að Vaðlaheiðin skuli enn brosa við okkur yfir Pollinn, hvernig sem veröldin veltist.

Við skulum allavega fara vel með hina bústnu maddömu, fegra hana eftir föngum en ganga ekki fram af henni með offorsi í breytingum. Gamlar maddömur þurfa umþóttunartíma.

Til hamingju fóstra mín, mun halda áfram að mæta í afmælisboðin þín.

IMG_5784
Enter a caption