Að baða sig í skógi

person holding fern

Ég er, og hef lengi verið, heilluð af trjám og skóglendi. Tré virka ákaflega róandi á mig, mér finnst gott að vera í návist þeirra. Vísindin eru að komast að áhugaverðum staðreyndum um það hvernig tré tjá sig og tala saman ýmist með efnasamböndum eða ferómónum og svo með rótarkerfinu sem sumir hafa nefnt hið eina sanna alnet. Tré vernda ung tré og þau aðstoða þá einstaklinga sem eiga undir högg að sækja eða eru á einhvern máta veikbyggðari en hin trén. Mér hefur alltaf þótt þyngra en tárum taki þegar fólk heggur niður tré sem á Íslandi eiga erfitt uppdráttar, áratuga eða árhundraða gömul tré, bara af því þau passa ekki lengur útlitslega eða skyggja á sólina. Auðvitað þurfa þau stundum að víkja þar sem mannvirki eru í húfi en alltof oft eru ástæðurnar léttvægar. Það að skyggja á sólina er reyndar eitt af því stórkostlega sem trén gera fyrir mannkynið, þau skapa einnig skjól fyrir vindi og jafnvel regni. En þau eru höggvin eins og dauðir hlutir og án umhugsunar og á heimsvísu útrýmum við heilum regnskógum sem þó eru óendanlega mikilvægir fyrir heilbrigði allra íbúa jarðkúlunnar.

Japanir og svo fleiri þjóðir stunda „skógarböð” eða „forest bathing” sem heilsubót. Þetta hljómar svolítið öfgakennt eða jafnvel fáránlegt en er það alls ekki í raun. Skógarböðin snúast um það að fara og njóta þess að vera í skógi, horfa og hlusta meðvitað og án truflana, vinda ofan af streitunni og eiga stund með náttúrunni. Þetta, sem okkur finnst kannski sjálfsagt, er líklega orðinn munaður í manngerðu umhverfi og gífurlega þéttbyggðu.

Ég hef velt þessu með trén fyrir mér undanfarið, þar sem ég eins og fleiri, hugleiði listrænt gildi tveggja pálmatrjáa í glerhólkum. „Trjáníð” hafa garðyrkjumenn kallað það og víst er tilhugsunin ógeðfelld. Að taka lifandi veru, hvaða nafni sem hún nefnist og setja í glerhólk án nokkurs samneytis við sína líka, við ferskt loft, við rótarkerfi annarra plantna, við aðrar lifandi verur.

En líklega höfum við manneskjur gert eitthvað í þessa veru frá upphafi, við höfum jú haldið bæði plöntur, dýr og jafnvel aðrar manneskjur til að þjóna okkar eigin þörfum. Að mínu mati er þetta ekkert verra „níð” en við beitum hvort annað mannfólkið.

Og hvað þá? Spurningin er þá kannski þessi; Er þetta list og mun þessi list gleðja?

Spurningin „er þetta list?” er reyndar býsna snúin og líklega eru svörin jafn mörg og svarendur. Maður hefur heyrt þessa spurningu hnussaða með fyrirlitningu og maður hefur líka heyrt spurt í einlægni og af heiðarleika, því án þessarar spurningar væri líklega engin list til. Ég er ekki lærð í list (fremur en líffræði) en mér sýnist að tré í glerhólki hafi a.m.k. það listræna gildi að eitthvað hafi verið sett í nýtt samhengi og veki upp nýja hugsun og ef til vill víðara sjónarhorn en áður.

Gleður þá þessi list? Því mun auðvitað sérhver sá sem horfir á pálmatrén, svara. Það sem mér finnst kannski umhugsunarvert er að fyrir þessa peninga væri hægt að fegra græn svæði í nýja hverfinu, gróðursetja tré og skapa fólki aðstöðu til að njóta náttúrunnar í alvöru og samt eiga afgang til að setja upp listaverk. Pálmarnir í glerhólkunum verða ekki í „alvöru”, það verður enginn vindur til að bæra laufin, það verður ekki hægt að heyra þyt í þessum trjám og líklega verður í mesta lagi hægt að horfa á þau deyja hægum dauðdaga. Kannski að það eigi að vera listin?

Auðvitað eru þessar hugleiðingar aðeins lítið innlegg í allar þær vangaveltur sem hafa átt sér stað um þessi mál undanfarið en það er kannski einmitt hið listræna gildi tillögunnar, þ.e. allar umræðurnar og allar pælingarnar.

Að svo mæltu hvet ég bara alla til að stunda skógarböð sem oftast og að horfa á listina í lífinu með opnum en líka gagnrýnum huga.

man and woman sitting on hanging chair by a tree
Photo by Artem Bali on Pexels.com

Þegar ég varð gömul

Mér sýnist á öllu að ég sé orðin gömul. Og það sem meira er, það virðist hafa gerst á einni nóttu. Um miðja síðustu viku sofnaði ég hipp og kúl að eigin áliti og upplifun og svo miklu yngri en árin sögðu til um. Næsta morgun eiginlega hrökk ég upp við það að ég var orðin gömul.images

Auðvitað hafði ég ekkert breyst á þessari einu nóttu. Ég les enn gleraugnalaus þótt það megi nú litlu muna á stundum, – ég er jafn stirð og áður ég finn ennþá fyrir veðrabreytingum í hægri mjöðminni. Ég er ennþá nokkuð tæknifær, góð á fjarstýringar og síma sem þýðir að ég er enn ágætlega fær um að læra nýja hluti, og ég er enn gefin fyrir að keyra ívið of hratt. Þetta breyttist ekkert, nóttina sem ég varð gömul en eitthvað annað breyttist. Allt í einu hætti mér að finnast ég vera á fyrri hluta ævinnar og ég uppgötvaði að ég var sigin yfir á hina hliðina. Ég á barn sem er komið á fertugsaldur og ég á barnabörn og það eru bara fjögur ár þar til mér verður boðið í félag aldraðra. Ég er löngu orðin gráhærð og ef að mannkynið skiptist í tvo hópa, ungt fólk og gamalt fólk,- þá held ég að ekki þurfi vitnanna við. Ég tilheyri seinni hópnum.

Hvernig lýsir sér þá þessi hugarfarsbreyting? Jú ég gerði þá uppgötvun að það er komin fram kynslóð af ungu fólki sem ég bara botna ekkert í. Eða lítið. Ekki það að við getum vissulega talað saman, mér finnst ungt fólk upp til hópa frábært og þau eru skemmtileg og klár en þau tala tungumál sem ég skil ekki lengur, þau upplifa heim sem er ekki lengur minn heimur og þeirra viðhorf og skilgreiningar eru þaðan. Þau eru ekki með annan fótinn í snjalltækjum og stafrænum heimi, þau eru fædd inn í þann heim og eiga þar heima. Það að lesa bækur og blöð, er þeim mörgum orðið framandi og þau hafa ekki hugmynd um hvernig skífusími virkar. Línuleg dagskrá í sjónvarpi er fjarlæg hugmynd og hvað þá sjónvarp sem tekur sér frí bæði á fimmtudögum og í júlímánuði eins og mín kynslóð man svo vel.

Ég sjálf, sem í mínum athyglisbresti tók snjalltækjum fagnandi og sekk mér helst til hraustlega ofan í þau, kemst aldrei með tærnar þar sem ungt fólk hefur hælana í þessum efnum.

Er þeirra heimur þá betri eða er betra að vera gömul?

Að mínu mati er hvorugt betra. Ég elska að vera á mínum aldri, ég elska að þekkja fleiri en eina heimsmynd, ég elska reynsluna mína og að vera komin þangað sem ég er stödd núna. Mér finnst eiginlega bara frábært að kæra mig kollótta um hvort ég sé hipp eða kúl, hvort ég er á gúmmístígvélum eða hælaskóm. Ég nenni ekki lengur að skilja nýja tónlist en ég vil líka sleppa við harmonikutónlist og íslensk einsöngslög. Að verða gömul er ákveðið frelsi og svolítið eins og að verða aftur ungur að því leyti að ég get slakað á og leyft mér að vera algjörlega sú sem ég er. Eða eins og meistari Bowie orðaði það, sú sem ég alltaf átti að vera.

Það sem er kannski mikilvægast í þessu öllu er samt að það á að vera stórkostlegt að vera ungur og það á að vera stórkostlegt að vera gamall. Ég vil að skoðanir mínar skipti máli í samfélaginu og ég vil að mér sé sýnd virðing,- það viljum við öll ung og gömul. Við eigum líka til þess sama rétt, hvert og eitt.

Ég ætla að reyna að vera sátt við sjálfa mig og ég ætla líka að reyna að bera virðingu fyrir þeim sem ég skil ekki, hvort sem þeir eru ungir eða gamlir. Það er auðvitað misjafnlega erfitt en þannig eru jú öll verðug verkefni. Svo er bara að setjast með snjallsímann í ruggustólinn og nota youtube til að rifja upp hvernig var að vera diskódís.233601-325x487-bell-bottom-everything

Photo by Gerd Altmann on Pexels.com

Að vera amma

ground group growth hands
Photo by Pixabay on Pexels.com

Amma mín á Akureyri var lágvaxin og mjúk. Það var gott að kyssa hana á vangann og hún var eiginlega alltaf heima og til staðar. Hún var aldrei uppteknari af því að tala við annað fólk en barnabörn og hún var sannarlega ekki á facebook eða instagram. Hún bjó til dásamlegan mat, betri rjómaís en aðrir og ávanabindandi piparkökur í lítilli Rafha eldavél sem einhverntíma hafði verið stórkostleg tækninýjung. Rjómaterturnar hennar voru stórkostlegar og eftir að hún eignaðist frystikistu í eldhúsið uppgötvaði hún þá snilld að skella þeim í frystinn og átti þannig alltaf rjómatertu ef gesti bar að garði. Fjölskyldan mætti gjarnan óvænt og hún veiddi þá upp gaddfreðna rjómatertu með orðum sem urðu sígild í okkar hópi,- „æ æ, er hún frosin?” og hún var alltaf jafn hissa. Amma var með gláku og hennar kúlínarisku listaverkum fækkaði með hrakandi sjón en aldrei lét hún hjá líða að bjóða upp á eitthvað gott úr kistunni með kaffinu, það var auðvitað ekki í boði að eiga bara molasopa handa hjörðinni sem ruddist inn að vild, án þess að hringja dyrabjöllu eða gera boð á undan sér. Amma var væn og góð og aldrei man ég eftir því að hún léti í ljós að henni mislíkaði hvernig húsið hennar var umferðarmiðstöð fjölskyldunnar eða hefði óskir um að við kæmum frekar í heimsókn við betra tækifæri. Öll tækifæri voru góð í hennar huga, að því er virtist.

Og nú er ég orðin amma. Allt öðruvísi amma sýnist mér á öllu en líklega eru tilfinningarnar þær sömu samt. Ég er skrýtna amma sem dansar og syngur, segir sonur minn, fer ekki í vinnuna en er samt alltaf upptekin við eitthvað og þessari ömmu hentar ekki umferðarmiðstöðvarstíllinn, alls ekki! Nei hún er dálítið haldin af þráhyggjum ýmiskonar og líkar ekki vel þegar hlutir koma henni á óvart, það veldur henni bara kvíða. Amman ég elskar að fá barnabörnin í heimsókn en hún þarf að vera óþreytt og vel upplögð og finna að hún ráði vel við verkefnið.

Amma mín, hlýtur oft að hafa verið þreytt og örg með öll barnabörnin á hlaupum um húsið en hún lét það sannarlega ekki í ljós, hún virtist ekki hafa neinar þráhyggjur og hvorki vera að berjast við kvíða eða depurð. Hún bara virtist njóta tilverunnar sem vissulega var einfaldari þá, með reglubundnari og hægari takti en þeim sem ræður okkar lífi í dag. Þó veit ég að hennar líf var engan vegin laust við sorgir og áföll, langt því frá, en æðruleysið virtist vera henni eðlislægt og hún var mjög einlæg í allri sinni elsku.

Ég var svo heppin að fá að eignast tvær ömmustelpur sem eru samkvæmt skilgreiningu barnabörn mannsins míns, en foreldrar þeirra hafa aldrei látið mig finna annað en ég sé amma þeirra og þær auðvitað ekki heldur. Svo eignaðist ég fyrsta barnabarnið sem er mitt líffræðilega afsprengi, nú í haust og ég fann jú að það var einhvernvegin öðruvísi. Ekki það ég elskaði hann meira en þær en þarna voru nýjar tilfinningar á ferðinni og ég var búin að spá svolítið í þennan mun og í hverju hann lægi, þegar það loks rann upp fyrir mér hvernig þetta væri vaxið. Litlu frænkurnar fæddust í þennan heim, dásamlegar og fullkomnar, lítil kraftaverk sem ég var heilluð af en ég þurfti að kynnast þeim til að elska þær og auðvitað er auðvelt að þykja bara vænna og vænna um þær. Með drenginn er það aftur þannig að amma gat elskað hann strax, ég leit bara á hann, fann að ég þekkti hann ofurvel og fann strax djúpar og miklar tilfinningar sem ég þurfti ekki að bíða eftir. Meira að segja þegar pabbi hans fæddist þurfti ég að bíða eftir móðurástinni, ekki reyndar lengi en ég var ung og óreynd mamma og þekkti hann aldeilis ekki eins og ég þekki son hans. Það er einhver vissa á frumustigi, djúpt í genunum mínum, sem segir mér hver hann er, hann er minn í gegnum pabba hans. Maðurinn minn kannaðist við þetta þegar ég lýsti fyrir honum þessum mun en sagði að um leið og hann gat tekið snáðann í fangið sem var ekki fyrr en nokkrum vikum eftir fæðingu, hafi hann orðið hans á sama hátt og hans eigin barnabörn.

Þegar frá líður breytist þetta og ég mun elska ömmubörnin öll á sama máta en þessi munur gagnvart þeim nýfæddum sýnir mér mjög vel hversu lífsmynstrið er fallega ofið. Það segir mér líka að á sama hátt og amma mín var öðruvísi amma en ég þá eru tilfinningarnar mínar jafn sannar og djúpar og þær voru hjá henni þótt líf okkar og aðstæður séu allt öðruvísi. Lífsvefurinn er samur við sig og það eru stórkostleg forréttindi að fá að verða amma og afi. Maður getur leyft sér að njóta elskunnar til þessara dásamlegu einstaklinga án ábyrgðarinnar sem fylgir því að eiga að ala þau upp. Við getum treyst því að þetta unga fólk, foreldrarnir, sé betur til þess fallið en við.

Líkamlega eru þau sterkari, betur fær um að vaka á nóttunni og trúið mér að sá sem er þriggja mánaða en þegar átta kíló er sko farinn að taka í axlir og bak á 55 ára gamalli ömmu eftir fárra daga samveru. Foreldrarnir eru einnig betur fær um að aðlagast breyttri veröld og taka skynsamlegar ákvarðanir fyrir börnin sín í framtíðinni. Afar og ömmur eiga svo verðmæt innlegg í uppeldið, innlegg sem eru mótuð af öðrum tímum og annarri lífsreynslu. Þau eru mikilvægur hluti þorpsins sem elur upp barnið.

Okkar er sumsé að treysta börnunum okkar í nýju hlutverki og njóta þess að fá að vera á hliðarlínunni, hvetja og uppörva og njóta árangursins. Stundum stígum við yfir þessar fínu línur sem skilja að umhyggju og afskiptasemi eða jafnvel stjórnsemi. Þá þarf að sýna okkur mildi og benda okkur vinsamlega á að stíga út af vellinum aftur. Við erum jú líka ný í hlutverkinu og það er svo stutt síðan við vorum foreldrar sjálf með allri ábyrgðinni að það er auðvelt að gleyma sér.

Það eru ekki bara barnabörnin mín sem eiga margar ömmur og afa, fjölskyldur voru líka flóknar hér áður fyrr og sjálf átti ég þrjár ömmur. Eina þá sem hér var lýst í upphafi og lék stærsta hlutverkið í lífi okkar enda bjó hún á sama stað og við. Hinar tvær bjuggu annarsstaðar, voru reyndar systur þótt ólíkar væru, en yndislegar og jafnmiklar ömmur okkar báðar tvær. Ömmur eru nefnilega allskonar, stórar, litlar, skáömmur og stjúpömmur, gamlar og ungar, lasnar og frískar…en allar vonandi dýrmætar og afarnir líka.

Höldum bara fast í alla þræðina í lífsvefnum, því fleiri sem þeir eru því fallegri og litríkari verður tilveran.

img_7190.jpg

 

Að kveðja fortíð og heilsa framtíð

Ttime-2160154_960_720íminn er undarlegt fyrirbæri. Víst er hann afstæður eins og flestir þekkja,- hann líður t.d. mun hraðar við ánægjulega iðju og þegar við hlökkum til einhvers heldur en þegar lífið er litlaust og leiðinlegt. Það er jú samt bara í okkar eigin vitund sem hann er afstæður, hann gengur alltaf á sama hraða, án upphafs og án endis að því við best vitum. Jörðin er alltaf jafn lengi að ganga einn hring í kringum sólina eða rúmlega 365 daga. Við mannfólkið höfum kosið að gera slíkan hring að tímaeiningu sem skiptir miklu máli í allri okkar tilveru. Áramót eru hinn tilbúni endapunktur á því sem liðið er og upphaf að því sem er ókomið og sem slík ekki verri tími en hver annar til að setja okkur ný markmið.

Þetta gerum við með stæl, glimmeri og glitri, fögnum nýjum tíma og kveðjum hinn liðna. Það krefst hugrekkis á að horfa fram á við með bjartsýni en flest einsetjum við okkur samt við áramót, að bæta úr því sem við vildum gera betur eða taka upp nýja siði ef við erum ekki sátt við þá gömlu. Stígum á stokk og strengjum heit.

En af því að tíminn er hringlaga í eðli sínu en ekki eitthvað sem endar og byrjar aftur þá er málið oft ekki alveg svona einfalt. Við erum föst í flóknu mynstri tilfinninga og hegðunar af ástæðum sem eiga sér djúpar rætur og það er sjaldnast auðvelt að kveðja fortíðina bara af því að okkur langar til þess. Jafnvel þótt við séum ósátt við hana.

Það þýðir samt ekki að það sé ekki hægt en það þarf reyndar miklu meira en bara flugelda og kampavín. Það þarf einlægan ásetning og löngun og það þarf mikið af æfingu og lærdómi. Við eigum meira að segja til að gleyma öllu sem við höfum lært og þá þurfum við að byrja námið upp á nýtt. Það þarf að læra að fyrirgefa öðrum það sem liðið er og það sem er þó mikilvægast af öllu, -að fyrirgefa okkur sjálfum. Þá og aðeins þá getum við farið að horfast heiðarlega í augu við okkur sjálf og setja okkur ný markmið.

Tíminn er nefnilega ekki aðeins hringlaga, hann gengur bara í aðra áttina, það er áfram og það er engin leið að snúa honum við. Hversu mikill sársauki sem býr í fortíðinni, þá er hún liðin og við breytum henni ekki. Eina leiðin er að horfast í augu við sársaukann okkar, ná við hann sátt og reyna að skilja hann svo eftir þar sem hann á heima,- í liðnum tíma. Sérhvert augnablik er glænýtt og við getum alltaf verið að búa til betra eintak af okkur sjálfum og tilverunni okkar, að minnsta kosti ef við festumst ekki í fortíðinni. Við getum átt okkar áramót á hverjum einasta degi.

Það er að minnsta kosti eina áramótaheitið sem ég ætla mér að strengja og það sem meira er ég ætla að byrja strax á að koma því í framkvæmd, og svo alla daga upp frá því. Að muna að sérhver dagur er nýr dagur og þar eigum við heima en hvorki í fortíðinni eða framtíðinni. Stundum mun mér heppnast að standa við þetta og stundum alls ekki en það er allt í lagi,- ég held áfram að reyna.

Ykkur óska ég þess að sem oftast, eigi þetta sér stað:

  • Kaffið ykkar verði stórkostlega bragðgott og hressandi, já og sterkt!
  • Að þið fáið að faðma þá sem ykkur þykir vænst um og það þétt og lengi.
  • Að þið getið verið úti og finnið gleði í náttúrunni
  • Að þið finnið huggun hjá góðum vinum og fjölskyldu á erfiðum stundum.
  • Að þið finnið ástæðu til að brosa og gleðjast.
  • Að streita og hraði nái ekki tökum á tilverunni ykkar
  • Að þið sýnið ykkur sjálfum umburðarlyndi og reynið ekki að vera fullkomin,- það er hvort eð er ómögulegt.

Gleðilega nýja daga og takk fyrir alla þá sem liðnir eru.

IMG_8717

Jólapistill úr glerhúsi

IMG_8315Ég hef í gegnum tíðina skrifað pistla fyrir jól, -pistla sem aðallega fjalla um allt það sem ég ætla ekki að gera fyrir jólin. Ég ætla ekki að gera of miklar kröfur til sjálfrar mín, ég ætla ekki að ætlast til þess að allt sé þrifið og strokið, ég ætla að njóta aðventunnar og ég ætla ekki að láta auglýsingar og æsing hafa áhrif á birtumagnið í sálinni. Fögur fyrirheit eru nokkurs virði en svo eykst myrkrið stöðugt, streituþolið mitt er miklu minna en áður, kvíðinn meiri og fjárhagurinn þrengri þrátt fyrir löngun til að gera fólkinu mínu gott.

Fréttaflutningur einkennist af fréttum af spilltu og vondu fólki, sem fyrirlitur sína minnstu bræður, fátækt og misrétti eykst og heimur virðist hafa gleymt hvernig lifa á í friði og sátt.  Og ég, í öllum mínum vanmætti fer að láta allt þetta myrkur hafa áhrif á líðanina og fer að hlaupa hraðar, anda hraðar og gera hraðar.

Við erum svo heppin að eiga hefð fyrir því að halda jól. Hátíðir eiga að brjóta upp hversdagsleikann og gleðja og þessi hátíð okkar er helguð ljósi og vexti,–og öllu því sem er gott. Alveg sama hvort og hverju við trúum. Í myrkrinu mesta er gott að finna kyrrð í sálinni, hugleiða tilveruna, kúra í rökkrinu og hægja á sál og líkama.

Ég hef eiginlega horft undrandi á ýmis viðbrögð fólks við jólaundirbúningnum. Ég hef séð fólk urra í geðvonsku á afgreiðslufólk stórmarkaðanna, ég upplifi hraðakstur pirraðra ökumanna í hálku og myrkri, Við förum að lifa á óhollustu, skyndibitum og í besta lagi mandarínum…enginn hefur jú tíma til að elda fyrr en að það verður kveikt undir kjötkötlunum á jólunum sjálfum. Pirringur út í mann og annan, snjómokstursmenn, bílastæðaverði, þá sem vinna á pósthúsum, alls kyns fólk sem er að vinna vinnuna sína og líka út í Gunnu frænku, eiginmanninn og alla hina.

Mér sýnist að ég muni alltaf skrifa jólapistla úr glerhúsi. Mér mun seint takast að iðka sjálfri það sem ég er að reyna að hvetja aðra til að gera. Þó að sortunum sem slett er í hér heima hafi fækkað mikið og miklu minna sé skreytt og þrifið þá stíg ég yfirleitt skrefinu of langt í undirbúningnum, verð þreytt og kvíðin í staðin fyrir að vera glöð og þakklát. En þó eru nokkrir mikilvægir áfangar í mínum jólaþroska þessa desemberdagana sem ég finn að eru að koma,-og ég gefst sannarlega ekki upp við að fjölga þeim eftir bestu getu.

Ég fer hægar yfir í myrkrinu, keyri varlegar en áður og af meiri þolinmæði. Ég legg mig fram um að brosa og vera notaleg við þá sem ég á samskipti við í verslunum. Ég leyfi mér að kúra aðeins lengur í rökkrinu og ég geri ekki lengur kröfur á sjálfa mig um að taka þátt í öllu því sem mér finnst freistandi að gera í desember. Ég segi ekki að ég sé dugleg við núvitundaræfingarnar en man þó eftir því af og til að draga djúpt andann eða hlusta á eitthvað uppbyggjandi og gott. Og hvíla mig.

Njótum myrkursins, það getur verið bæði hlýtt og mjúkt. Svo rísum við upp  með hækkandi sól, það er jú það sem jólin tákna bæði fyrr og nú.

Gleðileg jól.

IMG_8195

Með hörkuna að vopni.

Undanfarna daga hef ég fylgst með íslenskum netheimum héðan frá Bandaríkjunum og eiginlega hefur mér rúmlega ofboðið dómharkan og grimmdin sem gýs upp í því sem eiga að vera umræðurNurses-in-training-vintage-photo. Það sem sett er fram sem málefnaleg umræða um viðhorf og ímynd hjúkrunarfræðinga, er nú gert að nornaveiðum, húmorsleysi og viðkvæmni heillar stéttar sem ekki hvað síst hefur nú gert sig seka um árásir á ungan rithöfund sem varð á að nota starfsheiti sem ekki hefur verið til sem slíkt síðan hún fæddist. Gömul mynd sem óþekktur stuðningsmaður, líklega af eldri kynslóðinni, setti á netið í einhverri kjarabaráttu er gerð að tákni fyrir hræsni hjúkrunarfræðinga og notendur facebook stökkva á vitleysuvagninn hratt og örugglega og deila ákaft.

Líklega þýðir ekkert að benda á að umræðan og gagnrýnin snerist um ímynd kvennastéttar sem vill gjarna breyta hugmyndum næstu kynslóðar um störf sín og kunnáttu og finnst sárt að ungur kvenrithöfundur (ritkona) viti ekki betur en að setja fram gamla og úrelta lýsingu í bókinni sinni.  Þessi umræða átti að vera vitundarvakning um það að við þurfum mjög sárlega á því að halda að kenna börnunum okkar um lífið eins og það er. Þúsundir hjúkrunarfræðinga starfa ekki við hjúkrun og launin þeirra og ímynd stéttarinnar, eru ekki að hjálpa til.

Raunsæi í barnabókum er sjálfsagt þegar fjallað er um hluti eins og það þegar barn fer til læknis í nútímasamfélagi og svo er sjálfsagt að vinna líka rannsóknarvinnu þegar skrifað er um liðna tíma eins og þegar hjúkrunarkonur svifu um með kappa í þröngum hvítum kjól og nælonsokkum. Í dag er stéttin með að lágmarki fjögurra ára háskólanám, er fræðigrein og heitir hjúkrunarfræðingar samkvæmt lögum. Leikskólakennarar heita ekki fóstrur, þeir hafa fimm ára háskólanám og spila ekki bara á gítar og snýta börnum. Í slökkviliði eru bæði konur og karlar og vonandi kemur að því að þeim verður fundið starfsheiti sem hentar báðum kynjum. Vonandi getum við haldið áfram að gagnrýna allt sem betur má fara í okkar pínulitla samfélagi.

Að þessu öllu slepptu þá blöskar mér hvernig samfélagsmiðlar geta svipt almenningsálitinu til eins og hendi sé veifað. Hvernig lýsingarorðin verða sterkari og sterkari og allt í einu er hálf þjóðin farin að draga ályktanir sem virðast ekki byggjast ekki á rökum heldur einhverskonar hóptilfinningu.   Einn ágætur karlmaður hélt því fram á facebook að hjúkrunarfræðingar leggi rithöfundinn í einelti af því að hún sé söngkona. Hann færir ekki fyrir þessu rök en þau hljóta að vera einhversstaðar og byggjast á einhverju, -eða hvað?

Ég er alls ekki góð í að díla við dómhörku og óvægna umræðu,- verð alltaf hálf smeyk og döpur. Sjálfsagt ætti ég að vera meiri nagli en svo finnst mér eiginlega alveg nóg af þeim, þannig að ég ætla bara að halda áfram að vera hallærislega viðkvæm. Leiðbeinum endilega um það sem betur má fara, tökum ekki hvort annað af lífi í athugasemdum á netinu og í guðs bænum hjálpum börnunum okkar til að búa til betri framtíð með góðum, sönnum, skemmtilegum og ævintýralegum barnabókum!

Bestu kveðjur frá Vermont

Hættu þessari vitleysu Inga!

anxiety-charlie-brownÞað er ýmislegt sem hægt er að skamma úr sjálfum sér ef svo ber undir. Ég er reyndar að reyna að læra að tala fallega við sjálfa mig en stundum þarf ég samt að hvessa mig, eins og þegar ég er búin að misþyrma sama laginu of lengi með ýmsum óþolandi söngútgáfum, eða dett í að endursegja allar leiknar auglýsingar sem ég man eftir.

Ef ég er of grimm við mig, stoppar maðurinn minn mig stundum af, með því að segja mér að hann leyfi ekki að einhver sé vondur við konuna hans, og það er svo sem ágætis vitleysa bara og áminning.

Eitt er það sem mér gengur þó illa að skamma úr mér þrátt fyrir góðan vilja og margar tilraunir og það er kvíði. Og nú er ég ekki að tala um þann algenga misskilning að kvíði sé bara það að kvíða fyrir einhverju. Við erum reyndar mis-viðkvæm hvað það varðar, sumir hafa mikla tilhneigingu til að hafa áhyggjur af hlutunum fyrirfram á meðan aðrir geta blessunarlega slakað í núinu. Að hafa áhyggjur af því ókomna er jú stundum eins og að taka tvisvar út sömu vanlíðan yfir einhverju sem gæti farið illa, fyrst fyrirfram og svo þegar það raunverulega gerist. Ef það gerist. Áhyggjur eru nauðsynlegur drifkraftur á stundum en oft óþarfar og úr takti við tilefnið.

Nei ég er að tala um sjúklegan kvíða sem er háður allt öðrum forsendum. Kvíða sem er yfirleitt ekki það að kvíða fyrir neinu sérstöku og er engan vegin tengdur neinni rökhugsun.. Hann virðist eiga upptök sín í ósjálfráða taugakerfinu og lýsir sér með einkennum þaðan en ekki í hugsun, allavega ekki meðvitaðri hugsun. Hann kemur oftast án fyrirvara og er þá bara snögg tilfinning um eitthvað slæmt, eitthvað yfirvofandi, líkist ofsahræðslu og þá fylgir hraður hjartsláttur, oföndun og ýmis líkamleg óþægindi.

Þó eru aðstæðurnar oft bara þær að opna augun og vakna inn í daginn, vera að keyra á milli staða eða eitthvað álíka hversdagslegt og lítið kvíðavekjandi. Oft líður þetta hjá af sjálfu sér, sérstaklega ef ég næ að setja athyglina hreinlega á eitthvað annað og stundum þarf ég að setjast niður og taka fyrir öndunina, ná tengslum við taktinn í sjálfri mér og þá bráir af mér.

Tengingin er sterk við fjölmenna staði, leikhús, bíó, tónleika og stórmarkaði og þá heitir það félagsfælni- skilst mér. Ég er jú alltaf að læra. Ég á erfitt með að hringja í fólk, hef mig illa í mannfagnaði og það er jú alltaf átak að fara og hitta aðra,- eins og mér finnst fólk frábært !

Svo er það kvíðinn sem byrjar sem nagandi tilfinning, eirðarleysi sem er eiginlega eins og verkur en er ekki líkamlegur verkur. Hann getur magnast upp í það að verða óþolandi og þá fækkar bjargráðunum. Á þessum stundum get ég skilið þá sem ekki geta lifað með sínum kvíða- þá sem líður alltaf eins og mér þegar mér líður verst.

Sannarlega var ég ekki alltaf svona. Ég hef sjálfsagt alltaf verið ansi áhyggjufull, sem fylgir gjarnan þeim misskilning að manni megi ekki mistakast, en það er bara allt önnur Ella. Mín kvíðaröskun er seinni tíma vandi og ég man hversu fegin þegar ég gerði mér grein fyrir því að ég væri haldin sjúklegum kvíða,- ég væri þá ekki geðveik! Hljómar undarlega en ég hafði að minnsta kosti minni fordóma fyrir kvíðagreiningu en ímyndunarveiki.

Kvíði er ekki sérlega vinsamlegur förunautur, hann rænir mann orku og kröftum og kemur í veg fyrir að maður njóti fyllilega alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Það er þó hægt að ná við hann sátt, bera fyrir honum ákveðna virðingu en ögra honum þó mátulega. Það er fín lína, þetta með að ögra kvíðanum, stíga varlega út úr þægindahringnum en vera tilbúinn að stökkva inn í hann aftur. Maður þarf nefnilega að geta farið í gegnum dagana sína með reisn, stundað hreyfingu, húsverk, samskipti, jafnvel einhverja vinnu og þá er betra að fara ekki yfir strikið.

Enginn skyldi ennframur álykta svo að lífið geti ekki verið gott með kvíðanum, oftast er dásamlegt að vera til, það er bara öðruvísi en áður og það þarf að læra á nýjar reglur og ný viðmið. Ég veit að ég deili þessum kynnum með svo ótalmörgum sem hafa náð góðum tökum á þessu samlífi og ég læri endalaust af þeim. Takk!

anxiety-girl1