Konan sem gleymdi að kaupa teljós

,,Það er til lítils að skrifa þessa pistla ef þú getur aldrei farið eftir þeim“-.

Þessi orð voru sögð af eiginmanni mínum með svolítilli örvæntingu í röddinni núna á aðfangadag. Dagana á undan hafði ég farið nokkuð hressilega fram úr minni oft naumt skömmtuðu orku og bar þess nokkur merki. Hætt að taka pásur, hætt að muna eftir tveggja mínúta öndunaræfingunum og svefninn orðinn strembinn. Við vorum nýkomin úr löngu og erfiðu ferðalagi sem þrátt fyrir Covid gekk vel og rólega fyrir sig. Þegar við hinsvegar lentum á Íslandi skullu á okkur jólaauglýsingar, jólaskraut og jólavæntingar. Dásamlegur tími aðventan, en líka tíminn þegar formæður mínar í langri röð banka upp á og minna mig á hvað almennilegar húsmæður gera fyrir jólin. Og þær sammælast allar um það að minna mig á með samfélagsmiðlum, auglýsingum og minningum um fyrri jól.

Allar fyrirætlanir um að láta ekki streituna ná tökum á mér fuku svolítið út um gluggann í þessari orrahríð og þrátt fyrir að fá hjálp við jólaþrif og hafa sleppt því að baka þá tókst mér að fara á streitustigið sem einkennist af því að athyglin, minnið og tilfinningarnar, allt þetta verður svolítið út um allt. Streita sem orsakaðist sem sé af því að gera EKKI fyrir jólin.

Já maður er skrýtin skrúfa. Að vera meistari í samviskubiti, er samt ekkert sérstaklega þægilegur titill og þó erum við margar sem tökum þátt í keppninni.

Jæja allt slapp þetta nú til þar til á Aðfangadag. Þá kom maðurinn minn að mér þar sem ég sat með tárin í augunum, örvæntingin uppmáluð. Og ástæðan? Jú ég var búin að týna einni jólagjöf, það voru smákökur á diski sem keyptar voru í búð (já ég legg ekki meira á ykkur) og það sem var verst,- ég gleymdi að kaupa teljós!! Já ég meina hvaða kona með sjálfsvirðingu gleymdir blessuðum jólaljósunum? Bakar ekki sjálf? Týnir gjöfunum?

Þegar ég var í háskólanámi, þá komin í eigin húsnæði og með ungt barn, lauk prófum yfirleitt rétt fyrir jól. Þá gerði ég ekki mikið en hafði þessa fínu ,,afsökun“, meira að segja ég sjálf gat ekki búið til samviskubit yfir því að taka prófin fram yfir smákökurnar.

Núna þarf ég hinsvegar að taka tillit til eigin vanmáttar, heilsu og þverrandi orku. Þar skortir mig algjörlega tillitssemi til sjálfrar mín, svona að minnsta kosti þegar tilfinningarnar taka af mér ráðin.

Friðrik hefur bæði rétt og rangt fyrir sér hvað varðar pistlana mína. Þeir eru ekki skrifaðir svo ég sjálf geti bætt úr því sem betur má fara í eigin fari,- frekar til að þess að deila þessu  mannlega, þessu sem gerir okkur öll svo dásamlega ófullkomin og vitlaus og viðkvæm.

Hinsvegar væri ákaflega gott ef ég gæti oftar iðkað það sem ég veit að er gott fyrir mig. Ég veit fullvel að ég þarf í fyrsta lagi ekki að vera neitt sérstaklega fullkomin húsmóðir og að það er nákvæmlega ENGINN sem gerir kröfur á mig hvað það varðar. Maðurinn minn er fullkomlega laus við jólakröfur og jólastress, það er allt innan úr mér sjálfri. Og svo er það stóra málið,- það er bara allt í lagi þótt að manni líði ekkert alltaf sérstaklega vel heldur. Samviskubitið mitt er sjálfsagt löngu orðið hluti af mér og kannski er bara best að samþykkja það, hía svolítið á það og draga úr því tennurnar en hætta að láta það stjórna því hvað ég geri.

Sama dag og ég missti kúlið yfir gleymdum teljósum, lentum við svo í sóttkví og höfum unað tvö í okkar litlu jólaveröld síðan. Enginn er með samviskubit og formæðurnar steinþegja aldrei þessu vant. Jólagjöfin fannst (í röngu húsi), við fengum hrúgur og helling af góðgæti í jólagjöf og teljósin sem maðurinn minn bjargaði fyrir horn liggja tilbúin í skúffunni.

Njótið stundanna.

Piparkökuhús sem ég ekki gerði.

Jólin hér og nú

Ég ætti kannski að taka það fram í byrjun þessara skrifa að ég er ekki trúuð kona. Samt held ég jól og þau eru mér mikils virði. Og þótt ég trúi því ekki að Jesú hafi fæðst í desember eftir stutta meðgöngu, verið eingetinn og að hann hafi frelsað heiminn,- þá trúi ég á ljósið og kærleikann. Og þess vegna held ég jól. Og þannig trúi ég á birtuna sem er bæði forsenda fyrir lífinu öllu og þá sem á sér líka stað í huga fólks. Það er birtan í hugum þeirra sem eru með kærleik í hjartanu og kunna að sýna einlæga samhyggð með öðru fólki. Þar skín ljós sem er vel sýnilegt í því sem það segir og gerir.  Þetta fólk finnum við næstum því hvar sem er í samfélaginu en þó kannski mest og best í hópi þeirra sem vinna við að annast um annað fólk.

Þess vegna finnst mér vel við hæfi að taka þátt í hátíðahöldum þessarar gömlu sólstöðuhátíðar með því að fagna ljósinu. Leyfa birtunni að ná til okkar í skammdeginu, skreyta umhverfið með ljósum en líka að leyfa þeim að ná svolítið lengra inn á við. Jólin geta verið tími tilfinninga, -gleði, sorgar, kvíða, hamingju, samkenndar og eiginlega allrar flórunnar,- líka tilfinninga sem við skiljum ekki alveg og kunnum ekki að nefna.  Og  það er allt í lagi, það er einmitt frábært að eiga tíma til að sættast við allar þessar flóknu tilfinningar okkar.

Við viljum samt helst eiga gleðilega jólahátíð og góðar stundir með þeim sem við elskum. Þannig voru jólin sem við mörg hver upplifðum í bernsku og það eru tilfinningarnar sem við viljum að tengist jólunum.  Við munum eftir óþreytandi mæðrum sem bökuðu, skreyttu og pökkuðu inn og við viljum svo fyrir alla muni vera líka óþreytandi dugnaðarforkar í desember. Við viljum skapa umgjörð fyrir allar góðar minningar, hafa ilm af krásum og þrifum og dýrðlegum veislum þar sem allt er fullkomið og gott. Við viljum gefa góðar gjafir sem hitta í mark og gleðja og þar sem við erum jú fædd með þörf fyrir að bera okkur saman við aðra, viljum við líka vera samkeppnishæf í jólaævintýrinu. En svo er bara svo margt sem gleymist í öllum þessum væntingum um dásamlega tíma. Mörg okkar eru þreytt í skammdeginu, streitan í samfélaginu er yfirþyrmandi,  við borðum góðgæti allan ársins hring, við eigum allt sem við þurfum, það er erfitt að gera okkur dagamun. Svo eru líka margir sem búa við skort, og skorturinn er sérstaklega sár á jólunum. Aðrir eru einmana eða sorgmæddir. Nú svo eru þessar óþreytandi mæður og feður bara í fullri vinnu, námi og félagsstörfum, þau eru að skutla í fimleika og handbolta í skammdegisumferðinni og þau eru í tölvunni sinni að fara yfir póstinn sinn,- lífið þeirra er flókið. Það eru nýjar forsendur í jólahaldinu og við getum einungis minnst fyrri tíma, ekki endurlifað þá.

Líf formæðra okkar var sjálfsagt líka flókið og ég veit ekkert hvernig þær fóru að þessu en samanburður við þær og við fyrri tíma er gagnslaus. Dugnaður þeirra er falleg minning en á kannski ekkert skylt við okkar veruleika. Núið okkar er núna og flest horfumst við í augu við það að ef að jólin eiga að ná að skína inn í hjartað og vera tími gleði og samveru þá verðum við að forgangsraða. Skoða vandlega hvað skiptir okkur mestu máli að gerist á jólunum og gera það. Sleppa hinu. Sleppa því sem við gerum af því að við höldum að við eigum að gera það og gera bara það sem gleður okkur og okkar. Gefa upplifanir eða vinargreiða í stað þess að kemba internetið við að reyna að finna eitthvað handa þeim sem á allt. Og gefast svo upp og gefa peninga eða inneign á kreditkorti sem er ekki jólagjöf heldur tilfærsla á fjármunum.  

Farsóttin skapar okkur umgjörð um þessi jól líkt og í fyrra og vissulega er það slæmt en við getum líka tekið það sem er gott úr þeim aðstæðum svo sem það, að tími stórra fjölskylduveisla og jólaboða er sannarlega ekki núna. Meira að segja jólahlaðborðin eru. með nýju sniði. Núna er tími til að gleðjast með okkar allra nánustu og ef það gleður okkur mest að hámhorfa á Netflix með konfektskálina nærtæka, þá eru það bara góð jól. Ein helgi af því að gera það sem við leyfum okkur ekki að öllu jöfnu.

Þriggja ára sonarsonur minn sagði við mig þar sem ég sat og skrollaði í símanum mínum fyrir nokkru, ,,amma viltu hætta að vinna núna” og það er góð áminning.  Hættum að vinna í “símanum”, hættum að brasa svona mikið og verum raunverulega til staðar um stund.

Gleðileg jól.

Heimur vonar: Jóhann Ingimarsson (Nói)

Stjórnsýsla og forgangsröðun

Stundum langar mig að skrifa um það hvernig málum er stjórnað bæði bæjarmálum í mínum bæ, sem í mínum huga er mikilvægasti staður jarðarinnar, og svo ýmsu á stærri mælikvarða,- en oftast held ég mig við mannlega hegðun í pistlunum mínum og málefni sem varða svona hin heldur mýkri gildi. Ég tel mér trú um að ég hafi meira vit á þeim málum en stjórnmálum og reyni að velja mér baráttumál sem hæfa áhuga mínum. Gleymi þá gjarna að auðvitað eru stjórnmál „mjúk” mál og lúta að miklu fleiru en framkvæmdum og peningum,- eða eiga að minnsta kosti að gera það. Þegar hús eru byggð eiga þau að þjóna þeim tilgangi helstum að íbúunum líði þar vel og allar framkvæmdir bæjarfélagsins eiga að snúast um að blómlegt mannlíf og vellíðan þegnanna séu í forgangi.  Samgöngur, akbrautir og göngustígar eiga að þjóna öllum íbúum og þarfir íbúanna fyrir hreyfingu, nærveru við náttúruna og heilsubót má aldrei vanmeta.

Þeim sem við treystum til að stýra okkar sameiginlegu hagsmunamálum er því falin mikil ábyrgð og hún er vandmeðfarin. Stundum harðnar á dalnum og þá þarf að meta vel hverjir verða verst úti og þurfa meiri stuðning í það og það skiptið. Þetta erum við farin að þekkja eftir kreppur, náttúruhamfarir og nú síðast heimsfaraldur Covid.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta og leyfi mér núna að minnast á forgangsröðun hér í mínum heimbæ er sú að fyrir einhverjum áratugum var hér byggð lítil sundlaug við íþróttahús Glerárskóla sem er eins og nafnið bendir til í Glerárhverfi. Laugin var á sínum tíma byggð í samvinnu við Sjálfsbjörg félag fatlaðra og átti að þjóna fólki með færniskerðingu auk þess að vera kennslulaug fyrir börn í hverfinu. Hún var því hönnuð með þarfir þessara hópa í huga, hún er grunn og hefur gott aðgengi fyrir fatlaða, þar er lítið útisvæði með tveimur heitum pottum, köldu kari og agnarsmárri „baðströnd” þar sem yngstu börnin geta sullað og aðrir sólað sig. 

Í þau ár sem ég hef stundað þessa laug, stundum reglulega til að gera æfingarnar mínar og stundum bara af og til, hef ég séð mér til mikillar ánægju að það eru einmitt þeir sem ekki geta vel stundað aðrar sundlaugar, sem koma í Glerárlaug. Þar er rólegt og það finnst þeim gott sem eiga erfitt með ys og þys og hávaðann sem gjarna fylgir stórum sundlaugum. Þar koma aldraðir, fatlaðir,  ungbörnin, fólk í sundleikfimi, litlu börnin í „Dillusundi”, fólk sem af einhverjum ástæðum finnst ekki þægilegt að láta horfa á sig eða treystir sér illa til að synda á miklu dýpi eða innan um fjörið í rennibrautunum.  Starfsfólkið hafa verið ljúflingar hinir mestu í gegnum tíðina og lagt sig fram um að aðstoða sitt fólk og oft gengið miklu lengra en hægt er að ætlast til af starfsfólki á lágum launum. Já ég segi lágum launum því að núverandi umræður bæjarstjórnar Akureyrar um að loka Glerárlaug fyrir almenningi munu spara bæjarfélaginu 18 milljónir á ári. Já ég segi og skrifa 18 milljónir. Mig langar að rifja upp hvað hinar risvöxnu rennibrautir í „stóru” lauginni kostuðu og ýmislegt annað sem framkvæmt var bara á liðnu ári, en ég hætti mér ekki á hálar brautir. Ég geri mér grein fyrir því að margir hópar í þessum bæ þykir að þeir fái of lítið af fjármunum úr bæjarsjóðnum, s.s. íþróttafélög og eflaust margir fleiri og þar eru á ferðinni hópar sem eiga sér sterka talsmenn sem kunna að hafa hátt og tala sínu máli.

Hópurinn sem sækir Glerárlaug er ekki hópur sem er vanur því að hafa hátt eða berja sér á brjóst. Nei þessi hópur barna, eldri borgara og fatlaðra einstaklinga sækir sér þessa dýrmætu heilsubót með þakkarhug en án þess að vera með neina fyrirferð. Margir Akureyringar hafa aldrei í Glerárlaug komið og margir vita ekki einu sinni að hún er til.  Hún er vel falin perla eins og einhver orðaði það.

Og 18 milljónir eru ekki miklir peningar fyrir forvarnir og heilsuvernd hjá viðkvæmum hópi sem nýtur líklega ekki þeirrar þjónustu í heilbrigðiskerfinu að vel sé.  Að geta komist í heita pottinn sinn, spjallað við starfsfólkið og kunningjana, notið þess að hreyfa sig við góðar og öruggar aðstæður,- það er hluti af því að eldast með reisn t.a.m.

18 milljónir er líklega nálægt þeirri upphæð sem það kostar samfélagið að vista einn aldraðan einstakling í hjúkrunarrými á ári.

Um þessar mundir er fjallað um sölu á húsnæði fyrrum Öldrunarheimila Akureyrarbæjar og hafa heyrst tölur s.s. þrír milljarðar. Þar er matarhola sem mætti nota til að hafa Glerárlaug opna áfram og jafnvel væri hægt að nota tekjur þær sem væntanlega skapast af gjaldtöku á bílastæðum bæjarins. Nú ef allt um þrýtur þá er kannski hægt að leita til fyrirtækja og almennings sem hafa sýnt frábæran samtakamátt þegar á reynir.

Það er ljóst að hópurinn sem sækir Glerárlaug borgar ekki mikið í bæjarkassann fyrir sundferðirnar en það er góð stjórnsýsla og manndómur að sýna því fólki virðingu og umhyggju sem byggir bæinn okkar, ekki hvað síst þeim sem hafa ekki mikið á milli handanna.

Bööö!

Ég ætla að gera ofurlitla játningu. Ég er fimmtíu og átta ára gömul og ég elska hrekkjavöku. Ég elska stemmninguna, hrollinn, beinagrindur og blóðtauma, köngulær, kertaljós og útskorin grasker í haustkulinu. Mér finnst hrekkjavakan stórkostleg hátíð og fagna því af öllu hjarta að við skulum vera að læra að halda upp á hana. Ég hef verið í Bandaríkjunum að hausti og þeir kunna sannarlega að hrylla og trylla með skreytingum og búningum. Að vísu eru Vermontbúar þar sem ég þekki til, flestum afslappaðri og eru ekkert endilega að taka skrautið niður á milli hátíða þannig að sumstaðar er svona blanda af jólahrekkjaskrauti en það gerir það bara skemmtilegra. Yfirleitt drífa þeir sig þó fljótt eftir hrekkjavöku í undirbúning fyrir þakkargjörðarhátíðina sem fyrir þeim flestum er meiri fjölskylduhátíð en jólin og þannig er haustið vandlega stráð hátíðisdögum sem okkur vantar algjörlega hér á Íslandi.

 Að normalisera myrkrið

Hér á landi er ekki einn einasti opinber frídagur og engin hátíð frá Verslunarmannahelgi og fram í desember ef ég man rétt og því var sannarlega þörf fyrir hrekkjavökuna til að gera myrkrið svartara og drungann drungalegri.  Og já ég meina það sannarlega. Okkur veitir nefnilega ekkert af því að normalisera myrkrið og dauðann fyrir börnum og gera þessa hluti að einhverju sem er jafn eðlilegt að fagna og minnast rétt eins og birtunni og ljósinu.  Dauðinn á ekki að vera tabú og það á að vera gaman og jákvætt að fagna haustinu og hnignunni sem er jú bara hluti af hringrás náttúrunnar eins og vorið. Það er líka bara gaman og spennandi að slökkva ljósin og segja böö. Ég held að það dragi úr myrkfælni og draugahræðslu og kenni frekar að myrkrið er ekki hættulegt út af fyrir sig.  Í okkar vandlega upplýstu borgum og bæjum erum við eiginlega búin að gleyma því að til er svartamyrkur og án þessa myrkurs verður heldur ekkert ljós.

Hrekkjavakan ættuð frá Evrópu.

Ég blæs á þau rök að hrekkjavakan sé bandarískt fyrirbrigði þar sem uppruni hátíðarinnar er jú þangað kominn frá evrópskum innflytjendum. Á vísindavef Háskóla Íslands má finna eftirfarandi:

„Í mörgum evrópskum löndum, þar á meðal á Íslandi og hinum Norðurlöndunum auk keltneskra landa, var árinu skipt í tvær árstíðir fremur en fjórar, eða í vetur og sumar. Menn töldu tímann í vetrum og nóttum fremur en í árum og dögum. Veturinn, eins og nóttin, var talin koma fyrst; mánaðamót október og nóvember var því tími vetrarbyrjunar, og þar með nýárs. Þá tóku kuldinn og myrkrið við, jörðin sofnaði og dauðinn ríkti. Á Íslandi til forna var í lok október haldin hátíð sem kölluð var veturnætur og þá var haldið dísablót á Norðurlöndum (disting). Í norðurhluta Skotlands og á Írlandi er á þessum tíma enn haldin hátíð sem á gelísku heitir Samhain, hátíð hinna dauðu. Í seinni tíð hefur hún fengið heitið Hallowe’en.”

Þessi lýsing finnst mér algjörlega ómótstæðileg. Samkvæmt gömlu tímatali eigum við reyndar okkar fyrsta vetrardag en einhvernvegin hefur það ekki tíðkast að halda upp á þann dag, ekki í neinni líkingu við sumardaginn fyrsta.  Þó er þar að finna uppruna hrekkjavökunnar.

Kirkjan og hátíðisdagarnir

Þessari hátíð var reyndar síðar meir breytt af kaþólsku kirkjunni í allra heilagra messu en flestar kristnar hátíðir eiga reyndar uppruna sinn í einhverjum heiðnum sið.

Þær voru í upphafi ekki tengdar kirkjunni né kristni sérstaklega, heldur viðhaldið til að friðþægja almenning sem ekki vildu missa sínar föstu hátíðir og frí hver sem trúin eða tilefnið var. Smásaman var þó reynt að kristna þær með einum eða öðrum hætti.  Eða þetta er allavega hin sögulega skýring.

En hrekkjavakan hefur fengið að halda sínum uppruna og eðli í huga meginþorra almennings og persónulega finnst mér það afar ákjósanlegt. Hið dulræna á kannski ekki mjög upp á pallborðið hjá kirkjunar mönnum sem er undarlegt því að hvað er dularfyllra en dauðinn og upprisan?

Höldum í hrekkjavökuna

Ég vona sannarlega að á næstu árum muni verða barið dyra hjá mér á dimmu haustkvöldi og fyrir utan standi hópur af hauslausum hryggðarmyndum sem bjóði upp á „gott eða grikk”. Ég vona að uppvakningar og löngu dauðir menn ráfi um í hverfinu, þefi uppi hræddar kerlingar og karla og skjóti þeim verulegan skelk í bringu. Siðurinn er að ná rótfestu og ekkert nema gott um það að segja. Það kannski tekur svolítið af jólapressunni sem ríkir hér frá haustmánuðum og veitir jólunum vonandi einhverja samkeppni. Þá er kannski meiri von til þess að það verði gaman á jólunum í staðinn fyrir að þau verði hápunktur alltof langrar landlægrar auglýsingaherferðar og ávísun á vonbrigði.

Áfram hrekkjavaka!!

Meistaramánuður

Jæja þá datt á okkur enn einn október. Merkilegur fjandi er það, að alltaf skuli bilið styttast á milli þeirra októbera, ekki einu sinni farsóttir og sóttkví duga til að hægja á tímanum,- altso mínum tíma,- og á mínum aldri. En það er nú útúrdúr.

Október á sína merkimiða eins og aðrir mánuðir, sumri lýkur formlega og hversdagslífið tekur við. Október á sér yfirleitt haustliti  þótt þeir séu seint á ferð í ár og hann er líka bleikur sem er litur baráttu gegn brjóstakrabbameini.  Börnin eru farin í skólana, þótt mörg þeirra séu reyndar komin í sóttkví, lömbum hefur verið smalað og þeim slátrað, berin eru löngu farin í sultukrukkurnar og kartöflurnar hafa verið dregnar upp í dagsljósið.  Svolítið uppáhalds hjá mér, þessi mánuður. Akureyrarhaustið mitt er með spegilsléttum sólskinsdögum, eldrauðum reyniberjum og kulda sem klípur í nefið. Gott að gera súpu, setja upp trefil og fara út og taka myndir.

En október er líka meistaramánuður. Það þýðir að mánuðurinn er helgaður því að fólk setji sér markmið sem snúast um að vera besta útgáfan af sér og takast á við hið þýfða landslag sem er utan þægindarammans. Það þýðir þá líklega að ögra svolítið kvíðanum og óttanum við það sem við þekkjum ekki. Og það er nú ekkert lítið verkefni út af fyrir sig.

Fyrir suma snýst þetta um að hlaupa hraðar og klifra hærra og fyrir aðra snýst það um að skrifa niður ljóðin sem sveima í kollinum eða að fara út eftir kvöldmat. Þetta síðastnefnda er til dæmis orðið kyrfilega utan míns þægindahrings og þannig breytast markmiðin okkar með nýjum aðstæðu. Við eldumst og getum ekki lengur allt sem við gátum fyrr, heilsan tekur breytingum og tíminn hleypur stundum miklu hraðar en við ráðum við.

Við getum hinsvegar öll verið og erum líklega flest meistarar. Ekki bara í október heldur alla mánuði ársins. Ekki bara þegar við náum markmiðunum okkar heldur líka þegar okkur mistekst. Jafnvel helst þegar okkur mistekst því að það þýðir að við munum læra eitthvað nýtt til að nota okkur í næstu atrennu. Markmiðin eru líka bara leiðir til að lifa eftir þeim gildum sem eru okkur mikilvæg. Þau gildi breytast ekkert þótt að við hrösum á leiðinni að markmiðunum en þau gera það að verkum að við gefumst ekki upp og reynum aftur.

Það held ég að sé besta útgáfan af okkur, sú sem tekst stundum vel upp og stundum ekki. Útgáfan sem skilur að kvíðinn, óttinn og allar hinar tilfinningarnar og erfiðu hugsanirnar, eru sameiginleg okkur öllum og eiga sér tilverurétt og jafnvel tilgang. Að lífið er ekki einfalt eða auðvelt nema bara stundum. Þeir sem gera sér grein fyrir þessu en halda samt áfram að brosa í gegnum tárin og byrja aftur,- þeir kunna á meistarataktana.

Þannig held ég að við þurfum ekki að gera eitthvað stórkostlegt til að vera meistarar í október og öllum hinum mánuðunum. Við getum gert eins og starfsfólkið í apótekinu hér á Akureyri sem árum saman hefur heftað kærleiksrík og falleg skilaboð á lyfjaafgreiðslurnar eða eigandi kaffihússins sem gefur matinn sem ekki selst yfir daginn, til þeirra sem minna hafa á milli handanna. Við getum brosað til samferðamannanna, auðsýnt góðmennsku og virðingu.  Við getum hugsað hlýlega til jarðarinnar sem fæðir okkur og gert okkar til að hlú að henni og við getum yfirhöfuð reynt að vera sæmilega artarlegar manneskjur. Þannig getum við öll verið meistarar í október.

Tómatsósubrandarinn

30+ Best Tomato Puns That Won't Have You Seeing Red by Kidadl

Undanfarið hef ég þurft að taka því rólegar en ég hefði kosið. Mér líður ágætlega en þarf að huga að gróanda eftir aðgerð og verandi hjúkrunarfræðingur er ég auðvitað meðvituð um nauðsyn þess að hvílast undir slíkum kringumstæðum. Það að vita gerir það þó ekki alltaf auðvelt að framkvæma. Væri svo, myndu sálfræðingar vera í fullkomnu andlegu jafnvægi, uppeldisfræðingar eiga fullkomin börn, bifvélavirkjar fullkomna bíla og svo mætti lengi telja.

Þannig er tilveran bara ekki vaxin og því hef ég þurft að hafa verulega fyrir því að taka þessu nýjasta útspili tilverunnar með þolinmæði, mig hreinlega langar ekki að hvíla mig og æðruleysið er með hálla móti og erfitt að festa á því hendur. Þetta gerir það að verkum að þráðurinn styttist og það er snúnara en venjulega að vera glöð. Og æðrulaus.

Fyrir nú utan þau ósköp að kosningar nálgast og menn berast á banaspjótum í umræðunni jafnvel svo að persónulegt skítkast fer að verða daglegt brauð,- eins og það bragðast nú illa með kaffinu. Menn keppast við að dusta rykið af öllu því sem miður fór síðustu fjögur ár og af nógu er greinilega að taka. Við virðumst sitja uppi með haug af spilltum stjórnmálamönnum sem láta sig eigin hneykslismál engu varða og ekki nóg með það heldur kjósum við þá ótrauð áfram. Ég gæti haldið lengi áfram að útlista hörmungarnar bæði á heimsvísu og hér heima. Ég þarf ekkert að segja ykkur af Covid og loftslagshörmungum og annarri óáran. Ég hlusta á fréttir og ég hef áhuga á stjórnmálum og á köflum verð ég tuðandi og miðaldra,- kannski ekki alveg „virk í athugasemdum” en svona svolítið að láta pirringinn smita út í samfélagsmiðlana. Maður þarf jú að taka ábyrga afstöðu ekki satt?

En svo gerist eitthvað sem minnir á hvað það er sem skiptir máli.  Minn bráðum þriggja ára sonarsonur hringdi myndsímtal í ömmu í morgun og við fórum að tala um brandara. Ég sagði honum brandarann um tómatinn sem varð undir bíl og var þá bent á (af millikynslóðinni) að hann væri miklu fyndnari á ensku. Það varð til þess að barnið bað ömmu að segja brandarann á ensku og þegar því var lokið hvort ég myndi vera svo væn að syngja hann á ensku. Og amma syngur tómatabrandarann á ensku. Með frumsömdu lagi og texta. Málið vandast aðeins þegar barnið segir „aftur” eins og börn gera og amma þarf að reyna að rifja upp textann og lagið aftur. Svo syngur amma lagið um drenginn og mömmu hans og pabba og ömmu á Akureyri og það var líka uppklapp og endurtekið með ofurlitlum tilbrigðum.

Allt þetta samtal var hvorugt okkar að hugsa um stjórnmál, sár sem ekki gróa, covid eða neitt annað en þessa litlu söngstund og samskiptin okkar á milli heimsálfa. Og ekkert alvarlegt gerðist þrátt fyrir það. Hann bara dró mig í núið sitt þar sem hann kann svo vel að vera og athygli ömmu beindist að því sem er jákvætt og gott.

Það er jú galdurinn, allt sem við veitum athygli það vex og dafnar. Ef athyglin festist um of á því hversu allt sé erfitt og ómögulegt, þá virkilega verður allt bæði erfitt og ómögulegt.

Stundum er bent á þá staðreynd að núið er í raun allt sem er raunverulegt þar sem fortíðin er jú liðin og framtíðin ókomin. Ekki svo að skilja að núið er ekki alltaf jafn ljúft og það var hjá mér í myndsímtalinu í morgun, líðandi stund getur verið sársaukafull og þungbær. Og þá krefst það hugrekkis að gangast við augnablikinu og takast uppréttur á við áskoranir tilverunnar.

Galdurinn við að vera glaður er kannski einmitt fólginn í því að mæta lífinu á forsendum lífsins. Ekki að þvinga fram einhverja jákvæðni gagnvart erfiðleikum eða falskan hressileika á erfiðum stundum, -heldur einfaldlega að opna hjartað fyrir öllu því sem er.  Og enginn lofaði okkur að það yrði alltaf gaman og það er ávísun á vonbrigði að ætla að svo verði.

Ég ætla örugglega að halda áfram að æfa mig. Æfa mig í að taka litbrigðum daganna, æfa mig í að taka góðar ákvarðanir sem eru mér og öðrum hjálplegar en láta ekki gráma og þungbúna daga taka yfir hugarfarið. Hætta aldrei að reyna að meðtaka og rifja upp þegar ég gleymi. Og svo þarf ég auðvitað að æfa mig í að syngja brandara, teikna hús með gluggum og strompi og leiklesa bækur. Þetta sem skiptir máli í alvöru og er aldrei fullæft!

Gamlar stúlkur

Í morgun hlustaði ég á aldeilis frábæran þátt úr þáttaröð um breytingaskeið kvenna. Að vísu var hann endurfluttur en ég hafði greinilega misst af þessu í frumflutningi. Í hjarta mér varð ég þakklát fyrir það að til skuli vera útvarpsstöð sem lítur á miðaldra og eldri konur sem manneskjur en ekki afgangsstærð, bagga á heilbrigðisskerfinu eða eitthvað þaðan af verra. Ekki spillti það fyrir að þátturinn var bráðskemmtilegur og stútfullur af bráðgáfuðum og mögnuðum eldri konum.

Stundum hef ég nefnilega á tilfinningunni að þessi hópur sé hreinlega ekki í tísku. Eldri konur sem eru auðvitað jafn misjafnar og þær eru margar, guði sé lof, en eiga það kannski sameiginlegt að vera heldur hnarreistari en formæður okkar þótt þær hefðu auðvitað fulla ástæðu til þess líka. Þessar konur eru mikilvægar samfélaginu, eru fjárhagslega sjálfstæðar og stoltar gamlar ljónynjur. Ég upplifi þetta að minnsta kosti svona, verandi 58 ára gömul, löngu búin með mitt breytingaskeið, amma með ör og hrukkur sem tilheyra mínum aldri- en sannarlega með 18 ára sjálfsvitund eins og ég held að við höfum flest, eftir að þeim aldri er náð.

 Og það er býsna stórt í þessari 18 ára ef henni er misboðið og ekki síst ef henni finnst að ungt fólk sjái í henni konu sem ekki þurfi að taka mark á og skipti ekki máli. Miðaldra hnussið er alltaf tiltækt og engin feimni lengur yfir því að segja meiningu sína á vandaðri íslensku. Það eru kannski forréttindi okkar gráhærðu að hafa litlar áhyggjur af því hvað fólki finnst um það sem við erum og segjum, en viljum að okkur sé sýnd kurteisi og virðing. Af öllu ungu fólki í samfélaginu og ekki bara börnum og barnabörnum.

Við erum auðvitað ekkert alltaf viskan uppmáluð þrátt fyrir aldurinn, en þurfum þess auðvitað ekkert frekar en aðrir. Megum vera sérvitrar og utan við okkur án þess að glata virðingunni.

Eitt barnabarna minna segir að ég sé auðvitað tveggja ára, eins og hann og fullyrðir stoltur að ég sé ekki gömul.  Önnur ömmustelpa sagði mér um daginn þegar ég setti upp bleika glimmerhárkollu að þetta „sé eiginlega bara fyrir stúlkur” sem var hennar fallega leið til að segja mér að haga mér samkvæmt aldri. Aldri sem í hennar huga er kannski óræður en alveg örugglega ekki „stúlka”.  Hún á eftir að uppgötva að „stúlkan” innra með henni er komin til að vera og verður bara ekkert gömul ef hún fær að leika sér æfina út.

Það er mikil sjálfsvirðing fólgin í því að taka sig ekki of hátíðlega, leyfa okkur að leika okkur en gera það ekki að forréttindum þeirra sem yngri eru.  Það inniber líka að halda áfram að horfa á heiminn með augum barnsins innra með okkur, vera forvitin og alltaf fús til að læra eitthvað nýtt. Það hjálpar líka til við að viðhalda sveigjanlegum huga og sálfræðilegum liðleika sem er algjörlega nauðsynlegt að þjálfa þegar aldurinn færist yfir. Um leið og við stirðnum hugarfarslega er voðinn vís og það er mun meira aldursmerki en stirðir liðir eða vöðvar. 

Sjálfri finnst mér gott að hvíla í því að vera með 58 ár af mistökum, sorgum, bulli, hamingju og reynslu í farteskinu en vera stundum líka tveggja ára, leika með hinum krökkunum, vera ýmist gigtveik í jogging eða skvís í sparikjól og njóta þess að upplifa öll tilbrigði lífsins.

Ég er afar glöð yfir að breytingaskeiðið mitt  sé yfirstaðið og þurfa ekki að spá í barneignir, hælaskó eða hvort ég sé nógu sæt. Ég er hinsvegar marktæk og orðin mín og hugsanir skipta máli. Aldurinn sem við mælum í árum er óvéfengjanlegur en svo stjórnum við því sjálf hvort að hin innri „stúlka” fær að eiga rödd líka. Ég leyfi mér að fullyrða að lífið er litríkara með henni.

Sjálf Oprah Winfrey segir: „Við lifum í menningu sem er heltekin af æskudýrkun og reynir sífellt að telja okkur trú um að ef við séum ekki ung, ljómandi og kynþokkafull, þá skiptum við ekki máli. Ég neita að láta kerfi eða menningu eða afbakaða sýn á raunveruleikann segja mér að ég skipti ekki máli. Ég veit að aðeins með því að gangast við því hver og hvað þú ert geturðu farið að upplifa lífið til fulls .Sérhvert ár ætti að kenna okkur eitthvað dýrmætt. Hvort þú lærir eitthvað er eiginlega undir þér komið.”

„Soldið lasinn”

Þeir eru hlýjir og mjúkir þessir gullnu síðsumardagar sem við njótum þessa daganna. Framhald af einstaklega veðursælu sumri hér norðanlands, sumri sem minnti á bernskusumrin mín, þegar vetur voru kaldir og snjóþungir og sumrin hlý og sólrík. Silfurreynirinn í næsta garði á bara eftir að lita berin sín með svolitlu af rauðu og allur gróður sem náði sér í einhverja vætu hefur vaxið og blómgast upp um allar koppagrundir. Þetta ljúfa ljúfa veður er kannski svolítill plástur á sárin okkar því að öll göngum við inn í þetta haust í óvissu og ótta. Það er rökrétt afleiðing þess að heimsmyndin okkar hefur skekkst og öryggistilfinningin stendur á brauðfótum. Það er ekki nóg með það að heimsfaraldurinn ætli ekki að gera það endasleppt heldur erum við líka að upplifa loftslagsógn af mannavöldum. Við höfum sannarlega hagað okkur eins og höfundar og réttmætir eigendur að náttúrunni og jörðinni okkar en hvorugt er rétt og nú er komið að þolmörkum. Það er ein af grunnþörfum manneskjunnar að búa við einhverja staðfestu eða öryggi í tilverunni og það er vegið að þessu öryggi um þessar mundir.

Tilveran er „soldið lasin” eins og eitt af mínum barnabörnum myndi orða það og það er okkur erfitt að geta ekki séð hvað er handan við næsta horn. Öll getum við eflaust tekið undir það að lausnin sé í okkar eigin höndum en okkur ber ekki alltaf saman um það hver hún eigi að vera. Öfl sem snúast um peninga og völd berjast við vísindi og mannúð, það er gömul saga og ný. Meira að segja hér á litla landinu bláa, virðast æ fleiri vera farnir að trúa því að það sé ásættanlegt að tapa mannslífum, heilsu og jafnvel heilu heilbrigðiskerfi bara ef við missum ekki spón úr askinum okkar. Eða allavega ef einhverjir þarna úti missa ekki einhvern spón úr óskilgreindum aski. Við erum öll hrædd og þegar hræðslan nær á okkur tökum rýkur oft dómgreindin út um gluggann. Kosningar og barátta um völd blandast svo inn í allt klabbið og menn hætta að taka skynsamlegar ákvarðanir af ótta við að tapa vinsældum.

Það er önnur grunnþörf mannsins, nátengd þeirri sem ég nefndi áðan  að upplifa að við höfum stjórn á aðstæðum okkar. Og af því að það er okkur svo mikilvægt, verður auðvelt að selja okkur hugmyndir um það hvernig við náum stjórn á aðstæðum, hvert og eitt. Við jafnvel trúum því að það sé nauðsynlegt að fara ekki að því sem stjórnvöld boða og jafnvel það að láta ekki bólusetja sig verður tákn um að maður hafi einhverslags stjórn á tilverunni.  Og sannarlega er það í þágu stórfyrirtækja og iðnríkja að við trúum því að bara ef við skiptum yfir í rafmagnsbíl eða reiðhjól þá muni okkur takast að koma í veg fyrir loftslagsvána sem öllu ógnar.

Við höfum auðvitað val um að haga okkur af skynsemi og af yfirvegun. Og auðvitað er langbest að byrja á okkur sjálfum um leið og við leggjum öllum skynsamlegum samfélagslegum málsstað lið.  Að horfast í augu við og samþykkja það að við erum öll í sama báti, við erum öll lítil og hrædd en sameinuð erum við býsna sterk. Um það snýst velferðarkerfið okkar og ég held að hvað sem öllu líður þá sé ekkert okkar tilbúið til að fórna sameiginlegum hagsmunum og örygginu sem felst í því að eiga jafnan aðgang að góðu heilbrigðiskerfi.

Og þó að haustið sé hlýtt og gott þá styttist samt í vetur og það verður vetur með veiru, enn og aftur hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er gott að horfast í augu við eigin ótta og gefa honum rými, þá er minni hætt á að hann valdi okkur tjóni.  Við getum þá haldið áfram að njóta stundanna þrátt fyrir allt og upplifað haustið með von og tilhlökkun, tína ber og klífa fjöll. Haustið er nefnilega angurvært í eðli sínu,  það er tími til að una því sem er og hvíla í þeirri fullvissu að allt líður hjá, bæði gott og slæmt.

Hin lævísa leti

Photo by Lisa on Pexels.com

Letin hefur þvælst heilmikið fyrir mér um ævina. Ekki það að ég sé neitt sérstaklega löt (eða það held ég ekki) en ég hef alltaf þurft að velta þessu hugtaki sérstaklega mikið fyrir mér. Leti er óáþreifanleg og ósýnileg en eins og ýmislegt annað þvíumlíkt í lífinu er okkur ætlað að trúa því að hún sé til. Hún er svolítið eins og lítill og óþægur ormur í huga okkar, ormur sem hvíslar að okkur að nú sé best að gera sem allra minnst. Svona lævís lítill gaur og mjög illur, kannski hinn eiginlegi letipúki, því að við vitum jú öll að það er fátt verra en að vera latur.

Við vorum alin upp og ólumst upp við það að lati Geir hafi dáið úr þorsta vegna leti, lata stelpan hafi fengið sína refsingu og letin jafngildi ómennsku og það hlýtur að vera afar slæmt að glata mennskunni sinni. Letin er talin ein af dauðasyndunum sjö og það að láta eftir sér leti verður til þess að við njótum ekki náðar guðs. Ekki er nú undarlegt að foreldrum okkar hafi verið mikið í mun að við yrðum ekki löt, heldur dugleg.

Dugnaður er annað hugtak sem er ótrúlega loðið og illa skilgreint þrátt fyrir að þessu hugtaki hafi verið mikið hampað og sé oft talið vera upphaf allrar velgengni og hamingju í tilverunni. Reyndar er dugnaður ekki ein af höfuðdyggðunum kannski sem betur fer en þó mætti halda það, miðað við hversu mikils metinn dugnaður er í íslensku samfélagi. Þó getur dugnaður úr hófi fram verið ákaflega hættulegur því þótt að það sé töff og kúl að þurfa ekki að sofa eða hvíla sigþá er það yfirleitt slæmt fyrir heilsuna og jafnvel banvænt.Okkur er því nokkur vandi á höndum að finna meðalveg á milli þessarar miklu syndar, letinnar, sem virðist búa innra með okkur öllum ásamt græðginni, öfundinni, drambinu og öllum þeim systrum, og svo hins gulli slegna og eftirsóknarverða titils, -að vera duglegur. Duglegur er litli drengurinn sem ekki grætur þótt hann detti og meiði sig og duglegur er sá sem gerir það gott í bissness, hvernig svo sem hann fer að því.

Þetta getur átt sér sögulegar skýringar, það var jú sérlega gott að búa til höfuðsynd úr letinni þegar menn voru upp til hópa þrælar eða leiguliðar og líklega eimir af því enn. Það voru aðalsmenn og konungar sem gátu notið þess munaðar að láta eftir sér letina en aðrir ekki.Maðurinn minn var orðinn ákaflega þreyttur á togstreitunni innra með konunni sinni sem þrátt fyrir að hafa örmagnast sökum mikils álags, var enn að sveiflast á milli þess að vera löt eða dugleg, hann tók af skarið og bannaði þessi tvö orð á okkar heimili. Sem var besta og skynsamlegasta bann sem ég hef orðið fyrir á ævinni. Ennþá þarf hann reyndar af og til að minna á bannið því að það er svo vandlega inngróið að vera ýmist latur eða duglegur, að vera allt eða ekkert. En margar gengnar kynslóðir hvísla enn þessum öfgum í eyrun á okkur, með ágætum árangri.

Er þá ekkert til sem heitir að vera latur? Eða að vera duglegur? Jú vissulega og leti er áreiðanlega dauðasynd. En ég er ekki að tala um leti í hefðbundinni merkingu. Ég trúi því alls ekki að það sé dauðasynd að horfa út um gluggann og hugleiða eða lesa góða bók í stað þess að skúra og skrúbba. Ég trúi því heldur ekki að það sé synd að vinna stuttan vinnudag og njóta þess að vera með fólkinu sínu og eiga aðeins minna af veraldlegum gæðum.Ég hinsvegar held að letin sem felst í því að nenna ekki að taka réttar og góðar ákvarðanir sé löstur. Ég held að það sé leti að taka auðveldu leiðina hugarfarslega, synda um í þægilegri meðalmennskunni og hafa ekki dug í sér til að standa með sannfæringu sinni. Það er leti að rísa ekki upp gegn óréttlæti heimsins og láta í sér heyra. Og ég geri mig oft seka um slíka leti og það gerum við áreiðanlega öll. Það er kannski mesti dugnaður sem við getum sýnt ef við segjum þessari leti stríð á hendur. Á sama hátt erum við líka dugleg þegar við temjum okkur víðsýni og umburðarlyndi, það krefst hugarfarsvinnu, það krefst þess að spyrja spurninga. Það er dugnaður sem mig langar til að innræta börnum og barnabörnum, skítt með ryk í hornum eða óslegið gras.

Kúlan í maganum

Ég lærði nýverið af 5 ára barnabarni að „kúla í maganum” er notað til að lýsa kvíða. Börn eru oftast fremur hlutbundin í hugsun og eiga kannski erfitt með að koma því í orð hvernig þeim líður en þau skilja vel hvernig það getur verið að hafa slíka kúlu í maganum. Við fullorðnu þekkjum líka kúluna mætavel, hnútinn í maganum sem myndast þegar við erum spennt, full streitu eða kvíðin. Og auðvitað er það ekki bara einhver huglæg upplifun, heilinn er beintengdur líkamanum og kvíðinn veldur líkamlegum breytingum, mjög gjarnan á meltingarfærin þar sem við finnum vel fyrir þeim.

Góðu fréttirnar eru þær að nú er að vaxa úr grasi kynslóð sem lærir um tilfinningar strax frá upphafi. Þau læra að tilfinningar eru nauðsynlegar og að allir hafa þær.  Þau læra að setja nöfn á tilfinningarnar sínar, skoða þær og horfast í augu við þær. Þannig læra þau ekki einungis að gangast við sjálfum sér og vinna með erfiðar tilfinningar, þau verða einnig í minni hættu á að sjúkdómsgera tilfinningar og gera það á einhvern hátt óeðlilegt að finna t.d. til kvíða.

Og af hverju skiptir þetta máli? Höfum við kynslóðirnar sem nú erum fullorðin, mín kynslóð og kynslóð foreldra minna ekki skilað okkar, án þess að hafa lært um tilfinningar? Þarf eitthvað að vera að tala um tilfinningar, er það ekki bara vesen sem engu skilar?

Vissulega höfum við skilað okkar framlagi, við höfum unnið dagvinnu, unnið vaktavinnu og yfirvinnu, staðið okkar plikt, komið upp börnunum okkar og eignast eigið húsnæði. Langflest. Einhverjir brotnuðu undan álagi lífsins eins og gengur, einhverjir voru „tilfinningasamir” og jafnvel „móðursjúkir” og „taugaveiklaðir” og það þótti skrítið og engan vegin eftirsóknarvert. Karlmennska og æðruleysi fólst í því að bíta á jaxlinn og ræða ekki sársauka og hjartasár, – í  mesta lagi að eitt tár rynni niður steinrunnin andlit.

Misskilningurinn er reyndar sá að við erum öll jafn tilfinningasöm og taugaveikluð, við finnum öll fyrir kvíðanum, depurð, gleði, afbrýðissemi, reiði, og öllum hinum tilfinningunum. Og höfum við aldrei lært að skilja þær, þessar undarlegu kenndir sem brjótast fram þegar síst skyldi, þá höfum við heldur engar forsendur til að hafa á þeim stjórn og til að geta beint þeim í skynsamlegan farveg.  Við berjum þær niður eins lengi og við getum og þegar þær brjótast svo fram í stormum tilverunnar, taka þær óhikað af okkur stjórnina. Sorg sem aldrei var rædd verður að kvíða og kúlan í maganum verður að grjóti. Þannig grær aldrei um heilt og alltof margir fara þannig á mis við heilmikið af hamingju og vellíðan.

Það er nefnilega þannig að tilfinningar eru hluti af þeirri heild sem er manneskja, þær eiga upptök sín í heilastarfsemi og taugaboðum og eru okkur öllum lífsnauðsynlegar. Þegar við viðurkennum það, þá sjáum við líka mikilvægi þess að læra um tilfinningarnar, alveg á sama hátt og við lærum um blóðrásina, lungun og það hvernig börnin verða til.  Við getum ekki lært um þessa hluti nema að mega ræða um þá, velta upp hugmyndum og spyrja spurninga.

Þetta fær kynslóðin sem nú er að vaxa upp að gera og þetta getum við sannarlega líka gert. Það er aldrei of seint að skoða eigin tilfinningar, gangast við þeim og læra á þær. Láta af dómhörku í eigin garð en taka í staðinn upp sáttartilburði við sjálfan sig. Það er til fullt af fagfólki sem getur aðstoðað við þetta og það er líka til mikið af góðum og vitrum vinum sem eiga eyra til að hlusta og öxl til að gráta á.

Ég allavega mæli með þjóðarátaki til að vinna með „kúlur í maga” og láta þær ekki stjórna ekki of miklu í tilverunni. Þá geta þessi 5 ára áreiðanlega kennt okkur heilmikið.