Að vera prinsessa á baun-ofurnæmir einstaklingar.

index

Frá því að ég man eftir mér hefur töluvert vantað upp á það að ég hafi þann skráp sem þykir bæði nauðsynlegur og æskilegur til að að horfast í augu við viðsjálan heim. Og oft hefur það þreytt sjálfa mig og aðra þegar viðkvæmnin tekur völdin og ég hef sannarlega oft átt þá ósk heitasta að vera minna tilfinninganæm, hafa þykkari skráp, hafa sterkari skurn,- hafa aðeins meira kúl. Að vera með utanáliggjandi taugakerfi er ein leiðin til að orða það hvernig vér prinsessur skynjum heiminn en það er bara hluti af einkennunum. Það er ekki eingöngu sterkara litróf tilfinninga og upplifana, litróf sem aðrir skynja sem væmni eða móðursýki á köflum heldur líka sterkari skynjun á lyktir, á hávaða, birtu, mannfjölda, og margt fleira.

Hjá mér kemur það fram t.d. í því að ég get bara komið við ákveðin efni í fötum, önnur get ég varla snert og alls ekki farið í. Fötin þurfa að vera mjúk og mega ekki þrengja að mér. Bómull og silki eru góð efni en gerfiefni og ull eru mér erfið. Ég get ekki horft á tilgangslaust ofbeldi í sjónvarpi eða bíómyndum, mér verður líkamlega illt og get illa sofið á eftir. Ég skynja líðan annarra sterkt og jafnvel þótt mig langi ekkert til þess. Þetta gerir það að verkum að reyni sífellt að sjá fyrir þarfir fólks og bæta líðan þeirra. Þetta er frábær eiginleiki fyrir hjúkrunarfræðing og aðra sem vinna slík störf en getur líka étið mann upp og brennt ljósið manns í báða enda þar sem maður upplifir ekki bara eigin tilfinningar heldur annarra líka og finnur jú þannig vel fyrir bauninni í rúmi náungans líka þrátt fyrir mörg lög af dýnum og sængum.

Áður en ég gerði mér grein fyrir því að slíkt ofur skynnæmi væri ekki bundið mig við eina var ég ákaflega upptekin af því að reyna að vinna bug á því. Ég fann jú vel fyrir óþoli annarra gagnvart þessum vafasömu eiginleikum mínum og þeir gerðu mitt líf svo sannarlega bæði flóknara og erfiðara. Og nú veit ég að margir kannast við mína lýsingu þar sem tölfræðin segir okkur að um 15-20% fólks sé haldið því sem kallað er að vera HSP eða “highly sensetive people”. Já þetta hefur verið rannsakað nokkuð mikið af vísindamönnum á þessu svið. Það virðist vera að heili þeirra einstaklinga sem eru HSP sé örlítið öðruvísi en annarra og bregðist á annan hátt við áreitum. Mælitæki/spurningalistar eru notuð, sem mæla HSP og má nefna hér nokkur atriði sem slíkir listar leiða í ljós og eru sameiginlegir

  • Ríkulegt og flókið sálarlíf
  • Mikið hrifnæmi gagnvart listum og tónlist
  • Að komast mjög auðveldlega í geðshræringu
  • Að eiga erfitt með að framkvæma verk ef aðrir eru að fylgjast með
  • Að hrökkva auðveldlega við.
  • Að vera mjög viðkvæmur fyrir sársauka, koffíni og hungri
  • Hafa aukið næmi fyrir líkamlegum upplifunum
  • Hafa aukið næmi í skynjun s.s. lyktarskyni heyrn og sjón.

Það var sálfræðingur sem greindi hjá mér ofurnæmi og ég gleymi því seint hversu hissa ég varð. Að það sem ég upplifði sem einn af mínum stóru göllum væri einfaldlega hluti af því hver ég væri og væri ekki í mínu valdi að breyta. Ég þyrfti hvorki að „herða mig upp” eða „taka mig saman í andlitinu” eða „hætta þessari vitleysu”. Ég ætti á hinn bóginn að gangast við því hver ég væri að þessu leyti og haga lífi mínu samkvæmt því.

Sumir ganga ennþá lengra í þessum efnum og tala um ofurnæmi sem vöggugjöf og einstakan hæfileika til að upplifa tilveruna á djúpan og litríkan hátt. Ofurnæmi er algengt á meðal listamanna og skálda og er nátengt sköpunargáfu og samhyggð. En á sama tíma eru ofurnæmir einstaklingar í meiri hættu á þunglyndi , kvíða, kulnun og öðrum andlegum kvillum . Lífið er þeim einfaldlega erfiðara. Þess vegna er svo mikilvægt að greina þessa einstaklinga snemma þannig að þeir geti hagað umhverfi sínu og samböndum þannig að hinar jákvæðu hliðar þess að vera ofurnæmur fái notið sín.

Og hvaða ráð gefa þá sérfræðingarnir ofurnæmum, bæði börnum og fullorðnum. Jú til dæmis eftirfarandi:

  • Draga úr fjölda áreita í umhverfinu og forðast aðstæður sem eru of erfiðar.
  • Draga úr tilhneigingu til að vinna að mörgum verkefnum í einu, læra að segja nei.
  • Draga úr hættu á kulnun með því að vera vakandi fyrir einkennum s.s. kvíða og streitu.
  • Skrifa niður hugsanir og tilfinningar
  • Tileinka sér núvitund og slökun, finna ró í tilverunni.
  • Sætta sig við eigin viðkvæmni og skammast sín ekki
  • Vera hreinskilinn við sjálfa n sig og aðra sérstaklega sína nánustu hvað varðar HSP.
  • Muna eftir jákvæðum hliðum HSP s.s. ríku tilfinningalífi og dýpt í hugsunum, hæfileika til að sjá hluti frá ýmsum hliðum, næmi fyrir listum og tónlist.

 Ekki tókst mér nú að tileinka mér þetta á sínum tíma, enda var ég kannski orðin of djúpt sokkin í það sem mér hafði verið innrætt frá bernsku- að vera ekki svona viðkvæm og reyna af öllum mætti að herða mig nú upp. Árangurinn var misjafn og þessar hetjutilraunir allar höfðu áreiðanlega sitt að segja varðandi mín veikindi síðar,- en það er önnur saga.

Ég trúi því að það sé í það minnsta mikilvægt að hampa þessum eiginleikum hjá þeim sem fengu þá í vöggugjöf og gera það allt frá byrjun. Að gefa bæði stúlkum og drengjum tækifæri til að blómstra sem ofur næmum einstaklingum, viðkvæmum, brothættum en líka blíðum, skapandi og hrifnæmum. Að samfélagið gangist líka við því að heimurinn þarf ekki bara á nöglum og töffurum að halda. Þá fækkum við kannski fullorðnum útbrunnum kvíðaboltum og spörum samfélaginu stórar upphæðir.

 Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

 

Lesefni og tilvísanir:

 

http://www.klikk.no/helse/doktoronline/psykiskhelse/ti-tegn-pa-at-du-er-hoysensitiv-2509260

 http://www.dailymail.co.uk/sciencetech/article-2668581/Is-empathy-genes-Scientists-say-20-people-highly-sensitive-predisposed-cry-films.html

 https://www.psychologytoday.com/blog/neuroscience-in-everyday-life/201707/are-you-highly-sensitive-person-should-you-change

Homberg, J.R., Schubert, D. Asan, E. & Aron, E.N. (2016). Sensory porcessing sensitivity and serotonin gene variance: Insights into mechanisms shaping environmental sensitivity. Neuroscience and Biobehavioral Reviews. 71, 472-483.

 

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s