Það er eiginlega kominn tími á að koma út úr skápnum. Eða eiginlega gera bara rifu á hann og gægjast út með öðru auganu, það verður að duga í bili. Ekki samt reikna með því að ég skipuleggi hittinginn, mæti á tónleikana, komi á fundinn eða sækist að fyrra bragði eftir félagsskap. Ef það gerist, þá á ég góðan dag og þá gleðst ég einlæglega yfir að hitta ykkur, -þið eruð frábær, en ég er líka smeyk við ykkur. Skelin mín er nefnilega ákaflega þunn og ég er sífellt hrædd við að meiða mig. Ég hef verið í veikindaleyfi í eitt ár og fjóra mánuði og nú hef ég tekið þá ákvörðun að blása út opinberlega og hætta að vera í felum. Hingað til hef ég getað ímyndað mér að ef enginn viti af því að ég sé veik þá ég muni geta risið úr öskunni eins og fuglinn Fönix og mér verði tekið fagnandi með lúðraþyt á vinnumarkaðnum. En þar sem ég er innst inni fremur raunsæ kona geri ég mér grein fyrir að þetta er ekki alveg svona.
Mitt ástand er nefnilega ákaflega annars flokks meðal „alvöru” veikinda, ég er ekki í gifsi, ég hef ekki krabbamein, ég er ekki andlega veik- ekki þannig lagað séð og veikindin sjást ekki utan á mér. Ég hinsvegar fór í þrot, kláraði batteríin, brann út, lenti í kulnun, örmögnun, kvíða,- nöfnin eru fjölmörg og viðhorf manna misjöfn en það breytir ekki því að þessi veikindi tóku frá mér vinnuþrekið, félagshæfnina, orkuna, og á köflum sálarróna en ekki vitið, hamingjuna eða vonina. Ég er ákaflega hamingjusöm í einkalífinu og trúi því einlæglega að birtan verði mín megin í lífinu hvort og hvenær sem ég næ heilsu á ný.
Fortíðin mín er hinsvegar nokkuð lituð af áföllum og oft kvíða í kjölfarið. Kvíða sem oftast var vandlega barinn niður, ég var jú dugleg og klár kona með góða menntun og fannst best að hlaupa bara hraðar- trúði því mjög ákaft að viljinn væri allt sem þyrfti. Reyndar hef ég sjálfsónæmissjúkdóm og gigt af þeim sökum en beitti verkina fyrrnefndum dugnaði, og lamdi mig oftast hressilega áfram. Ég hafði eins og flestar kynsystur mínar rekið höfuðið oft í glerþakið án þess eiginlega að vita hvað það væri sem væri að gera þessa krónísku kúlu á hausinn á mér en ég hafði líka lent illa í eigin dómgreindarleysi oftar en einu sinni, sérstaklega hvað varðaði að meta aðrar manneskjur og tilgang þeirra í mínu lífi. Ég hóf vinnu á mínum síðasta vinnustað í miðju slíku persónulegu áfalli en auðvitað ætlaði ég samt sem áður að sýna dugnað, samviskusemi og hæfni sem yfirmaður. Ég hljóp eins og fætur toguðu í fjögur ár, lafmóð og másandi þar til einn góðan veðurdag- já ég held að veðrið hafi bara verið gott þann dag, að öllu var lokið. Ég keyrði grátandi heim úr vinnunni og fór þangað aldrei aftur. Þúsund hlutir spiluðu líklega saman í því að reka mig ofan í þessa botnlausu holu en við tóku nokkrar vikur af algjörri ringulreið og eymd,- vikur sem ég eiginlega man ekki eftir. Fljótlega hóf ég þó vinnu aftur og vann hálfan daginn í tvo mánuði. Það var engan vegin tímabært og skilaði mér nákvæmlega engu, nema meiri veikindum.
Hvernig veikindum spyr þá áreiðanlega einhver og að einhverjum læðist áreiðanlega sá grunur að þau séu kannski ímynduð? Trúið mér ég hef reynt óteljandi sinnum að telja mér trú um það og reynt mjög mikið til að útrýma „ímyndunarveikinni”, án árangurs. Viljinn, rökhugsunin og vitið eru til staðar og ég hef fengið góða hjálp við að skilja kjarnann frá hisminu og raunveruleikann frá upplifuninni. Fyrir utan það að fagþekking og reynsla auðvitað segir mér mikið. Það er hinsvegar líkaminn og taugakerfið sem vilja ekki spila með og einkenni svo sem, þungur hjartsláttur, vélindaherpingur, svefnerfiðleikar, meltingarerfiðleikar, verkir um allan líkamann, kvíðaköst, félagsfælni, eirðarleysi, einbeitingarskortur, ofurviðkvæmni fyrir áreiti….listinn er jafn langur og hann er leiðinlegur. Hann er leiðinlegur líka af því að innst inni veit ég að einkennin stafa ekki af líkamlegum orsökum en þau eru jafn raunveruleg og jafn hamlandi fyrir því. Bara tilhugsunin um að ég muni senda þessi skrif frá mér valda því að hjartað fer að lemjast utan í rifbeinin með látum….en ég ætla að þrjóskast við og hunsa það í bili.
Góðu fréttirnar eru þær að þrátt fyrir að vera nú án atvinnu, vera ekki fær um nema brotabrot af því sem ég gerði áður og hafandi misst það gildi sem okkar afkastamiðaða samfélag metur hvað mest, þá er lífið alls ekki ómögulegt. Ég á bestu fjölskyldu í heimi, ég hef fengið ómetanlega aðstoð bæði frá fagfólki og fjölskyldu en mest frá elskulegasta eigimanni sem hægt er að eiga að. Ég nýt réttinda vegna veikindanna og þarf bara að minna mig af og til á að það eru einmitt réttindi sem ég hef unnið mér inn,- en ekki ölmusa. Það er auðvelt að detta í þá gildru.
Ég er að læra að kynnast sjálfri mér upp á nýtt og að virða manneskjuna mig án allra metorða, menntunar og áhrifa- og það er hollt og gott. Og ef ég passa mig að fara vel með þessa litlu orku sem ég þó hef þá get ég látið mér líða vel. Meira er ekki í boði eins og er. Ég held fast í dagskipulagið, fer snemma á fætur, hreyfi mig og sinni endurhæfingunni minni og einstaka sinnum ögra ég mér til að gera eitthvað sem er mér mjög mikils virði- og verð þá að taka mér góðan tíma í að jafna mig á eftir.
Ég gæti skrifað langan pistil um nauðsyn þess að vera vel á verði gagnvart einkennum um að slík veikindi geti verið yfirvofandi. Þau þurfa ekki endilega að tengjast vinnu en gera það gjarnan og þeir sem vinna með fólki t.d. við umönnun eða kennslu virðast vera í mestri hættu. Aðdragandinn er oft langur og það þarf að fræða alla um þær leiðir sem fyrirfinnast til að varast alvarleg veikindi. Sem hjúkrunarfræðingur og yfirmaður á vinnustað þekkti ég slík einkenni vel en trúði því að sjálfsögðu ekki að þau gætu átt við sjálfa mig. Ég gerði jú meiri kröfur til mín en svo. Kannski liggur einmitt hundurinn grafinn þar. „Kona þarf bara að vera duglegri”..- eins og verðlaunahönnunin í hönnunarsamkeppni strætó benti á og við reynum að vera bara duglegri við svo ótal margt (mastersnám með fullri vinnu er normið í dag) Verði kona hins vegar mikið duglegri á kona á hættu á að fara í þrot. Og það er sko miklu erfiðara að komast þaðan aftur en að lenda þar. (Auðvitað getur þetta átt við um karlmenn líka en fleiri konur virðast fara þessa leið en karlar ). Og svo er líka hægt að deyja sökum dugnaðar og óbilgirni í eigin garð. Ég er sannfærð um að hefði ég ekki farið í þrot þegar það gerðist, þá væri ég ekki á lífi í dag.
Þannig er ég þakklát fyrir mína örmögnun. Ég á langt í land ennþá og kannski verður mín saga aldrei ein af hetjusögunum sem maður les í blöðunum, en kannski verð ég samt svona smávegis hversdagshetja sem allavega kemur út úr skápnum og gengst við því að vera veik. Ég vinn jú fjölmarga smásigra á hverjum degi eins og við gerum jú flest. Og vonandi getur einhver speglað sig í þessum orðum og fengið styrk úr því að vera ekki í einn í þessum sporum.