Já ég hef áhyggjur. Og þá er ég ekki að meina mínar krónísku áhyggjur kvíðaboltans heldur raunverulegar áhyggjur af hættulegu ástandi. Ég hef áhyggjur af íslensku heilbrigðiskerfi og mér sýnist að við ættum öll að deila þeim áhyggjum. Kerfi sem var á heimsmælikvarða, var áreiðanlegt og ekki síst mannlegt og persónulegt- siglir nú hraðbyri í strand.
Þessar áhyggjur mínar voru vaxandi á meðan ég var enn starfandi innan heilbrigðiskerfisins og upplifði æ erfiðara ástand og aukna þjónustuþörf í mínum geira, heimahjúkrun. Nú stend ég hinum megin borðsins. Ég þekki kerfið og veit hvert ég á að leita, ég er óhrædd við að þrýsta á úrlausnir ef mig lengir eftir þeim, kann að spyrja réttu spurninganna og ég tala mál heilbrigðiskerfisins.
En það eru ekki allir sem geta þetta. Margir treysta því að þetta stóra og mikla kerfi vinni sína vinnu og geta ekki annað en treyst á að allt virki sem best þeim til hagsbóta. Margir aldraðir eru t.d. sannfærðir um óskeikulleika lækna og efast ekki um að allt standist sem lofað er,- og slíkt traust er að verða hættulegt heilsu fólks.
Úrelt tæki sem bila þegar síst skyldi,- örþreytt starfsfólk sem hefur ekki samband við sjúklinga sína eins og talað var um, -löng bið eftir tíma á heilsugæslustöð,-bið eftir nauðsynlegum aðgerðum, -skortur á læknum, skortur á hjúkrunarfræðingum, -upptalningin er löng og hún er dapurleg.
Aukin einkavæðing hefur litlu skilað til sjúklinga sem þurfa að treysta á heilbrigðiskerfið, einna helst að hún hafi skilað peningum í vasa þeirra sem reka t.d. einkareknar læknastofur. Gleymum því ekki að einkarekstur hefur eitt aðalmarkmið og það er gróði. Þrátt fyrir allar yfirlýsingar um gæði þjónustu þá er gróði samt það sem á að vera lokaafurð einkareksturs og því eigum við að gera þær kröfur að skattfé okkar fari til ríkisrekinnar heilbrigðisþjónustu og þar ríki mannúðarsjónarmið fyrst. Því það er þetta gróðakerfi sem gerir það að verkum að með auknum einkarekstri aukast s.k. oflækningar á kostnað grunnþjónustu og bráðaþjónustu.
Sterkar vísbendingar eru um það í úttekt landlæknis frá í september síðastliðnum að fjöldi óþarfa aðgerða sé gerður á einkareknum læknastofum. Landlæknir áætlar að kostnaðurinn við þessar aðgerðir hlaupi á hundruðum milljóna króna, en hann er nær eingöngu greiddur af ríkinu.
Við eigum stórkostlegan mannauð innan heilbrigðiskerfisins. Ennþá höfum við á að skipa vel menntuðu og hæfu starfsfólki sem vinnur ötullega að því að annast um samborgara sína og gerir það vel. Enda er engin starfsemi án starfsfólks. En verið er að naga kerfið innanfrá og það bitnar á starfsfólkinu. Mikið vinnuálag, langar vaktir, sífelldur þrýstingur á aukavinnu,- flest okkar þekkja það að slökkva á símanum okkar á frívöktum til að þurfa ekki að neita örvæntingarfullum yfirmanni deildar um að vinna aukavakt. Slíkt tekur á.
Og fólk sem vinnur með heilsu og hamingju annarra er að auki undir miklu tilfinningalegu álagi. Einungis þeir sem eiga samhyggð og hjartarými fyrir annað fólk ættu að vinna slík störf en um leið má segja að sá sem býr yfir þessum eiginleikum sé líka í mikilli hættu á að klára sjálfan sig í leiðinni. Hætta á kulnun í starfi eykst með auknu vinnuálagi og þar með hætta á mistökum, áhugaleysi og minni gæðum í umönnun og meðferð. Og þegar fram í sækir fer starfsfólkið að veikjast æ meira, hverfur jafnvel frá vinnu og snýr svo ekki aftur í starfið sitt innan heilbrigðisgeirans. Eða hættir áður en í óefni er komið. Við þurfum að snúa þessari þróun við og við þurfum að byrja strax! Nú þegar vantar hundruð hjúkrunarfræðinga til að fullmanna heilbrigðiskerfið og á meðan eykst sífellt álag á þá sem eftir standa.
Einmitt núna afloknum kosningum er tími til að kalla eftir því loforði sem gefið var á öllum vígstöðvum,- loforði um að setja heilbrigðiskerfið okkar í forgang. Ég er nýbúin að ferðast um afskekktari byggðir Skotlands og ferðaðist um vegi sem fæstir voru tvíbreiðir, menn mættust á útskotum og bökkuðu brosandi um langan veg til að mætast. Það er hægt að þrauka eitt og annað sem vantar í velferðarsamfélag en deyjandi heilbrigðiskerfi þraukum við ekki! Við eignumst börnin okkar, fáum umönnun á erfiðustu stundum lífsins og endum æfina….allt innan heilbrigðiskerfisins.
Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.
Heimildir:
https://www.bsrb.is/is/frettakerfi/einkastofur-fa-greitt-fyrir-fjolda-otharfa-adgerda
https://www.hjukrun.is/frettir/frett/2017/02/17/Skortur-a-hjukrunarfraedingum-nemur-hundrudum/
Burnout and Workload Among Health Care Workers: The Moderating Role of Job Control
www.sciencedirect.com/science/article/pii/S2093791114000419?via%3Dihub