Undanfarna daga hef ég velt því mikið fyrir mér hvar ég keyrði út af lífssporinu mínu ef einhversstaðar og hvaða leiðir hjálpa mér best til að ná andlegum kröftum á ný. Niðurstöður eru auðvitað eins og viðbúið var, svolítið misjafnar frá degi til dags en það er þó að birtast mér ákveðinn kjarni sem mig langar að vinna með.
Ég sé það núna að ég hef verið slæm fyrirmynd ungs fólks og það er sannarlega ekki nóg að tala um feminisma og sterka sjálfsmynd.. Ég er ásamt fjölmörgum öðrum konum og körlum er því marki brennd, að við trúum því sannarlega að hlutverkið okkar sé að gera öðrum lífið þægilegt. Þannig tökum við ábyrgðina með gleði, -það er jú okkar hlutverk. Við erum upptekin af því að allir í kringum okkur séu glaðir og sáttir og öxlum vandlega af því ábyrgðina,- já tökum hana frá öðrum. Og við trúum því í einlægni að það sé gert af ást og umhyggju en ekki meðvirkni og stjórnsýki. Jamm og já!
Því ætla ég að gera eftirfarandi samning við sjálfa mig og reyna, já reyna að fara eftir honum mér og mínum til hagsbóta. Skátaheitið gamla byrjaði á því að maður lofaði að reyna af fremsta megni….og það finnst mér gott og rétt. Meira getur enginn lofað.
Here goes!
- Það er ekki mitt að gera annað fólk hamingjusamt, það er hlutverk og ábyrgð þeirra sjálfra.
- Það er ekki mitt að bera ábyrgð á heilsu og líðan annarra, -þar get ég gefið ráð, umhyggju eða samhyggð en þar endar líka ábyrgð mín.
- Ég á rétt á því að komið sé fram við mig af virðingu, -að ekki sé talað niður til mín, -að fólk hæðist ekki að mér eða hreyti í mig ónotum.
- Ég hef rétt til þess að vera ekki alltaf glöð og hress en það gefur mér ekki rétt til að koma illa fram við aðra.
- Ég hef rétt til þess að velja þá sem ég vil umgangast og elska, en það gefur mér ekki rétt til að stjórna lífi þeirra.
- Ég á rétt á því að vera sterk jafnvel í veikleikum mínum og vera stolt af því hver ég er, hver sem verkefni mín eru í tilverunni.
- Ég er ekki hrokafull eða eigingjörn þótt ég gefi mér ofantalið.
Góðar stundir!
Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.