Ég hef í gegnum tíðina skrifað pistla fyrir jól, -pistla sem aðallega fjalla um allt það sem ég ætla ekki að gera fyrir jólin. Ég ætla ekki að gera of miklar kröfur til sjálfrar mín, ég ætla ekki að ætlast til þess að allt sé þrifið og strokið, ég ætla að njóta aðventunnar og ég ætla ekki að láta auglýsingar og æsing hafa áhrif á birtumagnið í sálinni. Fögur fyrirheit eru nokkurs virði en svo eykst myrkrið stöðugt, streituþolið mitt er miklu minna en áður, kvíðinn meiri og fjárhagurinn þrengri þrátt fyrir löngun til að gera fólkinu mínu gott.
Fréttaflutningur einkennist af fréttum af spilltu og vondu fólki, sem fyrirlitur sína minnstu bræður, fátækt og misrétti eykst og heimur virðist hafa gleymt hvernig lifa á í friði og sátt. Og ég, í öllum mínum vanmætti fer að láta allt þetta myrkur hafa áhrif á líðanina og fer að hlaupa hraðar, anda hraðar og gera hraðar.
Við erum svo heppin að eiga hefð fyrir því að halda jól. Hátíðir eiga að brjóta upp hversdagsleikann og gleðja og þessi hátíð okkar er helguð ljósi og vexti,–og öllu því sem er gott. Alveg sama hvort og hverju við trúum. Í myrkrinu mesta er gott að finna kyrrð í sálinni, hugleiða tilveruna, kúra í rökkrinu og hægja á sál og líkama.
Ég hef eiginlega horft undrandi á ýmis viðbrögð fólks við jólaundirbúningnum. Ég hef séð fólk urra í geðvonsku á afgreiðslufólk stórmarkaðanna, ég upplifi hraðakstur pirraðra ökumanna í hálku og myrkri, Við förum að lifa á óhollustu, skyndibitum og í besta lagi mandarínum…enginn hefur jú tíma til að elda fyrr en að það verður kveikt undir kjötkötlunum á jólunum sjálfum. Pirringur út í mann og annan, snjómokstursmenn, bílastæðaverði, þá sem vinna á pósthúsum, alls kyns fólk sem er að vinna vinnuna sína og líka út í Gunnu frænku, eiginmanninn og alla hina.
Mér sýnist að ég muni alltaf skrifa jólapistla úr glerhúsi. Mér mun seint takast að iðka sjálfri það sem ég er að reyna að hvetja aðra til að gera. Þó að sortunum sem slett er í hér heima hafi fækkað mikið og miklu minna sé skreytt og þrifið þá stíg ég yfirleitt skrefinu of langt í undirbúningnum, verð þreytt og kvíðin í staðin fyrir að vera glöð og þakklát. En þó eru nokkrir mikilvægir áfangar í mínum jólaþroska þessa desemberdagana sem ég finn að eru að koma,-og ég gefst sannarlega ekki upp við að fjölga þeim eftir bestu getu.
Ég fer hægar yfir í myrkrinu, keyri varlegar en áður og af meiri þolinmæði. Ég legg mig fram um að brosa og vera notaleg við þá sem ég á samskipti við í verslunum. Ég leyfi mér að kúra aðeins lengur í rökkrinu og ég geri ekki lengur kröfur á sjálfa mig um að taka þátt í öllu því sem mér finnst freistandi að gera í desember. Ég segi ekki að ég sé dugleg við núvitundaræfingarnar en man þó eftir því af og til að draga djúpt andann eða hlusta á eitthvað uppbyggjandi og gott. Og hvíla mig.
Njótum myrkursins, það getur verið bæði hlýtt og mjúkt. Svo rísum við upp með hækkandi sól, það er jú það sem jólin tákna bæði fyrr og nú.
Gleðileg jól.