Að kveðja fortíð og heilsa framtíð

Ttime-2160154_960_720íminn er undarlegt fyrirbæri. Víst er hann afstæður eins og flestir þekkja,- hann líður t.d. mun hraðar við ánægjulega iðju og þegar við hlökkum til einhvers heldur en þegar lífið er litlaust og leiðinlegt. Það er jú samt bara í okkar eigin vitund sem hann er afstæður, hann gengur alltaf á sama hraða, án upphafs og án endis að því við best vitum. Jörðin er alltaf jafn lengi að ganga einn hring í kringum sólina eða rúmlega 365 daga. Við mannfólkið höfum kosið að gera slíkan hring að tímaeiningu sem skiptir miklu máli í allri okkar tilveru. Áramót eru hinn tilbúni endapunktur á því sem liðið er og upphaf að því sem er ókomið og sem slík ekki verri tími en hver annar til að setja okkur ný markmið.

Þetta gerum við með stæl, glimmeri og glitri, fögnum nýjum tíma og kveðjum hinn liðna. Það krefst hugrekkis á að horfa fram á við með bjartsýni en flest einsetjum við okkur samt við áramót, að bæta úr því sem við vildum gera betur eða taka upp nýja siði ef við erum ekki sátt við þá gömlu. Stígum á stokk og strengjum heit.

En af því að tíminn er hringlaga í eðli sínu en ekki eitthvað sem endar og byrjar aftur þá er málið oft ekki alveg svona einfalt. Við erum föst í flóknu mynstri tilfinninga og hegðunar af ástæðum sem eiga sér djúpar rætur og það er sjaldnast auðvelt að kveðja fortíðina bara af því að okkur langar til þess. Jafnvel þótt við séum ósátt við hana.

Það þýðir samt ekki að það sé ekki hægt en það þarf reyndar miklu meira en bara flugelda og kampavín. Það þarf einlægan ásetning og löngun og það þarf mikið af æfingu og lærdómi. Við eigum meira að segja til að gleyma öllu sem við höfum lært og þá þurfum við að byrja námið upp á nýtt. Það þarf að læra að fyrirgefa öðrum það sem liðið er og það sem er þó mikilvægast af öllu, -að fyrirgefa okkur sjálfum. Þá og aðeins þá getum við farið að horfast heiðarlega í augu við okkur sjálf og setja okkur ný markmið.

Tíminn er nefnilega ekki aðeins hringlaga, hann gengur bara í aðra áttina, það er áfram og það er engin leið að snúa honum við. Hversu mikill sársauki sem býr í fortíðinni, þá er hún liðin og við breytum henni ekki. Eina leiðin er að horfast í augu við sársaukann okkar, ná við hann sátt og reyna að skilja hann svo eftir þar sem hann á heima,- í liðnum tíma. Sérhvert augnablik er glænýtt og við getum alltaf verið að búa til betra eintak af okkur sjálfum og tilverunni okkar, að minnsta kosti ef við festumst ekki í fortíðinni. Við getum átt okkar áramót á hverjum einasta degi.

Það er að minnsta kosti eina áramótaheitið sem ég ætla mér að strengja og það sem meira er ég ætla að byrja strax á að koma því í framkvæmd, og svo alla daga upp frá því. Að muna að sérhver dagur er nýr dagur og þar eigum við heima en hvorki í fortíðinni eða framtíðinni. Stundum mun mér heppnast að standa við þetta og stundum alls ekki en það er allt í lagi,- ég held áfram að reyna.

Ykkur óska ég þess að sem oftast, eigi þetta sér stað:

  • Kaffið ykkar verði stórkostlega bragðgott og hressandi, já og sterkt!
  • Að þið fáið að faðma þá sem ykkur þykir vænst um og það þétt og lengi.
  • Að þið getið verið úti og finnið gleði í náttúrunni
  • Að þið finnið huggun hjá góðum vinum og fjölskyldu á erfiðum stundum.
  • Að þið finnið ástæðu til að brosa og gleðjast.
  • Að streita og hraði nái ekki tökum á tilverunni ykkar
  • Að þið sýnið ykkur sjálfum umburðarlyndi og reynið ekki að vera fullkomin,- það er hvort eð er ómögulegt.

Gleðilega nýja daga og takk fyrir alla þá sem liðnir eru.

IMG_8717

One thought on “Að kveðja fortíð og heilsa framtíð

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s