Að einfalda líf sitt-hver er galdurinn?

apple background desk electronics
Ég settist niður með það að markmiði að skrifa nokkur orð um það að einfalda lífið. Ég hafði sjálf ýmsar hugmyndir að því hvernig slíkt gæti átt sér stað, hagnýt ráð og ýmislegt sem ég hafði viðað að mér hér og þar en mér fannst vanta meira kjöt á beinin. Það er ósköp þægilegt að benda fólki á að anda djúpt og lifa augnablikið (sem er jú frábær uppskrift að einföldu og væntanlega hamingjuríku lífi) en það er þetta með að vita hvar á að byrja.
Byrjar maður á að losa sig við veraldlega hluti, þarf tiltekt í húsinu eða þarf að dusta í burtu andlega köngulóarvefi og losa sig við hugarflækjur? Þarf að losa sig við eitruð sambönd og eiga þannig svigrúm fyrir góð tengsl við aðeins færri eða þarf að fækka tómstundum foreldra og barna svo að hálfur dagurinn fari ekki í skutl og transport af ýmsu tagi?
Þarf að einfalda alla þætti lífsins eða bara suma og hvernig í ósköpunum á þetta allt að ganga upp á einfaldan máta? Samfélagið er jú flókið og flóknar aðferðir virðast vera það eina sem dugar til að lifa af? Eða hvað?
Ég gerði það sem ég oftast geri þegar mig vantar svör og byrja að skoða málin…ég fer á netið. Viti menn, það kom upp síða eftir síðu af svörum frá alnetinu flestar buðu þær upp á allt frá 20 upp í 78 aðferðir til að einfalda lífið. Allt frá nokkuð nákvæmum leiðbeiningum um það hvernig mætti einfalda hvern lið í tilverunni til ofurnákvæmra leiðbeininga um það hvernig mætti gera slíkt hið sama. Allar þessar leiðbeiningar voru settar fram af mjög vel menntuðu fólki, fræðingum ýmiskonar og ekki síst heilli stétt af markþjálfum sem hafa jú orðið til m.a. til að uppfylla þörf fólks fyrir slíkar leiðbeiningar.
Og það er sko ekki bara á alnetinu sem finna má leiðbeiningar um að einfalda lífið nei ó nei….-bækur og námskeið eru allsstaðar í gífurlegu framboði og sannarlega vandi að velja.
Ég eiginlega gafst upp. Við erum eins misjöfn og við erum mörg og það er sannarlega ekki hægt að gefa eina uppskrift af því hvers við þurfum með. Tvennt fannst mér þó athyglisvert á þann hátt að það gæti virkað sem ágætis byrjun.
1. SLEPPTU ÞVÍ BARA AÐ LESA SJÁLFSHJÁLPARBÆKUR OG GREINAR UM ÞAÐ HVERNIG Á AÐ EINFALDA LÍFIÐ. Það er mun árangursríka að slaka svolítið á, horfa inn á við og skoða hvort við raunverulega þurfum á því að halda og þá hvernig. Í leiðinni getur verið gott að muna að við erum yfirleitt bæði snjallari og betri en við sjálf trúum.
2. FINNDU Á HVERJUM DEGI EITTHVAÐ EITT SEM GÆTI VERIÐ HJÁLPLEGT AÐ LOSA SIG VIÐ.Gæti verið postulínsskál sem þú erfðir eftir Siggu frænku en hefur aldrei þótt falleg, áhyggjur af ókomnum atburðum eða ósamstæðir sokkar. Jógatímarnir sem þú nærð ekki sambandi við…eða bara útrunnin sulta úr ísskápnum. Það er ekki gott að burðast með meiri farangur en nauðsynlegt er.
Góðar stundir og gangi ykkur vel.
Upphaflega skrifað fyrir gönguhópinn „gengið gegn streitu”.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s