FARÐU ÚT!

IMG_8840Mér hefur, eins og svo mörgum öðrum alltaf fundist gott að vera úti í náttúrunni, ganga, horfa, hlusta og skynja. Ég er hinsvegar ekkert sérlega dugleg við að ganga á fjöll, það hentar mér ekki sérlega vel að hlaupa og mín útivera var aldrei neitt sérlega mikið „keppnis”. Ég var því ekki alveg að upplifa að mínar léttu göngur og mín náttúruskoðun væri nein sérstök heilsubót, en eyddi hinsvegar mörgum árum í að leita að hinni „réttu” líkamsrækt í hinum ýmsu líkamsræktarstöðvum. Það er fátt sem ég ekki hef prófað en fæst hefur mér þótt skemmtilegt nema þá helst að dansa. En ég var dugleg við að styrkja líkamsræktarstöðvar með því að kaupa af þeim áskriftarkort sem ekki voru notuð nema í örfá skipti.

Árið 2016 var sérkennilegt ár í mínu lífi þar sem ég veiktist illa af sjúklegri streitu, kulnun og örmögnun en það var líka árið sem við hjónin eignuðumst hund og ég fór að hreyfa mig úti með hundinum hvern einasta dag burtséð frá veðri, vindum, skapi, dagsformi eða neinu því öðru sem oft hafði komið í veg fyrir markvissa útiveru. Ég get auðvitað ekki sagt að útiveran hafi læknað mig af mínum veikindum en ekki get ég ímyndað mér hvernig líðan mín, líkamlegt og andlegt ástand væri hefði hennar ekki notið við. Í dag á ég kraftgalla, allskonar mannbrodda, skíðagleraugu, sólgleraugu, gönguskó….allt sem þarf til að þurfa sem sjaldnast að sleppa því að fara út að ganga.

Ég fór því að lesa mér til, kynna mér rannsóknir og skoða niðurstöður því að þótt okkur þyki kannski ekkert eðlilegra en að það sé hollt að vera úti og hreyfa sig þá vildi ég kafa dýpra og kanna t.d. áhrif á streituhormón og sjá hvað vísindin hefðu fram að færa varðandi náttúruna og áhrif hennar á streitu.

Í stuttu máli þá styðja rannsóknir sannarlega það að útivera og t.d. göngur í náttúrunni eða á grænum svæðum, getur mildað áhrif álags og streitu á líf okkar. Ekki einungis að slík svæði hvetji til líkamsræktar og félagslegrar virkni sem út af fyrir sig virkar vel gegn streituáhrifum heldur hefur útivistin ein og sér slakandi áhrif.

Jafnvel stutt heimsókn í almenningsgarð eða á grænt svæði innan borgarmarka dugar til að lækka cortisol í munnvatni en cortisol er hormón sem hækkar í streituástandi. Þessi áhrif eru óháð því hvernig og hvort fólk er að stunda líkamsrækt eða nútvitund í útiverunni. Hvers vegna skyldi þetta vera?

Ósnortin náttúruleg svæði virka mjög vel fyrir marga og einvera í náttúrunni er oft notuð til að sækja sér hugarró og íhugun. Frumbyggjar Norður Ameríku eiga sér hefð sem byggist á einveru, ferð í óbyggðir í nokkra daga þar sem samskiptin eru eingöngu við náttúruna sjálfa og eiga sér þann tilgang að endurmeta forgangsröðun, markmið og eigin stöðu í stóru samhengi. Við göngum Jakobsveginn, förum í óbyggðaferðir ofl. í sama tilgangi.

En við þurfum ekki að vera í fantaformi, hlaupa á fjöll eða hjóla til Dalvíkur til að fá fram þessi jákvæðu slakandi áhrif. Útiveran ein og sér er nægjanleg. Rannsóknir sýna að jákvæð tilfinningaleg og vitræn áhrif fást með nálægum grænum svæðum s.s. görðum en ekki einungis ósnortinni náttúru. Jafnvel það að sjá náttúruna út um glugga getur hjálpað til. Græn planta í sjúkrastofu hefur sýnt sig að hafa jákvæð áhrif á andlega líðan sjúklinga. Hver hefur ekki setið á þúfu í berjamó og fundið þessi jákvæðu áhrif bara við það að sitja og njóta útiverunnar?

Græn svæði hafa ekki einungis áhrif á streitu og andlega þreytu í augnablikinu en virðast yfir lengri tíma byggja upp aukið þol gegn áhrifum streituvalda í lífinu s.s sorg og meiri háttar áföllum s.s. að greinast með krabbamein. Sænskar rannsóknir sýna að dagleg umgengni við náttúruna bætir geðheilsu og athygli þegar bregðast þarf við slíkum áföllum. Að njóta lífsins á grænum svæðum eykur hamingju, styður við íhugun, hjálpar til að bregðast við áföllum og verndar gegn streituáhrifum. Þegar ekki er hægt að fara út fyrir bæjar- eða borgarmörkin er nauðsynlegt að hafa aðgengi að almenningsgarði eða grænum svæðum. Því fleiri slíka garða sem hægt er að mynda á auðum svæðum borga, því minni streita íbúanna. Því er mjög mikilvægt að vernda græn svæði.

Tré og sérstaklega sígræn tré, virðast hafa sín eigin sérstöku áhrif á streitu og heilsufar og hefur það verið rannsakað heilmikið líka. Að baða sig í skógi heitir á japönsku „Shinrin-yoku” og á rætur sínar að rekja til þess að borgarbúar í hinu þéttbýla Japan fundu vaxandi þörf til að leita kyrrðar og slökunar í skógum landsins. Skógarbað snýst um að ganga hægt um skóglendi og taka inn umhverfið með allri skynjun og að njóta þess sem það gefur.

Fyrirbærið hefur verið rannsakað mikið og hafa niðurstöður verið mjög samhljóma um jákvæð áhrif. Heilsubótin sem felst í því að vera innan um tré virðist að mestu snúast um tvennt sem hefur bein áhrif á líkamlega líðan. Hærra magn súrefnis í andrúmslofti skógarins, miðað við borgarloftið og svo návist efna sem kallast phytoncides, náttúrulegar olíur sem eru hluti af varnarkerfi trjáa gegn sýklum, skordýrum og sveppum. Návist við þessi efni getur haft mælanleg áhrif á menn. Um er að ræða áhrif sem draga úr streituviðbrögðum s.s. að bæði blóðþrýstingur og hjartsláttur lækka. Sígræn tré s.s. fura, framleiða mest af phytoncidum þannig að þar ættu mestu áhrifin að finnast.

Þetta voru þannig hinar hörðu staðreyndir og vísindalegu niðurstöður sem sanna okkur að það að vera úti í náttúrunni og njóta þess sem hún hefur upp á að bjóða lækkar þau neikvæðu streituáhrif sem of mikið álag hefur í för með sér.

En hvað með dulúðina? Hvaða segja trúarbrögðin, tilfinningarnar, ljóðin, sögurnar myrkrið og ljósið í lífi okkar. Jú vísindin gera kannski ekki annað en setja stimpilinn sinn á það sem mannkynið hefur alltaf vitað um náttúruna.Við höfum t.d. öll farið í skógarbað, við höfum bara kannski ekki kallað það því nafni.

Við höfum áreiðanlega gengið í skógi eða innan um trjágróður og notað þar öll skilningarvit. Hlustað, lyktað, snert og horft á náttúruna. Andað að okkur ilmi skógarins og notað hann til að vekja gleði og frið.

Það þarf ekki að flýta sér í skóginum því að að skógurinn flýtir sér aldrei. Tré vaxa hægt og þau hafa nógan tíma. Það gildir reyndar um alla útivist, það er allt í lagi að ganga stundum rösklega en það er líka mikilvægt að gefa sér tíma til að njóta þess að upplifa það sem náttúran er að miðla til okkar.

Það má gera gera núvitundaræfingar, taka hlé til að teygja eða gera öndunaræfingar.Taka með sér nesti og svo má yrkja ljóð, skoða plöntur og fugla, ýmist einn eða með öðrum.

Lærðu að meta hljóðin í skóginum, þau róa og lækna. Þytur í trjám og laufi, lækjarniður, fuglasöngur. Stundum bara þögnin ein. Það þarf ekki að gera neitt nema sitja og hlusta á þögnina. Að tengjast náttúrunni minnir okkur á að við erum hluti af stærri heild og allsstaðar í kringum okkur er eitthvað sem andar og lifir.

Sá sem dvelur úti í náttúrunni lærir af árstíðunum að lífið er hringrás og jafnvel þegar stórhríðin geisar úti og lauftrén hafa fellt blöðin sín, vitum við að það mun vora á ný og lífið mun kvikna. Alveg eins og við vitum innst inni þegar lífið færir okkur erfiðleika að þeim mun ljúka. Tré sem sveigist í veðrum og vindum stendur samt traust. Þau þurfa, eins og við, að næra ræturnar sínar, styrkja stofninn og teygja sig upp í ljósið.

Náttúran minnir okkur á það sem er okkur æðra og meira, bæði í okkur sjálfum og lífinu. Náttúran er í senn bæði stöðug og óvænt. Hún kennir okkur hversu fátt við vitum og hversu margt okkur er ekki ætlað að vita. Náttúran getur kennt okkur að við þurfum ekki að skilja allt í kringum okkur, stundum skiptir miklu máli bara að kunna að meðtaka og upplifa. Takist okkur þetta þá erum við líka miklu sterkari í baráttunni við streituna, hraðann og álagið sem herjar á okkur öll.

Ætlað sem fyrirlestur í Glerárkirkju þann 13.febrúar 2020. Vegna veikinda sendi ég ykkur þessar hugleiðingar héðan af Sjúkrahúsinu á Akureyri og með þeim bestu kveðjur.

One thought on “FARÐU ÚT!

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s