Afmælisbær dagsins á sér bæði bakhlið og framhlið eins og flestir þéttbýlisstaðir veraldarinnar. Þetta gildir bæði um mannvirki, gróður og mannlíf eins og gefur að skilja en framhlið Akureyrar er sannarlega falleg, -gróðursæl, umkringd fallegum fjallahring . Hún býr við veðursæld blessunin og oftast friðsæld líka og þó stundum sé þráttað þá berast íbúarnir allavega ekki á banaspjótum. Það þykir mun betri tómstundaiðja að þvo bílinn sinn eða slá lóðina en að vera með vesen.
Mér þykir undurvænt um Akureyrina mína jafnvel þótt bakhliðin hennar sé ekki alveg jafn fögur og framhiðin. Hún er svolítið svona snobbuð maddama Akureyri á köflum enda borðaði hún danskar napóleonskökur á uppvaxtarárunum og hýsti garðveislur með fínu fólki. Hún á alvöru lystigarð og leikhús jafnvel þótt KEA, Amaró og SÍS heyri nú sögunni til.
Í mínum huga táknar Akureyrin eitthvað sem er stærra en ég,- framvindu tilverunnar. Hér bjó fólkið mitt löngu fyrir minn dag og hér verður áfram lifað og starfað. Hér eru göturnar sem langafi og langamma gengu og það gefur einhvern vegin öryggi og ró í sinnið að Vaðlaheiðin skuli enn brosa við okkur yfir Pollinn, hvernig sem veröldin veltist.
Við skulum allavega fara vel með hina bústnu maddömu, fegra hana eftir föngum en ganga ekki fram af henni með offorsi í breytingum. Gamlar maddömur þurfa umþóttunartíma.
Til hamingju fóstra mín, mun halda áfram að mæta í afmælisboðin þín.
