Sjúkrahúsminning

Á tímum þar sem endalaus og (oft innistæðulaus) jákvæðni er dyggð þá deili ég með ykkur hugsunum sem komu upp um það að liggja lengi á sjúkrahúsi, gjössovel (tek það fram að ég er heima núna í bataferli):

vintage photo of hospital patient with visitor

Það er fátt einmanalegra en að liggja á sjúkrahúsi
Að liggja í rúmi sem er ekki þitt, á dýnu sem hefur ekki lagað sig að líkama þínum heldur er sérstaklega framleidd til að laga sig ekki að neinum einum.
Í rúmi og á dýnu og með sæng og kodda sem ekki þekkja þína vöðva, þína hryggjarliði, þína drauma og þinn veruleika. Í hvítu líni sem er merkt spítalanum, (eins og þér dytti í hug að ræna þér gatslitnum sjúkrahússængurverum. )

Starfsfólk sem er þér vænt og vill þér eflaust vel en stéttaskiptingin er skýr,- þau eru starfsmenn, þú ert sjúklingur. Þau eru hraust og ilma vel, nýkomin úr sturtunni, hress og dugleg og það sem meira er,- þau geta farið inn á vaktina og rætt um þig, haft á þér álit og skoðanir algjörlega án þinnar þáttöku. Þú liggur bara í hvítu ljótu nærfötunum í ókunna rúminu, þú með þínar slöngur og dren,- það er ekki góð lykt af þér og þú getur ekki skrifað þína eigin sjúkraskýrslu. Það gera aðrir.
Starfsmaður sem pirrast nett yfir bjölluhringinum að nóttu þegar þú þarft að pissa einum of oft, – lætur pirringinn smita yfir í sjúkraskýrsluna og þar má nú lesa að þú nennir ekki alveg að gera sjálfur,- að þú sért ekki að leggja nógu mikið á þig?
Þegar allt sem þú þráir er að komast út og heim og verða aftur manneskja en ekki bara skrokkur í hnausþykkum bómullarnærfötum með óklipptar táneglur. Þú bara getur ekki betur.

Læknirinn sem kemur og stendur brosandi við rúmstokkinn, fullur af bjartsýni og faglegum ákafa,- honum er varla hægt að segja hvernig þér líður. Það myndi kannski rýra traustið og álitið á þér sem sjúklingi ef þú segðir honum að þú sért bæði hrædd og einmana.
Þú ætlaðir ekkert að lenda þarna, þú ætlaðir ekki að gráta, þú ætlaðir ekki að upplifa allan þennan sársauka og óttast að deyja.

Næturnar þegar þú iðar af sársauka sem ekkert linar og ef þú nærð að sofna dreymir þig að þú sért að kafna,- eða drukkna. Morfínlyfin hafa þau áhrif í þínu tilfelli. Langar, langar nætur með heimþrá og tíma sem líður óendanlega hægt.

En svo er hjúkrunarfræðingurinn sem sér þig gráta og býðst til að þvo á þér hárið í rúminu og gerir það af þvílíkri natni og elskusemi að sálin nærist ekki síður en hárið. Og sú sem situr á rúmstokknum og hlustar á söguna þína,- og sú sem heldur í höndina þína með hanskaklæddri sinni á meðan þú ert svæfð enn einu sinni,- og segir þér að hugsa fallegar hugsanir inn í svæfinguna. Og svo er læknirinn sem sem veit hvernig þér líður og finnst það eftir allt saman bæði eðlilegt og sjálfsagt að þú sért hrædd og döpur.
Þetta fólk og margir fleiri létta þér sannarlega þessa skrýtnu daga sem voru sannarlega ekki á planinu þínu.

Vinir og vandamenn gera auðvitað sitt, senda kveðjur, rafræna kossa, hjörtu og batakveðjur sem gleðja, húrra fyrir Internetinu. Ekki er víst fyrir að án þess hefðu allir sest niður og skrifað mér bréf eða haft fyrir því að koma í heimsókn, – og þú skrollar og skrollar,- þumalfingur í stanslausri æfingu. Verra er að geta litlu svarað, orkan leyfir ekki meira en að senda hjarta til baka. Það litla hjarta er fullt af þakklæti.

Meira að segja þínir nánustu sem koma daglega eru ekki innvígðir,- þeir eru gestir og maður kvartar ekki og kveinar þegar gestir koma í heimsókn. Hvernig í ósköpunum ættu þeira að skilja það sem þinn kollur berst við af hugsunum á dögum sem ætla aldrei að líða. Þannig á það líka að vera, þú ert lasin og þitt er að takast á við lífið þitt. Það þýðir þó ekki að mikilvægi þessa einstaka og takmarkalausa stuðnings sé minna,- það er meira en mikið.

Þú átt að vera læknavísindunum og heilbrigðiskerfinu þakklát, það er alls ekki víst að þú hefðir fengið líkn og lækningu í öðrum heimshlutum. Og þú ert þakklát, reynir að sýna það, stundum tekst það en stundum verðurðu bara tárvot frekjudós,- af því að sálin er lítil og aum. Stjórnin var tekin af þér og þú ert að reyna að hafa stjórn á því litla sem þú getur.

Þú lærir og lærir, miklu meira en þú vildir en það er samt dýrmætur lærdómur.

One thought on “Sjúkrahúsminning

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s