Amma Don

Erindi flutt á hádegisfundi Zontaklúbbsins Þórunn Hyrna, Zontaklúbbs Akureyrar og Soroptomistaklúbbs Akureyrar á baráttudegi kvenna þ.8.mars 2025.

Amma Don. Hver eða hvað er nú það?

Jú í aðdraganda þessa fyrirlestrar gerði ég það sem stundum getur verið góður grunnur fyrir hugmyndastorm og það er að nota mér google. Ég var með eldri konur í huga svo að ég sló inn orðið amma. Upp rúlluðu allskyns handavinnu og uppskriftasíður sem ég ýtti hratt og örugglega út af borðinu en líka eitt sem greip athygli mína: Eitthvað sem kallaðist Amma Don. Það hljómaði mun meira spennandi. Samkvæmt orðabókum er Don einhver sem er í forsvari,aðalsmaður, virðingarverður einstaklingur, guðfaðir, Var amma Don kannski guðamma? Herra amma?  Og við nánari skoðun fann ég meira um þetta fyrirbæri.

Amma Don er nefnilega svokallaður speakeasy kokteilbar og hugarfóstur eigenda sinna og hönnuða. 

Staðurinn er staðsettur í dularfullum kjallara einhversstaðar í miðbæ Reykjavíkur og er hannaður sem heimili vel stæðrar sjómannsfrúar utan af landi, -frúar sem veitir vel af göróttum drykkjum og hristir margan kokkteilinn. 

Skemmtilegt og áhugavert svo langt sem það nær en nafnið samt skemmtilegast. Það býður allavega upp á nýja nálgun á orðinu amma.

Mitt líflega hugmyndaflug bætti svo við upplýsingarnar og gerði sjómannsfrúna að dulargerfi fyrir annarskonar ömmu. Mín kona á að vera dularfull, spennandi og hættuleg. Amma Don sem vinnur kokkteilakeppnir og yfirheyrir glæpona í bakherbergjum. Með blátt hár og svarta bandið í karate. 

Ég ber sjálf heiðursheitið amma bráðum 8 barna, er 61 árs og villi víst aldeilis ekki á mér heimildir. Hristi hvorki kokkteila eða dusta til bófa þótt ég gæti alveg hugsað mér það stundum. Mér er bara yfirleitt of illt í bakinu fyrir svoleiðis. 

Ég þarf samt að minna mig á það reglulega að ég telst til eldri kvenna því mér líður innra með mér eins og ég gæti alveg verið mafíósi, sjóræningi eða njósnari. Sjálfið í mér er langt á eftir líkamanum í aldri og á jafnvel til að bregða sér á barnsaldur eða gerast unglingur í uppreisn. En líkaminn er kominn á sjötugsaldur sem er reyndar hluti af afar leiðinlegri málvenju sem leiðir til þess að íslendingar eldast miklu hraðar en flestar þjóðir  Á ensku væri ég “in my sixties” eða sextíu plús og mér finnst eiginlega löngu tímabært að breyta þessu þunglyndisrausi um að kenna okkur við næsta tug ofan við okkur. Vera sanngjörn við okkur sjálf?

En mér dylst mér það auðvitað ekki þegar ég lít í spegil hversu mörg árin mín eru og alls ekki þegar ég átta mig á öllu sem mér finnst vera nýskeð og rétt hinum megin við hornið. Ericson skífusímar, bílar með vélina aftur í, svarthvítt sjónvarp kalt stríð og lambahryggur í hádeginu á sunnudögum. Þetta var sko ekkert í gær heldur eru liðnir nokkuð margir áratugir síðan. Já og svo á ég son sem samkvæmt íslenskri málvenju kemst fljótlega á fimmtugsaldur. 

Aldur er vissulega afstæður og mömmu finnst ég hálfgert barn svona stundum allavega en sex ára sonarsyni finnst ég “næstum því rosalega gömul”. 

Í hinum vestræna heimi ríkir æskudýrkun og sérstaklega hvað varðar konur og kvár. Það fer konum þannig ekki jafn vel að eldast og körlum, það er nú hið tvöfalda siðgæði í túlkun samfélagsins á ellinni. Karlmenn verða myndarlegir silfurrefir án fyrirhafnar en konur oft voða tuskulegar ef þær gera ekki eitthvað í málunum. 

Þessi tvöfeldni leggur sumsé meiri kröfur um æskuljóma og unglegt útlit á konur en karla. Bótox, lýtalækningar, hormón, við leggjum ýmislegt a okkur enda kannski ekkert skrítið. Tvöfalt viðhorf samfélags leiðir líka til mismunandi erkitýpa eða stereótýpa. Eldri menn eru vitrir, þroskaðir, reyndir, kraftmiklir,  og valdamiklir leiðtogar. Eldri konur eru viðkvæmar, þrjóskar, veikbyggðar, kjánalegar,illa að sér, ósjálfbjarga og bara einfaldlega gamlar. Feðraveldið passar upp á ímyndina.  En ímynd sem er mikilvægt að leiðrétta því hún endurspeglar ekki raunveruleikann.

Við erum að glíma við innrætingu sem leggur útlit og æsku, það að vera sæt, að jöfnu við virði okkar í samfélaginu. Allt frá bernsku.

Þessi ofuráhersla á fegurð og unglegt útlit er okkur óholl og tekur toll af andlegri heilsu og tilfinningum. Konur fá að heyra opinskátt og óbeint að gildi þeirra liggi mikið til í útlitinu. Og þegar við eldumst og útlitið fjarlægist staðalímyndina er það stöðug áminning að við séum ekki mikils virði sem konur í hinu þjóðfélagslega auga.

Sjálf Oprah Winfrey sem er 71 árs gömul segir: „Við lifum í menningu sem er heltekin af æskudýrkun og reynir sífellt að telja okkur trú um að ef við séum ekki ung, ljómandi og kynþokkafull, þá skiptum við ekki máli. Ég neita að láta kerfi eða menningu eða afbakaða sýn á raunveruleikann segja mér að ég skipti ekki máli. Ég veit að aðeins með því að gangast við því hver og hvað ég er get ég lifað til fulls .Sérhvert ár ætti að kenna okkur eitthvað dýrmætt en hvort við lærum eitthvað er undir okkur sjálfum komið”.  Nú er Oprah blessunin reyndar kona sem fer í einkaflugvél á milli borga til að láta græja á sér augabrúnirnar,-sem ef það er satt, dregur aðeins úr þessu með að gangast við sér, en það er samt óendanlega mikilvægt að konur með svo sterka rödd eins og hún fjalli um það hvernig það er að vera kona sem eldist.

Við erum ekki allar Vera Vang sem betur fer og höfum líklega ekki allar áhuga  á því að kaupa unglegra útlit. En vissulega eru eðlileg einkenni þess að eldast fleiri en bara útlitsleg.

Ég tala fyrir mig þegar ég segi að allskyns hlutir breytast með aldrinum.Liðnar eru tjaldútilegur æsku minnar, fötin mega ekki þrengja að mér og spangir í brjóstahöldum eða támjóir skór eru úti, stólar þurfa að styðja við bakið og tónleikar þurfa helst að vera síðdegis en ekki að kvöldi. Já og letrið í símanum og á matseðlunum má ekki vera smátt. Og hausinn á mér þarf að venjast  öllum þessum nýju kröfum sem fylgja 62ja ára líkama með gigtarsjúkdóm og aukna kvíðatilhneigingu. Og í þeim haus, býr í ofanálag hugur sem hefur hingað til ferðast með athyglisbrest og töluverða ofvirkni í farteskinu. Hugur sem hefur alltaf verið á hörkuflugi og er alls ekki tilbúinn til að hægja á. Þetta vill stundum verða hörð barátta um að leyfa huganum að fara hratt en draga úr því að líkaminn fylgi jafnhratt á eftir. Enda dett ég óeðlilega oft. 

Ekkert af þessu gerir mig samt veikbyggða, ósjálfbjarga eða kjánalega. 

Það kjarnar kannski frekar það sem ég trúi að sé okkur mikilvægara en flest:

Sumsé það að vera sveigjanleg og mæta því sem lífið kýs að henda í okkur með eins mikilli mýkt og af eins miklilli sátt og okkur er unnt.  Líka því að eldast.

Á mínum aldri er kominn tími til að gangast við mér eins og ég er, þar hittir Oprah Winfrey naglann á höfuðið. Og hver er ég?  Ég er fullkomlega ófullkomin sem betur fer enda er bæði óhollt og leiðinlegt að reyna að vera fullkomin og ég er búin að segja upp því starfi enda var ég ekkert góð í því. Og ég er heldur ekkert góð við sjálfa mig þegar fullkomnunaráráttan tekur yfir.  Vissulega hefði ég stundum viljað gera meira og betur, sumt kom lífið í veg fyrir og sumt var aldrei tími til að gera en ég var aldrei löt. Ég var kannski lasin, þreytt eða áhugalaus en aldrei löt. Reyndar veit ég ekki hvað orðið þýðir ef ég á að vera fullkomlega hreinskilin. 

Við erum hinsvegar kynslóð duglegra kvenna. Við trúðum því að lata stelpan hafi fengið sína refsingu og letin jafngildi ómennsku og það hlýtur að vera afar slæmt að glata mennskunni sinni. Letin er talin ein af dauðasyndunum sjö og það að láta eftir sér leti verður til þess að við njótum ekki náðar guðs. Ekki er nú undarlegt að foreldrum okkar hafi verið mikið í mun að við yrðum ekki latar, heldur duglegar.

Dugnaður er annað hugtak sem er ótrúlega loðið og illa skilgreint þrátt fyrir að þessu hugtaki hafi verið mikið hampað og sé oft talið vera upphaf allrar velgengni og hamingju í tilverunni. Reyndar er dugnaður ekki ein af höfuðdyggðunum kannski sem betur fer en þó mætti halda það, miðað við hversu mikils metinn dugnaður er í íslensku samfélagi. Þó getur dugnaður úr hófi fram verið ákaflega hættulegur því þótt að það sé töff og kúl að þurfa ekki að sofa eða hvíla sig þá er það yfirleitt slæmt fyrir heilsuna og jafnvel banvænt. Okkur er því nokkur vandi á höndum að finna meðalveg á milli þessarar miklu syndar, letinnar, sem virðist búa innra með okkur öllum ásamt græðginni, öfundinni, drambinu og öllum þeim systrum, og svo hins gulli slegna og eftirsóknarverða titils, -að vera duglegar.

Þetta getur átt sér sögulegar skýringar, það var jú sérlega gott að búa til höfuðsynd úr letinni þegar konur voru  undirsátar eins og þrælar eða húsdýr og líklega eimir af því enn. Það voru karlmenn og helst höfðingjar sem gátu notið þess munaðar að láta eftir sér letina en ekki konur. Konur sem lásu bækur í stað þess að vinna, -voru latar. Og við erum enn að berja á okkur fyrir leti. Maðurinn minn var orðinn ákaflega þreyttur á togstreitunni innra með konunni sinni sem þrátt fyrir að hafa örmagnast sökum álags, var enn að sveiflast á milli þess að vera löt eða dugleg, hann tók af skarið og bannaði þessi tvö orð á okkar heimili. Sem var besta og skynsamlegasta bann sem ég hef orðið fyrir á ævinni. Ennþá þarf hann reyndar af og til að minna á bannið því að það er svo vandlega inngróið að vera ýmist löt eða dugleg, að vera allt eða ekkert. En margar gengnar kynslóðir hvísla enn þessum öfgum í eyrun á okkur, með ágætum árangri.

Og mitt í innrætingunni um að vera sæt og dugleg , varð það augljóslega útundan að kenna okkur að þykja vænt um okkur sjálfar og sýna okkur góðmennsku og mildi. Það gleymdist alveg að kenna okkur mikilvægi þess að klappa okkur sjálfum á öxlina, að hvetja okkur sjálfar, sýna mistökum okkar skilning og hugsa til okkar af ástúð. Því var ruglað saman við sjálfselsku (sem var bannað) og við gátum jafnvel haldið að við værum „eitthvað“ sem var (og er kannski enn) líka bannað.  

En við erum sannarlega eitthvað og ekki hvað síst þegar árin og lífið hafa tuskað okkur til. Og við höfum örugglega lært helling. Ömmur heyja ekki styrjaldir, ömmur selja ekki Teslur en ömmur eru sterkar og ráðagóðar og ættu að sitja í öllum ríkisstjórnum því þá myndi ekki gleymast að gera ráð fyrir litlum börnum og gömlu fólki í heiminum. Sem skiptir afar miklu máli. Heiti þessa erindis vísar einmitt til þess að ömmur samfélags, geti verið afl sem borgar sig að virða og jafnvel óttast smávegis. Amma Don.  Nýja staðalímyndin,-kona sem stendur stolt með sjálfri sér á efri árum og dettur ekki í hug að hún eigi að vera öðruvísi en hún er. Hún er eftirsóknarverð fyrirmynd fyrir ungar konur.

Kirsten Neff einn fremsti núlifandi fræðimaður í sjálfsmildi eða self compassion hefur þróað hugtakið lengra og skrifar um kraftmikla sjálfsmildi eða fierce self compassion með konur sérstaklega í huga. Kraftmikil sjálfsmildi hefur þannig til að bera góðmennsku og samkennd í eigin garð en hún setur mörk og stendur með sjálfri sér af krafti og öryggi. Það er harka í mýktinni. 

Eiginleikar sem eru konum nauðsynlegir í eigin garð og við getum líka speglað til annara. 

Amma Don.  

Hún er góð og eftirlát við barnabörnin en hörkutöff við þá sem abbast upp á hana, þá sem halda að það sé hægt að svindla á henni eða lítilsvirða hana. Og þeir sem halda að hún sé við kjáni,  þeir fá að kynnast allt öðru. Hún bakar pönnukökur eða bara alls ekki, kann að hekla eða bara alls ekki en hún er sátt við að vera hún sjálf. Hún sýnir sér sjálfsmildi en mörkin hennar eru skýr þegar hún ver þá sem minna mega sín og málstað sem hún trúir á. Kannski hún ekki mafíósi, líklega sem betur fer,  en samt svolítið spennandi og örlítið hættuleg. Það er amma sem ég vil líkjast, það er amma Don. 

Enn og aftur áramót

Ég settist niður með þá fyrirætlan að skrifa pistil um áramót. Þið vitið, svona pistil um nýtt upphaf, væntingar til nýs árs, að stíga á stokk og allt sem fylgir því að kveðja gamla árið og hefja það nýja. Ég komst að því eftir svolitla umhugsun að þetta plan væri ekki sérlega efnilegt.  Líklega get ég alls ekki skrifað sannfærandi pistil um áramót eða þýðingu þeirra og ástæðurnar fyrir því fara hér á eftir.

Áramót hafa nefnilega með tímanum misst sjarmann í mínum augum, þau eiginlega hafa ekki mikið meira gildi fyrir mig en gott laugardagskvöld og trúið mér, laugardagskvöld í mínu lífi eru ótrúlega óspennandi.  Ég fór þannig Bónus í dag og þótt ég hafi vissulega keypt snakkpoka og vogadýfu til að hafa með skaupinu, þá var það bara af gömlum vana og ég keypti hvorki hatta né glimmer. Ég kaupi ekki flugelda og hvorki eru bornar fram búblur eða hanastél í „partýinu“ hjá okkur.  Reyndar á ég eina dvergvaxna freyðivínsflösku ef einhver skyldi hreyfa háværum mótmælum við þessari skömm en líklega fær flaskan að rykfalla í skápnum eitthvað áfram. Vert er að geta þess að ég var næstum því búin að tala hér um flögur en ekki snakk, en hef sem betur fer verið leiðrétt hvað það varðar því barnabörnunum finnst ótrúlega fyndið þegar amma talar um flögur.

Þegar ég var lítil voru áramótin spennandi og ég hlakkaði mikið til þeirra. Það var hvellhettulykt  í loftinu á milli jóla og nýárs, allt öðruvísi stemmning en hátíðleiki jólanna og flugeldarnir höfðu ómótstæðilegt aðdráttarafl, jafnvel þótt að flugeldar þeirra ára væru eins og svo margt annað lágstemmdari upplifun en núna. Væntingarnar voru miklu minni og það þurfti minna til að vekja tilhlökkun. Pabbi eða afi negldu svokallaða „sól“ á skíðasleðann okkar, þar snerist hún á ofurhraða og lýsti upp myrkrið eins og fyrir töfra. Stjörnublys og handblys voru keypt handa okkur krökkunum og svo var spennan gífurleg þegar fullorðnir ofurhugar fjölskyldunnar kveiktu í einni eða tveimur litlum rakettum sem tóku glaðlegt flug þegar allt gekk vel. Útvarpið úr eldhúsinu var sett út á tröppur þannig að hlusta mætti á „Nú árið er liðið“ við flugeldaundirleik og svo fengu allir heitt súkkulaði í byrjun nýs árs. Við brugðum blysum á loft og bleika lýstum grund (með rauðu blysunum).

Seinna eða árið sem við urðum þrettán ára varð spennandi að fara á „Gaggaball“ á gamlárskvöld og það entist okkur í þrjú ár.  Væntingar okkar voru líklega beintengdar hormónunum sem stjórnuðu lífinu á þeim aldri. Á Gaggaböllum voru jú sætir strákar, frítt spil að kyssa hvern sem er á miðnætti og svo allskonar sem ekki verður rætt hvorki hér né annarsstaðar.  Þetta var á áttunda áratug síðustu aldar sumsé.

Þarna var samt hápunktinum náð. Eða að minnsta kosti man ég ekki eftir mikilli spennu fyrir áramótunum eftir 16 ára aldur. Ég varð ung móðir á mælikvarða nútímans og eftir það var ég annað hvort að vinna á gamlárskvöld, eða heima með minni litlu fjölskyldu. Að vísu er mér farið eins og öðrum gamlingjum að ég man betur það sem gerðist í fyrndinni og því ekki útilokað að ég hafi gleymt einhverju bitastæðu síðari ára, eða segi bara alls ekki frá því. Hvorki hér né annarsstaðar.

Nú snúast áramótin um að eiga notalegt kvöld með þeim sem mér þykir vænst um, horfa á skaupið og kúra með hundinum á meðan hann dauðhræddur þraukar sína árlegu skelfingu. Við höfum flúið með hann í sumarbústað eða sent hann með góðu fólki í sömu stöðu og við höfum meira að segja sofið af okkur áramótin, hjónin og hundurinn. Við höfum verið í útlöndum í sól og hita og þessi áramót ætlum við að fara út að borða.  En ferfætlingurinn, okkar trúfasti og góði félagi á það svo sannarlega inni hjá okkur að við gerum allt til að létta honum lífið um áramót þannig að hann er settur í forgang.

Áramótin, eins og flest annað í lífinu,  snúast nefnilega um væntingastjórnun. Hvers vænti ég af lífinu, hvers vænti ég af sjálfri mér, hvers vænti ég af gleðistundum? Lífið er fullt af tilviljunum og atburðarrás sem ég hvorki get séð fyrir eða haft nokkra stjórn á. Það er því ávísun á kvíða og vanlíðan að halda krampakennt í stjórntaumana. Stjórntauma sem felast t.d. í því að leggja ofuráherslu á að hlutir séu fyrirsjáanlegir og alltaf eins. Það getur falist í því að vilja alltaf hafa sama matinn, sömu hefðirnar og nota sömu uppskriftina af því hvað telst vera „gaman“.  Það „eiga“ að vera rjúpur eins og hjá mömmu, það á að fá sér rauðvín með steikinni, það á að djamma á gamlárskvöld. En það eru bara ekki alltaf hægt að fara á flugeldasýningar og það veiðast ekki alltaf rjúpur. Sem er líka bara frábært því að þá fáum við tækifæri til að upplifa nýjar útgáfur af áramótum, nýjar bragðtegundir í lífið, nýjar hefðir í safnið sem fyrir er. 

Það að hafa þjálfað upp sveigjanleika gagnvart tilveruni er líka hjálplegt þegar að því kemur að við erum tilneydd til að hugsa hlutina upp á nýtt, og að því kemur hjá okkur öllum.

Kannski er það bara þetta sem ég vil taka mér inn í nýtt ár og á móti hækkandi sól. Að halda áfram að æfa mig í sveigjanleika og læra þannig að tileinka mér nýjar og góðar venjur.

Gaggaböllin eru líka liðin undir lok og eins gott að finna eitthvað sem er að minnsta kosti jafn gott og þau.

Eigið góð áramót að eigin smekk gott fólk og megi nýja árið verða sólríkt og hlýtt.

Það eru ekki alltaf jólin!

Það kemur líka janúar.

Það er gjarna haft á orði þegar okkur gengur ekki vel eða við lendum í einhverskonar hremmingum, að það séu ekki alltaf jól. Við verðum til dæmis mjög svo meðvituð um þennan sannleik í janúar þegar hversdagsleikinn kemur askvaðandi í kjölfar hátíðanna, svona eins og Soffía frænka í Kardimommubænum og minnir okkur á að gleðinni sé lokið að sinni. Enginn árstími býður upp á jafn harkaleg umskipti eins og janúar.  Ljósin og skrautið eru tekin niður, sparifötin sett inn í skáp og mataræðið dettur snögglega í hversdagslega hollustu. Eins og þetta sé ekki nóg, þá hætta samskiptamiðlarnir að bjóða upp á ljúfar myndir af logndrífum, heitu súkkulaði og arineldum og glaðleg jólatónlistin þagnar.  OG það er ennþá dimmt hér á norðurhveli,- dimmt þegar við vöknum og dimmt þegar við komum heim úr vinnunni. Engir frídagar í janúar, bara hversdagsleiki a.m.k. til bóndadags.

Við hjónin höfum eytt frístundum frá jólum í að leita okkur að nýju salerni, hvað er meira viðeigandi í þessum mánuði móralskra timburmanna? Við erum orðin sérfróð í skolbrúnum, vatnsnotkun, s og p stútum og setum, -mjúkum, hörðum, hæglokandi eða kúptum. Fyrir utan að finna eitt eintak á 750 þúsund krónur sem þvær manni og þurrkar og klappar á bossann. Þetta hefur verið áhugavert og fróðlegt en ekki eins skemmtilegt eins og að kaupa jólagjafir,-alls ekki. En þetta minnir okkur þó á það hversu gott hlutskipti okkar er og hvernig hversdagslegir hlutir leggja allan grunn að lífsgæðum, jafnvel þótt ekki séu alltaf jól.

Himinninn undanfarið hefur skartað öllum sínum fegurstu litum í þíðviðrinu og engir kínverskir flugeldar geta keppt við þá skrautsýningu. Náttúran í kring um okkur er ókeypis og jafnvel bara það að fara út á meðan það er bjart og gera ekkert nema standa og horfa og anda,- getur aukið okkur slökun og gleði. Eða við getum nýtt okkur heita vatnið,-önnur lífsgæði íslendinga, -og farið í sund.

Svo má líka lesa allar fínu bækurnar sem komu út fyrir jólin (ókeypis útlán á bókasafninu)  það má horfa á bíómyndir sem við misstum af um jólin, og það er meira að segja ekki bannað að bjóða heim gestum í janúar. Elda góðan mat og njóta þess að vera til.

Við gætum tekið sólina okkur til fyrirmyndar og fikrað okkur hægt og rólega upp á við. Í stað þess að einhenda okkur í ræktina til að taka á því með góðu eða illu, gætum við farið mjúku leiðina eða í öllu falli fundið þá leið sem fer vel með okkur og gerir okkur glöð.  Það liggur ekkert á og það er heilt ár til næstu jóla.

Við höldum stundum að góð markmið séu þau sem ögra okkur svo hressilega að þau kosti helst helling af eymd og erfiðleikum að ná þeim, en það eru reyndar slæm markmið. Góðu markmiðin eru þau sem við ráðum við og auka okkur gleði og andlegan styrk. Janúar ert.d. frábær mánuður til að einbeita okkur að slíkum markmiðum.

Við hér ætlum að taka ársbyrjun í að gleðjast yfir nýju salerni heimilisins, það er aldeilis ekki lúxuseintak með þvotti og blæstri en gerir sitt gagn. Alveg eins og janúar.

Góðar stundir.

Jólavæntingar

Við eigum flest mynd af fullkomnum jólum í hugskoti okkar. Myndir sem ef til vill eiga uppruna sinn í bernskujólunum sem oft eru sveipuð töfrum í huganum, og því meira eftir því sem við eldumst. Og ef ekki þar, þá í flestum jólamyndum, jólabókum, jólasöngvum og jólaauglýsingum sem reka á fjörur okkar. Við sjáum fyrir okkur dásamlegar stundir með fjölskyldu og vinum í kringum stórt borð í stofunni á fallega skreyttu heimili og gjarnan með arineld í bakgrunni. Úti snjóar að sjálfsögðu því jólin þurfa að vera hvít. Á smekklega skreyttu borðinu er jólamatur, allt ljúffengt og vel útilátið. Allir eru klæddir í sitt besta skart og njóta matarins. Eftir máltíðina safnast allir saman við fullkomið jólatré og skiptast á yndislegum gjöfum og skemmtilegum samræðum.

En þessi fallega mynd passar ekki endilega inn í raunveruleikann. Lífið býður einfaldlega ekki upp á allt sem til þarf í uppskriftina, það getur skort bæði tíma og fjármuni og fjölskyldumeðlimir eru ekki endilega sammála um það hvernig myndin eigi að líta út. Fyrir einhverja eru jólaminningarnar blandnar sársauka og einhverjir hreinlega kvíða jólunum.

Væntingar um að jólin eigi að vera á ákveðinn máta (kannski jafnvel fullkomin), geta líka ýtt undir vonbrigði og sársauka. Kröfur um fullkomnun og streitan sem þeim fylgir hefur slæm áhrif á okkur öll, líka börnin okkar. 

Til þess að kóróna allt saman þá á kapphlaupið sér stað á dimmasta tíma ársins. Tíma sem býður okkur að draga úr kröfum, hvílast og endurnærast eins og náttúran öll gerir á vetrarsólstöðum. Ekki að stíga bensíngjöfina í botn og drekkja eigin tilfinningum í hávaða, neyslu og auglýsingum.

En hvað þá,- getum við gert eitthvað öðruvísi?

Ég nefni hér nokkur atriði sem ég trúi að skipti miklu máli í því að draga úr streitu og ofurálagi um jólin.

Það er mikilvægt að staldra aðeins við og skoða eigin lífsgildi og hvernig þau tengjast jólunum. Við getum þannig tekið meðvitaða ákvörðun um hvað okkur er raunverulega mikilvægt að gera um jólin og forgangsraðað því. 

Við getum notað þessar upplýsingar til að setja okkur ný markmið fyrir komandi jól, markmið þar sem við veljum það sem skiptir okkur mestu máli en látum annað mæta afgangi. Frábært að velta þessu upp með fjölskyldunni, þannig eiga allir sína rödd hvað varðar jólahaldið. Pabbar og mömmur, afar og ömmur geta öll verið frábærar fyrirmyndir í að draga úr væntingum og skapa nýjar áherslur.

Það þarf ekki að gera “allt” fyrir jólin en það sem við gerum þarf að vera okkur mikilvægt og endurspegla það hver við viljum vera. Það er okkar val og okkar ábyrgð að velja það sem skiptir raunverulegu máli fyrir okkur sjálf.

Það er ekki alltaf auðvelt val að fylgja lífsgildunum sínum. Neyslusamfélagið og markaðsöflin kunna að beita töfrum sínum til að fá okkur til að gera það sem þau vilja. 

En ef við gerum það sem vitum að skiptir okkur mestu máli þegar upp er staðið, þá getum við frekar notið stundarinnar eins og hún kemur til okkar með öllu því sem henni fylgir. Því jólin eins og allar aðrar stundir fela í sér margs konar tilfinningar og skynjanir. Þegar upp er staðið skiptir þá kannski mestu máli að hafa gert það sem okkur finnst raunverulega rétt og gott og tekið góðar ákvarðanir. Hljóta það ekki að vera góð jól sem haldin eru í fullri sátt við eigin lífsgildi?

Lykilspurningar varðandi jólahaldið gætu þannig t.d.verið:

·   Hvað er mér mikilvægast við jólahaldið og af hverju?

·   Hvað geri ég sem er mér ekki mjög mikilvægt en rænir af mér orku og ánægju?

·   Hvernig get ég verið góð fyrirmynd fyrir börnin mín og barnabörnin?

·   Hvernig get ég dregið úr streitu í jólahaldinu?

Ég óska okkur öllum þess að halda friðsæl jól í sátt við okkur sjálf og aðra, hafið það sem allra best yfir hátíðarnar. 


			

Sextug og hvað svo?

Fyrir skömmu hlotnaðist mér að ná þeim áfanga í lífinu að hafa dvalið á jarðkúlunni í 60 ár. Það gerðist í sjálfu sér án nokkura sérstakra flugeldasýninga, ekkert breyttist- tíminn einfaldlega leið eins og hann hefur alltaf gert. Ég vaknaði að morgni og mér leið nákvæmlega eins og daginn á undan. Það er hinsvegar ekkert nema sjálfsagt að fagna því kraftaverki sem lífið er, ekki bara á afmælisdögum heldur alla daga og kannski sérstaklega á tímamótum. Borða þá köku, drekka kampavín, halda partý, dansa eða eins og í mínu afmæli,- fara í leiki í garðinum eins og gert var í afmælum bernsku minnar, drekka gos úr glerflöskum og borða kökur með miklum þeyttum rjóma. Lífið er einfaldlega stórkostlegt með öllum sínum tilbrigðum, það er kröftugt og ófyrirsjáanlegt og skrítið og erfitt. Og þó að við vitum það eitt þegar við skjótumst í heiminn að lífinu lýkur, þá liggur það í eðli okkar að vilja lifa eins lengi og okkur er unnt og já,-fagna hverjum degi sem það tekst.

Að vera sextugur er svo sem ekki neitt rosalega hár aldur,-ekki í mínum eigin huga en við vitum að aldur er afstæður. Og sannarlega eru á mér og mörgum mínum jafnöldrum allskonar aldursmerki.  Sum þeirra eru sjáanleg s.s. mýkra vaxtarlag og grái kollurinn, annað líkamlegt eins nýtt svefnmynstur eða aukinn fjöldi af gleraugum og svo eru það allskyns einkenni sem tengjast huganum, andlegri getu, lífsreynslu og visku sem kemur með hækkandi aldri,-nú eða alls ekki. Fyrir nokkrum árum hitti ég jafnaldra mína á skemmtun og þá fannst mér eitt af þessum einkennum vera það að margar konur voru með skó í poka. Ekki spariskó eins og þegar við fórum í dansskólann heldur þægilega skó til að dansa á. Þær spörkuðu af sér hælunum eftir borðhaldið og af visku og lífsreynslu skelltu þær sér í íþróttaskó með mjúkum sóla og lágum hæl. Og ekki eingöngu vegna þess að líkaminn er síður tilbúinn í að prika um á óhollum skófatnaði heldur er hugurinn hættur að hafa tíma fyrir vitleysisgang eins og að eyða dögunum í að finna til í fótunum. Þægindi eru lífsgæði og þægindi skipta meira máli eftir því sem árin færast yfir.

Liðnar eru tjaldútilegur æsku minnar, fötin mega ekki þrengja að mér og spangir í brjóstahöldum eða támjóir skór eru úti, stólar þurfa að styðja við bakið og tónleikar þurfa helst að vera síðdegis en ekki að kvöldi. Já og letrið í símanum og á matseðlunum má ekki vera smátt. Og öllum þessum nýju kröfum sextugs líkama með gigtarsjúkdóm og kvíðatilhneigingu þarf hugurinn minn að venjast. Og það  í ofanálag hugur sem hefur hingað til ferðast með athyglisbrest og töluverða ofvirkni í farteskinu. Hugur sem er á hörkuflugi og alls ekki tilbúinn til að hægja á. Þetta vill stundum verða hörð barátta.

Þetta kjarnar kannski það sem ég trúi að sé okkur sextugum og eldri sé mikilvægara en flest:

Að vera sveigjanleg og mæta því sem lífið kýs að henda í okkur með eins mikilli mýkt og af eins miklum húmor og okkur er unnt.  Ég finn alveg tilhneiginguna til að vera gagnrýnni en áður á nýjar leiðir í bæði eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Ég þarf að standast freistinguna að festast í mjúku öryggi þess að gera og hugsa eins og ég hef alltaf gert og það kostar svolítið meiri átök en áður að meðtaka nýja hluti og nýja hugsun. Það er nefnilega ekki það sama að lifa og vera á lífi og við lifum mest á meðan við lærum nýja hluti.

Þetta snýst auðvitað ekki bara um þægindi. Ég þarf að standast þá freistingu að fara í hlutlausa gírinn, að hætta að nenna að brenna og berjast fyrir málefnum sem ég trúi að skipti máli. Sextugar konur sem „nöldra“, skrifa í vefmiðla, gera formlegar athugasemdir og senda inn kvartanir eru mjög auðveldlega stimplaðar sem leiðinlegar og erfiðar kellingar og hver vill vera erfiður? Eða kelling? Á maður ekki bara að vera jákvæður?

Svarið er jú, sannarlega er frábært að vera jákvæður og benda á það sem vel er gert og það er jafn mikilvægt að gagnrýna og benda á það sem betur má fara. Það er svo mörg mistök sem enn þarf að leiðrétta í veröldinni.

Ungar konur í dag eru öflugar og beinskeittar og stundum finnst mér þær vera svo „reiðar“ að ég verð smeyk en ég dáist samt mikið að kjarki þeirra og einurð. Hin sextuga kona sem ég er, vil sjá hófstillta og skynsamlega umræðu (lesist að enginn sé reiður) en um leið veit ég að þannig umræða skilar ekki alltaf tilætluðum árangri. Og þó ég geti ekki nema lítið brotabrot af öllu því sem mig langar til og hef áhuga á að segja og gera þá hef ég val um að reyna að vera „erfið“ í þágu góðs málstaðar en ekki gamalla gilda og úreltra.

Ég nýt góðrar aðstoðar unga fólksins sem ég er svo heppin að fá að ferðast með í gegnum lífið. Ég læri af þeim fordómaleysi og fjölbreytileika. Ég læri hrós og virðingu, að maður eigi að láta draumana sína rætast og alls konar góða hluti. Og svo getum við jafnaldrarnir vonandi skilað einhverju til baka. Það er hellingur í reynslupokanum okkar sem er sannarlega þess virði að miðla.

Það er frábært að vera sextug. Ég fæ enn að vera svolítið ung í augum elstu kynslóðarinnar og þótt að ungt fólk sjái í okkur gamlingja með grátt hár og kúlumaga, þá sjáum við jafnaldrarnir ennþá hvort í öðru strákana og stelpurnar sem við einu sinni vorum og líklega verðum alltaf í eigin spegilmynd. Ég ætla í það minnsta að vera óþekk og erfið ef mér finnst þess þurfa og sættast að lokum við sjálfa mig alveg eins og ég er.

Nönnu og Dísuleikurinn

    Nýverið benti ég systur minni, sem er ári eldri en ég, að nú væri leyfilegt að breyta nafninu sínu að vild og ekkert væri því til fyrirstöðu að við breyttum okkar nöfnum í Nanna og Dísa. Systir mín benti reyndar á þann galla á hugmyndinni að við ættum þegar systur sem væri kölluð Dísa en að öðru leyti væri hugmyndin góð og ætlaði hún að taka þetta til athugunar. En af hverju ættum við að vilja heita Nanna og Dísa en ekki bara Inga og Guðný (sem eru okkar raunverulegu nöfn)?

Jú þegar við vorum litlar stelpur þá fórum við reglulega og jafnvel dag eftir dag í leik sem hét einfaldlega Nönnu og Dísuleikurinn. Í þann leik þurfti ekki nein leikföng, engar snjalltæki og svo sem bara ekki neitt nema ímyndunarafl systranna. Og þar var sko ekkert til sparað. Í heimi Nönnu og Dísu upplifðum við allt sem okkur fannst spennandi, hann innihélt nýjar leikreglur og annað umhverfi en okkar hversdagslega líf en samt fór hann fram í okkar tilveru. Við gerðum allt  sem við áttum að gera, fórum í skólann, borðuðum kvöldmatinn og gerðum heimaverkefnin en við vorum bara ekki við, við vorum Nanna og Dísa. Mamma þurfti að kalla okkur þessum nöfnum ef hún vildi ná sambandi við okkur systur og helst að taka þátt í leiknum því að Nanna og Dísa þurftu örlítið öðruvísi meðhöndlun en hinar venjubundnu systur. Nanna sem var „mín“, var afsprengi sveimhugans og miðjubarnsins og því lifði hún afar ævintýralegu og spennandi lífi, ferðaðist um heiminn og átti fráskilda en afar efnaða foreldra. Dísa var skilgetið afkvæmi eldri og skynsamari systur minnar og því var hún jarðbundnari týpa, svolítið smituð af sænskum gildum (okkur fannst allt rosa flott í Svíþjóð)  og á þeim bæ voru ævintýrin lágstemmdari. En það kom ekki í veg fyrir að við nytum þess að breytast reglulega í þær stöllur Nönnu og Dísu sem lögðu undir sig líf okkar. Ímyndunarafli okkar voru lítil takmörk sett og við spunnum upp endalaus ævintýri. Sum sögðum við vinum okkar í formi sagna t.d. um æsilegan draugagang heima hjá okkur þar sem fyrri (alsaklausir) íbúar áttu að hafa framið voðaverk á klósettinu og jafnvel urðu til heilir söngleikir með dönsum og söngvum, brotthlaupnum börnum, ófreskjum og hetjum.

Okkar frjói barnshugur átti ómældan efnivið í alla þessa ímynduðu heima því við lásum endalaust mikið. Við lásum allar bækurnar sem foreldrar okkar höfðu lesið, -bækur um allskyns börn um allan heim. Bíbí, Toddu, Öddu, Baldintátu, Nancy Drew, Fimm fræknu, Benna flugmann, Önnu í Grænuhlíð,-megnið af barnabókunum á Amtsbókasafninu og svo unglingadeildina og rómantíska hlutann í fullorðinsdeildinni (ég held að ég hafi lesið Suzie Wong, 30 sinnum). Einstaka sinnum var farið í bíó og það var kannski það sem kveikti neistann í eldsmat bókaheimsins. Í bíó kom liturinn og ekki hvað síst tónlistin með í líflegt ímyndunarbálið.

Við vorum kannski ekkert mjög sigldar systurnar og þekktum lítið hinn stóra heim. Við vissum auðvitað að þar gekk ýmislegt á en öryggið okkar var algjört og takmarkalaust og kannski þess vegna var óhætt að ímynda sér hvað sem var. Í barnslegu sakleysi.

Við vorum auðvitað heppnar, það var enginn sem rændi okkur þessu sakleysi. Við fengum að alast upp við það að trúa á það sem var talið gott og göfugt í okkar litla heimi,  en þá eins og nú, voru það forréttindi.  Og auðvitað eru fullt af börnum sem njóta þessara forréttinda í dag. Börn sem fara í sjóferð í pappakassa á stofugólfinu og baka súkkulaðikökur úr mold og vatni. Börn sem lesa bækur og fara í fjöruferðir.

 En áreiðanlegra er það mun flóknara að vera barn í heiminum í dag. Að takast á við öll þau áreiti sem tæknivæddari veröld hefur í för með sér, miklu meiri hraða á öllu og öllum,  og ekki hvað síst meiri hættur og nálægari en þegar Nanna litla og Dísa voru að skoppa um á Akureyrinni. Í heimi sem hentar ekki vel viðkvæmum og dreymnum börnum. Heimi þar sem bókasöfnum er lokað vegna lítillar notkunar.

Visslega er margt svo miklu betra fyrir börn í víðsýnna og upplýstara nútímasamfélagi. Og vonandi heldur það áfram að verða bara betra. En við megum líka alveg hugsa til fyrri tíma, muna eftir ímyndunaraflinu, einfaldleikanum og því sem var gott í samfélaginu á síðustu öld. Hampa lestri, bókum, bókasöfnum, ævintýrum og öllu því sem glæðir hugsanir og ímyndun barna og fullorðinna.

Allar kynslóðir eiga minningar um dásamlega hluti sem er mikilvægt að deila með komandi kynslóðum. Veljum vel fyrir börnin okkar og leyfum alltaf Nönnum og Dísum tilverunnar að blómstra.

m

Jólagleði og jólatregi

Líf okkar allra, stórra og smárra manneskja snýst að miklu leyti um tilfinningar. Ef við göngum út frá því að tilfinningar séu viðbrögð við umhverfi okkar og aðstæðum þá liggur það í augum uppi að ekkert okkar er því undanþegið að verða þeirra var, oft á dag alla daga. Við tölum stundum um að sum okkar séu tilfinningaverur og önnur okkar ekki en það er reyndar rökvilla,- við erum öll tilfinningaverur. Líklega er rökvillan sprottin af því að við erum þekkjum tilfinningar okkar misvel, við höfum ekki sömu þjálfun í að þekkja þær, skilja þær, nefna þær og við vinnum með þær á misjafnan hátt. Sum okkar reyna ákaft að forðast þær, sérstaklega ef þær eru sárar og erfiðar og svo reynum við jafnvel að berjast við þær og loka þær niðri til þess að þurfa ekki að upplifa sársaukann sem þeim fylgir. Við höfum jafnvel talið okkur trú um það sem samfélag að það sé hollara að láta sem þær séu ekki þarna og beri vott um andlegan styrk. Í mesta lagi að tár rennur niður steinrunnin vanga einhvers heljarmennis í gömlum sögum og ef það var eina merkið um innri vanlíðan þá þótti það ofur töff.

Og við leggjum mikið á okkur til að láta óþægilegu tilfinningar okkar hverfa, felum skrímslin undir rúminu og lítum aldrei þangað undir,- enginn vill þurfa að horfast í augu við það sem veldur þeim sársauka. Og enginn vill missa stjórnina á þessum skrímslum, við erum jú vandlega alin upp í því að hafa þau undir lás og slá.

Desember, jólin og hátíðahöldin eru tími góðra tilfinninga. Nema hvað, -gleðin er við völd, tilhlökkun, skrautið, samverustundirnar, gjafirnar og allar góðu minningarnar. Börnin í aðalhlutverki og allir keppast við að þeirra tilfinningar og þeirra minningar verði bjartar. Engin skrímsli undir rúmum um jólaleytið, bara jólabirta, sætindi og gleði. Eða hvað?

Hvað um þá sem tengja jólin við sársauka? Við fjölskyldumeðliminn sem alltaf var fullur á jólunum, foreldrana sem rifust, ástvininn sem er ekki lengur hluti af jólahaldinu. Hvað um foreldrið sem getur ekki veitt barninu sínu það sem auglýsingarnar telja okkur trú um að sé ómissandi á jólunum? Hvað um gamalmennið sem þráir að fá að sitja með jólaljósin í kyrrð á jólanótt og minnast þess sem liðið er en er drifið í jólafjörið,-það á jú að vera gaman og enginn á að vera einn!  Góðar tilfinningar, hvað sem það kostar.

En lífið er ekki auðvelt, það er að minnsta kosti jafn erfitt og það er ljúft og kannski bara ennþá meira en það. Það er því óraunhæft að ætlast til þess af okkur sjálfum að tilfinningar okkar á jólum séu eitthvað öðruvísi en á öðrum stundum, þær eru allar jafn mikilvægar og allar jafn réttháar. Mér hefur jafnvel dottið það í hug að jól og áramót geti hreinlega verið góður tími til að dusta rykið og kóngulóarvefina af skrímslunum í kjallaranum og undir rúmunum,- skoða þau, og leyfa þeim að vera með í jólahaldinu. Kannski getum við talað meira saman en aðra daga, talað um tilfinningar og samskipti, talað um það sem skiptir okkur öll máli þegar allt kemur til alls. Við gætum rifjað upp góðar og slæmar minningar, hlegið saman og líka grátið.  Setið saman í rökkrinu þessa stystu daga ársins og tekið okkur sjálf í sátt. Hlátur og grátur er hvort tveggja leið líkamans til að veita tilfinningum útrás og eiginlega merkilegt að annað teljist jákvætt en hitt neikvætt. Munum bara að það er hvers og eins að skoða tilfinningarnar sínar, við getum ekki gert það fyrir aðra.

Mínar eigin tilfinningar hafa alltaf verið fremur lausbeislaðar og samt er ég enn að reyna að minna mig á að það er ekkert neikvæðara að gráta yfir gömlum minningum eða fallegri tónlist en að hlæja að einhverju fyndnu. Félagsmótunin er sterk og umhverfið reynir að telja okkur trú um að það sé gott að vera alltaf hress. Reyndar grét ég svo á tónleikum þegar sonur minn var á unglingsárum að hann fann upp hugtakið „menapplause“ fyrir viðbrögð miðaldra kvenna á tónleikum en það er nú önnur saga.

Tilfinningar eru ekki hættulegar, viðbrögðin okkar við þeim geta hinsvegar verið varasöm eins og t.d.  þegar við beinum reiði að öðru fólki bara vegna þess að við getum ekki horfst í augu að hún sé okkar eigin og okkar sjálfra að taka á henni ábyrgð.

Undanfarna áratugi hefur verið lögð á það mikil áhersla við fólk að sjálfstraust og sjálfsöryggi sé  mikilvægara en flest annað og „þú getur allt sem þú vilt“ slagorðin dynja á okkur. „Árangur“, „jákvæðni“, „árangursdrifinn“, „liðsheild“, þetta eru lykilorð í nútímaheimi. Ekki ætla ég að draga úr því að raunhæft sjálfstraust sé gott en í þessum heimi sjálfsöryggis er ekki mikið pláss fyrir kvíða, depurð, ótta, ringuleið eða sorg.  Það verður hinsvegar meira pláss fyrir sjálfmiðun, ofuráherslu á eigin getu og það að öll meðul séu leyfileg til að ná árangri.

Og þá fjölgar oft skrímslunum í huga okkar. Ég óttast oft að við gleymum því að sýna okkur sjálfum mildi og umhyggju. Ég óttast að við munum ekki fyrirgefa okkur mistökin og viðurkenna mennskuna í okkur sjálfum.

Ef ég gæti kennt ungu fólki eitthvað þá myndi ég vilja kenna þeim að gráta þegar lífið er hart og sárt, leyfa sér að vera lítil og leið, en líka að standa upp og reyna aftur og aftur, aðra aðferð, nýja hluti,-og gefast aldrei upp.

Megi birta jólanna lýsa okkur myrkrið. 

Framheilafitness

Heilaleikfimi er heilsubót.

Við þekkjum öll nauðsyn þess að þjálfa líkama okkar.Það hjálpar okkur er við tökumst á við öldrun og sjúkdóma, er forvörn gegn ýmsum kvillum og bætir líðan. Flest erum við kyrrsetufólk við vinnu og að miklu leyti heima hjá okkur, en við búum samt í líkama sem er hannaður til hreyfingar og líkamlegrar áreynslu. Því þurfum við að vera meðvituð um að sjá honum fyrir tækifærum til þjálfunar. Í því skyni eru ótal margir staðir og möguleikar sem við getum nýtt okkur. Við notum sundlaugar, íþróttavelli, göngustíga, líkamsræktarstöðvar, dansstúdíó og golfvelli, – við hjólum, hlaupum, syndum. rífum í járn, förum í allskyns hreyfitíma eða bara gönguferðir, allt fyrir skrokkinn. Stundum eru markmiðin full-háleit og við gerumst dyggir stuðningsaðilar líkamsræktastöðvanna en gleymum kannski að fara þangað þegar frá líður en það er nú önnur saga og lengri.

En hvað þá með líffærið sem er fremur lítið, einungis u.þ.b. 2% líkamsþyngdar okkar en þarf mikla orku og notar um 20% blóðflæðis í líkamanum. Líffæri sem lifir á súrefni og sykri en kjamsar á ketónum úr fitu ef allt annað bregst, líffæri sem er sjálft að 60% gert úr fitu,-líffæri sem sífellt sendir efnaboð og rafmagnsboð um líkamann. Jú líffærið sem ég er að tala um og er undirstaða alls sem við segjum, gerum, hugsum og erum,-er auðvitað heilinn.

Heilinn okkar er  líffæri sem að einhverju leyti hefur ekki hefur þróast í gegnum árþúsundin og ýmis frumviðbrögð sem halda okkur á lífi eiga heima í þessum gamla hluta heilans t.a.m í litlu möndlulaga líffæri, möndlungnum. Þar má segja að sírenurnar fari í gang og bláu ljósin kvikni þegar heilinn telur okkur í hættu stödd og þar á streitan aðalbækistöðvar.  Hellisbúinn sem við eitt sinn vorum og nútímamaðurinn sem við erum núna, sebrahesturinn á sléttum Afríku og heimilishundurinn , – bregðast öll við með sama streituviðbragðinu ef þessi frumheili telur að ógnir séu að steðja að.

Gallinn er bara sá að heimurinn hefur breyst heilmikið frá því að við vorum hellisbúar og heilinn er er líka farinn að túlka ýmis áreiti nútímalífs sem stöðuga hættu. Streituviðbragðið okkar er á sterum ef svo má segja  og heilinn farinn að túlka yfirmanninn í vinnunni, umferðina, unglinginn á heimilinu, þras um heimilisþrifin,  fjármálin og allskonar lífsins bögg sem stöðuga lífshættu. Þá getum við svo auðveldlega setið föst í frumviðbrögðunum,  spennan verður meiri en við höfum gott af og stöðug yfirkeyrsla á kerfinu.

Á móti kemur að við höfum aðra mun þróaðri hluta heilans, s.s. framheilann og heilabörkinn sem hjálpa okkur stöðugt með því að beita  dómgreind, slökun og rökhugsun til að kæla kerfið þannig að við getum haldið í andlega og líkamlega heilsu..  Ef gamli hluti heilans er götulögga með blikkljós og sírenur þá er nýji hlutinn leynilögga sem ræður gáturnar, leysir málin og vinnur úr óreiðunni. Þessir tveir hlutar heilans keppast um það hver eigi að ráða ferðinni.

Flest gerum við okkur grein fyrir því að það er ekkert sérstaklega hollt til lengdar að láta stjórnast mikið af hráum og frumstæðum viðbrögðum í nútímaheimi og myndum gjarna vilja styrkja nýrri hluta heilans og hvetja þá til dáða.

En hvernig þjálfum við heilann og er yfirhöfuð hægt að breyta hlutföllum hans og starfsemi? Er til eitthvað „framheilafitness“?

Já reyndar er til fínasta heimaheilaleikfimi sem hægt er að stunda og rannsóknir sýna fram á að styrkja framheilann marktækt til góðra verka. Ekki nóg með það heldur virðist hún tempra streituviðbrögðin  og snyrta taugabrautir í möndlungnum.

Þessi leikfimi nefnist núvitund og felst í því að lifa líðandi stund án fordóma og með gæsku og mildi í eigin garð.  Núvitund hvílir hinn síhugsandi hluta heilans, kyrrir okkur og róar. Núvitundaræfingar eru oftast alveg ókeypis, án aukaverkana, þurfa ekki spandexfatnað,ekki tæki eða tól og allir ráða vel við þær. Það þarf bara ástundun.

Aðstoð til að byrja framheilafitnessið núvitund  má finna á netinu, í bókum öppum og vefsíðum og við getum ýmist framkvæmt æfingarnar út af fyrir okkur eða með öðrum. Við getum gert æfingar við ýmsar athafnir dagslegs lífs, s.s. við göngur úti í náttúrunni, áður en við förum fram úr rúminu að morgni og meira að segja við venjubundin verk s.s. að bursta tennur eða fara í sturtu.

Sumum hentar að taka frá sérstakan stað og stundir til núvitundaræfinga  en aðrir vilja frekar nota sér að taka núvitundina inn í rútínuna sem fyrir er. Svo lengi sem markmiðinum hér að ofan er náð er aðferðin ekki aðalatriði.

Núvitund breytir þér, líkamlega, andlega og vitrænt. Kjósir þú að stunda núvitund ertu að ákveða að auka hamingju, draga úr streitu, auka einbeitingu og auka sköpunargáfu um leið og þú bætir svefn, styrkir ónæmiskerfið og eykur lífslíkur. Hún hefur sterkan vísindalegan grunn og mikið magn rannsókna styðja gagnsemi hennar.

Að auki þetta; Núvitund býður líka upp á ótrúlega möguleika til aðblómstra í lífinu. Hún býður upp gagnreynda  leið til þess að staldra við, anda, sjá fegurðina og lifa í velvild og gleði. Ekki bara að líða betur heldur lifa betur, ekki bara gera heldur vera.

Inga Dagný Eydal

Hjukrunarfræðingur, ráðgjafi og núvitundarleiðbeinandi hjá Heilsu og Sálfræðiþjónustunni á Akureyri.

Sunnudagspæling Ingu Dagnýjar

Mikið er ég þakklát fyrir öfluga einstaklinga. Þakklát fyrir að það er fólk allsstaðar í kringum okkur að gera góða hluti. Fólk sem helgar dagana sína verkefnum sem eru okkur mikilvæg, samfélagsþjónustu, baráttumálum, aðstoð við þá sem eiga erfitt, stjórnmálum- og svo mætti lengi telja. En um leið og ég er þessum dýrmætum einstaklingum þakklát á ég dálítið erfitt með að sætta mig við það að ég er ekki lengur kraftmikil kona og verkefni af þessu tagi henta mér ekki nema í fremur naumum skömmtum. Ég legg fram það sem ég megna,-það er sko miklu minna en ég myndi vilja og reyni ákaft að láta ekki samviskubit og móral plaga mig. Rækta það sem þó eftir er og sinna mér og mínum.,-og mínu nánasta umhverfi.

Oft læt ég eigin ofvirkni bera mig af leið og stækka ábyrgðina mína all verulega. Ég fer að sópa stéttina, er svo komin með kústinn á sameiginlegt bílaplan fjölbýlishússins sem við búum í og maðurinn minn tekur hann svo af mér áður en ég fer að sópa götuna. Ég moka snjóinn miklu lengra en ég ætlaði í upphafi „af því að ég er komin með skófluna“ og byrji ég að taka til þá er aldrei að vita hvar sú tiltekt endar. Man jafnvel ekkert lengur hvar hún byrjaði. Ég finn mér endalaus verkefni og finnst þau flest eiga að vera unnin í gær -að minnsta kosti má alls, alls ekki gera þau seinna. Ég ætla svo alltaf að verðlauna sjálfa mig með einhverju sem er skemmtilegt og notalegt eins og að mála, hlusta á tónlist eða lesa góða bók en stundum er bara andlega orkan búin og þá hef  g ekki eirð við rólegheitin. Þá er jafnvel bara einfaldast að skipta á rúmunum eða taka til í eldhússkápunum.

Af þessu öllu er ég oft þreytt enda forgangsröðunin algjörlega úr takti við það sem ég vildi að hún væri. Duracell kanínan sem ég er, ætti auðvitað að nota þessa orku í eitthvað mikilvægt, svo ég segi nú ekki stórkostlegt eins og að gera mikilvægar uppgötvanir eða fara í doktorsnám. En bæði er líkamlega orkan ekki nema lítið brot af því  sem hugurinn hefur, og hver ætti þá að vera í allri þessari tiltekt?? Ég ímynda mér að öfluga fólkið sem ég talaði um í byrjun sé bara með það á hreinu hvar það á að byrja og þess vegna séu mikilvægu verkefnin sett í forgang.

En jú það er rétt, það er ekkert svona óhreint heima hjá okkur og já, ég á eiginmann sem er boðinn og búinn til að gera sinn skerf og rúmlega það. Þetta er fullkomlega meðvituð hugarvilla en þó virðist ég seint ætla að vinna á henni bug.

Því er ég því afar fegin að í dag get ég sinnt verkefnum sem eru mér mikils virði og ég fæ að vinna þau á góðum stað með góðu fólki. Auðvitað flæki ég þetta aðeins með því að eiga erfitt með að hætta að vinna þegar verkefnum lýkur en ég er að æfa mig. Ég er líka að æfa mig í sunnudögum til sælu, sunnudögum sem ekki eiga að snúast um neitt nema slökun sjálfsrækt og samveru. Það gengur misvel en ásetningurinn er fyrir hendi!

Jafnvægi í daglegu lífi er eitthvað sem okkur er öllum mikilvægt. Það er líklega gott jafnvægi í daglegu lífi að gera það sem skiptir okkur raunverulega máli. Það er mikilvægt að sinna bæði okkur sjálfum og þeim sem við elskum og eru okkur dýrmætir. Það getur alveg verið ágætt að raða skónum í forstofunni en ekki svo að það sem okkur er raunverulega dýrmætt lendi aftar í forgangsröðunninni.

Við höfum ekki ótakmarkaðan tíma og bæði heilsa og kraftar geta látið undan. Fólk er hinsvegar ferskvara og það gildir líka um það sem okkur er mikilvægt, okkar eigin lífsgildi. Þeim ætla ég að reyna að gefa forgang og setja frekar biðskyldu á húsverkin.

Njótið sunnudagsins gott fólk.

Sátt í sinnið

Það er í besta falli flókið að vera manneskja.

Á okkur herjar endalaust magn af upplýsingum um hörmungar af öllu tagi og heilinn sem er jú hannaður til að vernda okkur gegn öllu illu, virkjar stanslaust hin fjölmörgu kvíða og streituviðbrögð sem manneskjan hefur þróað með sér. Taugakerfið er þannig alltaf í viðbragðsstöðu, tilbúið til að berjast við og afstýra hættunum. Gallinn er auðvitað sá að í nútímaheimi er svo alltof margt sem við höfum ekki neina stjórn á en hefur þó neikvæð áhrif á tilveru okkar. Smitsjúkdómar, loftslagsvá, styrjaldir og voðaverk, græðgi og valdasýki ráðamanna, -þekktar og óþekktar ógnanir.

Við erum lítil og við erum oft hrædd, -eðlilega.

Í stóra samhenginu er það kannski óþarfi að kvarta um verðbólgu, hnignandi heilbrigðiskerfi, húsnæðisvanda og endalausa norðanáttina hér heima en þessir hlutir eru okkur þó nærtækir og hafa mikil áhrif á líf okkar.

Og hvað? Hvað gera litlar og hræddar manneskjur við allan kvíðann, óttann og depurðina?

Ég vildi óska að ég hefði góða allsherjarlausn sem hentar fyrir alla en auðvitað hef ég það ekki. Ég veit það eitt að það eina sem ég hef stjórn á er ég sjálf. Ég ber ábyrgð á mér sjálfri þrátt fyrir allar erfiðar tilfinningar og hugsanir. Ég hef val á hverjum einasta degi um eigin hegðun og ég hef val um að láta ekki þessar erfiðu tilfinningar taka af mér stjórnina.. Mér mun ekki takast það alltaf en ég get þó alltaf reynt aftur og aftur og æft mig í að vera sú manneskja sem ég vil vera.

Og hvað? Get ég þá bara losað mig við allar erfiðu tilfinningarnar? Er þetta svona „verum bara jákvæð“ hugmynd? Þurfum við alltaf að vera glöð?

Nei ég held að við höfum flest komist að því að barátta við eigin tilfinningar er bæði orkufrek og skilar okkur litlu. Við hvorki berjum úr okkur né brosum úr okkur, óttann við tilveruna.

Galdurinn, sem þó er alls enginn galdur heldur skynsemi, felst þá fremur í því að samþykkja tilfinningarnar okkar, gangast við þeim en hætta að berjast við þær. Skoða þær án þess að dæma þær. Taka þannig úr þeim ógnina og draga úr þeim tennurnar.

Sú orka sem við notum að öllu jöfnu í að berjast við eða forðast eigin tilfinningar og hugsanir getur þá kannski nýst okkur til þess að taka til í „atferlisgarðinum“ okkar. Hvað viljum við leggja rækt við og hvernig getum við sem best skipulagt garðinn okkar svo hann blómstri? Hvað er okkur raunverulega mikilvægt og hvernig viljum við hegða okkur?

Takist okkur að vera í líðandi stund og njóta þess sem er án þess að velta okkur upp úr mögulegum en ókomnum hörmungum þá eigum við meiri möguleika á að bæta góðum augnablikum í tilveruna fyrir okkur sjálf og þá sem eru í kringum okkur.

Við getum þá frekar tekið meðvitaða og yfirvegaða ákvörðun um skrefin okkar í lífinu. Viljum við fara í Kjarnaskóg í kuldanum, njóta þar skjóls og þess hvernig skógurinn ilmar best þegar svalt er úti? Eða viljum fara með Niceair til Tenerife og fá D-vítamín í blóðið og slökun í skrokkinn?

Það er enginn nema við sjálf sem getum metið hvað okkur hentar best. Við erum bílstjórar í eigin rútu þrátt fyrir að farþegarnir séu stundum til vandræða og vilji ráða aksturslaginu.

Þetta viðhorf til tilverunnar fellur undir hugmyndir ACT (Acceptance and Commitment Therapy) eða Sáttar og atferlismeðferðar eins og hugmyndafræðin hefur verið nefnd á íslensku. Meðferðin er oftast eignuð bandaríska sálfræðingnum Steven C.Hayes og hefur náð styrkri fótfestu og vísindalegum grunni innan sálfræði og annarra fræða sem hafa með andlega heilsu að gera. WHO, alþjóðlega heilbrigðisstofnunin, hefur tekið ACT upp á arma sína m.a. til að aðstoða fólk í stríðshrjáðum löndum og hugmyndafræðin hefur verið notuð bæði til að hjálpa fólki í andlegum vanda og þeim sem vilja einfaldlega bæta líf sitt og líðan. Fyrir utan upplýsingaflæðið sem á okkur dynur og sem ég minntist á hér í upphafi þurfum við öll einnig að glíma við raunverulega erfiðleika í eigin tilveru og okkar nánustu. Lífið er í eðli sínu erfitt.

Flestum þeim sem kynnast ACT er það kærkomið að fá tækifæri til að láta af baráttu við tilfinningar sínar og fara sáttarleiðina í staðinn. Í hörðum heimi er mikilvægt að sýna okkur sjálfum umburðarlyndi og mildi. Í sáttarhug gagnvart okkur sjálfum, gefst okkur tækifæri til að skoða hver við viljum raunverulega vera, og til að taka fulla ábyrgð á því sem við gerum og segjum.

Njótum sumarsins í öllum þess útgáfum,og verum sátt við okkur sjálf.